Miðvikudagur 09.04.2014 - 09:06 - 9 ummæli

Má ekki bjóða þér svolítið saffran?

Þetta um Maríu Antonettu og kökurnar er víst bara vitleysa – drottningin unga mun að vísu hafa tjáð sig eithvað óheppilega um brauðverðið í París milli þess sem hún gekk um og lék hjarðmey í nánd Versala, en hún sagði aldrei þetta um kökurnar.

Nú hefur hinn ágæti alþingismaður Sigrún Magnúsdóttir aftur á móti fundið út að á svipuðum tíma og hjarðmærin umhugsaði hveitivörumálin í Frans hafi Íslandslýður flutt inn það góða krydd saffran, sem er einhver dýrasta vara í heimi miðað við þyngd. Það hefur ekki væst um landann á þessum tímum frekar en Maríu Antonettu.

Sigrún neitar því alls ekki að móðuharðindin séu söguleg staðreynd. En vísast hafa Skaftáreldar verið blásnir upp af neikvæðum niðurrifsöflum í félaginu Vonlausa Ísland, þessu fólki sem bara getur ekki sætt sig við að samfélagið okkar er einsog samfélagið okkar er og hefur alltaf verið.

Fólk er almennt alltof neikvætt á Íslandi. Má ekki bara bjóða þér að láta barnabörnin borga skattana þína? Hárlitun á stofu? Bankabónus? Eða viltu kannski svolítið saffran?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Sigurður

    Þessi gagnrýni gæti undir vissum kringumstæðum alveg átt rétt á sér.

    En hún er einhvern vegin ekkert sérlega sannfærandi frá manni sem studdi ríkisábyrgð upp á 340 milijarða í erlendum gjaldeyri, og þingmenn máttu ekki einu sinni fá að sjá samninginn áður en þeir greiddu atkvæði.

    Skuldbinding sem hefur komið á daginn að er alveg útilokað að við hefðum ráðið við.

    Og ekki er nú sérlega sannfærandi að horfa á Samfylkinguna hneykslast á bankabónusum, þegar við höfum í huga að ríkisstjórn Samfylkingar og Vg gerði það eitt af sínum fyrstu verkum að endurreisa bónusakerfi bankstera um leið og nýju bankarnir voru stofnaðir.

    Landsbankinn var langfyrstur að taka upp bónusakerfi, fyrir að níðast á lántakendum sínum, með fullkomnu samþykki ykkar Mörður.

    Nei, þetta er ekki sannfærandi gagnrýni Mörður.

  • kristinn geir st. briem

    en það gleimist kanski að sumstaðar fóru heilu sveitirnar í eiði margir fátækir urðu ríkir þegar þeir erfðu margar eignir vegna dauða ætíngja. elaust þegar menn verða nýríkir eiða menn nokkuð um efni fram

  • Michelangelo

    Íslendingar höfðu það fínt í Móðuharðindunum, svokölluðum.

    Nema nokkrir meinfýsishlakkandi úrtölumenn.

  • Elín Sigurðardóttir

    Langar að benda á bókina Eftirlætisrétturinn minn sem kom út 1981. Sigurbjörn Einarsson biskup gefur þar uppskrift að eftirlætisrétti sínum: soðinni nýrri ýsu. Hann segist vilja fá ýsu kvölds og morgna 365 daga ársins. Auður Laxness galdrar fram uppskrift af Saffrankjúklingi. (Tekur fram að líklega eigi fáir þá uppskrift). Það er rétt hjá Sigurði. Landinn gat ómögulega kyngt 340 milljarða ríkisábyrgð í erlendum gjaldeyri. Kannski er meiri stemning fyrir stöffuðum saffrankjúklingi?

  • Teitur Atlason

    Skrýtið samt að segja að „Íslendingar fluttu inn saffran í móðuharðindunum“. Sjálfsagt fluttu einhverjir stiftamtmenn og biskupar og aðrir íslandsfurstar allskonar fínerí inn í landið. Hitt er alveg ljóst að á meðan furstarnir stráðu saffrani yfir ketið sitt, hrundi þorri þjóðarinnar niður úr hor. Skrýtið að einbína alltaf á ríka fólkið og þörfum þess, sigrum og sorgum. Mjög framsóknar-eitthvað í því.

  • Nú komst pólitík í málið og þá varð fjandinn laus. sagði karlinn.
    Nú hefur fjórflokka pólitíkin komizt í sagnfræðina hjá ykkur Sigrúnu.

    Er ekki annars framsóknarsagnfræðin einhvern vegin svona: Danir voru
    vondir við íslenzku aumingjana en góðu íslenzku höfðingarnir gátu lítið að gert?
    Samfylkingarsagnfræðin er hins vegar einhvern veginn svona: Danir
    vildu reynast íslenzkum aumingjum vel, þeir voru algert Evrópusamband,
    en íslenzku höfðingarnir voru illmenni og plöguðu íslenzka aumingja, þeir voru algert LÍÚ. Dönsku kóngarnir voru góðir, þeir gáfu íslenzkri alþýðu kandís, sem svörtu þrælarnir, sem dönsku góðmennin á Vestur-Indíum þrælkuðu til dauðs, framleiddu.
    En annars las ég einhvers staðar, haft eftir ungum sagnfræðingi, að lífið
    á Íslandi á átjándu öld fram að Skaftáreldum hafi ekki verið svo bölvað miðað við annars staðar. Menn á Íslandi átu meira af keti og fisk en annars staðar í Evrópu, en minna af korni. Nú man ég ekki lengur hvað sagnfræðingurinn hét og hvar ég las þetta. Það skiptir víst litlu máli. Ef til vill er þetta ekki í samræmi við sagnfræðilegan rétttrúnað neins fjórflokkana og er því hvor sem bull og að engu hafandi.

    Ég ætla samt til gamans að vitna í Eldritið, eftir séra Jón Steingrímsson. Hann var átjánar aldar maður. Ég veit auðvitað að menntamenn fjórflokksins vita miklu meira um átjándu öldina en hann. En samt….
    Hann er hér að tala um að Skaftáreldar hafi verið refsing guðs vegna syndugs lífernis fólksins í Vestur-Skaftafellssýslu:
    „Hér lifðu menn í sælgæti matar og drykkjar, sumir orðnir svo matvandir, einkanlegast þjóustufólk, húsgangslýður og letingar, að ei vildu nema þá allra beztu og krydduðu fæðu“.
    En af hverju er boðið upp á saffran. Ég hélt að vinir útrásarvíkinganna byðu upp á gull sem krydd. Eða er það búið, og elítan farin að hugsa að
    hrunið hafi verið refsing guð fyrir græði og heimsku alþýðunnar.

  • „Menn á Íslandi átu meira af keti og fisk en annars staðar í Evrópu, en minna af korni.“

    Þetta hefur að sjálfsögðu ekkert að gera með aðstæður til kornræktar á Íslandi.

    Mörður bendir á hugarfar þess sem telur saffraninnflutning til merkis um að velmegun hafi ríkt á tímabili þar sem fimmtungur þjóðarinnar ferst úr hungri og vosbúð. Saffranið er merki um skammarlega misskiptingu. Og þá svara menn með því að bulla um Icesave og ESB. Hlægilegt, ef það væri ekki grátlegt.

  • „Saffranið er merki um skammarlega misskiptingu“.

    Mér skilzt að saffran-
    sagna sé komin frá sagnfræðinginum, Hrefnu Róbertsdóttur. H.R. fann
    pöntunarbók, þar sem einhver einokunarkaupmaður skrifaði upp pantanir
    viðskiptavina um hvað þeir vildu fá þegar hann skip kæmi 1784. Ekki veit ég hvort einhver veit hvort þetta saffan kom til Íslands eða var notað.

    Sögulegar staðreyndir um 18du öldina eru m.a. :Stóra-Bóla gekk frá 1707-1709 og dó að sumir telja þriðjung af landsmönnum. Þetta fólk, sem lézt, var flest á barneingaraldri. Þá var vinnufólksskortur á Íslandi, og margir sagnfræðingar telja þetta góðærisskeið, sem hafi staðið til 1783 þegar móðuharðindin hófust. Móðurharðindin og árin eftir móðurharðindin hafi auðvitað verið erfið, og19da öldin hafi verið erfiðari en sú 18da.

    Það er aldrei hægt að treysta stjórnmálamönnum að þeir segi satt frá einu eða neinu, hvort sem þeir
    heita Mörður eða Sigrún. Það er betra að lesa frumheimildir og treysta á eigin dómgreind

    Auðvitað var misskipting á Íslandi eins og á fleiri stöðum. Ekkert getum við gert í því nú.

    „Og þá svara menn með því að bulla um Icesave og ESB“.
    Þeir sem voru og eru að möndla með Icesave og ESB eru að minnsta kosti ofanjarðar og sjálfsagt að gagnrýna þá með lofi eða lasti.

    Það svoldið skrítið hvað menntaelítan reynir að gera lítið úr fyrri tíðar fólki.
    Þetta virðist gert til þess að varpa ljóma á það sjálft. Það segir kjaftagleitt frá fádæmum og eindæmum fyrr á öldum og reynir að ljúga að fádæmin
    hafi verið það sem almennt tíðkaðist. Það segir sögur um harðbrjósta fólk
    sem hafi úthýst aumingum. Svo lýgur mennta elítan að hafi verið alsiða, þótt
    gestristni hafi verið almenn. Menntaelítan lítur framhjá því að í Reykjavík, að meira segja í 101 er fólki úthýst núna og það frýs í hel, þó nógur sé helvítis
    hitinn frá hitaveitunni og nóg af húsum.
    Ef 18da eða 19da aldarfólk gæti svarað bulli menntaelítunar mynda það geta skellt á þessari alkunnu vísu:
    Orðið laka að úthýsa
    er á baki þínu
    en aldrei rak ég aumingja
    undan þaki mínu.

    Fólk fyrr á öldum fór vel með mat. Þá var viðkvæðið: Molar eru líka
    brauð. Nýttu vel sem guð þér gefur, gefðu þeim sem ekkert hefur.
    Nú er mörgum tonnum af mat hent á degi hverjum, en samt fer margt fátækt fólk svangt
    til hvílu. Og fólk fer jafnvel illa með skítinn úr sér lætur hann fljóta á haf út,
    þó landið sé enn illa gróið.

    En hefur nokkur kynslóð sem byggt hefur Ísland verið verri og siðlausari
    en þessi hér og nú? Ekki þori ég að fullyrða það. En það er eins og hún vilji eða
    fyrirfólk hennar brýna það fyrir fólki að það sé dyggð að drýja dauðasyndirnar sjö, og helzt að brjóta boðorðin tíu sem oftast.

    En það kemur kynslóð eftir þessa kynslóð. Og ef hún verður jafn gagnýnin og núlifandi kynslóð (kynslóð hrunsins) á forfeður sína hlýtur hún að fleyja hræjunum af okkur, sem tilheyrum kynslóð hrunsins, út fyrir 200 mílurnar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur