Sunnudagur 28.04.2013 - 18:24 - 22 ummæli

Daginn eftir

Já, auðvitað breytti Icesave-dómurinn miklu. Framsókn vann í því lotteríi og þeyttist upp á stjörnuhimininn meðan þeir flokkar sem töldu sig hafa axlað ábyrgð, S, V og líka D, stóðu uppi einsog aumingjar ef ekki föðurlandssvikarar – og má segja að enginn þeirra næði síðan almennilega vopnum sínum.

En það var miklu fleira á ferðinni. Kjósendur um öll Vesturlönd hafa undanfarin misseri verið að gefa skít í leiðtoga og ríkisstjórnir hægri-vinstri: Danmörk, Bretland, Frakkland, Spánn, Ítalía. Um alla álfuna og miklu víðar eflist vantrú á stjórnmálamönnum og á hefðbundnum stjórnmálum, þeim mun meira sem kreppan og erfiðleikarnir standa lengur.

Fylgisleysi ríkisstjórnarinnar á sér rætur á Íslandi, í erfiðleikum bráðari en nokkurstaðar annarstaðar, í fyrirheitum sem ekki tókst að standa við, í séríslensku óþoli um lausnir strax í gær, og í innri veikleikum – hún var að lokum minnihlutastjórn. Djúpvandinn er hinsvegar alþjóðlegur og varðar efnahagslegan jöfnuð, lýðræði, nýfrjálshyggju og kapítalisma, límið í samfélögunum, trosnun gamalla gilda, ótta við hið ókomna.

Hugmyndafræði – framtíðarsýn

Ég held að þrátt fyrir ýmis mistök og vonbrigði – sem urðu sérlega sár í þinglok fyrir rúmum mánuði – kannist stór hluti landsmanna við margvísleg afrek ríkisstjórnarinnar og kunni að meta þau. Maður fann þann streng óma frá rósafundi vinkvennahópsins við Stjórnarráðið á föstudaginn, og síðustu daga kosningabaráttunnar fannst mér að landið væri að rísa. Viðmót kjósenda var orðið betra, og margir næstum móðgaðir að Jóhanna og stjórn hennar skyldi ekki njóta sannmælis í kosningaslagnum. Klöppuðu okkur á bakið og óskuðu velgengni.

Þakklæti fyrir unnin verk er hinsvegar ekki mikill áhrifaþáttur í pólitík. Vorkunn ennþá síður.

Í þessum kosningum þurftu stjórnarflokkarnir að kynna árangur sinn eftir hrunið – og umfram allt: byggja á honum skýra framtíðarsýn fyrir land og fólk. Það gerðist ekki, nema á lokasprettinum örlaði á viðleitni hjá VG. Og það einsog vantaði hugmyndafræðina, sem Svavar Gestsson vakti athygli á í Sjónvarpinu í nótt.

Hvar var eiginlega staddur hugmyndagrunnur jafnaðarmanna með alla sína íslensku og alþjóðlegu sögu, alla sína reynslu og vit, alla sína margvíslegu höfðun? Hvar var framtíðarsýnin þar sem við eigum þó svo góðan efnivið, höfum unnið að svo lengi?

Rétt hjá Árna Páli að ein hugmynd um eina útfærslu á einu máli yfirgnæfði kosingabaráttuna – en svar Samfylkingarinnar í slíkri stöðu hlaut að vera tvennskonar. Annarsvegar sértækar tillögur um skuldamálin (svipað og Össur var að móta síðustu vikurnar), hinsvegar brýning um grundvallargildi jafnaðarstefnunnar og erindi hennar í íslenskum nútíma.

Þetta gerðist ekki. Í staðinn voru settar fram yrðingar, sem kalla má góðar fyrir sinn hatt í tilteknu samhengi – en hljóma eftir á ekki afar eggjandi og var varla tekið sem sérstökum fyrirheitum um lausnir í anda jafnaðarstefnunnar:

Leyfum atvinnulífinu að blómstra og tryggjum vel launuð störf.

Framhald afskrifta á skuldum heimilanna á grundvelli almennra leikreglna.

Horfumst í augu við öll tækifærin sem bíða landsmanna og nýtum þau.

Þetta var ekki allt svona vont. En forystu Samfylkingarinnar tókst aldrei að setja fram tillögur um framtíðina sem hefði tengsl við gömul góð jafnaðargildi og fyndi hljómbotn í hjörtum almennings. Reyndar mundi mig reka í vörðurnar ef einhver spyrði snögglega um meginskilaboð flokksins í kosningunum. Var ég þó þingmaður í framboði.

Við þurfum að vita af hverju þetta gerðist svona. Mig langar ekkert í einhverjar langvinnar pælingar eða hugmyndafræðileg átök. Spyr mig samt hvort ein ástæðan sé að blairisminn frá því fyrir nokkrum árum hafi enn ekki fjarað út. Hvort flokkinn vanti ennþá strategíu sem gengur út á annað en að komast í næstu stjórn með næsta samstarfsflokki. Hvort við höfum vanrækt flokkinn sem vettvang og samfélag samherja þrátt fyrir rýnifundi og umbótaskýrslur, þannig að ekki gefist færi á samráði og gagnrýni á störf hinna kjörnu fulltrúa. Hvort sá kúltur sé ennþá virkur að forystumennirnir líti á flokk og stuðningsmenn sem skip og föruneyti en ekki uppsprettu hinna pólitísku starfa.

Samt var landsfundurinn okkar í febrúarbyrjun feikivel heppnaður og sýndi baráttuglaðan flokk í fínu formi. Eitthvað mikið gerðist síðustu þrjá mánuðina. Eða gerðist ekki.

Forystumenn og atburðarás

Bráðar eru blóðnætur – eftir áföll einsog í gær er rétt að fara sér hægt og taka eitt skref í einu. Ósigur Samfylkingarinnar er ekki Árna Páli Árnasyni einum að kenna – frekar en Jóhönnu Sigurðardóttur – eða til dæmis mér. Árni Páll er hæfileikamaður og gerði margt vel. Stundum fannst manni samt að atburðarásin bæri hina nýju forystu flokksins ofurliði, að hún kannski ímyndaði sér að hún væri stödd í allt annarri atburðarás – þeirri sem hefði átt að verða en ekki þeirri sem varð.

Þetta byrjaði strax fyrstu vikuna eftir velheppnaðan landsfund. Þá var eðlilegt að nýta byrinn með kynningu, almannafundum og ráðslagi við áhrifahópa – en í staðinn virtust hollvinir Árna Páls vera að bíða eftir að hann yrði forsætisráðherra – sem aldrei stóð til af því slík skipti voru ekki á valdi Samfylkingarinnar. Svo kom þessi langi og erfiði stjórnarskrárkafli í þinglok þar sem nýja forystan tók að sér að leysa málin, en því lauk nánast án árangurs og olli miklum vonbrigðum í kjarnafylgi flokksins og næsta nágrenni.

Forystusveitin virtist heldur aldrei komast í samband við meginefni kosningabaráttunnar, einsog áður er rakið. Samfylkingin hefur átt 13 ára samleið með þjóðinni í gegnum blítt og strítt, og þar áður voru móðurflokkar og hreyfingar í bráðum heila öld. Við erum hluti alþjóðahreyfingar jafnaðarmanna og tengjumst þar mörgum fremstu stjórnmálamönnum og hugsuðum Norðurlanda, Evrópu og heimsins alls. Við höfðum í framboði 17 þekkta alþingismenn, þar af sjö ráðherra nú- og fyrrverandi, hvern með sína kunnáttu og tengsl og sérsvið og höfðun. Við vorum í þessum kosningum að kveðja Jóhönnu Sigurðardóttur eftir 35 ár á þingi, fyrstu konuna í forystu íslenskrar ríkisstjórnar, stjórnmálamann sem snertir streng í mörgu hjarta og er tákngervingur baráttunnar fyrir jöfnuði og mannréttindum.

Þessir kostir voru ekki nýttir í kosningunum en í staðinn lögð öll áhersla á persónu formannsins. Það getur virkað – ef formaðurinn vekur athygli og hefur höfðun í samhengi við framboðið og skilaboð þess. Fljótt kom í ljós að það var því miður ekki í þetta skipti, hvað sem síðar kann að verða. Þá virtist ekki hægt að haga seglum eftir vindi heldur var enn meiri áhersla lögð á formanninn. En sú áhersla kann að lokum að hafa hrakið meira frá en laðað að – enda voru flokkurinn og gildi hans nánast horfin bakvið talbólurnar.

Þessi taktísku mistök við erfiðar aðstæður juku á ósigurinn. Það sést best á samanburði við VG sem tókst í lokin að forðast algert afhroð með áherslu á grunngildi sín, á árangur ríkisstjórnarinnar, og á leiðtoga sinn sem fremstan meðal jafningja í talsverðum hópi álitlegra frambjóðenda.

Þetta, og miklu fleira, þurfum við í Samfylkingunni að skoða næstu vikur og mánuði af fullum heiðarleik, en án gremju og og illinda. Átta okkur á nýrri stöðu, á erindi okkar og á samhenginu til vinstri við miðju núna þegar stutt er í tvo flokka sem eru nánast jafnstórir og við.

Aumingi minn

Takk, þið mörg sem sýnduð þessum frambjóðanda stuðning og hlýju í snúinni kosningabaráttu, takk aðrir S-frambjóðendur og allt það fína fólk sem kom og vann í framboðinu. Ég hef sjálfur ekki átt von á frekari þingmennsku frá því í prófkjörinu í nóvember – þrátt fyrir ágæta kosningu var fjórða sæti suður ekki líklegt þingsæti að þessu sinni. Næstu daga gengur maður með sjó og situr við eld. Það er ég líka að reyna í þessu bloggi.

Og ég hef ákveðið að vakna aftur á morgun, og líka á þriðjudaginn. Pólitíkin gengur svona og svona en lífið heldur áfram, hjá okkur öllum sem erum svo heppin að upp rennur nýr dagur, og um þetta sama líf segir Sigfús okkur beiskjulaust og í trúnaði að hvað sem öðru líður sé það – „mjög dásamlegt“.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

  • Guðný Ármannsdóttir

    Lyfjalögin áttu eflaust einhvern þátt í atkvæðatapinu, a.m.k. fór mitt atkvæði og minnar fjölskyldu yfir til pírata en Birgitta mótmælti þeim lögum kröftuglega í kosningasjónvarpinu.

    Svo er langt síðan Samfylkingin hætti að vera verkamannaflokkur og varð bara listamanna og fræðingaflokkur. (Sem svo buðu fram sér sem BF og LV)

    Verkamenn vilja vinnu, ekki bara húsnæðis og barnabætur sem breytast frá ári til árs og ekkert er hægt að stóla á

  • Ég kaus Samfylkinguna seinast. Ég gat ekki hugsað mér undir nokkrum kringumstæðum að kjósa hana nú með þennan formann sem kjörinn var með meirihluta atkvæða flokksmanna (ég gat ekki kosið vegna fjárskorts).
    Sérðu þetta ekki Mörður? Sérðu ekki að Árni Páll sér ekki sólina fyrir fjármagnseigendum? Sérðu ekki að lífeyrissjóði verkalýðshreyfingarinnar? Sérðu ekki að Árni Páll lyftir ekki litlafingri til að koma á móts við Framsóknarflokkinn? Þið eruð að reka Framsóknarflokkinn í faðm Sjálfstæðisflokkinn.

    Sérðu ekki neitt?

  • Haukur Kristinsson

    Það getið farið að gera uppkast á „epitaph” (ἐπιτάφιον) Samfylkingarinnar ef þið áttið ykkur ekki á því að flokkur jafnaðarmanna, Social Democrata, er VINSTRI flokkur, en ekki einhver ”breiðfylking” í miðjunni, eins og Árni Páll bullar.

    Þú minnist á pólitískan “kúltur”.
    Tap Samfylkingarinnar er það mesta sem nokkur íslenskur stjórnmálaflokkur hefur upplifað.
    Á ekki formaður flokksins að segja af sér?

  • Björt framtíð og Samfylkingin sameinist í einn þingflokk hendi Árna Páli út og feli Össuri og Guðmundi Steingríms að gera Sigmundi tilboð. Þannig verður ESB ferlið tryggt. Svona ríkisstjórn yrði „sáttastjórn“ og hefði stuðning af VG og Pírötum og 11% það á meðal mínu atkvæði. Hætt er við að Austurvöllur logi annars í haust og vetur.
    Fyrrverandi vogunnarsjóðsráðherra má ekki standa í vegi fyrir öllum umbótum.

  • Eyjólfur K. Emilsson

    Allt nokkuð rétt metið hjá Merði. En hvað kemur í veg fyrir við núverandi aðstæður að Samfylking og VG sameinist, og etv. líka minni framboð á vinstri væng? Það er skylda ykkar sem standið í pólitík á vinstri væng að reyna að koma því í kring. Evrópumál eru sjálfsagt ágreingnsefni en mun minni eftir að framsóknarkommar í VG eru gengnir í fjöllin þar sem þeir eiga heima. Vel væri hægt að sameinast um að nýr flokkur hefði ekki einsleita stefnu, þingmenn t.d. óbundnir af afstöðu forystunnar í þessu máli líkt og, ef ég man rétt,SV (svarar til VG á Íslandi) og jafnvel Arbeiderpartiet gerðu fyrir síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu í Noregi. Hægt er að vera sammála um að kanna hvað í samningi liggur og láta þjóðina skera úr um hann. Hvað annað ætti að skilja þess flokka? Það þarf flokkhollan flokk á vinstri vængnum sem rúmar allt frá miðju til töluverðrar róttækni. Líkt og Sjálstæðisflokkurinn hefur sameinað hálfgerða fasista, frálshyggjufanatíkera og ljósbleika byggðakrata. Ég veit að mjög margir vinstri menn hugsa svona eins og ég, jafnvel lögngu fyrir þessar kosningar. Hvað er að forystuliðinu að lýsa þessu ekki yfir sem markmiði og ganga svo til verksins?

  • kristin geir st briem

    stjórnarflokkarnir voru búnir að tapa kosnínguni áður en árni páll tók við ósamstaðan var slík fanst sanfylkínginn ekki fra í kosníngabarátu afhverju veit ég ekki V.G. fóru þó af stað þegar þeir voru að detta af þýngi kanski vildu menn ekki halda áfram en hver veit. þettað verða erfið 4. ár hvíði fyrir 2015

  • Ég sem fyrrverandi kjósandi Samfylkingar gat bara ekki hugsað með að kjósa flokk spillingar á hæsta stigi og lygara.

    1. Ljótasta atvik síðasta þings var þegar Samfylkingin ákvað að hlífa sínum ráðherrum og Árna Matt við Landsdómi en senda Geir einan. Spilling.

    2. Að ljúga því að kjósendum að þeir vilji breyta kvótakerfinu á þann hátt að greitt sé fyrir aðgang að auðlyndinni.

    – Sett á strandveiðikerfi sem gerir ráð fyrir gjaldfrjálsum
    aðgangi. ( af hverju ekki uppboðskvóti þar sem það hafði
    verið loforð S)
    – Úthlutað markrílkvóta til uppsjávarflotans án veiðireynslu.
    ( Af hverju ekki leigja kvótann þar sem enginn reynsla var
    fyrir.)
    – Samfylkingin hafði það í hendi sinni að setja á 20-30 þús
    tonna kvóta sumarið 2009 og leigja til þeirra sem vildu
    gagnvart gjaldi. Nei gerði það ekki þegar hægt var og missti
    af gullnu tækifæri.

    Ég heyrði síðan S ekki tala um kvótamál í þessari kosningabaráttu, það var eins og þeir bara væru ekki með málið lengur í sjónmáli.

    Gæti talið margt fleira til en Samfylkingin og VG hafa sýnt okkur kjósendum að þeir stjórna svo ílla að það er jafnvel betra að hafa D og B við stjórnvölin.

    Það er afrek út af fyrir sig og ekki síður met en fylgistap S.

  • Veistu Mörður – Árini Páll skiptir engu í þessu samhengi. Þið voruð fyrir löngu búin að tapa trausti kjósenda og það var fyrst og fremst fyrir Jóhönnu og svik hennar við allt sem hún hefur staðið fyrir á þingi í 35 ár – eða réttara sagt ÞAÐ sem kjósendur HÉLDU hún stæði fyrir en kom svo berlega í ljós að var bara frauð. Þegar hún var að monta sig af milljörðunum sem fóru í að laga skuldastöðu heimilana þá vissum við kjósendur ykkar að þetta var tóm lygi. Það var dómur um að lánin væru ólögleg sem færðu fólki leiðréttingu – EKKI samfylkingin.

    Síðan voru það náttúrlega peningasuturinn, milljarðaausturinn í SpKef og Vís sem gersamlega gekk fram af fólki. Þetta voru og eru einkafyrirtæki í einkaeign og ÞESSU liði var bjargað !! ekki boðlegt. Síðan má líka tala um niðurskurðin á heilbrigðiskerfinu. Þeir sem þurftu á því að halda eða áttu foreldra á elliheimilum rann til rifja hversu harkalegur þessi niðurskurður var OG alls ekki samboðin vinstir/miðjustjórn. Hvaða ultra hægri flokkur hefði verið stoltur af slíku svelti. Síðan óbilgirnin og hrossakaupin hvað nýjan landspítala varðaði á meðan starfsfólkið fékk óboðleg laun. Svo var það treginn við að birta framfærsluviðmiðð sem voru í takt við raunveruleikann. Síðan var það hversu óheyrilega lægstu laun voru og hve lítið þessi stjórn studdi við það fólk sem þau þurfti að þyggja. Síðan var það nú aldeilis samningurinn við Bakka – gersamlegaa óboðlegur hugsandi fólki. Listinn er endalaus og hreinlega hjákátlegt að það sé verið að reyna að kenna Árna Páli um. Það voru aðgerðir OG aðgerðaleysi þessarar ríkisstjórna sl. 4 ár sem gekk algerlega fram af okkur kjósendum hennar. Það versta er að það munu líða mörg ár og margar kosningar áður en Samfylking fær slíkt umboð aftur. Þó sagt sé að kjósendur hafi gullfiska minni þá mundum við þó allt þetta. Ríkisstjórnin fékk það sem hún átti skilið og þannig virkar lýðræðið. Að Jóhanna hætti sem forsætisráðherra kom of sein. Þessi kona sem aldrei taldi ástæðu að yrða á þjóð sína eða stappa í hana stálinu á þessum hörmungartímum var náttúrlega langt frá því að vera hæf sem forsætisráðherra. Árni Páll og hans lög um afturvirka vexti sýndi okkur bara enn betur að þarna var ekki hææft fólk.

    Þess vegna fenguð þið versta ósigur ríkisstjórnaflokks og áttuð hann fyllilega skilið skilið.

    Ykkur væri hollast að horfast í augu við þessi svik og hugsanlega mögulega mun einhverjir kjósendur ykkar snúa aftur. Ekki ég.

  • Hárrétt hjá Margréti. Við þetta má bæta að Jóhanna talaði oft um að setja þyrfti bankastofnunum eins og Dróma stólinn fyrir dyrnar. Ekki seinna en núna sagði hún einhverntímann – en gerði hún eitthvað’ Nei – nákvæmlega ekki neitt.

    Á flestum svið fannst okkur kjósendum ykkar að þið stæðuð alls ekki með okkur. Að tapi hafi verið jafn stórt og raun bar vitni ætti að fá ykkur til að fara í naflaskoðun. Það er sorglegt að þið skuluð ekki fatta hve óánægt fólk var. Ég er sammála að Árni Páll skipti engu máli og Jóhanna hefði átt að hætta fyrir lifandis löngu. Hún hafði hvorki kjark né vilja til að standa með okkur og við stóru orðin. Hvernig komið er fram við öryrkja, gamalt fólk og sjúklinga í þessu landi er til háborinnar skammar. Það skrifast á Jóhönnu fyrst og fremst.

  • Hárrétt hjá Margréti. Við þetta má bæta að Jóhanna talaði oft um að setja þyrfti bankastofnunum eins og Dróma stólinn fyrir dyrnar. Ekki seinna en núna sagði hún einhverntímann – en gerði hún eitthvað’ Nei – nákvæmlega ekki neitt.

    Á flestum svið fannst okkur kjósendum ykkar að þið stæðuð alls ekki með okkur. Að tapi hafi verið jafn stórt og raun bar vitni ætti að fá ykkur til að fara í naflaskoðun. Það er sorglegt að þið skuluð ekki fatta hve óánægt fólk var. Ég er sammála að Árni Páll skipti engu máli og Jóhanna hefði átt að hætta fyrir lifandis löngu. Hún hafði hvorki kjark né vilja til að standa með okkur og við stóru orðin. Hvernig komið er fram við öryrkja, gamalt fólk og sjúklinga í þessu landi er til háborinnar skammar. Það skrifast á Jóhönnu fyrst og fremst.

  • sigurgeir jónsson

    Við jafnaðarmenn,svona vinna jafnaðarmenn.Allt þetta tal um jafnaðarmenn virkaði ekki.Orðið jafnaðarmaður er skammaryrði á Íslandi og hefur verið lengi.Miklu skárra hefði verið krati, eða bara kommúnisti.Þannig vinnur Samfylkingin hefði kanski virkað eitthvað betur.Óvíst.Allt ESB talið virkaði ekki.Horfum fram með Samfylkingunni hefði virkað betur.En númer eitt er: burt með jafnaðarmannakjaftæðið.Það galt afhroð númer eitt tvö og þrjú.Jafnaðarmannaflokkur Íslands er ekki Samfylking.Fólk gat ekki hugsað sér að kjósa jafnaðarmannaflokk Íslands.Það kannaðist ekki við hann.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Margrét er með þetta. Þið klúðruðuð feitt!

  • Dagur Bragason

    Mörður veltir því fyrir sér hvað fór úrskeiðis, en tók hann ekki eftir því á þingi þegar hvert stjórnarfrumvarpið á fætur öðru komu í þingið í bullandi ágreiningi, ekkert samráð við almenning eða hagsmunahópa, var sagt um nánast öll frumvörp stjórnarinnar, en ríkisstjórning trukkaðist áfram, enda fyrir löngu búin að ákveða hverjir væru vinir og hverjir væru óvinir, sem ekki mátti hlusta á.
    Loforð Jóhönnu og Samfylkingar Nr. 1 „skjaldborg um heimilin“ var svo eftirmynnilega svikið og þetta er útkoman, algjört hrun Samfylkingar:

  • Garðar Garðarsson

    Takk Mörður fyrir hreinskilnina og ég er þér algjörlega sammála.

    Nú þarf Samfylkingin að standa með eigin stefnu sem er jöfnuður og velferð, og auðvitað verður Samfylkingin að leggja mikla áherslu á umhverfismál og huga að framtíðinni, og einnig gæta þess að þjóðin haldi yfirráðum yfir auðlindum landsins og þeim sé úthlutað á réttlátan hátt. Svo er það blessuð stjórnarskráin sem þjóðin var búin að samþykkja efnislega en Alþingi náði ekki einhverra hluta vegna að klára, hana þarf Samfylkingin að styðja og standa þannig við eigin ályktanir og loforð.

  • Sorgleg niðurstaða og rýrar eftirtekjur alls þess erfiða og að mörgu leiti velheppnaða starfs sem unnið var á kjörtímabilinu.

    Öll sú vinna var reyndar gerð mun erfiðari en skildi með óbilgjarnri stjórnarandstöðu bæði innan VG og hinna formlegu stjórnarandstöðu. Óbilgirni sem var ekki mætt með þeirri festu sem þörf var á af þingforseta.

    Synd að stjórnarskráin væri yfirgefinn á seinustu metrunum, hún hefði átta ásamt því sem vel gekk á tímabilinu að hafa tryggt SF þolanlega kostingu.

  • Var orðið löngu tímabært að lofta út fýluna, hatrið og feift vinstri stjórnarflokkana út úr Alþingi, VG og S verða nú sett út í horn og sleikja sárin næstu fjögur árin eða þar til þau hafa náð áttum. Píratar og BF geta vel unnið með B og D að góðum málum,…

  • Sigurður

    Jahérna…….

    Þú hefur enn þann dag í dag ekki minnstu hugmynd afhverju þið tapið þessu fylgi…..

    Ekki minnnstu hugmynd.

    Enn og aftur staðfestist það að þið hlustið ekki á nokkurn mann utan eigin þingflokks.

    Á meðan þið eruð svona einangruð í fílabeinsturninum, og hlustið ekki á neina gagnrýni, þá hlítur það að vera óumflýjanlegt að flokkurinn hreinlega þurrkist út með öllu.

    Þetta er alveg með ólíkindum að hlusta á ykkur, og lesa bloggin ykkar að þið skuluð ekki gera ykkur neina grein fyrir því hvernig þið hafið hagað ykkur undanfarin ár gegn fólkinu í landinu.

    Maður hélt að firringin hefði náð hámarki í áramótaávarpi Jóhönnu þegar hún lísti því yfir að brýnasta málið á nýju ári væri breyting á Stjórnarskránni, en ykkur tekst endalaust aftur og aftur að einangra ykkur meir og meir frá almenningi í landinu, og hafið greinilega ekki nokkra hugmnynd um hvað fólk er að berjast við dag frá degi.

    Þess vegna er ekki hægt að nota ykkur á þingi, og þess vegna voruð þið rekin.

  • Sumir halda að brennuvargar séu ekki góðir slökkvuliðsmenn. Þetta er alrangt. Brennuvargar ganga oft rösklega fram í að slökkva elda sem þeir sjálfir hafa kveikt. Lesið bara „Indjánann“ eftir Jón Gnarr bls. 120 til 125. Jón kveikti, af miklum dugnaði, eld í sinu í Fossvogi með vini sínum, hjálpaði síðan a slökkvuliðsmönnum að ráða niðurlögum eldsins og fékk mynd af sér og hrós í Dagblaðinu. Ég hef því mikla trú á að ný ríkisstjórn framsóknar og sjálfstæðisflokks muni klára að slökkva eldana sem þeir sjálfir kveiktu á sínum stjórnarárum.

    Samfylkingin og Vinstra grænt væla nú um að þeir hafi ekki fengið þakklæti frá kjósendum fyrir dugnaðinn á kjörtímabilinu. Þeir eru enda af því sauðahúsi, sem alltaf er verið að verðlauna frá blautu barnsbeini. Alþýðan hefur aðra reynslu. Bezt birist hún í þulunni um kerlinguna sem vinnur af ósérhlífni og dugnaði allt árið og tekur svo út sín laun: Hún er flengd á Kóngsbænadaginn. Þessa þulu hafa margar kerlingar þulið yfir mér, enda alþekkt. Hún er í sögu dagana eftir Árna Björnsson.

    Mér finnst Mörður alltof sár yfir kosningaúrslitunum. Stjórnmálaflokkar geta ekki alltaf unnið í kosningum. Hvar mundi það enda? Í 100%, og hvað svo? Ef framsóknarflokkurinn hefði ekki verið að tapa fylgi í undanförnum kosningum, kallaði enginn hann sigurvegara núna. Ef sjálfstæðisflokkurinn hefði haldið sínu meðalfylgi í síðustu kosningum væru fjölmiðlamenn að tala um tap hans núna. Í næstu kosningum ætti Mörður að reyna að vera upp í brú Samfylkingarinnar, því þá mun Samfylkingin örugglega bæta við fylgi sitt, jafnvel 4% eða meira. Mörður gæti þá jafnvel orðið forsætisráðherra.

  • Helgi Jóhann Hauksson

    Sammála Merði um flest hér, enda sendi ég Árna Páli fljótlega í kosningabaráttunni bréf þar sem ég varaði hann við sumum þessum atriðum, á meðan enn hefði verið hægt að ná áttum og jarðsambandi og rétta kúrsinn af.
    Það að Mörður er ekki lengur þingmaður gerir honum kelift að segja þetta upphátt svo læra megi af þessu, það er ómaklegt ætla honum hefndum með skýru framlgi til rökræðunnar eins og þetta er.
    Sjálfur veit MÖRÐUR að ég hef ekki tekið hann sjálfan í sátt frá því hann laumaði ákvæði inn í frumvarp um sameiningu Lýðheilusstöðvar og Landlæknis sem átti að fara fram á janfréttisfgrunni en hann breytti með þessari litlu breytingu undir formerkjum nafnabreytingar við 3ju umræðu yfir í hreina yfirtöku landlæknis á öllu starfi og eigum lýðheilsustöðvar þar sem starfsmenn Landlæknis hédlu formleg aöllum stöðum sínum en hinir mættu sem gestir og var úthlutað lausum störfum — eða engum.
    Það er ég á Merði enga skuld að gjalda og tek ekki undir með honum af neinni sérstakri samúð með honum — sem ég ber enga — heldur vegna þess að hann kemur hér að mikilvægum kjarna máls sem Samfylkingin verður að horfast í augu við og takaast á við — ég er honum sammála um, þetta efni. — Kannski ég bloggi um það á næstunni.

  • Auður Sturludóttir

    Mér fannst andsvar Samfylkingarinnar við tilboðum hinna flokkanna um betri kjör (með skuldalækkunum eða skattalækkunum) vera að boða heilbrigðari efnahag meðal annars með inngöngu í Evrópusambandið og upptöku Evru. Aðalástæðan fyrir því að Samfylkingin hlaut ekki betri kosningu en raunin varð sýnist mér þá vera sú að þetta var ekki vinsæl hugmynd meðal þeirra sem skulda mikið eða hafa lítið á milli handanna. Aftur í gömlu þjóðræknisflokkana og burtu með Evrópu.
    En vonandi tekst Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk að vera í sambandi við þjóðina og vonandi tekst þeima að hífa upp tekjur eldra fólks og öryrkja, vonandi tekst þeim að byggja upp góða heilbrigðisþjónustu og menntakerfi, t.d. hækka laun háskólakennara. Það verður örugglega einhver sanngirni í kvótakerfinu og vonandi tekst þeim að klára stjórnarskrána. Nú ef ekki, þá veit fólk hvað það á að kjósa og blogga næst.

  • Logi Már Einarsson

    Ég er að mörgu leyti sammála því mati sem þú, Mörður setur fram hér. En eftir stendur samt það að þeir sem ekki hlusta, heyra og læra aldrei neitt. Ég lét þá skoðun mína í ljós í upphafi kjörtímabilsins að Vg væru ekki stjórntækir og sú skoðun mín hefur ekkert tekið breytingum. Að fara í stjórnarsamstarf með flokki sem hefur jafn öfgafullar framsetningar og Vg er ekki líklegt til árangurs og það, að þið skylduð gefa þeim frjálsar hendur í umhverfismálum gegn því að þið hefðuð frjálsar hendur í Evrópumálum var stór afleikur og ekki líklegt til árangurs en kannski var það nauðsynlegur grundvöllur til samstarfs ykkar í milli, samstarfs, sem nú hefur kostað báða flokkana mikla blóðtöku. Að tala um hlutina í 35 ár og gera svo ekkert í þeim þegar maður kemst til æðsta embættis og hefur loks tækifæri til að standa við sögð orð skýrir sig sjálft ef menn eru ekki blindir. Að hætta að hlusta á fólkið í landinu um leið og maður er kominn til valda er ekki líklegt til árangurs enda reis fólkið upp í kosningunum. Rest my case.

  • Margret S.

    Það er góð grein eftir Guðmund Andra Thorson í fréttablaðinu í dag, Samfylkingarblús. Hann skrifar meðal annars „Andrúmsloftið, þetta snerist víst um heimilin“ Ha heimilin, sögðu vinstri menn og fóru strax að tuða um vanskilavillur á Arnarnesi eins og þeim væri á undarlegan hátt sama um vanda fólks. Sighvatur Björgvinson og hans andstyggilegu skrif og tuð út í fólk sem vogaði sér að taka íbúðalán á ákveðnum tíma. Fólk á ákveðnu aldursbili, „Sjálfhverfa Kynslóðin“ sem var ósátt við margra tuga hækkun láns eftir hrun fjármálakerfisins varð að rætnum skrifum Sighvats, tilefni margra blaðagreina í Fréttablaðinu, allar af sama toga. Þetta varð meðal annars til þess að ég gat ekki hugsað mér að kjósa Samfylkinguna. Samt hef ég áður alltaf kosið Samfylkingu og þar áður Alþýðuflokkinn. Fjölskyldan mín líka, við höfum nú snúið baki við Samfylkingu, líklega um aldur og æfi. Þið gerðuð lítið úr skuldavanda venjulegs almennings. Og já já, það var auðvitað fáránlegt af fólki með 2 börn að kaupa sér fjögra herbergja íbúð í blokk. Fengu sér jafnvel FLATSKJÁ.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur