Fimmtudagur 04.07.2013 - 10:18 - 7 ummæli

Utanríkisráðherra forseta Íslands

Fróðlegt að fylgjast með heimsókn Bans framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Hann kom hingað í boði utanríkisráðherra, sem nú heitir Gunnar Bragi Sveinsson, en hinn raunverulegi gestgjafi var allan tímann Ólafur Ragnar Grímsson, princeps eternus Islandiæ.

Forseti Íslands sótti að sjálfsögðu fyrirlestur Bans Ki-Moons í hátíðasal Háskóla Íslands, sem haldinn var á vegum utanríkisráðuneytisins, Háskólans og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Ban þakkaði Ólafi Ragnari sérstaklega fyrir komuna, og það var auðvitað forsetinn, og hvorki utanríkisráðherra né rektor, sem fylgdi Ban til dyra að fyrirlestrinum loknum.

Svo hitti Ban forsætisráðherrann á Þingvöllum í árbít en að dagslokum var reiddur fram kvöldverður fyrir hinn tigna gest. Það var ekki hjá utanríkisráðherranum (auðvitað nokkuð langt í Skagafjörð og Kaupfélagið) heldur á Bessastöðum. Þangað mun Ban einmitt hafa komið nokkru fyrir upphaf kvöldverðarins til að ræða við forsetann um heimsmálin.

Og hvar gisti framkvæmdastjórinn? Í svítunni á Sögu eða öðru þokkalegu hóteli í boði Gunnars Braga utanríkisráðherra? Neinei — hann fékk inni í villunni við Fjólugötu, hinu virðulega stórhýsi sem Silli í Silla-og-Valda gaf forsetaembættinu á sínum tíma og notað er síðan fyrir einkagesti forsetans.

Niðurstaðan í þessari prótókollísku kremlólógíu er auðvitað bara sú að núverandi ríkisstjórn, sem oftast er sögð tveggja flokka, er í raun þreföld. Hana mynda:

* Framsóknarflokkurinn með Sigmund Davíð og félaga í forsætisráðuneyti, þjóðmenningu, virkjunum og skuldavesini,

* Sjálfstæðisflokkurinn með Bjarna í peningunum og Illuga í ídeólógíunni,

* – og Ólafur Ragnar Grímsson með utanríkisráðherrann á Rauðarárstígnum en höfuðstöðvar á Sóleyjargötunni.

 

 

 

(Örlítið breytt frá upphafsgerð í ljósi nýrra upplýsinga.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Elín Sigurðardóttir

    En hvar var forsætisráðherra þegar breytingar á stjórnarskránni voru samþykktar? Hefurðu eitthvað fylgst með því?

    http://visir.is/breytingar-a-stjornarskranni-samthykktar-/article/2013130709628

  • ÓRG hefur tekið sér hlutverk de Gaulle og er að þróa stjórnskipuninna í átt að stjórnskipun líkri franskri stjórnskipan eða semi presidental system.

    Þar sem forsetinn er ábyrgur fyrir utanríkismálum en forsætisráðherra ábyrgur fyrir innanríkismálum.

    http://en.wikipedia.org/wiki/Semi-presidential_system

  • Halldór Halldórsson

    Á einhver í fórum sínum ræðusafn og yfirlýsingar Marðar Árnasonar frá þeim tíma að hann var „besti vinur aðal“, þegar Ólafur R Grímsson var í sama flokki og hann; og var það ekki líka þegar hann fyrst bauð sig fram til forsetaembættisins?

  • Óttalegt er að heyra þessi endalausu önug heit og spælingar tal ykkar fallinna þingmanna Samfylkingarinnar út í forseta Íslands og nýja utanríkisstefnu þjóðarinnar sem meirihluti þjóðarinnar kaus þegar ykkur var hafnað !

    Farið þið nú að sinna einhverju öðru sem hæfir ykkur betur en þessu eilífðar væli !

  • Óðinn Þórisson

    Rauða – Ríkisstórinin fékk Rauða Spjaldið frá þjóðinni 27 apríl..

    Nú er það x-d og x-b að annarsvegar að leysa skuldavanda heimilanna og hinsvegar að koma hjólum atvinnulfísins aftur af stað.

  • Skrýtin þessi áhersla á prótókoll í tengslum við heimsóknina.

    Ég hélt að vinstri menn kærðu sig ekki um slíkan formalisma og hallærislegheit en það er greinilega ekki rétt hjá mér.

    Forsetinn var víst einu sinni vinstri maður, nú er allt í kringum hann eins og hann sé kóngur.

    Er hann ekki annars kóngur?

    Kannski dreymir vinstri menn um að verða kóngar og drottningar auðvitað og eiga það sameiginlegt með þeim á hægri vængnum?

    Annars er þetta allt satt og rétt hjá Merði Árnasyni. Nýi utanríkisráðherrann er beinlínis fyndinn, minnir einna helst á Ögmund Jónasson þegar alvara lífsins og ábyrgðin hellast yfir hann.

    Drepfyndnir.

  • Björn Sig.

    Ekki vissi ég að forsetaembættið ætti villur út um allan bæ.

    Enn eitt veit ég að skóflupakkið sem er flest hvert að fá lágmarkslífeyri, getur ekki haldi uppi verðtryggðum lífeyri fyrir Elítuna.

    http://www.dv.is/sandkorn/2013/7/9/othaegilegir-ellidagar/

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur