Föstudagur 21.06.2013 - 07:58 - 19 ummæli

Allt vill lagið hafa: Teigsskógur, Þjórsárver

Skammt stórra högga á milli – og samt einsog kemst nýja stjórnin ekkert áfram (hvar er Helguvík eiginlega, og öll hin verðmætasköpunin sem átti að borga skuldir heimilanna?). Eftir djarflega framrás Framsóknarmannsins í mörgu ráðuneytunum gegn rammaáætlun og veiðigjaldi er komið að ráðherrum Sjálfstæðisflokksins.

Nú ætlar Hanna Birna Kristjánsdóttir að rústa Teigsskógi og þvera tvo firði fyrir vestan rétt eftir umhverfisslysin í Kolgrafarfirði – hún er búin að skoða skóginn og hefur komist að því að þarna sé ekkert sem máli skiptir: Jújú, þarna er ósköp fallegt en það er víða á Vestfjörðum. (Muniði? — Kárahnúkar, oft séð svona áður).  Og hún ætlar reyndar ekki að ákveða þetta sjálf, neinei, heldur á svarið að koma út úr nýja umhverfismatinu – og þar annaðhvort talar hún þvert á eigið vit eða fyrrverandi sveitarstjórnarmaður og borgarstjóri veit ekki hvað umhverfismat er: Á endanum ákveða hinir kjörnu fulltrúar og bera ábyrgð – en HBK er búin að ákveða hvað sem ábyrgðinni líður.

Af hverju ekki göng? Má aldrei vinna náttúrunni í hag? Möguleikum framtíðarinnar í útivist og ferðaþjónustu? Verst er kannski að ástæðan fyrr því að Teigsskóg á að brjóta í spón er ekki ferðavandi í Patreksfirði-Tálknafirði-Bíldudal heldur metnaður og hégómagirnd ráðherrans sem nú ætlar að veifa tré athafna og framkvæmda og sýna hvað í henni býr þótt hinir séu seinir til.

Annar ráðherra úr sama flokki, Ragnheiður Elín Árnadóttir, ruddist svo fram á sviðið í gærkvöldi og heimtar að stækkun friðlandsins í Þjórsvárverum verði frestað – langþráður áfangi sem sem síðasti umhverfisráðherra gat ráðist í eftir samþykkt alþingis um að leggja af áform um Norðlingaölduveitu (rammaáætlun!). Hér verður sko aldeilis að athuga málið betur og tala aftur við Landsvirkjun, segir hinn grandvari iðnaðarráðherra – og skipar aumingja Sigurði Inga Jóhannssyni að hætta við þegar auglýsta ferð sína í dag í Árnes.

Allt vill lagið hafa, einsog segir bifvélavirkinn í Spaugstofunni — þessi með sleggjuna.

 

PS: Nýjasta nýtt — Landbúnaðar-, sjávarútvegs- og umhverfisráðherra stóð sig einsog hetja, hlýddi skipun Ragnheiðar Elínar og hefur frestað friðlýsingunni sem hann hafði sjálfur auglýst. Engin athöfn í Árnesi klukkan 15. Allt vill lagið hafa.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Haukur Kristinsson

    Framganga stjórnvalda í veiðigjalds málinu sýnir okkur enn einu sinni hversu mikið bananalýðveldi Ísland er. Eiginlega er þetta bara skelfilegt. Í alvörunni.
    Allar vonir um nýtt og betra Ísland eftir Davíðs-hrunið og Búsáhaldarbyltinguna geta menn grafið.
    Ástandið hefur jafnvel versnað eftir Alþingiskosningar 2013. Í hóp nýrra þingmanna eru tossar og undirmálsmenn sem eiga ekkert erindi á þing.
    Brynjar Nielsson, Þorsteinn Sæmundsson og Vilhjhálmur Árnason hafa þegar fallið á inntökuprófi og munu ekki bæta upp á ímynd stofnunarinnar. Já, lengi getur vont versnað.

  • vidar kjarr a vestfjördum en i s.k Teigsskogi. Er ekki kominn timi til ad ibuar sunnanverdra vestfjarda njoti vafans . tetta er enginn skogur heldur kjarr og minna en t.d vid odrjugshals

  • Sverrir Hjaltason

    Mannskepnan er hluti af náttúrunni. Umhverfisverndarsinnar sumir hverjir virðast ekki vera áttaðir á því. Þeir létu hátt út af fjörubeit fyrir rauðbrystinga þegar Gilsfjörður var þveraður. Síðan kom í ljós að fjörubeitin beið engan skaða af þveruninni nema síður væri. Engu virtist skipta þó slysagildru væri útrýmt sem búin var að kosta fleiri mannslíf vegna snjóflóða og skriðufalla. Svipaður hamagangur fór af stað þegar hættulegur vegur gegn um Grábrókarhraun var lagfærður.

    Sama rugl er í gangi varðandi Teigsskóg. Þar er verið að bera hagsmuni almennings fyrir borð og ekki verður séð að náttúran skaðist umtalsvert fyrir vikið. Sumarhúsaeigendur á svæðinu hafa haft uppi mótmæli en eiga þeir að hafa forgang fram yfir almannahagsmuni?

    Þjórsárvirkjanir eru búnar að mala okkur gull og eiga eftir að gera enn frekar þegar rennslisvirkjanir neðar í ánni koma í gagnið. Gildar ástæður eru hinsvegar fyrir stækkun friðlands í Þjórsárverum.

  • Skögultönnin í Borgartúni, Perla Honnu Birnu. Flestir vita á hverju er von.

  • Nú verður þú að útskýra aðeins. Hvernig rústar það þessu landsvæði að leggja yfir það malbikaðan veg?

    Er merkilegi hluti þess nákvæmlega 10 metrar á breidd og beint undir fyrirhuguðu vegstæði?

  • Fons o.fl. — Kynnið ykkur málsgögn, farið í Teigsskóg. Vegur um skógarhlíðina eyðileggur skóginn nema sem skraut út um bílglugga á 100 km hraða. Aðrir kostir eru í boði — og ekki endilega miklu dýrari. Þráhyggja og ofstopi valdsmanna í héraði og í kerfinu hefur hinsvegar komið málinu í hnút — og tafið í áratug nauðsynlegar vegabætur. ,,Ákvörðun“ Hönnu Birnu bætir ekki úr.

  • kristinn geir st. briem

    geri ráðfyrir að mörður sé þá á móti fiskeldi á vestfjörðum það meingar fjörðin um teigsskóg vandamálið er peníngaskortur það síndi sig fyrir norðan þegar menn tóku lítið tilit til heimamana töluverður aukakosnaður vegna snjómoksturs ymsir veigir sem lagðir hafa verið reinst íllfærir á vetrum hef trú á því að heimamenn hafi meiri vit á vegstæði þarna en mörður á senilega nóg fé til í vösum sínum nema hann vilji hjálpa mönum að flitja burtu og fá algera friðun það er senilega ódýrara
    um þjórsárver: ertu ekki feigin að það sé sigurður ingi sé umhverfiráðherran frekar en ragnheiður elín hann vill skoða umsagnir er það ekki faglegt voru menn ekki ánægðir með eilífðar biðflokkin.
    hvaða skoðun hefur mörður á stækun búrfels kárahnúka blondu

  • Þetta útspil er til þess ætlað að ýta á þanþol okkar sem erum á móti þessum hernaði gegn landinu.

    Svo verður dregið í land og aðrar virkjunarkostir líta þá mun betur út.

  • Merkilegur maður Mörður. Nú hefur hann tekið ástfóstri við Teigsskóg en hefur aldrei þangað komið svo skjalfest sé. Fallegt kjarri vaxið svæði vissulega en hefur tæplega yfirburði eða einhvern sérstakan sess umfram önnur áþekk svæði. Kjarri vaxið Grímsnesið er náttúruperla en þar er nú eitt fjölbyggðasta sumarbústaðaland landsins og eðli málsins samkvæmt sundurskorið af vegum og stígum. Fáir eða engir hafa gert athugasemdir við það. Hallormsstaðaskógur er víðfræg náttúruperla. Eftir skóginum endilöngum liggur malbikaður vegur. Enginn ágreiningur hefur verið um það enda gert ferðamönnum kleift að njóta dýrðarinnar auk þess að auðvelda bændum á svæðinu aðdrætti. Sama ætti auðvitað að gilda um Teigsskóg en því miður eru háværir kaffihúsaspekingar í 101 Reykjavík að þvælast fyrir og hiklaust ræðst Mörður að þeim sem hann kallar valdsmenn í héraði og sakar þá um ofstopa og þráhyggju. Hvað má þá kalla hans framkomu; manns sem hefur allan sinn aldur varla komið út fyrir borgarmörkin og hvað þá kynnt sér af heilindum rök heimamanna á Vestfjörðum um yfirburði þeirrar leiðar sem liggur um Teigsskóg bæði er tekur til hagkvæmni, styttingu leiðar og öryggis einkum að vetrarlagi. Og síðan og ekki síst fá vegfarendur að njóta þeirrar náttúruperlu sem Teigsskógur er og má sjá fyrir sér útskot þar sem þeir geta staldrað við, teygt úr sér og virt fyrir sér fegurð náttúrunnar á sunnanverðum Vestfjörðum. Þá væri tími til kominn fyrir Mörð og fleiri hans líka að rífa sig upp og halda vestur á vit ævintýranna. Þar yrði honum vel fagnað. Vestfirðingar eru gestrisnir og láta ekki gamlar væringar spilla fyrir gleðinni.

  • Það er ágæt að muna þessi orð Sigurðar Inga:

    „það væri eðlilegt að staldra við og fara yfir þær athugasemdir sem borist hefðu vegna fyrirhugaðrar undirskriftar friðlýsingar vegna stækkunar friðlandsins í Þjórsárverum.“

    M.ö.o. það er sem sagt að eitthvað marka athugasemdir.

  • Þverun fjarðanna er kannski ennþá stærra mál en Teigsskógur.
    Hvaða afleiðingar hafði þverun Kolgrafarfjarðar? Er þetta eitthvað sem við viljum endilega gambla með aftur?
    Breiðafjörður er nefnilega perla, og við eigum ekki að nota ódýrustu lausnirnar til að leysa samgönguvandann þar.

  • Haukur Kristinsson

    Gengur okkar Sarah Palin enn með þá grillu í kollinum að hún geti útvegað vini sínum Árna Sigfússyni orku fyrir álver?
    Hún getur alveg gleymt því. Enda mundi eitt álver eða tvö ekki breyta neinu í Reykjanesbæ.
    Það eina sem gæti reddað þeim er að Kaninn kæmi til baka með nýja sópa handa liðinu.

  • Sverrir Hjaltason

    Það er ekki leitt í ljós að þverun Kolgrafarfjarðar hafi valdið síldardauðanum. Heimildir eru um svipaða atburði löngu áður en fjörðurinn var þveraður.

  • Jón Ingi

    Næst sjáum við grænt ljós á Hrafnabjargafoss í samvinnu við Norðurorku.
    Orkufyrirtækin hafa tekið stjórn umhverfismála á ný.

  • Í bréfi Landsvirkjunar, sem forstjórinn Hörður Arnarson skrifar undir. Í bréfinu kemur fram að Landsvirkjun hafi verið kynnt fyrirhuguð friðlýsing þann 13. mars og gefinn kostur á að koma að athugasemdum innan þriggja vikna. eða þann 3. apríl. Þann 8. apríl, fimm dögum eftir að fresturinn rann út, sendi Landsvirkjun inn umsögn þar sem lagst var gegn friðlýsingunni og vakin athygli á hagsmunum fyrirtækisins innan friðlandsins. Allt frá því umsögninni var skilað inn hefur fyrirtækinu á engan hátt verið kynnt frekari framvinda málsins, segir í bréfinu.
    Vísað er í lagagrein þar sem segir að skilyrði fyrir undirritun friðlýsingarskilmála sé að samkomulag hafi náðst við landeigendur, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila.
    Ljóst er að Landsvirkjun er mjög stór hagsmunaaðili í málinu. Landsvirkjun hefur lagst gegn friðlýsingunni og ekki hefur náðst samkomulag við Landsvirkjun sem hagsmunaaðila um málið. Því virðist ljóst að skilyrði 58. gr. laganna hafa ekki verið uppfyllt og er málsmeðferð við meðferð og afgreiðslu málsins því ólögmæt,
    Þá er jafnframt bent á að í lögum segir að ef samkomulag næst ekki skuli vísa málinu til meðferðar umhverfisráðherra, en ekki hafi heldur verið unnið eftir því ferli. Í niðurlagi bréfsins segir að málið komi hugsanlega til kasta dómstóla, verði af undirrituninni.
    Landsvirkjun fer fram á að fyrirhugaðri undirritun friðlýsingarskilmála verði frestað í ljósi verulegra annmarka á málsmeðferð. Áskilur Landsvirkjun sér allan rétt til að láta reyna á þær ákvarðanir sem teknar eru í ofangreindu efni með kæru á stjórnsýslustigi og/eða fyrir dómstólum, verði málinu ekki frestað og meðferð þess og afgreiðsla endurskoðuð

  • Minni á náttúruspjöll vinstri manna í Reykjavík.

    M.a:
    Hvernig þrengt hefur verið að Elliðaárdalnum.

    Og stórbrotin spjöll Dags Eggertssonar og Samfylkingar í Öskjuhlíð og Nauthólsvík þegar HR var gefin þar lóð.

    Maður líttu þér nær!

  • Mörður !

    Hvenær ætlar þú að skrifa svona um náttururuslakistu Reykjavíkur , Hvalfjörðinn ?

    Þú veist allt um allt sem búið er að gera við Hvalfjörðinn !!

    Þú og þínir flokksfélagar hafið haft, og hafið, allt umráðavald yfir öllu sem verið er að gera við Hvalfjörðinn !

    Faxafóahafnir hafa umráðarétt yfir öllu svæðinu !!!

    Reyndu að gera eitt eitthvað rétt !

  • Þessi vegur skemmir ekki nema lítið brot af skóginum.

    Byssukúla skemmir ekki nema lítið brot af líkamsvefjum.

  • Í Ljósi umræðna við þenna pisitl þinn Mörður vil ég minna umræður sem urðu á sínum tíma um Vatnaheiði, þar sem plantan „Skollakambur“ rataði inn í skýrslur umsagnaraðila og urður til þess að til álita kom að leggja veginn á öðrum stað. En þegar til kom þá fann enginn þessa plöntu á svæðinu!
    Hlutina þarf að setja í samhengi, hvað er í húfi? Almannahagsmunur fram yfir aðra hagsmuni, Mörður, það þarf að vega og meta! Teigsskógur er ekkert merkilegra en en annað sem við finnum í Íslenskri náttúru. Skerðing á „skóginum“ er ekki nema um 6% vegna væntanlegs vegar. Og af hverju ekki að gera almenningi og ferðamönnum mögulegt að njóta fegurðarinnar á þessu svæði á ferðum sínum um landið okkar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur