Miðvikudagur 25.09.2013 - 10:39 - 12 ummæli

Rakalaus umhverfisráðherra

„Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að afturkalla lög um náttúruvernd nr. 60/2013 sem voru samþykkt á Alþingi rétt fyrir þinglok í vor.“ Upphaf fréttar sem birtist á vefsetri umhverfisráðuneytisins í gærkvöldi?

Skrýtið orðalag – ráðherra „hefur ákveðið“? En þingið? Er það ekki alþingi sem samþykkir lög og breytir þeim? Og „afturkalla“? Hvað merkir það orð um lög? Er það eitthvað annað en nema úr gildi, afnema, ónýta fyrri ákvörðun?

En fyrst og fremst skortir rök í fréttatilkynninguna og ummæli ráðherrans í fjölmiðlum. Náttúruverndarlögin nýju eru afrakstur lengri og vandaðri vinnu og samráðsferils en nokkur annar sambærilegur lagabálkur á síðari áratugum. Rétt er að ekki var um þau fullkomin „sátt“ – það verður seint um lög sem þessi, en það er heldur ekki „sátt“ um núverandi lög frá 1999, sem eru stórgölluð þótt í þeim hafi á sínum tíma falist ákveðin framfaraskref.

Eftir mikla vinnu í umhverfisnefnd alþingis á síðasta þingi tókst hinsvegar að ná um frumvarpið bærilegri samstöðu þannig að flestir helstu gagnrýnendur töldu sig geta unað við lausnirnar. Helst bar á óánægju frá þremur afar mismunandi hópum: 1) ákveðnum harðlínumönnum í hópi vélvæddra útivistarmanna, sem ekki fella sig við neinskonar takmörkun á akstri utan vega, 2) sérflokki áhugamanna um skógrækt, sem í raun beinist ekki síður að núverandi lögum, 3) SA og ýmsum verktakahópum sem einkum óttuðust „sérstaka vernd“ ákveðinna jarðminja og vistgerða: Eldhraun, fossar, hverir – en einmitt þessi grein núverandi laga (37. greinin) hefur verið talin nánast ónýt með þeim afleiðingum að hægt er að ganga á augljós náttúruverðmæti þrátt fyrir fögur orð í lögunum.

Það var athyglisvert við umfjöllun um lagafrumvarpið í umhverfisnefnd að fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru aldrei tilbúnir til neinskonar umræðu eða samningsumleitana um niðurstöðu mála. Þeir höfðu ekkert fram að færa í umræðu um akstur utan vega. Þeir hvorki tóku undir bollaleggingar skógarmanna né andæfðu þeim. Og þegar til átti að taka vildu þeir ekki setjast niður til að athuga samningsfleti á ákvæðunum um „sérstaka vernd“.

Í þinglok hófst hinsvegar eitt af hinum frægu málþófum, sem meðal annars beindist gegn frumvarpi til náttúruverndarlaga sem slíku – en að lokum varð samkomulag um afgreiðslu þess með gildistökufresti og sérstökum ákvæðum um utanvegaakstursgreinarnar. Í loka-atkvæaðgreiðslu varð frumvarpið gert að lögum með 27 atkvæðum gegn 0 – enginn Framsóknarmaður eða Sjálfstæðismaður greiddi atkvæði á móti lagafrumvarpinu sem nú á að henda í ruslið.

Áform ráðherrans um afnám laganna eru auðvitað brigð við það samkomulag – en mikilvægast er þó að rök hans eru engin fyrir afnámi laganna og gegn þeim brýnu framfaraskrefum sem í lögunum felast – um aukna náttúruvernd, um bætt nútímalegt skipulag friðunar, um aukinn almannarétt til ferða um landið en líka um raunhæfar aðgerðir gegn akstri utan vega.

Bót í máli að næstu daga gera allir helstu fjölmiðlar landsins skyldu sína, fara ofan í málið, skýra fyrir landslýð breytingarnar í nýju lögunum, tala við fræðimenn, sérfræðinga, lögspekinga, stjórnmálamenn, hagsmunaaðila og áhugafólk sem nærri hefur komið – og sleppa ekki ráðherranum fyrren hann hefur lagt fram alvörurök fyrir þeirri „ákvörðun“ sinni að „afturkalla“ nýju lögin um vernd íslenskrar náttúru.

 

Fréttin á vef ráðuneytisins hér, „Lög um náttúruvernd afturkölluð“.

Lögin hér, og hér álit meirihluta umhverfisnefndar með vandlegri umfjöllun um álitamál og gagnrýni á lögin.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Þessi ágæti þingmaður, því þingmaður er hann fyrst og fremst, svo ráðherra var ekki lengi að skjóta sig í fótinn sem „hentistefnuráðherra“.
    Téður Sigurður vældi sem menn og konur hafa aldrei vælt um áður vegna ákvörðunar um rammaáætlun, að þar hefði skort á samstarf, aðkomu ALLRA hagsmunaraðila og aðgerðin væri rammpólískt.
    Þarf e-ð frekari vitanna við ?

    Siggi sætabrauðsdrengur; reppið klárað á núll einni.
    Verður ekki orð marktakandi á ummælum frá honum um umhverfismál á þessu kjörtímabili.

  • Held að það hefði mátt ganga mildilegra í náttúruverndarlögunum gagnvart „harðsnúnum vélamönnum“ og aðgang hestamanna að hálendisþjóðgörðum.

    Verndun víðerna okkar vegur svo miklu þyngra í lögunum en sá titlingaskítur.

    Það var ekki góð pólitík að útiloka þesskonar ferðamensku.

  • kristinn geir st. briem

    skilst að þettað hafi ekki verið þverpólitískt áhvörðun afhverju menn ru að skamma aðra um leleg vinnubrög ef þeir stunda það sjálfir.
    sjálfstæðismen og framsóknarmenn töluðu um síndarsamráð en það er senilega í lagi meðan vinstri menn stundar það siðan eru menn heilagari en páfin þegar menn koma í stjórnaranstöðu.ég lenti í einu svona svokölluðu samráði intakinu mátti ekki breita en ég mátti ráð hverssu hvast var til orða haldið taldi það lélegt samráð
    1. harðlínumanna í vélvædra útivistarmanna veit ekki brtur enn að hestamen hafi ekki allir verið sádátir eflaust voru þeir harðlínumenn svona gétum við talið upp harðlínumennina held það hafi verið fleiri enn bara skógræktafólk verktakar sem voru ósátir
    en það má hafa reglurnar svo villausar að það sé ekki hægt að fara eftir þeim

  • Haukur Kristinsson

    Jónas Kristjánsson, ritstjóri, var að birta pistil sem á erindi til allra.

    „Hatur framsóknarmanna á náttúrunni er gamalgróið. Munið þið eftir Valgerði Sverrisdóttur og Siv Friðleifsdóttur? Þóttust vera töff. Framsókn er bara jarðvöðull, sem elskar jarðýtur og grjótflutninga, skurðgröfur og jarðbora. Þetta í blóðinu. Nú er kominn nýr ráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson. Segist ætla að afnema nýju náttúruverndarlögin. Frestar friðlýsingu Þjórsárvera. Færir virkjunarkosti úr biðflokki í nýtingarflokk. Segist slátra rammaáætlun um sátt milli virkjana og friðunar. Segist helzt vilja leggja niður sjálft umhverfisráðuneytið. Samtals heitir þetta einfaldlega: Hatrið á náttúrunni.“

    Það sem einkennir núverandi ráðherra og valdamenn hækjunnar er einkum heimóttarskapur og „banality“. Lítt menntaðir þröngsýnir frekjudallar stjórna landinu.

    En meirihluti innbyggjara kaus þessa vitleysu yfir sig.

    Verði þeim að góðu!

  • asi — Í lögunum er ekki stafur um aðgang hestamanna að hálendisþjóðgörðum. Hann er væntanlega ákveðinn í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs (þar sem ,heimamenn’ ráða mestu). — Í lögunum eru vissulega raunhæfar ráðstafanir gegn akstri utan vega, en engan veginn ráðist gegn alandi útivistarfólki — nema þá þeim fáu í þeim hópi sem standa almennt á móti banni við utanvegaakstri.

  • Mörður – Skil þig.

    Hef ekki lesið lögin — aðeins túlkun annara á þeim — þ.á. m. Klúbb 4×4
    ( „harðsnúnir vélamenn“) og hestamanna sem voru að fjargvirðast yfir því að fá ekki að fara um Vatnajöulsþjóðgarð. M.a. um Vatnsskarð.

    Þegar lögin voru í smíðum þá voru 4×4 menn mjög háværir í umræðunni og tóku hana nánast í gíslingu og mótuðu mjög álit almennings.

    Því miður virðist sú umræða enn vera á villigötum. Og þar gætti enn miskilings hjá mér þar til nú. Takk fyrir það.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Það er til orð yfir mannkerti eins og umhverfisráðherra.

    Þeir eru kallaðir framsóknarmenn.

  • kristinn geir st. briem

    MÖRÐUR:það er ekki heldur í vatnajökulsþjóðgarði stendur að leita skal eftir samráði viðkomandi sveitarstjórnar auðvelda aðgeingi gétur verið að ráðheran hafi gert samníng við sjálfan sig þegar hann hefti umferð um svæðið finst þettað furðuleg lög 1. tilnemdur af umhverfissamtökum 2 frá ráðherra og 1 frá hverju langsvæði eða 4 sem eiga kanski lítið sameiginegt s.s 7
    lög no. 60, 2013. 29gr. og 31gr. 32gr. svo heimildin er til í lögum 60. 2013 svo ekki koma sökinni þjóðgarðinn

  • „ákveðnum harðlínumönnum í hópi vélvæddra útivistarmanna“ Ætli vélvæddir útivistarmenn séu ekki langstæsti hópur útivistarmanna á landinu, en þið og VG hafið verið mjög dugleg að hrekja það fólk frá ykkur og þar á meðal mig.

    „sem ekki fella sig við neinskonar takmörkun á akstri utan vega“ Útivistarfólk má ekki aka utanvega samkvæmt núgildandi lögum nema á snævi þakinni og frosinni jörð. Hinsvegar meiga ýmsir aðrir (bændur, verktakar o.fl.) aka utan vega við vinnu sína og það hefði ekki breyst með nýju lögunum. Vaninn er svo að kenna vélvædda útivistarfólkinu um allt, sáist för.

  • Andri — Einmitt á þessu var tekið í lögunum sem SIJ ætlar að afnema, samkvæmt hugmynd úr ykkar hópi, nefnilega að þeim sem hafa leyfi til að aka utan vega (verktakar, vísindamenn o.s.frv.) þyrftu að geta gert grein fyrir ferðum sínum, og yrði þar með ekki ruglað við aðra. — Ég talaði um ákveðinn hluta vélvæddra útivistarmanna, því að þar hafa menn ekki eina skoðun, og innan hópsins er því miður hávær minnihluti sem er á móti öllum aðgerðum gegn utanvegaakstri, nema þá helst fyrirbænum og fögru tali.

  • Aðalsteinn Sigurgeirsson

    „Skógræktarfélag Íslands telur í ljósi þeirra miklu gagnrýni sem kom fram á frumvarpið þar sem hátt í 200 umsagnir komu fram að nauðsynlegt sé að endurskoða þau frá grunni. Náttúruvernd á Íslandi er mikilvæg. Það er hins vegar nauðsynlegt að um þann lagaramma sem lagður er til grundvallar ríki almenn sátt og þau hafi víðtæka skírskotun í samfélagi hvers tíma,“ segir í tilkynningunni.
    http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/09/26/fagna_afturkollun_natturuverndarlaga/

  • Aðalsteinn Sigurgeirsson

    Mörður segir: „Náttúruverndarlögin nýju eru afrakstur lengri og vandaðri vinnu og samráðsferils en nokkur annar sambærilegur lagabálkur á síðari áratugum.“
    Hið rétta er að lögin voru afrakstur langs og vandaðs SÝNDARsamráðs þar sem haghöfum var boðið að senda inn margar, langar, ígrundaðar og vandaðar umsagnir á ýmsum stigum málsins (tvö frumvörp og ein „hvítbók“). Því miður kusu þeir sem véluðu um málið að stinga öllum þeim umsögnum undir stól og taka ekkert tillit til þeirra.
    Af fréttatilkynningu umhverfis- og auðlindaráðherra má ráða að nú fyrst fái þessar umsagnir yfirlestur í ráðuneytinu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur