Sunnudagur 04.05.2014 - 14:41 - 3 ummæli

Fyrirspurn bíður svars

Fyrir rúmum þremur mánuðum, 29. janúar, var lögð fram í þinginu fyrirspurn til innanríkisráðherra um lekamálið. Ráðherrann beið eins lengi og hann mátti, og sendi svo bréf til forseta alþingis um að nú væri ríkissaksóknari að athuga málið og það væri þessvegna ekki hægt að svara þessu á þinginu fyrren þeirri athugun lyki.

Einar K. Guðfinnsson lét þetta gott heita hjá Hönnu Birnu Kristjánsdóttir – þótt þrjár spurningar af fimm kæmu rannsókn ríkissaksóknara ekki við.

Tvær fyrstu spurningarnar voru hins vegar um það hvort sjálft minnisblaðið væri til í ráðuneytinu. Þær voru lagðar fram vegna þess að Hanna Birna fór alltaf undan í flæmingi þegar hún var spurð að þessu – vildi ekki segja frá því hvort minnisblaðið væri til. Líklega vegna þess að ef minnisblaðið er til, þá er næsta spurning: Hver skrifaði minnisblaðið og hver fékk minnisblaðið – það er að segja: Hver gat lekið minnisblaðinu? Hver ber ábyrgð á lekanum?

Nú hefur lögreglan tekið að sér að svara fyrir hönd ráðherra grundvallarspurningunni í málinu. Minnisblaðið er til. Tiltekinn skriftsofustjóri skrifaði minnisblaðið og sendi það tiltekinn dag til ráðherra, ráðuneytisstjóra, tveggja aðstoðarmanna ráðherra og þriggja lögfræðinga.

Kannski er kominn tími til að Einar K. Guðfinnsson forseti alþingis kalli eftir svari ráðherrans sjálfs? Þá vinnst að minnsta kosti það að alþingi Íslendinga þarf ekki að fara á vefsetur dónmstólanna til að lesa svör við fyrirspurnum til ráðherranna sem sitja í skjóli þess.

 

Fyrirspurnin frá 29.1. 2014:

 Fyrirspurn til innanríkisráðherra um gögn um hælisleitanda.

Frá Valgerði Bjarnadóttur og Merði Árnasyni.

1. Er til í ráðuneytinu minnisblað „varðandi Tony Omos“ og ef svo er, hverjir fengu það? Var því dreift til undirstofnana eða félagasamtaka, svo sem Útlendingastofnunar, ríkislögreglustjóra og Rauða krossins, og til lögmanna þeirra sem eru nafngreindir í minnisblaðinu?

2. Ef framangreint minnisblað er ekki til í ráðuneytinu, hvaða gögn eru þá til um mál Tony Omos í ráðuneytinu? Var þeim gögnum dreift til undirstofnana eða félagasamtaka, svo sem Útlendingastofnunar, ríkislögreglustjóra og Rauða krossins, og til lögmanna þeirra sem eru nafngreindir í minnisblaðinu?

3. Hvað var til skoðunar í rannsókn ráðuneytisins á meintum leka á umræddu minnisblaði? Hver hafði forstöðu í þeirri rannsókn? Hverjar voru niðurstöðurnar?

4. Hvað var til skoðunar í rannsókn Rekstrarfélags stjórnarráðsins á meintum leka á umræddu minnisblaði? Hverjar voru niðurstöðurnar?

5. Hefur komið til álita að óska eftir óháðri rannsókn á því hvernig persónuupplýsingar um Tony Omos og tvær nafngreindar konur komust úr trúnaðargögnum í hendur almennings?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Einar Steingrímsson

    Reyndar gekk Hanna Birna lengra en að fara undan í flæmingi, því eftirfarandi sagði hún í svari sínu í þinginu. Það er eiginlega fráleitt að halda öðru fram en að hún hafi bókstaflega logið þegar hún neitar því að til sé „sambærilegt“ minnisblað í ráðuneytinu. Ráðherra sem lýgur að þinginu ætti sér ekki viðreisnar von í neinu sæmilega siðuðu landi. Annað virðist oft gilda á Íslandi:

    „Ég hvet líka hv. þm. Mörð Árnason sem hefur umrætt minnisblað undir höndum, hann hefur upplýst það hér, til að upplýsa þingheim um það hvaðan hann fékk minnisblaðið, vegna þess að minnisblaðið sem hefur verið í gangi á ýmsum fjölmiðlum og hér og þar er ekki sambærilegt við nein gögn í ráðuneytinu. Ég hvet hv. þingmann endilega til þess að koma með gagnið.“

    http://www.althingi.is/altext/raeda/143/rad20140127T161655.html

  • Haukur Kristinsson

    Mörður bíður eftir því að Einar K. Guðfinsson geri eitthvað í málinu.

    „Don’t hold your breath“, Mörður.

  • Heimir Fjeldsted

    Hvaða lögmaður lak?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur