Þriðjudagur 30.04.2013 - 10:29 - 5 ummæli

Taktlausir verkalýðsforingjar

Þegar menn ná ekki takti — þá er oft gott að athuga hvort það er einhver taktur í tímanum.

Nokkrir forystumenn verkalýðsfélaganna í Reykjavík eru óánægðir með „grænu gönguna“ sem umhverfis- og náttúruverndarmenn hafa boðað til 1. maí. Forseti ASÍ segir í Fréttablaðinu að þetta sé dagur launafólks og aðrir eigi að láta hann í friði: „umhverfisverndarsinnar, fyrirtækin í landinu og aðrir hagsmunahópar“.

Get vel skilið þessa afstöðu – 1. maí á að vera fyrsti maí og ekki almenn skemmtihátíð eða einhver allsherjar bolludagur. Skil hinsvegar síður jöfnuna „umhverfisverndarsinnar, fyrirtækin í landinu og aðrir hagsmunahópar“.

Umhverfisvitund og náttúruvernd eru mikilvægur partur af lífsgæðum og lífskjörum alþýðu manna, á Íslandi og annarstaðar. Þessi mál varða bæði vinnustaðina og heimilin í landinu – og eiga núna að vera kjarninn í mótun atvinnustefnu sem byggist á sjálfbærri þróun og jafnrétti kynslóðanna.

Verkalýðshreyfingin á að fagna því að áhugamenn um umhverfismál leggi sitt af mörkum á baráttudegi verkalýðsins og sýni virðingu hinum rauða þræði sem sá dagur sífellt spinnur um betri kjör og réttlátt þjóðfélag.

Reyndar ættu forystumennirnir að fagna sérstaklega öllum þeim sem geta gætt lífi þennan gamla baráttudag, sem fyrir nokkrum árum var að lognast út af í höndunum á þeim – ekki langt síðan fram kom tillaga í alvöru um að hafa bara 1. maí í Húsdýragarðinum.

Ekki í fyrsta sinn

Þetta er svosem ekki í fyrsta sinn sem forystumenn verkalýðsfélaganna í höfuðborginni amast við fólki og öðrum hagsmunahópum sem vogar sér að trufla hinn hefðbundna lúðrablástur 1. maí.

Það sama fengu einmitt að heyra konur á rauðum sokkum 1. maí 1970 – þegar baráttuganga verkalýðsins í Reykjavík varð upphafsviðburður nýju kvennahreyfingarinnar.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Rósa Hannesardóttir

    Það var reyndar óþarfi að baráttuganga verkakvenna 1. maí 1970 skyldi verða upphafviðburður göngu forréttindakvenna til enn meiri forréttinda.

  • Sigurður Þorsteinsson

    Voðalega skrítið hvernig þessi verkalýðshreyfing hegðar sér. Vilja ekki gera gönguna græna. Meðan við vorum í ríkisstjórn gerði verkalýðshreyfininginn líka kröfu til þess að okkar ríkisstjórn myndi standa við gefin loforð og samninga, sem alls ekki var sanngjarnt af því að þetta var okkar ríkisstjórn. Hefði þetta verið ríkisstjórn hinna þá hefði gilt allt önnur lögmál.

    Vil bara segja að Mörður féll út af því að fólk vissi ekkert hvað hann hafði gert á síðasta kjörtímabili. Vissi ekki einu sinni af hverju hann var á Alþingi. Hélt einna helst að hann hafi verið mest í kaffi og að leika sér á netinu. Nei það hefði þurft að setja saman áróðursbatterí, þar sem rithöfundar eins og Hallgrímur Helgason myndu búa til sögur um það Mörður átti að hafa verið að gera, en gerði því miður ekki. Fólk kaus Mörð m.a. ekki af því að hann varði Svavarsamninginn út í rauðann dauðann. Studdi líka skjaldborgina og Jóhönnu, sem fólkið í landinu vill ekkert hafa að gera með lengur. Einhver góðviljaður ætti nú að gefa Merði rauða rós að lokum. Tími hans er endanlega liðinn.

  • Sigurlaug

    Mér finnst bara algjör óþarfi að gera þessa göngu verkalýðsins á 1. maí eitthvað græna. Hún er og á að vera rauð!
    Umhverfissinnar hengja sig á fjöldagöngu verkalýðsins til að nýta mannmergðina til að koma sínum málum á framfæri.
    Þeir geta bara fundið einhvern annan dag.

  • Haukur Kristinsson

    „Decadence“ hefur ekki aðeins einkennt pólitíkina á klakanum síðustu 20 árin, einnig verkalýðshreyfinguna. Þegar hún fékk umboð yfir lífeyrissjóðum landsmanna var það henni ofvaxið og menn fóru að breyttast í apa og apaketti.

    Annars hefur græna hreyfingin aldrei fest rætur á skerinu. Vg eru hálfvolgir, sem og Samfylkingin og Hrunflokkarnir, Íhaldið og hækjan gefa skít í slíka stefni eins og hinn nýkjörni „dúddi“ Brynjar Nielsson minnir heldur betur á.

    Þó eru hópar að skreyta sig með græna litnum eins og öfga hægrimenn gerðu. Hægri brúnir hefði passað þeim betur.

    Þetta er allt á skelfilega lágu plani.

  • Snæbjörn Guðmundsson

    Jah, hefur verkalýðshreyfingunni e-n tímann verið sérstaklega umhugað um umhverfið og náttúruna?

    http://eyjan.pressan.is/frettir/2012/12/16/gagnrynir-vg-vegna-rammaaaetlunar-thad-tharf-ad-virkja-a-islandi-natturuverndarsinnar-vidurkenna-thad/

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur