Föstudagur 13.12.2013 - 08:44 - 7 ummæli

Að slíta sundur lögin

Ég sendi umhverfis- og samgöngunefnd alþingis umsögn um frumvarp ríkisstjórnarinnar og Sigurðar Inga Jóhannssonar um að fella niður náttúruverndarlögin – fresturinn rennur út í dag. Það er óvenjulegt að fyrrverandi alþingismaður skrifi ótilkvaddur umsögn um þingmál veturinn eftir að hann hverfur af þingi, og hafi sjálfur vélað um málið sem um er rætt. En þetta er líka óvenjulegt mál: Að henda nýsamþykktum lög eftir langan og vandaðan undirbúning.

Umsögnin sjálf er kannski aðeins óvenjuleg líka af því þar er ekki endilega verið að tala um einstakar greinar á lögfræðísku – ég var framsögumaður málsins í fyrravetur og reyni umfram málalengingar að skila þeirri reynslu til þingmannanna sem nú sitja í umhverfisnefndinni.

Og fyrirsögnin um að slíta sundur lögin er úr sögu alþingis — sótt í þingræðu sem snjall alþingismaður flutti fyrir hér um bil 1013 árum.

Hér er tengill. Þetta er soldill texti (18 blaðsíður) en á að vera vel læsilegur, og má kannski nota sem „Náttúruverndarlögin 101“. Lokakaflinn er nokkurnveginn svona:

 

Lagfæra, ekki eyðileggja

Ég hef reynt að spara stóru orðin vegna þess að erindi mitt er fyrst og fremst að eiga málefnalega samræðu við núverandi þingmenn í nefndinni sem fjallar um umhverfismál og náttúruvernd. Megintilgangurinn er þó að koma á framfæri þeirri hvatningu til ykkar að þið skoðið þetta mál vandlega. Vel kann að vera að enn séu endar lausir þótt við höfum vandað okkur einsog hægt var í fyrravetur. Ekkert er heldur við því að segja að nýr meirihluti á alþingi vilji setja mark sitt á þessa mikilvægu löggjöf og bæta þar með við það endurskoðunarstarf sem þegar hefur tekið fjögur ár. Nú er hægur vandi að gera það þegar málið er komið inn í umhverfisnefndina, og ekkert liggur á.

Mikið starf til ónýtis 

Setning nýrra náttúruverndarlaga er ekki einfalt mál. Ég hef ekki fulla yfirsýn nema um þann þátt sem ég vakti yfir, meðferð málsins í þinginu á síðasta stigi endurskoðunarstarfsins. Afgreiðsla og umfjöllun á því stigi var verulega vinna, fyrir framsögumanninn, formanninn (voru tveir á tímabilinu) og aðra þingmenn en ekki síður fyrir starfsmenn þingsins, umsjónarmenn málsins í ráðuneytinu, fulltrúa stofnana, samtaka og áhugahópa, og þá ósérhlífnu einstaklinga sem lögðu vinnu í málið. Þá er ótalið allt starf á fyrri stigum málsins, innan hvítbókarhópsins og þeirra sem hann starfaði með, öll umræðan á opnum fundum, í fjölmiðlum og meðal almennings á óformlegri vettvangi

Ekkert í staðinn

Á grundvelli þessarar reynslu tel ég sýnt að brottfall laganna jafngildi því að ekkert verði af endurskoðun náttúruverndarlaganna á þessu kjörtímabili. Þar með ónýtast allir þeir ávinningar sem áður eru taldir, náttúrunni til tjóns og síðari kynslóðum til furðu. Þetta væri okkur ekki til sóma. Miklu nær er að þingmenn í umhverfis- og samgöngunefnd fari yfir þá þætti laganna sem raunverulegur ágreiningur er um og nái þar niðurstöðu sem komi fram í einstökum breytingartillögum við lög nr. 60 frá 10. apríl 2013.

Að slíta sundur lögin

Mér finnst að með þeirri nýju aðferð sem lögð er til með brottfallsfrumvarpinu – að brjóta niður verk fyrri manna án þess að byggja sjálfur á ný – sé verið að rjúfa samhengið í sögu löggjafar um náttúruvernd hérlendis. Á vissan hátt er með þessu vegið að grundvellinum undir samstarf Íslendinga um meðferð náttúrugæðanna á Íslandi.

Það leitar á mig að lýsa þessu þannig að hér sé verið að slíta sundur lögin. Við því var varað með eftirminnilegum hætti í upphafi þess samfélags sem enn stendur á Íslandi.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Ingi Gunnar Jóhannsson

    Vel gert Mörður, og full þörf á. Sigurður Ingi virðist vera þeirrar gerðar að telja sig ráða öllu, bara af því hann er „ráð“herra. Það er bæði barnalegt en um leið stórhættulegur leikur framkvæmdavaldsins.

  • Árni Finnsson

    Vel gert Mörður.

  • kristinn geir st. briem

    að slíta sundur einhver lög það er nú bara taka lög úr gildi sem ekki eru komin til framhvæmda en hvað um það hvort vinnan hafi verið mikkil eða ekki veit ég ekki um. það hefur verið mat sigurðar að þetta hafi verið skinsamlegasta leiðinn einsog sakir stóðu. spurniing er hvort hefði verið hægt að taka þær lagagreinar sem fólk var samála um gera þær að lögum veit það ekki stangast þá kanski við gömlu lögin. var reindar ekki var við þessa opnu fundi nema um rammaáætlun ekki er hún hluti nátúrverndarlaga svo ég viti til. lög eru nú bara manna verk og þurfa að vera í stöðugri endurníun svo ég á von á að sigurður muni nú nota eithvað af þessum laga greinum sem eru í þessum lögum

  • Að slíta sundur lögin er (=) að slíta sundur friðinn.

    Mjög sammála sem íslensk kona þessari hugsun.

    En með leyfi – hver var sá friður sem þið „jafnaðarmenn“ vilduð sundur slíta með ólögum á síðasta kjörtímabili?

    Man einhver t.d. eftir Icesave?

    Hver var friðar- og lagagrundvöllur „skjaldborgar um heimili“?

    Þessir frasar verða aðhlátursefni næstu kynslóða.

    Vitnað verður til þeirra til merkis um innihals- og hæfileikaleysi íslenskra stjórnmálamanna.

    Hrein ömurð sannast sagt.

    Veldur hver á heldur og margur heldur mig sig.

  • Mörður Árnason

    Opnir fundir, Kristinn:

    „Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands var í forgrunni á Umhverfisþingi sem haldið var á Selfossi 14. október síðastliðinn. Til að koma til móts við þá sem ekki áttu heimangegnt þann dag efnir umhverfisráðuneytið til almennra kynningarfunda á nokkrum stöðum á landsbyggðinni. Fundir verða haldnir sem hér segir:

    10. nóvember – Akureyri, Hótel Kea, kl. 17 – 18:15
    21. nóvember – Egilsstaðir, Hótel Hérað kl. 17 – 18:15
    22. nóvember – Borgarnes, Hjálmaklettur kl. 17 – 18:15
    24. nóvember – Ísafjörður, 4. hæðin í Stjórnsýsluhúsinu, kl. 17 – 18:15
    28. nóvember – Reykjanes, Flughótelið Keflavík, kl. 17 – 18:15

    Á fundunum verður efni hvítbókarinnar kynnt og rætt. Eru allir áhugasamir hvattir til að nýta sér þetta tækifæri til að kynna sér innihald hvítbókarinnar.“

    Heimild: http://www.umhverfisraduneyti.is/hvitbok/kynningarfundir/


    Alltaf hressandi að heyra í þér, Rósa. En nú er vonda vinstristjórnin búin — og enn skuldum við Icesave, og enn eru heimilin í hættu, þar á meðal heimili Framsóknarþingmannsins úr Norðurlandi vestra sem ekkert fær leiðrétt nema eftir 110%-leiðinni? Þetta hljóta að verða svolítið erfið jól hjá alminnlegu fólki einsog þér. En hvað heitirðu aftur fullu nafni?

  • kristinn geir st. briem

    þakka merði fyrir þettað. hafði bara mist af þessum fundi. svo ég veit ekki hvernig kinnínginn fór fram. er að lesa þessa bók þettað er að mestu skýrla.
    þegar kemur að lögunum kemur fram að það séu aðalega tvö atriði sem þau vilja breita það er 17.gr. og 37.gr. þá geri eg ráð fyrir að það séu löginn frá 1999. svo ekki vildu þau miklar breitíngar

  • kristinn geir st. briem

    p.s. var öllum boðið á þettað umhverfisþíng ?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur