Fimmtudagur 26.09.2013 - 12:21 - 19 ummæli

Veit ekki hvað stendur í lögunum

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra virðist ekki vita sérlega mikið um nýju náttúruverndarlögin sem hann hefur ákveðið að „afturkalla“. Í slitróttum símtölum við fjölmiðla í gær voru tínd út úr honum nokkur atriði sem hann vildi láta leggjast yfir. Sumt auðvitað athyglisvert – og umrætt öll þau fjögur ár sem lagasmíðin tók. Annað afar einkennilegt, og ber því vitni að ráðherrann er einsog ekki undirbúinn.

Hér er aðalatriði RÚV-viðtals við Sigurð Inga Jóhannsson umhverfisráðherra frá í gær, þar sem hann

… segir að lögin séu of umdeild. „Til að mynda er varðar ferðafrelsi fatlaðra, umgengnisrétt landeigenda um sitt eigið land, og reyndar ýmis fleiri atriði sem varða skipulagsvald sveitarfélaga, og annað í þeim dúr,“ segir Sigurður.

Annað í þeim dúr, sumsé.

Tökum fyrsta atriðið: Ferðir fatlaðra. Rétt er að bæði Sjálfsbjörg og einstakir útivistarmenn úr hópi fatlaðra gerðu athugasemd við ákvæði frumvarpsins um utanvegaakstur af því þau þrengdu um of að ferðafólki sem vegna fötlunar sinnar ætti ekki annan kost til að komast á ýmis náttúrusvæði en að fara þangað í bíl eða öðru vélknúnu farartæki.

Þetta er reyndar sama staða og í lögunum frá 1999, en nýju lögunum er ætlað að koma í veg fyrir óþarfan utanvegaakstur með einskonar vegakerfi á hálendinu, með heimilum slóðum, og eftirliti með því að ekki sé ekið utan þeirra vega (frekar en vega á láglendi!). Þar höfðu fatlaðir ferðamenn ekki sérstöðu (nema í þjóðgörðum) samkvæmt upphaflega frumvarpstextanum.

Í umhverfisnefnd alþingis var erindi fatlaðra vel tekið. Á banninu við utanvegaakstri eru undantekningar, bæði í gömlu lögunum og þeim nýju, svo sem fyrir bændur, rannsóknarmenn, starfsmenn stofnana og fyrirtækja sem þurfa um hálendið vegna vinnu sinnar. Erfitt er að ná með sérstakri lagagrein yfir þau tilvik sem upp geta komið um ferðir fatlaðra þannig að við ákváðum að leggja til við þingið að samþykkja sérstaka undanþáguheimild um slíkar ferðir. Fyrst stóð til að fela Umhverfisstofnun samráð og mótun heimildarinnar, en að lokum var ákveðið – að ábendingu Sjálfsbjargar – að ráðherrann yrði látinn véla um þetta sjálfur. Svona er þetta í 4. og 5. málsgrein 31. greinar laganna sem á að „afturkalla“:

* Ráðherra skal, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, kveða í reglugerð á um undanþágur frá banni skv. 1. málsl. 1. mgr. [þ.e. banninu við akstri utan vega].
* Ráðherra er einnig heimilt að veita undanþágur vegna annarra sérstakra aðstæðna, svo sem fötlunar, og skal í reglugerð samkvæmt grein þessari kveða á um nánari skilyrði fyrir veitingu þeirra.

Nýju náttúruverndarlögin skerða ekki ferðafrelsi fatlaðra – þvert á móti. Þar ræður sá ráðherra sem um er rætt í 31. grein laganna, nefnilega umhverfisráðherra. Núverandi umhverfisráðherra heitir Sigurður Ingi Jóhannsson.

En Sigurður Ingi Jóhannsson hefur bara ekki lesið lögin sem hann ætlar að afnema.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Teitur Atlason

    Þetta eru merkileg tíðindi. En hver er hin raunverulega ástæða fyrir afnámi þessara laga fyrst þau eru greinilega ekki þau sem haldið er í frammi?

  • Tja? Það sem ég held: Andstaða við náttúruvernd af því hún geti þrengt að ,,framkvæmdum“. Sérstaklega greinin um ,,sérstaka vernd“ (57 gr.).

  • Það er rétt og skylt hjá Sigurði Inga að klóra aðeins í þetta umdeilda sköpunarverk Svandísar Svavarsdóttur sem einkennist af boðum og bönnum og kostnaðarsömu eftirliti með ferðalöngum um víðerni landsins. Það er nauðsynlegt að setja skynsamlegar reglur en þær mega ekki vera svo heftandi að landinn megi helst ekki fara í berjamó, göngumenn verði að vera í sérvöldum gönguskóm á mosagrónu landi og reiðhjól illa séð og nánast bönnuð á hálendinu. Fyrr má nú vera ástin á gróðurvana öræfunum.
    Og ef endurskoðunin opnar fyrir möguleikann á Norðlingaölduveitu er það gleðiefni fyrir land og þjóð á þessum síðustu og verstu tímum. Fjalldrottningin í uppsveitum Rangárvallasýslu svaraði fréttamanni skorinort þegar hún var spurð um veituna og Þjórsárverin. „Ég sé ekkert athugavert við þá framkvæmd og hún mun ekki skerða Þjórsárverin. Hér ólst ég upp og hér hef ég búið og þekki hverja þúfu. Ég þekki Þjórsárverin betur en margur þarna á Suðvesturhorninu og veit upphaf þeirra og endi og skil ekki þessa þráhyggju umhverfisverndarsinna að teygja verin sífellt sunnar.
    Það færi því vel á því, að Mörður bíði aðeins með dómhörkuna og snúi sér að málum málanna. Hann gæti til dæmis hneykslast á því að hin forríka danska kattarkona sem kom með einkaflugvél til landsins lét ekki svo lítið að launa björgunarsveitarmönnum fyrirhöfnina við leitina á kettinum en hirti sjálf fundarlaunin. Og svo mál alltaf hnýta í Davíð Oddsson. Það er sígild dægrastytting í gúrkutíð.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Er þetta ekki bara fyrsta skrefið að losna við Rammaáætlun?

  • kristinn geir st. briem

    skildi það vera tilviljun að þau taka gildi . 1. apríl . 2014 þegar ég les frumvarpið sé ég að svandís hefur húmorin í lagi

  • Enda lögin þvælin og málatilbúnaður byggir að hluta á hálfsannleik, þagnarlygi og fordómakenndum hræðsluáróðri. Framganga þeirra sem að þessu stóðu hefur gert heiðarlegri náttúruvernd mikinn óleik. Hafið skömm fyrir.

  • Sæll Mörður,
    ekki voru ráðherrar og stjórnarþingmenn eitthvað betur upplýstir um eigin frumvörp á síðasta kjörtímabili eins og þú veist vel sjálfur.

    Hér eru dæmi: http://ludvikjuliusson.blog.is/blog/ludvikjuliusson/entry/1294534/

    Þess vegna er þessi vínkill á málið ekkert sérstaklega málefnalegur.

    Þar af leiðandi væri betra að ræða málefnið og hvers vegna frumvarpið sé nauðsynlegt í stað þess að þræta um þekkingu ráðherrans á frumvarpinu sjálfu.

    kv. Lúðvík

  • Hlynur Páll Pálsson

    Sæll Lúðvík.

    Þetta þykir mér vera sérlega áhugaverð röksemdarfærsla hjá þér. Það er sem sagt ómálefnalegt að benda á að ráðherra hafi ekki nægilega þekkingu á lögum sem hann gagnrýnir, af því að þingmaður á síðasta kjörtímabili þekkti sjálfur ekki nægilega vel önnur lög sem koma þessu máli ekkert við (sbr. bloggfærslan þín).

    En bíddu nú við. Ef það er ómálefnalegt að hnýta í það að kjörinn fulltrúi þekki ekki nægilega vel það sem hann er að tala um, þá velti ég því fyrir mér hvort að þú hafir ekki líka verið ómálefnalegur þegar þú ritaðir þinn bloggpistil?

  • Hlynur Páll Pálsson, ég var hvorki þingmaður né ráðherra á síðasta kjörtímabili og greiddi ekki atkvæði með eigin frumvarpi né öðrum frumvörpum á Alþingi sem ég þekkti ekki. Þess vegna er ég ekki ómálefnalegur þegar ég bendi á vanþekkingu ráðherra og þingmanna.

    Það sem ég er að benda á er að þingmaður sem greiddi atkvæði með frumvarpi sem hann þekkti ekki er ekki í sérstaklega góðri stöðu að gagnrýna aðra sem gera það sama. Hér skiptir auðvitað engu máli þó að frumvörpin séu ekki hin sömu þar sem Mörður gerir hér kröfu um að þingmenn og ráðherrar þekki fullkomlega öll frumvörp og lög. Því væri mun málefnalegra að ræða málefnið sjálft(t.d. nauðsyn og markmið þeirra laga sem um ræðir) í stað þess að stökkva ofan í skotgrafir með þeim hætti sem Mörður gerir.

  • Lúðvík, þú ert að halda því fram, að vegna þess að þú hafir þá skoðun, að þingmaður hafi ekki kynnt sér lög sem hann samþykkti, þá hafi hann fyrirgert rétti sínum að hafa skoðun, jafnvel á þeim málum sem hafa verið honum hugstæð.

    Þú ofmetur spurn eftir þér. Þú ert niðurrifsmaður með eigið agenda.

    Vitanlega einkennast náttúruverndarlög af boðum og bönnum.

    Þegar durgar eins og Sigurður Ingi vaða fram og veifa „sátt“ til þess að leggja af margra ára vinnu fulltrúa okkar, þá ber okkur öllum að vera á varðbergi.

  • Hlynur Páll Pálsson

    Sæll aftur Lúðvík.

    Ekki nenni ég að þræta við þig, en það er merkilegt að þú sjáir ekki rökvilluna í þessum málflutningi hjá þér. Komdu með dæmi um það að Mörður hafi fjallað um lög og sýnt fram á vanþekkingu þeim lögum

    Ég get einfaldlega ekki séð að það sé ómálefnalegt hjá Merði að gagnrýna ómálefnalega gagnrýni Sigurðar Inga, af því að stjórnarliðar á síðasta kjörtímabili gerðust sekir um sömu vitleysu.

    Sérðu ekki rökvilluna?

    Þar fyrir utan sé ég ekki skotgrafir þegar verið er að gagnrýna skrýtinn málflutning hjá ráðherranum. Þá er alveg eins hægt að segja að öll gagnrýni sé skotgrafarhernaður.

  • Hlynur Páll Pálsson, ekki heldur reyna að þræta. Það sjá allir að maður sem gengur yfir götu á rauðu ljósi en ætlast til að aðrir bíði eftir græna „kallinum“ hefur lítinn sem engan trúverðugleika. Ef hann myndi hins vegar viðurkenna mistök þegar hann gekk yfir á rauðu ljósi þá myndu amk. fleiri taka hann alvarlega. Hér skiptir auðvitað engu máli á hvar rauða ljósið er, nema fólk telji að lög séu þannig að það þurfi ekkert endilega alltaf að fara eftir þeim(sem reyndar er oft tilfellið, en það er réttlætiskennd fólks sem er brengluð en ekki lögin, því ef þau væru vitlaus þá ætti fólk auðvitað að berjast fyrir breytingu).

    Ég er ekki heldur að tala um aðra stjórnmálamenn, ég er að tala um Mörð! Hann greiddi atkvæði með lögum sem síðan kom í ljós að voru stórgölluð og hvorki hann, aðrir þingmenn né ráðherrar þekktu!! Lög sem menn viðurkenna að hefðu getað lagt allt hagkerfið á hliðina og leitt til gjaldþrots stórs hluta þjóðarinnar!

    Meirihluti Efnahags- og viðskiptanefndar sendi frá sér bæði frumvarp og álit: Meðal meirihlutans er Mörður Árnason.

    Hér eru lögin samþykkt:
    Mörður Árnason: Já

    Umsögn Árna Páls Árnasonar:

    „Fyrir einn kerfislægan leka af þessu tagi var lokað með lagabreytingum fyrir nokkrum vikum, þegar stöðvuð var svikamylla með stutt íbúðabréf, sem nýtt höfðu verið til að koma milljörðum króna út fyrir höft.“

    Ef Mörður veit allt um öll lög, hvers vegna sagði hann þá ekkert?

    Ef menn treysta sér bæði til að skrifa undir álit meirihlut og greiða atkvæði með lögum, ættu þingmenn þá ekki að vita hvað þeir eru að gera?

    Er hægt að gera meiri kröfu til annarra á sama „vinnustað“?

    Ég er ekki að verja umhverfisráðherran, ég er einfaldlega að benda á að Mörður Árnason er ekkert betri og ætti því frekar að einbeita sér að málefninu í stað þess að fara í manninn.

  • kristinn geir st. briem

    ég þakka merði fyrir að vera málefnilegur og hvernig hann setur löginn inní textan hér að ofan þó ég sé ekki samála honum og skilst að hann hafi reint að laga þettað eftir bestu gétu þegar hann var á þíngi

  • „Ef Mörður veit allt um öll lög, hvers vegna sagði hann þá ekkert?“ spyr Lúðvík.

    Lúðvík virðist lifa í svart-hvítum veruleika.

    Kannski kallar hann þetta viðhorf sitt „að einbeita sér að málefninu í stað þess að fara í manninn“

  • Jóhann, minn kæri lestu það sem ég skrifa. Ég er einfaldlega að benda á að menn eiga ekki að setja sig á haan hest og væna aðra um vanþekkingu á frumvörpum þegar maður hefur oft verið staðinn að því sama.

    það er ekki svart-hvítur heimur og það er ekki kallað að fara í manninn að biðja þá um að einbeita sér að efninu.

    En eigum við ekki að gefa Merði svigrúm til að svara?

  • Mörður Árnason

    Svara hverju? Ég kem ekki auga á líkindin hér. Til upplýsingar: Starfaði ekki þeirri nefnd sem um ræðir, en ber að sjálfsögðu fulla ábyrgð á þeirri afstöðu sem atkvæðagreiðslan lýsir á sínum tíma.

  • Sæll Mörður, ég er einfaldlega að benda á að ráðherrar og stjórnarþingmenn á síðasta kjörtímabili höfðu ekkert meiri þekkingu á þeim málefnum sem þeir sinntu eða greiddu atkvæði með og því væri betra að ræða um innihald og markmið umhverfislaga í staðinn fyrir að fara út í mikla umræðu um vanþekkingu núverandi ráðherra á lögum.

  • Ég er ekki þinn „kæri“, Lúðvík.

    Þú ert sneisafullur af mótsögnum.

    Ef að líkum lætur þá telur þú þig einan vera þess umkominn að fella dóma.

    Kannski af því að þú veist allt um öll lög og hvaðeina.

    Er ekki tími til kominn að þú bjóðir fram snilligáfu þína, öllum landsmönnum til framdráttar?

  • Jóhann, minn kæri, ég er ekki að dæma heldur frekar að biðja menn um að sýna umburðarlyndi með því að ræða mál en ekki fara í manninn.

    Í hugum margra er það öfga- og mótsagnakennt.

    Ég reyni eftir því sem möguleiki er á að styðja mitt mál með rökum. Það snýst í aðalatriðum um að Mörður leggur upp með það að Sigurður Ingi þekki ekki nýju náttúruverndarlögin. Ég hef ekki gert annað en bent á að Mörður hefur einnig lent í því sama varðandi önnur lög, meira að segja lög sem hann hefur greitt atkvæði sitt með og sem hann hefur afgreitt úr nefnd. Því er það mín tillaga að í stað þess að Mörður reyni að koma höggi á Sigurð Inga með því að gera lítið úr þekkingu hans á lögunum(sem er alltaf hægt) að þá einbeiti Mörður sér að málinu sjálfu.

    Þeir sem hafa þurft að ræða erfið mál vita hversu óuppbyggilegt það er þegar menn byrja alltaf á því að segja að aðrir viti ekki neitt.

    í bloggi mínu bendi ég á að nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd ásamt efnahags- og viðskiptaráðherra eru að kenna öðrum um eigin vanþekkingu og mistök og gera það með vandræðalegum hætti í þokkabót. En þeir þekktu einfaldlega ekki lögin og höfðu ekki hugmynd um hvaða afleiðingar þau hefðu.

    Skortur á rökum hjá þeim sem hafa gagnrýnt athugasemdir mínar hér segir allt um skrif þeirra.

    Við erum búnir að ræða mig nóg hér en þakka ykkur fyrir að sýna mér svona mikinn áhuga.

    Eigið góða helg.

    kv. Lúðvík

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur