Laugardagur 27.04.2013 - 11:26 - 24 ummæli

Ekki eyða atkvæðinu þínu

Má vel vera að 5%-reglan sé ósanngjörn og grimmileg gagnvart smáflokkum og ýmsu frumkvæðisfólki í stjórnmálum. Hún er hinsvegar í gildi og virkar þannig að ef maður greiðir atkvæði framboði sem ekki nær einum tuttugasta fylgis yfir landið – þá fellur það atkvæði dautt niður. Þó ekki alveg áhrifalaust því reikningsreglan um úthlutun þingsæta (d’Hondt) verður til þess að dauðu atkvæðin nýtast best stærsta flokknum eða flokkunum – sem nú lítur út fyrir að verði Framsóknarsjálfstæðisflokkarnir.

Staðan er sú að í könnunum eru tveir nýir flokkar rétt yfir 5%-mörkunum, píratar og BF. Líklegt er að bæði þessi framboð mælist of sterk í könnununum, vegna þess að öldruðum kjósendum, sem eru frekar tregir að kjósa þessi framboð, er ekki veitt næg athygli í sumum þeirra, og vegna þess að afstaða yngstu kjósendanna, þar sem bæði þessi framboð hafa haft talsvert fylgi, er sveiflukenndari en hinna eldri. Píratar og BF eru ekki örugg. Og áhrif þeirra á þingi raunar umdeilanleg með 3–5 manna þingflokk ef þeim tækist að ná 5%-múrnum.

Önnur framboð – T, G, L o g svo framvegis – hafa náð mest 2–3%. Þar þarf kraftaverk ef maður á að nást inn fyrir dyr alþingis.

Það er margt álitlegt við þessi framboð og flokka. Víða eru þarna dugmiklir og hugmyndaríkir einstaklingar, og svo stefnumál ágæt. Sum nýstárleg og eiga eftir að setja svip á þjóðmálaumræðu næstu árin. Önnur kannski kunnuglegri. Ég skil þá hneigð að styðja einstaka menn eða velhljómandi málefnapakka með atkvæði á eitthvert þessara framboða. Eftir vonbrigði með stjórnarskrá og fisk, og skuldirnar hafa víða lítið lagast eða tekjurnar skánað. En samt var Jóhanna kvödd í gær með söng og þakkarhrópum – af því hún hafði forustu fyrir því að bjarga samfélagi sem var að rifna sundur eftir mesta áfall í Íslandssögu síðari tíma.

Og nú er að ákveða sig. Áhættan er sú að eyða atkvæðinu og styrkja um leið B- og D-lista á leiðinni í nýju millastjórnina. Eða nýta atkvæðið á Samfylkinguna sem ein getur komið í veg fyrir slíka framtíð ef hún fær til þess nægan styrk.

Nú er að ákveða sig.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (24)

  • Einar Steingrímsson

    Það er ósmekklegt, svo ekki sé meira sagt, að halda fram að BF og Píratar mælist of sterk í könnunum, Mörður, því þú færir engin rök fyrir þessu, og nákvæmlega ekkert sem bendir til að svo sé.

    Auk þess er þetta kolröng niðurstaða hjá þér, Mörður um hvað sé skynsamlegast að kjósa til að minnka þingstyrk B og D. Eins og hér eru færð rök fyrir er einmitt skynsamlegast að kjósa þau framboð sem mögulegt er að koma yfir 5%, og það eru svo margir óákveðnir samkvæmt könnunum að það er augljóslega hugsanlegt:

    http://blog.pressan.is/einar/2013/04/25/ad-koma-i-veg-fyrir-meirihluta-bd/

  • Biskupinn

    Mörður það verður gaman að sjá þegar þjóðin kýs þig út af þingi í kvöld. Ömurlegur þingmaður í alla staði.

  • Er að renna yfir fréttamiðla til að ákveða hvað ég á að kjósa á eftir. Held að þessu ómálefnalega/hrokafulla fullyrðnig þín hafi tryggt að ég kýs ekki samfylkinguna.

  • Einar Steingrímsson

    Þótt ég sé ósammála Merði um það sem hann skrifar hér er mér bæði ljúft og skylt að taka fram að ég tel hann meðal bestu þingmanna á því þingi sem er að ljúka. Og leiðinlegt til þess að vita að Samfylkingin skuli ekki hafa haft rænu á að tryggja honum öruggt sæti.

  • Má ég svo benda þér á á það að það framboð sem fær 2,5% atkvæða telst „alvöru“ framboð og fær þar af leiðandi styrki til að halda sínu starfi áfram. Það er auvitað skjálfti í mönnum þegar til stendur að koma þjófum aftur að kjötkötlunum. Hins vegar er það svo að samfylkingin teygði sig óeðlilega langt í hygglingu við peningaöflin í landinu og svelti heilbrigðiskerfið nánast til dauða. Peningar sem fóru til að bjarga nokkrum rugguhestum í SpKEF og VÍS í boði ríkisstjórnarinnar, hefði svo sannarlega verið betur varið. Sem áður kjósandi samfylkingarinnarfrá upphafi komst ég endanlega að því á síðustu fjórum árum að þar ríða svikarar og peningasleikjur völdum. Þessi „hreyfing“ mun því aldrei fá mitt atkvæði framar og hefur mér meir að segja tekist að snúa börnum og tengdabörnum frá villu síns vegar. Nú verður það Björt framtíð og fái hún einungis 2,5% atkvæða þá er það vel.

    Landhreinsun er af brottför Jóhönnu af þingi. Það er nefnilega sárt og súrt að hlutsta á loforðin góluð úr pontu sem aldrei stóð til að efna. Á meðan hún bakdyramegin samþykkti lög eins og Árna Páls lögin. Jóhönnu tókst á fjórum árum að eyðileggja samfylkingu – af því súpið þið seyðið nú. Sést það best á því að hér mun framsók og sjálfstæðisflokkurinn komast vandalaust til valda.

    Þið ættuð að skammast ykkar – við vinstri menn erum sárir – meir en sárir.

  • Fólk ætti að lesa þetta – þar sést best hversu rangt mál Mörður fer með:

    http://blog.pressan.is/einar/2013/04/25/ad-koma-i-veg-fyrir-meirihluta-bd/

  • Þeir sem heima sitja sóa atkvæði sínu og engir aðrir. Ég kýs þann flokk eða framboð sem hjartað og skynsemin bjóða án tillits til eftirkosningastrategíuríkisstjórnarmótunaráhyggna.

  • Sigurður K Pálsson

    Alveg með eindæmum ömurlegur málfutningur hjá Merði. Kjósendur eiga að kjósa eftir sannfæringu sinni eins og þingmenn eiga að gera. Atkvæði kjósenda á ekki að vera til sölu eins og atkvæði þingmanna eru oft á tíðum.

  • Andrés Valgarðsson

    Bah, atkvæði falla alltaf ‘niður dauð’ ef þau eru ekki akkúrat atkvæðið sem kemur næsta manni á þing.

    Ef ég kysi Samfylkinguna myndi atkvæðið mitt ‘kannski’ að stuðla að því að koma einum manni inn, en með því að kjósa Lýðræðisvaktina er ég ‘kannski’ að stuðla að því að koma þremur-fjórum inn.

    Also, ef Samfylkingin vildi atkvæði mitt þá átti hún ekki að lúffa í Stjórnarskrármálinu.

  • Ómar Kristjánsson

    Þetta er samt bara rétt. Burtséð frá einstökum flokkum – þá eru þessi margklofnu smáframboð í raun ein stoð hægri aflanna í landinu.

    Að kjósa örflokkana jafngildir því að kjósa Framsjalla.

    Þessvegna grunar mann stundum þessi ör- og upphrópunarframboð um græsku. Hvort í rauninni Framsjallar standi ekki á bakvið þau.

    Burtséð frá því þá er staðreyndin sú að margklofnir smáflokkar eru stoð hægriaflanna. Grunnstaðreynd. Það á ekkert að vera feimnismál að tala um það. Þetta heitir líka að kjósa strategískt. Hvort villtu kjósa hægri sérhagsmunaöflin eða leggja áherslu á félagshyggju með jafnræðisprinsipp að leiðarljósi.

  • Þórarinn Einarsson

    Vá þvílík örvænting hjá þér, Mörður. Ömurleg skrif. Mundu að var þinn flokkur sem kom á þessum þröskuldi 1999 ásamt Framsókn og Sjöllum til þess að verja sig gegn lýðræðinu. Auðvitað eigum við að kjósa nýja flokka þar til að við erum búin að sópa öllu Fjórflokkaruslinu út. Skammastu þín Mörður fyrir að vega enn meira að lýðræðinu með þessum hræðsluáróðri. Sjallar og Framsókn eiga ekki að vera hin eina og eilífa afsökun fyrir því að kjósa Samfylkinguna (eða VG). Þá er nú skárra að fá enga þingmenn kjörna en þingmenn duglausra krata.

  • Þvílík örvænting, þvílíkt bull…..samfylkingin að reyna að afvegaleiða kjósendur með grófum hætii…… en það er ekkert nýtt þar á bæ. Atkvæði greitt smáflokkum er ekki dautt atkvæði, og á alls ekki að eyða á fráfarandi svikaflokka, því færri atkvæði á 4 flokkinn því betra því fleiri atkvæði á nýja flokka því betra….. úrslitin munu vonandi koma Merði og fleirum verulega á óvart….heiðarlegt fólk inn, burt með svikara lygara og mafíósa sem hér hafa ekki getað stjórnað landinu sómasamlega frá 1944.

  • Hrikalega má þetta vera dapurlegur hræðsluáróður hjá þér Mörður.
    Þú ert ekki að vinna SF gagn með svona útslitnum klisjum

  • Ósmekklegt inngrip hjá Merði og ekki beint lýðræðisleg hugsun að baki og fyrst og fremst gamla úrelta plottið sem kjósendur hafa skömm á.
    Jóhanna var kvödd í gær þegar hún gekk útúr ráðuneytinu í síðasta sinn og verðlaunuð með rósum, söng og húrrahrópum. Hvort hún átti það skilið er afar umdeilt svo ekki sé meira sagt. En engu að síður ljóst að litmynd af henni mun prýða allar þær sögubækur sem kenndar verða í skólum landsins um aldir. Hún á langan og viðburðarríkan og brokkgengan þingferil að baki og athafnir hennar lengstaf á þeim vettvangi hefðu ekki gert betur en að tryggja henni svarthvíta mynd og fljótlega hefði ferillinn fallið í gleymsku og dá.
    En hún er fyrsta konan sem gegnir embætti forsætisráðherra á Íslandi. Það gerir gæfumuninn. Þess vegna verða ljósmyndir af henni prentaðar í lit í sögubókum framtíðarinnar..

  • Óli Sig.

    Á fólk ekki að kjósa samkvæmt sannfæringu sinni? Þú hefðir betur gert það í eftirminnilegri atkvæðagreiðslu um landsdóm.

  • Gaman að sjá hvað allir eru í góðu skapi á kjördag. Þakka hlý orð í minn garð og minni enn á að ráðstafa þannig atkvæði sínu að enginn sjái eftir neinu á morgun 😉

  • Jenný Stefanía Jensdóttir

    Hvimleið og óprúttin er sú árátta ýmissa fræðimanna og frambjóðenda að kviksetja atkvæði til „litlu flokkanna“ . Betur færi á því að teflt væri fram eigið ágæti í stað þess að flögra eins og hrægammur í kringum atkvæði frjálsra kjósenda á kjördag. Ekki mikil reisn yfir þessum pistli hjá þér Mörður.

  • Þið gleymið því líka gott fólk að smáu flokkarnir sem koma manni inn verða sennilega stjórnarandstaðan. Mjög mikilvægt hlutverk – gleymið því ekki.

  • Ekki kjósa óvini ykkar; þá sem reyna að níðast á ykkur eftir kosningar, svo sem: Bjartaframtíð, framsóknarfl., sjálfst.fl, samfylkingu og vinstri grænt. Bjartriframtíð, framsóknarflokki, sjálfstæðisflokki, samfylkingu og vinstri grænu finnst þeir andlega skyldir Evrópskum aðli. Ef þessir áhugamenn um risnu og dagpeninga vilja að sem fæst atkvæði aðdáenda falli „dauð“ ættu þeir að bjóða fram einn lista í hverju kjördæmi. Þá féllu færri atkvæði dauð. Athugið það fyrir næstu kosningar skrópagemlingarin ykkar. Við frjálsir kjósendur þurfum ekki ráðleggingar frá Merði eða Verði. Það er góð tilfinning að kjósa og fylgja samfæringu sinni. Þessa góðu tilfinningu munu þeir hugsjónalausu, samvizkulausu, bitlingasjúku, athyglisjúku smámenni aldrei finna.

  • Sveinbjörn Halldórsson

    Mörður, það er skarð fyrir skildi ef þú fellur út af þingi. Það er einlæg skoðun mín. En sá tími er vonandi liðinn að hægt verði að höfða til kjósenda með tali um dauð atkvæði. Þannig hefur það verið svo lengi sem ég man. Það hefur skilað okkur öflugum flokkum, sem finnast þeir eigi einkarétt á atkvæðum með vísun til dauðra atkvæða sem falla þeim ekki í skaut. Fjandinn hirði þessa tölfræði!

    Fólk kýs samkvæmt sannfæringu sinni, svo látum við skeika að sköpuðu. Þannig er lýðræðið. Fyrir mörg okkar er þetta einsog ný uppgötvun. Ekkert atkvæði er dautt, víkjum þessari klisju úr huganum, enda er er hún vatn á myllu þeirra sem óttast lýðræðið.

  • Helga Brynja

    Æji Mörður, Þú dettur alltaf niður í sama svaðið! skrítið þegar að menn sem eiga ekki til auðmýkt í beinum sér reyna að vera auðmjúkir…Þeim mistekst alltaf hraplega…..

  • Ég var að velta fyrir mér að kjósa BF, en þegar mér varð ljóst að skörungurinn hún Katrín Júlíusdóttir, var mögulega að detta af þingi og einhver framsóknarlukkuriddari að ná inn, þá var valið afskaplega einfalt.

    Þakka þér þín góðu störf Mörður.

  • Sigurður

    Fólk er ekki að „eyða“ atkvæðinu þegar það kýs smáfloikkana.

    Það er a.m.k. að lýsa því yfir að gamla ruslið komi ekki til greina.

    Ekki vanþörf að gera ykkur grein fyrir því, enda hafið þið ekkert lært, engu breytt og ekki sýnt minnstu viðleitni tið að sýna fólki að þið viljið breyta einvherju.

    Skjaldborgin um fjármálaöflin og kvótakerfið verður eini minnisvarðinn um þessa vesalings stjórn sem við erum loksins að losan við.

  • Æi Mörður, þetta er lúaleg grein hjá útbrunnum gamals tækni- og valdakrata.
    Nú þegar þessar línur eru skrifaðar eru að birtast kosningaúrslit sem sýna munu algjört afhroð Samfylkingarinnar, þar sem að þú og margir fleiri þingmenn Samfylkingainnar munu algerlega verðskuldað falla út af þingi, þar á meðal þú.
    Þó svo að ég viðurkenni fúslega að þú hafir verið einn af skástu mönnum Samfylkingarinnar á þingi þá ert þú ekki svipur hjá sjón miðað við þann unga hugssjóna mann Mörð Árnason sem ég man og eitt sinn bauð sig fram fyrir Alþýðubandalagið og barðist þá fyrir hugssjónum sannra sósíalista og hugaðra þjóðfrelsissinna.
    Nú ertu fyrir löngu síðan orðinn útbrunninn tækni- og evrókrati sem þar að auki ert gengin er í ESB- björgin.
    Samfylkingin og ESB trúboðið ykkar mun bíða verðskuldað afhroð í þessum kosningum og það eitt útaf fyrir sig mun þýða stórsigur fyrir íslensku þjóðina !

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur