Mánudagur 21.10.2013 - 12:10 - 4 ummæli

Hvað vildi Samorka?

Gústav Adolf Skúlason framkvæmdastjóri Samorku kvartar undan því í Fréttablaðsgrein á fimmtudaginn (hér, bls. 24) að ekki hafi farið mikið fyrir samráði við gerð og afgreiðslu náttúruverndarlaganna sem núverandi umhverfisráðherra ætlar nú að „afturkalla“. Vissulega hafi verið tekið við athugasemdum á ýmsum stigum vinnunnar og hlustað á gagnrýni – en síðan þegar til átti að taka hafi ekkert verið gert með sjónarmið aðila á borð við sjálfa Samorku.

Þetta er athyglisvert framlag til umræðunnar um „afturkallið“. Nú vill svo til að athugasemdir Samorku liggja fyrir í umsögn samtakanna til þingnefndarinnar sem fjallaði um málið síðasta vetur. Þar eru – fyrir utan almennt spjall um yfirsýn, flækjustig og þarfleysi frekari náttúruverndar á Íslandi – sjö eiginlegar athugasemdir við frumvarpið. Þær varða: þinglega meðferð náttúruverndaráætlunar, tengsl við rammaáætlun,vernd jarðmyndana sem þykja merkilegar á svæðisvísu, heimild ráðherra til að banna framkvæmdir á viðkvæmum svæðum tiltekinn tíma, bótarétt landeigenda – og svo tvö meginatriði, annarsvegar sérstaka vernd merkilegra vistkerfa og jarðminja, hinsvegar meginreglur umhverfisréttarins sem settar eru fram í upphafi lagatextans.

Í fimm atriðum af þessum sjö voru lagðar til breytingar þar sem ýmist var fallist á rök Samorku og annarra umsegjenda eða komið verulega til móts við þau. Aðeins tvær athugasemdir Samorku reyndust árangurslausar þegar alþingi hafði gert frumvarpið að lögum: 28–0, 17 sátu hjá.

Varúðarreglan

Í annarri þeirra lagðist Samorka gegn meginreglum umhverfisréttarins, sérstaklega varúðarreglunni svokölluðu þar sem segir að náttúran eigi að njóta vafans: Þegar hætta er á alvarlegum spjöllum má ekki beita þekkingarskorti sem afsökun fyrir því að láta vaða. Þeir sem um frumvarpið véluðu við frumvarpsgerðina og á þinginu kusu að taka ekki mark á Samorku að þessu leyti en taka í staðinn mark á Ríósamningnum um líffræðilega fjölbreytni frá 1992, EES-samningnum og OSPAR-samningnum um Atlantshafið norðaustanvert og lífríki þess, þar sem alstaðar er vísað til þessarar alþjóðlega viðurkenndu meginreglu.

Samorka er greinilega ósátt við þetta. Merkir það að Gústav Adolf, Landsvirkjun, Rarik og Orkuveita Reykjavíkur vilji hafa þetta öfugt? – að þau geti ráðist í hvaða framkvæmd sem er ef ekki hefur verið sýnt fram á með 100% vissu að hún skaði náttúruna til ólífis? – svo sem ef það er hægt að finna einn fræðimann sem efast? til dæmis á skrifstofum Samorku, Landsvirkjunar, OR og Rariks?

Sérstaka verndin

Greinin í lögunum frá 1999 um sérstaka vernd ákveðinna vistkerfa og jarðminja – svo sem eldhrauna, hvera, votlendis, fossa – hefur reynst haldlítil. Þessari grein var því breytt með nýju lögunum. Í stað þess orðalags í gömlu lögunum sem dró tennurnar úr lagagreininni, að röskun þessara náttúrufyrirbæra skuli forðast „eins og kostur er“, kemur ákvæði um að þeim verði ekki raskað „nema brýna nauðsyn beri til og aðrir kostir séu ekki fyrir hendi“. Samkvæmt gamla orðalaginu nægði að sá sem taldi sig af einhverjum ástæðum þurfa að eyðileggja náttúrufyrirbæri reyndi að gera það með lagni. Eins og kostur er. Samkvæmt nýja orðalaginu verða hinsvegar að búa að baki stórfelldir almannahagsmunir – til dæmis þörf á vatnsveitu – og áhugamenn um verkið verða að sýna fram á að aðrar leiðir að markmiðinu séu ekki færar.

Samorka vill halda gömlu lagagreininni. Það hlýtur að merkja að Gústav Adolf, Landsvirkjun, OR, HS og Rarik vilja fá að meta það sjálf hver kosturinn er við að forðast röskun. Sá sem kaupir sér jarðýtu og telur æskilegt að eyðileggja goshver, eldhraun, flæðiengjar, sjávarleirur, gervigíga, birkiskóga, vötn og tjarnir, fossa og hraunhella – hann þurfi ekki að íþyngjast við að sýna fram á að það sé óhjákvæmilegt í þágu almannahagsmuna.

Afturkall – til hvers?

Þetta eru þau tvö atriði sem eftir standa af athugasemdum Samorku, bæði afar mikilvæg. Ég þakka Gústavi Adolfi Níelssyni framkvæmdastjóra samtakanna kærlega fyrir að hafa bent alþjóð á það sem afturkallsmálið snýst um í raun og veru.

(Líka í Fréttablaðinu 21. október)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Hann er reyndar Skúlason svo því sé haldið til haga. Það sérstaka við Samorku er að samtökin samanstanda allt að 99% að opinberum félögum. Upphafleg markmið samtakana voru að vinnna sameiginlega að fagmálum dreifiveitna og það gerðu samtökin með góðum árangri í byrjun eða alveg þangað til að Friðrik Sófusson varð, sem forstjóri Landsvirkjunar, formaður stjórnar Samorku. Eitt hans fyrsta verk var að láta Samorku ganga í samtök vinnveitenda, væntanlega aðeins til að skammta þeim samtökum aukið fé. Uppfrá þeim tíma virðast samtökin aðeins stunda pólitík og það últra hægri pólitík. Samtökin virðast fókusera aðeins á raforkuvirkjanir og vilja virkja allt sem hugsast getur og er þá Gullfoss ekki untantekinn. Til að kosta jukkið hafa fráveitum, vatnsveitum og hitaveitum verið troðið inn í samtökin, þrátt fyrir að ekki einn einasta starfsmaður með reynslu eða þekkingu á því sviði vinni hjá samtökunum. Þannig að það er ekki von á góðu frá þessum samtökum Mörður.

  • Skúlason, afsakið, breyti því samstundis. Alveg rétt, Pétur, um Samorku — pólitísk samtök opinberra fyrirtækja, og eru allajafna látin segja það sem forustumenn fyrirtækjanna sjálfra — Landsvirkjunar, Rariks, OR o.s.frv. — eru feimnir við að setja nafnið sitt undir.

  • Mörður vil enn og aftur benda á fólk sem hefur reynt að ná til ykkar sem hafið haft atvinnu af því að vera í pólitík . Þetta fólk er að hluta innan Reykjavíkur. Þetta fólk býr og lifir við Hvalfjörð. Núna vill þetta fólk umhverfisvöktun við Hvalfjörð.

    Á heimasíðu umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð er hafin undirskriftarsöfnun fyrir þetta verkefni.

    http://umhverfisvaktin.is/

    Þú hefur ekki verið duglegur að styðja þetta fólk !

  • kristinn geir st. briem

    góð grein . og nú verður sigurður að passa sig, afn slæmt og að fara ekki á hinn kantin að virkja án skilirða það er jafn slæmt géta men ekki set niður og samið eihvað af viti þanig að allir fái eithvað kanski að sigurður geti notað þig áfram í að laga þettað. en eflaust hefurðu nóg að gera.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur