Sunnudagur 05.01.2014 - 14:03 - 8 ummæli

Þjórsárver á vetrarútsölu

Svokallaður umhverfisráðherra er á hröðum fjölmiðlaflótta undan ákvörðun sinni um veituframkvæmdir í Þjórsárverum eða á áhrifasvæði þeirra.

Samt er það þannig að hann er núna að fullkomna hlýðni sína við Landsvirkjun og Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðarráðherra frá í haust þegar hann hætti við nýja friðlýsingargjörð sem var svo langt komin að ráðuneyti hans var búið að senda í pósti sérstaka boðsmiða á undirritunarathöfnina.

Málið er þetta:

Með samþykkt þingsályktunartillögunnar um rammaáætlun ákvað alþingi að setja í verndarflokk landsvæðið þar sem Landsvirkjun hefur lengi ætlað sér að koma upp miðlunarveitu, sem nokkra hríð hefur verið kennd við Norðingaöldu. Þessi ályktun var samþykkt án mótatkvæða. Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksmenn sátu hjá, en merkilegast við atkvæðagreiðsluna var að þótt uppi væru margvíslegar breytingartillögur – flestar frá þingmanninum Sigurði Inga Jóhannssyni – lagði enginn til að Norðlingaöldu-svæðið við Þjórsárver yrði fært úr verndarflokknum, þar sem formannahópur verkefnisstjórnar hafði valið því stað.

Vel var kunnugt að nokkrir þingmenn vildu Norðlingaölduveitu  − svo sem virkjunaröfgamaðurinn Jón Gunnarsson, en að lokum var engin slík tillaga flutt. Á sínum tíma var þetta túlkað þannig að pólitísk sátt hefði skapast um að slá Norðlingaölduveitu af þannig að Þjórsárver fengju þá vernd sem þau þurfa og allt náttúrusvæðið vestan árinnar yrði framvegis í friði fyrir virkjunarframkvæmdum. Við þetta miðaðist friðlýsingartillagan frá í haust.

Nú hefur Sigurður Ingi snúið við blaðinu vegna þrýstings frá Landsvirkjun og íhlutunar iðnaðarráðherra. Af hverju? Sigurður Ingi þekkir Þjórsárver, er þingmaður Sunnlendinga og veit vel af dálæti heimamanna á verunum – sem þar að auki eru fræg meðal fræðimanna og náttúruverndarfólks úti um allan heim.

Af því að Norðlingaölduveitan er ódýrasta leið sem hægt er til að búa til meiri raforku. Og hagvaxtardraumar ríkisstjórnarinnar eru gerðir úr orkuframkvæmdum.

Ríkisstjórninni – þessari núna og þeirri síðustu − gengur hinsvegar illa að fá til landsins orkufrek málmbræðslufyrirtæki. Það er kreppa, og þau vilja ekki koma nema fá afslátt á orkuverðinu. Helguvík er besta dæmið.

Landsvirkjun hefur tekið upp þá stefnu að selja ekki lengur raforku undir kostnaðarverði heldur á orkusala í framtíðinni að skila eðlilegum hagnaði.

Ríkisstjórnin á erfitt með að breyta þeirri stefnu Landsvirkjunar – þótt nú eigi að skipa þar nýja og hlýðnari stjórn. Mundi missa andlitið.

Og lausnin er Norðlingaölduveita. Með henni fengist orka sem hægt yrði að selja mjög ódýrt en þó með hagnaði, innan gæsalappa.

Þetta tekur nokkur ár – en fyrsti áfangi er að ráðast á friðlýsingarskilmála og rammaáætlun. Gott líka að losna við náttúruverndarlögin. Nú dregur Sigurður Ingi nýja friðlýsingarlínu. Svo kemur Landsvirkjun með nýja veitutillögu, sem verður nokkrum metra lægri en sú síðasta, og heitir alveg örugglega splunkunýju nafni. Að þessu samþykktu eru virkjunarmannvirkin komin vestur yfir ána, og þá má alltaf sjá til í framhaldinu.

Niðurstaða Sigurðar Inga Jóhannssonar, Landsvirkjunar og iðnaðarráðherrans: Ný útsala – á kostnað náttúru Íslands.

Cheapest energy prices aftur og aftur og aftur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Kannski er þetta útspil Sigurðar Inga ekki svo arfa vitlaust í pólitískum skilingi; nú ýtir hann þolmörkunum eins langt og hann getur með því að ráðast á djásnið og það allra heilagast á miðhálendinu. Hann veit að það verður ekkert af þessu, að svo stöddu; það er nefnilega enginn kaupandi, ekkert álver á leiðinni. Nema kannski að þetta sé hluti af langstærsta drauminum, blautir órar um sæstreng til Skotlands. Það eru áform um aðrar og minni virkjanir sem fá þá minni fyrirstöðu og brautargengi ef ekkert verður af lóninu upp við Eyvaver.

  • kristinn geir st. briem

    skil ekki ráðuneitið hvað lá á kemur ekki þíngið saman 14.janúar . þá hefði sigurður gétað sett þettað fyrir þíngið. látum vera hvort menn vilja breita þjórsá þarna víð þessa veitu. en þettað er tvímælalaust breitíng á friðlandinu. og ef fólk var ekki í neitni tímapressu gátu menn bara beðið til 14. janúar. því þetað svokallaða lýðræði verður að virka rétt til þess að það fari ekki eins fyrir því og mörgum lýðræðisrikjumsem standa tæplega leingur undir nafni. ef það kostar svolítið blaður verður að hafa það fólk hefur alt sumarið til að cara ef ílla geingur að koma málum í gegn

  • Óðinn Þórisson

    Ekki ætla vera svo leiðinlegur hér að minna þig á 27 apríl.

    Við erum með auðlyndir – með því að nýta okkar auðlyndir skapast störf og hagvöxtur sem er grundvöllur þess að stækka kökuna þannig að lífskjör fólks batni.

    Eða eigum við bara að setja ísland í biðflokk ?

    Studdu núverandi stjórnarflokkar Rammaáætun ? NEI

  • Á bágt með að skilja hvers vegna Landsvirkjun sér hag sínum betur borgið með rammaáætlun í rúst. E.t.v. er skýringin sú að ríkisstjórnin hyggst selja stóran hlut í Landsvirkjun til erlendra fjárfesta og losa þannig um gjaldeyrishöftin; að Norðlingaölduveita eigi að hífa upp söluandvirðið sem er heldur lágt nú um stundir þar eð orkuverð til Alcoa og Norðuráls er beintengt heimsmarkaðsverði á áli.

  • Ómar Kristjánsson

    Það er nú bara þannig með þessa blessuðu ríkisstjórn að ef ófriður er í boði þá segir hún ekki nei. Ríkisstjórnin virðist bókstaflega fá kikk útúr því að ýfa upp sem mestan ófrið og illindi manna á millum. Það heitir líklega ,,þjóðarsamstaða“ samkvæmt sumum kokkabókum.

  • Ólafur S. Andrésson

    Ólíkt faglegri umfjöllun en hjá Agli Helgasyni sem gleypir við órökstuddi gaspri valdhafa.

  • Nú er farið að þrýsta á að setja smærri virkjanir í nýtingarflokk, bara 28 stykki takk fyrir — nokkrum dögum eftir stóru sprengju Sigurðar Inga.

    Svona er þetta spilað.

    Margar af þessum virkjunaráformum eru í eigu einkaaðila og í kjördæmi ráherrans.

    T.d. þorir ég að veðja farið verður í að undirbúa Hagavatnsvirkjun innan nokkurra missera.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur