Föstudagur 30.05.2014 - 10:50 - 4 ummæli

Reykjavík: Tiltölulega einfalt

Það er gjörsamlega sjálfsagt að menn  vilji vita hvað Sigmundi Davíð finnst um moskuútspilið, og alveg skiljanlegt að bollaleggjendur velti fyrir stöðu flokksformannanna í ljósi ótilkynntra kosningaúrslita. Staða Sjálfstæðisflokksins er líka merkileg gestaþraut, og athyglisvert að vita hvaða áhrif mjögauglýstir 80 milljarðar hafa á kosningaákvörðun „heimilanna“. En eiga ekki sveitarstjórnarkosningar að snúast um sveitarstjórnina?

Í Reykjavík er þetta að minnsta kosti einfalt. Meirihluti Æ og S var eðlilegt framhald af jarðskjálftunum í kosningunum fyrir fjórum árum – og er líklega bestu meirihlutinn í borginni mörg undanfarin kjörtímabil, kannski að undanskildu fyrsta tímabili Reykjavíkurlistans. Við fáránlega erfið skilyrði í miðri kreppu tókst að koma fjármálum borgarinnar á réttan kjöl og bjarga Orkuveitunni, sem núna er þar að auki orðið venjulegt almannafyrirtæki (eða hvað?). Þrátt fyrir hallærið hefur velferðarþjónusta, skólakerfi og menningarstarf færst í aukana á borgarvegum. Og samt hafa skattar ekki hækkað.

Allra mestu máli finnst mér skipta ný stefna í skipulagsmálum með aðalskipulaginu sem einmitt var að koma út á fallegri og vel unninni bók hjá Crymogeu. Þarna er loksins sagt skilið við Dallas-Texas-stefnuna sem tröllreið borgarskipulögunum um alla Evrópu upp úr 1960 og kom hér af stað skipulagslegum raðslysum sem enn er ekki lokið – samanber turninn síðasta við Skúlagötu. Borgin fái að vera borg, úthverfin þurrki framan úr sér svefnbæjarstírurnar, bíllinn verði einn samgöngukostur af mörgum, miðbærinn framlengist austur, suður og vestur með þróunarásnum … þetta geta orðið nýir tímar.

Ætli það verði ekki líka metið seinna að verðleikum – þegar menn líta yfir lýðræðisþróun og stjórnmálahefð – að á þessum miklu skapvonskutímum hefur forustufólkinu í borginn tekist að létta andrúmsloftið kringum borgarmálin með hæfilegum skammti af anarkisma og lífsgleði. Það er auðvitað helst að þakka séníinu Jóni Gnarr en líka duglegu hæfileikafólki í báðum meirihlutaflokkunum og reyndar víðar. Sóley í VG hefur vaxið af sínum störfum og innan Sjálfstæðisflokksins var fólk sem fannst skynsamlegt að nýta hæfileika sína í samvinnu en smjörklípum. Þarna hefur persóna og pólitík Dags B. Eggertssonar líka verið sentröl.

Óvenjulega hiklaust er hægt að mæla með Degi til borgarstjórastarfa. Tólf ára reynsla af störfum fyrir Reykvíkinga í ráðhúsinu, kann á rekstur borgarinnar, alvöru-jafnaðarmaður með góða jarðtengingu, hættur að tala í hlutlausum einsog stundum fyrst og segir ekki meira en þarf. Að vinna með Besta hefur líklega einmitt passað fyrir Dag og samfylkingarfólkið með honum. Þau hafa fært því samstarfi sterkan hugmyndalegan grundvöll og reynslu, en samstarfið síðan hjálpað þeim að endurnýja sig og losna við ýmisleg flokksleg þyngsl.

Fólk kýs, nú eða kýs ekki, af ýmsum ástæðum auðvitað. Sumir gegn moskum, aðrir með augun á landsmál, jafnvel flokkshagsmuni. Fyrir þá sem eru aðallega að hugsa um mannlíf og framfarir í Reykjavík er málið tiltölulega einfalt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Elín Sigurðardóttir

    „Af hálfu Reykjavíkurborgar liggja fyrir skipulagsáætlanir sem miða að því að breyta Fluggarðasvæðinu í ibúabyggð. Virðist því stefnt að eignaupptöku á mannvirkjum í þeim mæli að það á sér fáar hliðstæður hér á landi. Í því ljósi hlýtur að vekja stórkostlega furðu að Reykjavíkurborg hefur lítið sem ekkert samráð haft við þinglýsta eigendur mannvirkja í Fluggörðum.“

    Er það svona sem alvöru jafnaðarmenn með jarðtengingu starfa?

  • Ágæta Elín — Ég er ekki vel heima í málefnum þinglýstra eigenda mannvirkja í Fluggörðum og veit ekki hvaðan þessi tilvitnun er. Hinsvegar var meginstefna um flugvallarmálið mótuð í atkvæðagreiðslu í borginni fyrir 13 árum, og það getur ekki komið hinum þinglýstu eigendum verulega á óvart að skipulagstillögur taki mið af henni. Hvað þýðir annars ,,lítið sem ekkert“? Ég hélt að skipulagstillögur væru opinberar og auglýst sérstaklega eftir athugasemdum og umræðu …

  • Elín Sigurðardóttir

    Ágæti Mörður. Mér þykir leitt að þessi grein hafi farið fram hjá þér. Hún er stórgóð og þú ættir að lesa hana:

    Er hústökufólk í borgarstjórn?

    Flugvallarmálið hefur verið mikið í deiglunni undanfarin misseri. Þessari grein er ekki ætlað að vera innlegg í þá umræðu heldur er hún um þá stöðu sem komin er upp í Fluggörðum Reykjavíkurflugvallar.

    Á síðasta ári fékk sala á flugskýli til einkaafnota ekki þinglýsingu á þeim forsendum að það vantaði skilyrði í samningnum um að tilvonandi eigandi þyrfti að rífa skýlið fyrir árslok 2015 á eigin kostnað. Þetta var það fyrsta sem eigendur skýlanna heyrðu um að til stæði að rífa skýlin.

    Fulltrúar félags eigenda í Fluggörðum sendu þá fulltrúa á fund borgarstjóra til að spyrja út í málið. Þar fengu þeir fengu skýr skilaboð um að umræða væri ekki í boði. Í kjölfarið sáu Fluggarðamenn sér engan sinn kost vænna en að leita álits lögmannsstofunnar Lex. Í áliti lögmanns á stofunni segir að á meðan ágreiningslaust sé að engir lóðasamningar hafi verið gerðir þá hafi 14 af 17 flugskýlum staðið í fullan hefðartíma, sbr. 2. gr. hefðarlaga 46/1905.

    Álitinu lýkur svo á þessum orðum: „Af hálfu Reykjavíkurborgar liggja fyrir skipulagsáætlanir sem miða að því að breyta Fluggarðasvæðinu í ibúabyggð. Virðist því stefnt að eignaupptöku á mannvirkjum í þeim mæli að það á sér fáar hliðstæður hér á landi. Í því ljósi hlýtur að vekja stórkostlega furðu að Reykjavíkurborg hefur lítið sem ekkert samráð haft við þinglýsta eigendur mannvirkja í Fluggörðum.“

    Í grunnstefnu Pírata segir að að allir eigi að hafa rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá. Þar segir einnig að Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda. Pírötum er því einfaldlega ekki stætt á öðru en að benda á þá stöðu sem þarna er komin upp. Að valtað sé yfir fólk án samráðs og án tillits til þeirra réttinda er nokkuð sem við Píratar í Reykjavík getum ekki horft upp á þegjandi og hljóðalaust.

    Undirritaðir telja að hægt sé að finna ásættanlegar lausnir á mörgum erfiðum málum. Grunnforsendur þess eru þó þær sömu og grunnforsendur raunverulegs lýðræðis: samskipti og upplýsingar. Án samráðs við þá sem hagsmuna hafa að gæta af ákvarðanatöku er aldrei hægt að halda því fram að ákvörðunin hafi verið tekin með sanngjörnum hætti, algjörlega óháð því hversu góð eða slæm hún er í sjálfu sér.

    Samningsstaða Fluggarðamanna er skert verulega sökum þess með hvaða hætti Reykjavíkurborg gengur fram. Þó er líklegt að ef af eignarupptöku verður sé borgin hugsanlega búin að baka sér heilmikla skaðabótaskyldu sem gæti orðið mun dýrkeyptari en sú leið að ganga heiðarlega að málinu.

    Halldór Auðar Svansson skipar 1. sætið á lista Pírata í Reykjavík.

    Þórgnýr Thoroddsen skipar 2. sætið á lista Pírata í Reykjavík.

  • Oddviti pírata er augljóslega sá eini sem er fær um að hugsa út fyrir boxið.

    Ábyggilega greindasti einstaklingurinn og sennilega sá hæfasti.

    En hann kann ekki að leika leikinn. Þekkir ekki fólk eins og tæknikratana í Samfylkingunni sem kunna öll tvistin.

    Hinir eru miðaldra kerfiskallar og – kellingar og rúmlega það rétt eins og síðuhaldari.

    Staðlað og staðnað fólk.

    Ótrúlega leiðinlegt – fólk sem bókstaflega vinnur að því að gera heiminn jafn leiðinlegan og það er sjálft.

    Vissulega er ákveðinn árangur fólginn í því að komast í aðstöðu til að þröngva eigin þröngsýni og miðaldra leiðindum upp á alla hina.

    Og þeir munu vinna!

    En mér þykja veruleg tíðindi í því að skattar hafi ekki hækkað í tíð núverandi meirihluta.

    Er það þá ímyndun mín að ég borgi miklu hærri eigna- og vatnskatta en áður?

    Sennilega bara ímyndun mín – ranghugmyndir – sem hæfasta forystusveitin, Mörður og allir hinir útvöldu, munu vafalaust útskýra fyrir mér og öllum hinum.

    Pólitík á Íslandi hefur aldrei komist lægra, fasistar til hægri sem nærast á hatri á ákveðnum trúarhópum og svo núverandi meirhluti sem er ofbeldishneigður og þröngvar öfgafullum skoðunum sínum upp á alla hina á meðan hann vinnur að eigin hagsmunum.

    Sennilega endar þetta illa.

    Þakkir og kveðja
    Rósa G.G.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur