Laugardagur 26.10.2013 - 08:00 - Rita ummæli

Næturhiminn Ofvitans

Margir muna að Ofviti Þórbergs Þórðarsonar var áhugamaður um gang himintungla og athugaði stöðu mála á næturhimninum reglulega úr Bergshúsi við Skólavörðustíg. Og svo kemur að kvöldi föstudagsins 20. október árið 1911. Ofvitinn á von á heimsókn:

Pilsaþytur í sálinni, ljúfur andblær í stráum. Fram úr tindrandi stjörnudýrðinni stígur falleg stúlka, há vexti, dökkt hár, brún augu, horfir eins og hún þrái eitthvað sem hún hefur aldrei getað fengið.

Hann ætlar að sýna Elskunni sinni stjörnurnar, og í sögunni er því lýst út um hvaða glugga þau horfa. Hægt er að finna gluggann á myndum af Bergshúsi — sem illu heilli var rifið um 1990, og af því höfundur er afar nákvæmur á má reikna út hvernig næturhiminninn leit út í tiltekna átt frá Skólavörðustígnum í Reykjavík þetta kvöld fyrir 102 árum og nokkrum sólarhringum.

Í nýútkominni greinargerð um Myrkurgæði á Íslandi er brugðið á leik með Ofvitanum — til að sýna hvað myrkurgæðum hefur hrakað í borginni með gríðarlegri raflýsingu. Fundin var út stjörnustaðan kvöldið 20. október 1911 og síðan giskað á hvernig sú sýn væri nú miðað við ljósmengun í Reykjavík á þessari öld sem liðin er. Síðla kvölds 20. október 1911, og síðla kvölds á svipuðum árstíma á 21. öld. Vetrarbrautin er greinileg 1911 og neðst til vinstri skín Síríus en Óríonsmerkið er nær miðju. Litirnir eru rautt, blátt, gult, grænt … Árið 2013 eru þessir stjörnulitir horfnir berum augum. Vetrarbrautin sést ekki lengur og aðeins greinanlegar nokkrar helstu stjörnur í Óríón.

Góðu fréttirnar eru þær að við getum endurheimt talsvert af næturhimni Ofvitans, að minnsta kosti í íbúðarhverfunum á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum landsbyggðum. Sjá greinargerðina nýju.

Hér er næturhiminninn yfir Skólavörðustíg haustið 1911 og svo núna (smellið til að stækka, og á bak-örina efst til að minnka aftur):

Bh1911_2012

Snævarr Guðmundsson landfræðingur vann þetta með mér og bjó til líkingu næturhiminsins hér að ofan.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur