Mánudagur 01.07.2013 - 09:19 - 2 ummæli

Þar dunar undir

Mér finnst það almennt gott fyrirkomulag að ríkisvaldið láti sveitarstjórnirnar um skipulagsvaldið. Eðlilegt að heimamenn ráði hvernig þeir skipuleggja byggðina og nærumhverfi hennar. Svo koma ýmsar spurningar, svosem sú hvort allt landflæmi viðáttumikilla sveitarfélaga sé í raun eðlilegt skipulagssvæði þeirra, þar á meðal á miðhálendinu.

Þegar ríkir almannahagsmunir liggja við er skynsamlegt að fulltrúar allra landsmanna komi við sögu skipulags – þessvegna er orðið til landsskipulag sem mætti vera öflugra, og þess vegna var skipulagsmálum í rammaáætlun komið þannig fyrir að sveitarfélögin verða að lokum að sætta sig við verndar- eða orkunýtingarákvörðun alþingis.

Kannski bara af því ég er Reykvíkingur hafa mér hinsvegar ekki hugnast hugmyndir um sérstök afskipti alþingis eða ríkissstjórnar í Kvosinni. En er nú fullkomlega reiðubúinn að skipta um skoðun.

Forsætisráðherrann nýi hefur nefnilega boðið aðstoð sína og ríkisvaldsins við að leysa þar leiðinlegt skipulagsvandamál.

Það er reyndar ekki nema sanngjarnt, því vandinn er í upphafi sínu ríkinu að kenna. Ákvæði í skipulagslögum (nú í 51. grein, hér) veitir lóðareigendum feikilegan skaðabótarétt ef framtíðarmöguleikar þeirra eru skertir með nýju skipulagi, og af þessum völdum eru sveitarstjórnarmenn afar hikandi við skipulagsbreytingar sem kynnu að koma af stað dómsmálum – reyna frekar að semja sig framhjá gífurlegum fjárútlátum sem hin besta skipulagslausn kynni að valda. Þetta ákvæði ætti eiginlega að kalla braskaragreinina – því hún er mikið haldreipi þeirrar arfhelgu stéttar. Og skaðræði fyrir gamla sögulega byggð. Tilraunir hafa verið gerðar til að breyta greininni (svosem hér) en það er auðvitað ekki hægt aftur í tímann.

Í Kvosinni vill svo til að í gildi er skipulag sem einmitt hefur reynst bröskurum hvatning til að fjárfesta – Davíð Oddsson bjó þetta til á sínum tíma með öðrum stórkörlum. Vandinn sem sveitarstjórnarmenn í borginni standa frammi fyrir núna er sá að ef þeir ná ekki samningum eiga þeir, og allir Reykvíkingar, á hættu gríðarleg fjárútlát ef reynir á braskaragreinina fyrir dómstólum.

Ríkissjóður hjálpar Reykvíkingum!

Forsætisráðherra hefur nú komið til bjargar. Hann ætlar að sameina skipulagsvald í hluta gamla miðbæjarins þannig að ríki og borg verði í einum báti gagnvart bröskurunum og 51. greininni í skipulagslögum. Þetta eiga borgarfulltrúar að íhuga alvarlega. Ekki verður betur séð en að í ummælum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á Austurvelli á föstudaginn felist fyrirheit um liðsinni – annaðhvort með því að ríkissjóður og borgarsjóður kaupi í sameiningu af aðalbraskaranum þær fasteignir í Kvosinni sem slagurinn stendur um, eða að ríkissjóður verði ásamt borgarsjóði traustur bakhjarl í dómsmáli sem fasteignaeigandinn höfðar eftir nýtt sögulegt og þjóðmenningarlegt deiliskipulag í Kvosinni.

Þar dunar undir sem hoffmennirnir ríða.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Elín Sigurðardóttir

    Þeir eru ekki braskarar sem kaupa lóðir með ákveðnum byggingarrétti. Borgin er aðalbraskarinn. Borgin ber ábyrgð á lóðauppboðsstefnunni sem leiddi til stórhækkunar á lóðaverði í borginni.

  • Að vera Reykvíkingur þýðir að vera gríðarlega afskiptur og mannréttindaskertur minnihlutahópur. Ekki nægir að Reykvíkingar hafi aðeins liðlegan hálfan kosningarétt heldur mega þeir engu ráða um eigin borg. Einir sveitarfélaga eiga þeir ekki að fá að ráða skipulagsmálum sínum, þeir mega ekki flytja flugvöllinn úr miðborginni og þeir fá ekki að nýta þau tækifæri sem Borgin býður upp á. Öllu vill sveitarvargurinn ráða og enn þegar komið er fram á 21. öldina þá ráða mjög svo vanþróuð landbúnaðarsjónarmið öllu í landinu. Ég er búinn að fá nóg.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur