Föstudagur 9.10.2009 - 19:35 - 10 ummæli

Eitthvað annað – allt hitt

Vilhjálmur Egilsson var einsog fulli frændinn í fermingarveislunni á umhverfisþinginu í morgun. Það hafði í sjálfu sér ákveðið skemmtigildi vegna þess að á þessum þingum er sífellt kappkostað að ræða alls ekki hugsanleg ágreiningsmál og verður þessvegna minna úr samkomunni en eðlilegt væri.

Fýlan í Vilhjálmi stafaði af úrskurði umhverfisráðherra um línulagnirnar á Reykjanesi – sem hann sagði að væri að koma vinnumarkaðnum í uppnám, og þar að auki kolólöglegur.

Svo kom enn sérkennilegri kafli þar sem Vilhjálmur sagði að „eitthvað annað“ en stóriðja og álver endaði alltaf með „ekki neinu“ sem kostaði gríðarlegt fé í atvinnuleysisbætur. Lá í loftinu að það væri líka ráðherranum að kenna – eða allavega umhverfissinnum og náttúruverndarfólki.

Við þennan málflutning er það að athuga …

… að sú stóriðja sem Vilhjálmur streðar við að koma hér upp tefst einkum vegna fjármagnsskorts og orkuóvissu en ekki úrskurða í umhverfisráðuneytinu (sjá merka grein Dofra Hermannssonar hér á Eyjunni).

… að stóriðjuverin tvö og hálft sem Vilhjálmur berst fyrir mundu gleypa alla fáanlega orku fyrir norðan og sunnan og meira til – þannig að ekkert yrði eftir fyrir „eitthvað annað,“ svo sem gagnaver og sólkísil.

… að sjálfur er Vilhjálmur framkvæmdastjóri samtaka atvinnurekenda þar sem stóriðja er aðeins lítill hluti fyrirtækjanna, sem flest fást við „eitthvað annað“ eða réttara sagt: „allt hitt“.

Sennilega er bara soldið snúið að vera Vilhjálmur Egilsson þessa dagana.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.10.2009 - 10:55 - 34 ummæli

Þriggja flokka stjórnin

Fréttir af fundinum hjá VG í gær eru þær að allir eru vinir. Niðurstaðan er að hætta að rífast í fjölmiðlum og halda áfram að styðja fyrstu ríkisstjórn vinstriflokka í sögunni – en að öðru leyti er allt við það sama: Liljuhópurinn situr við sinn keip og lofar engu nema skoða stjórnarfrumvörp þegar þau berast inn í þingið. Um helsta átakamálið – Icesave – er allt einsog var, og eins víst að um það verði á næstunni hafðar í frammi einhverjar þær æfingar með Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki sem enn tefji fyrir endurreisnarstarfi og enn veiki kraft og samloðun í stjórnarsamstarfinu.

Þingflokksfundur VG í gær virðist staðfesta að í raun situr hér við völd þriggja flokka stjórn. Eftir ráðherraskiptin í heilbrigðisráðuneytinu um daginn hefur staða hennar hinsvegar breyst þannig að tveir af stjórnarflokkunum eiga ráðherra í ríkisstjórninni en hinn þriðji styður hana frá máli til máls í þinginu.

Þriðji flokkurinn virðist ekki bundinn af neinskonar samkomulagi um að öflin sem að stjórninni standa nái niðurstöðu sín á milli um stærstu drætti í einstökum málum, heldur telur sig geta samið við stjórnarandstöðuflokkana – í nafni lýðræðis og þingveldis (nýyrði, afþví þingræði merkir annað) – hvenær sem er og stillt hinum stjórnarflokkunum tveimur upp frammi fyrir slíkri niðurstöðu.

Óljóst er hvað Liljuflokkurinn mundi gera ef hinir tveir reyndu að ná þingmeirihluta án hans, með einum af stjórnarandstöðuflokkunum eða einhverju öðru safni þingmanna. Líklega væri þá lokið hinum svokallaða stuðningi.

Ríkisstjórnin er þessvegna að sumu leyti verr sett en hefðbundin minnihlutastjórn einsog við þekkjum þær í grannlöndunum. Slík stjórn býr sér til meirihluta hverju sinni, og fellur ella, stundum með þessum flokki eða flokkum, stundum með hinum. Þessi stjórn þarf hinsvegar alltaf að tala fyrst við Liljurnar.

Marx sagði að hugmyndafræði fylgdi á eftir hagsmununum – og þessi sérkennilega staða Liljanna hefur þá réttlætingu að hér hafi framkvæmdavaldið nógu lengi kúgað löggjafann, og einmitt núna sé rétti tíminn til að fara í hinar öfgarnar.

Á meðan skellihlæja forystumenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks þar sem sjónvarpsvélarnar sjá ekki til.

Annar hugmyndagrunnur

Þetta er nógu djöfullegt – en undanfarna daga hefur líka komið skýrt í ljós að stjórnarflokkarnir þrír virðast byggja afstöðu sína til hinna erfiðu verkefna framundan á ólíkum hugmyndagrunni.

Annarsvegar eru Samfylkingin og Steingrímsmeirihlutinn í VG, sem vilja klára Icesave, vinna með AGS og grannþjóðum, endurreisa bankakerfi og atvinnulíf, færa fórnirnar strax en verja um leið það sem mestu skiptir í samfélaginu. Umbætur í stjórnkerfi og viðskiptalífi en byggja áfram á nánu alþjóðlegu samstarfi um viðskipti og pólitík. Og svo vill Samfylkingin ESB en hinir ekki – ennþá að minnsta kosti.

Liljurnar telja hinsvegar að ekki eigi að leggja áherslu á samskiptin við útlönd, láta skeika að sköpuðu með Icesave, hætta AGS-samstarfinu, skera minna niður en safna meiri skuldum (hvar? Ja, til dæmis í Noregi …), hætta tilraunum til að styrkja krónuna með lánum í gjaldeyrisforðann, sætta sig þarmeð við frekari gengislækkun krónunnar og mæta lífskjararýrnun með auknum sjálfsþurftarbúskap og höftum. Eftir sosum tíu ár fari svo að sjá til sólar á Splunkunýja Íslandi.

Sverrir Jakobsson benti á það í snjallri grein í Fréttablaðinu í gær að hávær útlendingaandúð og fórnarlambakenningar væru í raun í þráðbeinu framhaldi af belgingi og útrásarblaðskellum góðærisáranna, þjóðrembupólitík þeirra sem enn eru ekki orðnir edrú – og þurfa sumir að sækja sér kraft í draumaheim villta vinstrisins með hjartastyrkjandi samsæriskenningum og sefjandi besservisserfræðum. Einnig hér eru hugmyndaleg skil milli Liljanna og hinna stjórnarflokkanna tveggja.

Og þessi tvennskonar pólitísk grunnhugsun er satt að segja meira áhyggjuefni fyrir ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur en persónuleg píslarvættisköst einstakra þingmanna. Ríkisstjórn á okkar einstæðu tímum – hverjir sem hana mynda –  þarf að vera alveg klár á því hvert hún er að fara, og þingmeirihluti hennar verður að vera sammála um leiðarlýsinguna hvað sem einstökum áfangastöðum líður.

Dagur í senn

Og á þá ekki svona stjórn að fara frá? Það er erfitt fyrir einlægan stuðningsmann þessarar ríkisstjórnar að svara þessu játandi: Jú, undir öllum eðlilegum kringumstæðum ætti hún að gera það. Kringumstæðurnar eru hinsvegar ekki eðlilegar. Engin leið er í boði út úr vandanum önnur en sú sem ríkisstjórnin er að feta, að minnsta kosti meðan ekki myndast nýr meirihluti Lilja, Framsóknar og Sjalla um kartöflugarðastefnuna. Svokölluð þjóðstjórn – eða einhver önnur útgáfa af samstjórn S og D – er í fyrsta lagi tímaskekkja ári eftir hrun, og leysir í öðru lagi ekki vandann nema Sjálfstæðisflokkurinn breyti um stefnu gagnvart Icesave, AGS, fjárlögunum, velferðarþjónustunni og ESB. Það er heldur ekki líklegt að kosningar næstu mánuði mundu breyta aðstæðum – og ef þessi stjórn fokkast upp virðist raunhæfasti kosturinn af mörgum óraunhæfum vera einhverskonar utanþingsstjórn – sem væntanlega mundi í aðalatriðum hafa sömu stefnu og sú sem nú situr!

Hlutverk ríkisstjórnarinnar er með öðrum orðum svo mikilvægt að hún verður að reyna áfram, taka einn dag í einu einsog í AA, og missa samt ekki sjónar á markinu.

Þetta eru hinsvegar mikil vonbrigði fyrir stuðningsmenn stjórnarinnar – þann meirihluta kjósenda sem bjó hana til. Gagnvart öllu því fólki ber ábyrgð hver einasti þingmaður stjórnarflokkanna.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.10.2009 - 12:27 - 22 ummæli

Moggi þegir

Í gær urðu þau tíðindi að forsætisráðherra ríkisstjórnar Íslands bað þjóð sína afsökunar fyrir hönd ríkisvaldsins og íslenskra stjórnmálamanna á „vanrækslu og andvaraleysi stjórnvalda“ í hruninu.

„Hver sem niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis verður um ábyrgð einstakra aðila blasir við að ríkisvaldið, raunar allt frá einkavæðingu bankanna 2004, brást í því verkefni að koma í veg fyrir hörmungarnar sem yfir okkur dundu og a.m.k. að draga verulega úr högginu. Þess vegna tel ég mér sem forsætisráðherra skylt fyrir hönd ríkisins og stjórnsýslunnar að biðja íslensku þjóðina afsökunar á vanrækslu og andvaraleysi stjórnvalda að þessu leyti. Þjóðin er í sárum. Hún hefur liðið þjáningar og skaða sem enn sér ekki fyrir endann á. Þess vegna á hún heimtingu á afsökunarbeiðni. Það er síðan rannsóknaraðila og dómstóla að leggja grunn að og sjá svo til að þeir sem ábyrgð bera axli hana.“

Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir í ræðustól alþingis. Slík afsökunarbeiðni er einstæð í þjóðarsögunni.

Nú mætti ætla að helstu fjölmiðlar landsins segðu vel frá þessum atburði, skýrðu hann fyrir lesendum, hlustendum og áhorfendum, spyrðu aðra stjórnmálamenn og forystumenn álits – og ekki síður þann almenning sem afsökunarbeiðnin var ætluð. Og flestir þeirra segja þessa frétt með einhverjum hætti, nema …

… Morgunblaðið, sem segir ekki frá þessum kafla í ræðu forsætisráðherra. Svo spyr maður: Var það fagleg ákvörðun blaðamanns að þetta væri of ómerkilegt fyrir þá lesendur sem eftir eru? Eða finnst nýju ritstjórunum kannski ekki viðeigandi að forsætisráðherra biðjist afsökunar á andavaraleysi og vanrækslu þeirra sem gegndu ábyrgðarstöðum í hruninu og löngum aðdraganda þess?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.10.2009 - 09:51 - 12 ummæli

Það vantaði Ólínu

Jóhanna Sigurðardóttir að flytja skrifaða ræðu er ekki sérlega spennandi atburður, manni líður soldið einsog það sé 1. maí á árunum kringum 1960 og eftir nokkrar setningar leitar hugurinn eftir kaffi og kleinum. Þetta er einfaldlega Jóhanna, hefur lært þetta í verkalýðshreyfingunni og Alþýðuflokknum þegar hún var lítil og heldur í það af því annað er ekki betra og hún er hún, hvað sem hjálparmenn reyna að segja henni að gera það öðruvísi. Útifundarstíllinn sem Jóhanna lærði í ræðustól virkar reyndar róandi á mann – úr því Jóhanna talar einsog venjulega hlýtur allt að vera einsog það á að vera.

Forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína í gær á hefðbundinn hátt, en þetta var fín ræða, og einmitt stefnuræða þar sem hún lýsti viðhorfum stjórnar sinnar til þeirra vandamála sem nú er við að fást. Skuldakaflinn var góður – einkum í ljósi undanfarinna tíðinda úr VG: Icesave er auðvitað andstyggilegt mál, en þær skuldir koma ekki fyrren eftir sjö ár! Núna er þetta glíman:

* 350 milljarðar vegna halla ríkissjóðs,

* 350 milljarðar vegna lána til að styrkja gjaldeyrisforðann,

* 300 milljarðar til að endurfjármagna banka,

* 150 milljarðar vegna gengisþróunar eldri lána,

* 300 milljarðar til að bjarga Seðlabanka Davíðs frá gjaldþroti – sennilega um það bil helmingur af því sem við verðum að lokum að borga fyrir Icesave.

Bara vaxtakostnaðurinn verður árið 2010 næststærsti útgjaldaliðurinn á fjárlögum, 100 milljarðar.

Til eru þeir sem vilja fara hægar í sakirnar – skera minna niður, lifa á lánum. Þeir eru þá um leið að boða meiri halla á fjárlögum og meiri vaxtagreiðslur í framtíðinni. Jóhanna:

„Þessi bráðavandi hefur ekkert með Icesave að gera og ekkert með Alþjóða-gjaldeyrissjóðinn að gera. Þeir sem því halda fram eru að blekkja fólk. Það er sama hvort Alþjóða-gjaldeyrissjóðurinn er eða fer, sama hvort við borgum Icesave eða ekki. Við verðum að draga mjög hratt úr hallarekstri og skuldasöfnun ríkisins. Fjárhagsleg framtíð barna okkar og komandi kynslóða er í húfi. Glíman við fjárlagahallann á næstu árum snýst um hvort við Íslendingar höldum okkar efnahagslega sjálfstæði eða ekki. Ætlum við tapa þeirri glímu? Nei, segi ég. Ekki á minni vakt.“

Hin leiðin týnd

Svo kom stjórnarandstaðan, Bjarni, Sigmundur Davíð og þessi þrjú  sem nú kalla sig hreyfingu – og þetta fólk kvartar auðvitað yfir skattpíningu – sem ríkisstjórnin gerir rangt í að kynna ekki alla strax – og svo yfir Icesave-landráðunum, og hamast á AGS – en þar er engin önnur leiðsögn í boði, engin hin leið sem ætti að fara. Bara að fólk eigi lítið af peningum og skattar séu leiðinlegir.

Nema hjá Sjálfstæðisflokkum – og það verður virkilega spennandi að sjá tillögur Bjarna og félaga þegar þær eru tilbúnar. Hann ætlar ekki að hækka skatta, heldur bjóða útlendingum að fjárfesta og ryðja úr vegi hindrunum – var annars ekki búið að því voða mikið? – og ekki skera neitt niður? Ja, Sjálfstæðisflokkurinn ætlar allavega að koma með tillögur, og það er afar virðingarvert af hálfu stjórnmálaflokks sem á höfundarréttinn að íslenska hruninu. Nú er mikið tekið að setja enskar fyrirsagnir og heiti á allskonar markaðsfrumkvæði – og væri þá ekki sniðugt að tillögurnar hétu til dæmis: Maybe I should have?

Hvar var Ólína?

Vonbrigði kvöldsins var auðvitað að ekkert skyldi heyrast í Liljunum. Ögmundur var víst veikur heima og aðrir neituðu að tala, þannig að fyrir VG fóru í ræðustól bara Steingrímsmenn. En ekki síst úr þessum stað hefði verið fróðlegt að heyra um hina leiðina, það sem á að koma í staðinn fyrir að borga Icesave og vinna með AGS eftir strangri aðhaldsáætlun. Það hefur að vísu glytt í hina hugmyndafræðina á heimasíðu Ögmundar – til dæmis í pistlum Ólínu sem er að verða eitt kunnasta pennanafn íslenskra stjórnmála. Ólína (sem er greinilega ekkert í ætt við nöfnu sína Þorvarðardóttur) gerir stólpagrín að betliferð Steingríms J. til Istanbúls, les Alþjóða-gjaldeyrissjóðnum pistilinn og telur að Icesave sé til skammar fyrir Íslendinga og ríkisstjórnina. Hún vill greinilega „rísa upp“ einsog Ögmundur, en þau hafa að vísu enn ekki sagt okkur nákvæmlega gegn hverju (öðru en „umheiminum“ sem Ömmi er þegar búinn að negla sem helsta andstæðinginn).

Og þessvegna var einsog holur hljómur í ræðumennskunni allri í gær þegar Jóhanna var búin á útifundinum: Það vantaði Ólínu.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 2.10.2009 - 11:18 - 11 ummæli

Hvaðan kemur orkan?

Og nú lítur út fyrir að álverið í Helguvík tefjist um margar vikur af því umhverfisráðherra ákvað að láta athuga upp á nýtt sameiginlegt umhverfismat! Öll endurreisnin ónýt, atvinnuáform útí móa á Suðurnesjum og um allt land, ólga hjá atvinnurekenda og urgur í þingflokki Samfylkingarinnar (segir í blaðafréttum allavega), þingmenn Suðurkjördæmis á neyðarfundi um málið.

Þetta snýst núna um raflínurnar sem eiga að liggja þvers og kruss um Reykjanesskagann utanverðan, safnast svo saman við Keflavíkurveginn og dreifast aftur um allar sveitir á höfuðborgarsvæðinu. Svandís telur einfaldlega með tilvísun í nýleg lög að framkvæmdir af þessu tagi hljóti að eiga að meta saman við aðrar þær sem álversáformin leiða af sér – og að skipulags- og undirbúningsþáttur stórframkvæmda af tagi Helguvíkur verði að fá að taka sinn tíma í samræmi við islensk-evrópskt regluverk til að styrkja lýðræði og skynsemi i stjórnsýslu.

Enda hafa hinir framkvæmdaglöðu í nógu að snúast, og hafa enn ekki gert grein fyrir lykilþáttum í framkvæmd sem þó er löngu hafin – svo sem fjármögnunin. Hvaðan koma peningarnir?   

Önnur lykilspurning sem enginn hefur svarað enn, ekki álverseigandinn, höfðingjar á Suðurnesjum, atvinnurekendafélagið, allir iðnaðarráðherrarnir og þingmenn Suðurkjördæmis: Hvaðan kemur orkan?

Sigmundur Einarsson jarðfræðingur reynir hinsvegar að svara þessari spurningu í merkilegri grein á Smugunni um Hinar miklu orkulindir Íslands, og fjallar þar bæði um stóriðjuáform í Helguvík og á Bakka – þar sem líka er mikill fyrirgangur þessar vikurnar þótt menn viti lítið um orkuna og ennþá minna um peningana.

Sigmundur vekur athygli á því að það Helguvíkurver sem upphaflega var áætlað, 250 þúsund tonna verksmiðjan, þarf 435 megavött raforku, en samningsbundnir orkuaflendur, HS og OR, geta aðeins útvegað því 360 MW – og þá með því að ráðast í afar umdeilanlegar og umdeildar framkvæmdir, svo sem á Ölkelduhálsi og í Krýsuvík.

Nú á álverið ekki lengur að framleiða 250 þúsund tonn á ári heldur 360, heldur meira en Fjarðaál í Reyðarfirði, og þarf þarmeð heldur meiri orku en heila Kárahnjúkavirkjun eða samtals 630 MW. Þegar verið er búið með alla hugsanlega orku úr jarðhitavirkjunum HS og OR, þá sem ekki hefur þegar verið ráðstafað í annað, þarf Helguvík í viðbót 270 MW. Þau eru ekki til á Suðurlandi, segir Sigmundur.

Hvaðan kemur orkan? – sú sem hinar miklu raflínur eiga að flytja eftir Reykjanesskaganum? Kannski úr Þjórsá neðri? Eru virkilega allir þingmenn Suðurlands sáttir við það?

En jafnvel allar þrjár virkjanirnar sem Landsvirkjun ætlar sér til viðbótar í Þjórsá duga ekki til. Uppsett afl í þeim er áætlað 255 MW. Enn vantar á, þegar Helguvíkurverið hefði sogað til sín alla fáanlega orku á Reykjanesskaga, Hengilssvæðinu og neðantil í Þjórsá. Og þar með spillt möguleikum á „sætu stóriðjunni“ – gagnaverum, sólarkísli, aflþynnum og svo framvegis – en að auki þrengt að orkuöflun í framtíðinni fyrir heimili og atvinnufyrirtæki á þessu svæði öllu.

Staðreyndin er nefnilega sú að núverandi Helguvíkuráform spilla möguleikum á atvinnuuppbyggingu í orkufrekum iðnaði á Suður- og Suðvesturlandi. Nútímalegum kostum í þeim efnum er á glæ kastað fyrir þenslugróða kringum Helguvík. Kreppan hefur sett stuð í Suðurnesjaforustumenn, atvinnurekendafélagið, iðnaðarráðherrana og þingmenn Suðurkjördæmis. Menn vilja bara fá eitthvað – sem allra fyrst – sama hvað verður svo og stendur eftir – og þá skipta litlu þau störf sem þetta kostar í framtíðinni.

Hvaðan á orkan að koma? Fyrir hrun var svarið það klassíska: Það reddast einhvernveginn. Djúpborun. Innri orka í dreifingarkerfinu sjálfu. Ný svæði, því orkuauðlindir í iðrum jarðar væru nánast óþrjótandi. Á síðustu árum hefur – því miður – komið í ljós að þannig er það alls ekki, og ýmis vonarsvæði orkufyrirtækjanna brugðist illilega, þar á meðal orkusvæðið mikla á sjálfu Reykjanesinu.

Tími reddinganna er liðinn. Og þeir sem hæst æpa vegna stjórnsýsluákvarðana ráðherrans sem fer með umhverfis- og skipulagsmál, þeir þurfa að svara sem fyrst þessari einföldu spurningu: Hvaðan kemur orkan?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.10.2009 - 20:41 - 15 ummæli

Hinsta eintak rann inn um lúgu

Morgunblaðið veldur ýmsum vanda þessa dagana. Á miklu lesheimili á Bræðraborgarstígnum ákvað húsfreyjan að segja upp áskrift að blaði allra landsmanna eftir áralöng og innileg samskipti. Þegar síðasta Morgunblaðið barst síðasta dag septembermánaðar orti húsbóndinn þetta harmljóð:

Hinsta eintak rann innum lúgu

óðar gripið til lestrar var.

Önnur blöð lágu öll í hrúgu

enginn skipti sér af þeim par.

Svo var lesið Alvalds Orðið

eftir hverri línu gáð.

Loks var málgagnið lagt á borðið,

lifi Mogginn í Davíðs náð.

Lagboði er Rósin hinsta, eða írski depurðarsöngurinn The last rose of summer sem margir þekkja í íslenskri útgáfu Böðvars Guðmundsonar um ,,Lambið hinsta“ sem af fjalli var leitt (takk, Andri).

Ekki hefur enn frést af Bræðraborgarstíg um áhrif hins átakanlega dreifibréfs frá nýju ritstjórunum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.10.2009 - 08:49 - 18 ummæli

Aðför hins ofbeldisfulla umheims

Ögmundur er hættur og fari hann vel – sumum finnst þetta aðdáunarverð prinsippmennska, þá má spyrja afhverju prinsippin þrýtur þegar kemur að stuðningi við þessa vondu Icesave-stjórn? Það er heldur ekki erfitt að kinka kolli í áttina að Ömma og taka eftir að þar fer maður sem lætur ekki hégóma ráðherradómsins villa fyrir sér, en þá má líka spyrja hvort velferðarmálefni og afdrif heilbrigðisþjónustunnar séu honum svo lítils virði að hann stekkur frá öllu saman daginn áður en kynntur er – með ráðum og fullu samþykki Ögmundar Jónassonar – mesti niðurskurður í heilbrigðismálum nokkru sinni.

En auðvitað býður sannfæringin honum þetta. Icesave-féð er að sönnu líklega ekki „nema“ um fimmtungur af skuldum ríkisins, og afborganir hefjast fyrst eftir sjö ár – en samt er þetta  langstærsta málið núna í vitund ráðherrans fyrrverandi, miklu meira mál en varðstaðan um velferðarkerfið, staða heimilanna, dýrtíð og atvinnuleysi, viðreisn bankakerfisins fyrir íslenska vinnustaði og venjulegt fólk:

Í mínum huga er þetta (þ.e. vinnubrögðin í Icesave) ekkert smámál; þetta er grundvallaratriði í þessu stóra máli, sem er miklu stærra en ríkisstjórnin og nokkur stjórnmálaflokkur innan veggja þingsins,

segir Ögmundur í Fréttablaðinu í dag.

Mér hefur alltaf verið hlýtt til Ögmundar og oft fundist hjörtun slá í takt. Fari hann vel. En kannski hefur hann – og fleiri innan VG? – einfaldlega verið ósáttur við þann grundvöll sem stjórnarsamstarfið byggist á: Að við vinnum okkur eins fljótt og vel út úr skuldunum og hægt er, með verulegu átaki og niðurskurði næstu ár, að við endurreisnina sé þegin hjálp frá öðrum þjóðum og alþjóðlegum stofnunum, – og að Íslendingum gefist kostur á að taka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu sem einni leið fram á við í efnahagsmálum meðal annars.

Manni sýnist á viðtalinu við Ögmund í Fréttablaðinu að sýn hans á viðburði hér að undanförnu sé sú að Ísland hafi lent í einhverskonar Tyrkjaráni þar sem Hollendingar, Bretar og Alþjóða-gjaldeyrissjóðurinn séu að koma þrælsfjötrum á landsmenn. Auðvitað með hjálp Evrópusambandsins. Plan B núna, það er nefnilega

að rísa á fætur gagnvart þessum grimma, ágjarna og ofbeldisfulla umheimi sem hefur stöðugt í hótunum við okkur. … Þá horfi ég til dæmis til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem er hér kominn inn á gafl. Við þurfum að losna við hann sem allra fyrst. Sumir standa í þeirri trú að hann hafi gefið okkur einhver hagfræðiráð. Svo er ekki. Þetta er pólitísk stofnun sem gengur erinda lánardrottna og sér til þess að allir skuldunautar greiði þeim í topp, hvort sem þeir eru borgunarmenn fyrir því eða ekki. Þetta hefur ekkert með efnahagsráðgjöf að gera.

Nei, þetta er aksjón sem er búið að skipuleggja vel og vandlega:

Sjóðurinn reynir að samræma aðförina að Íslandi með því að loka á alla lánaliði og hafa í hótunum við þá sem ætla að veita Íslendingum fyrirgreiðslu.

Aðför. En hefur ekki ríkisstjórn Vinstri-grænna tekið þátt í öllu saman? Jú, kannski, en nú er nóg komið, segir félagi Ögmundur:

Ég held að við þurfum að segja við AGS: takk fyrir komuna, nú skuluð þið hafa ykkur á braut og við gerum þetta á eigin forsendum. Það verður hins vegar ekki gert nema við sannfærum aðrar þjóðir sem taka þátt í þessu spili, eins og Norðurlandaþjóðirnar og aðra sem raunverulega vilja rétta okkur hjálparhönd, að þær eigi ekki að fara að skipunum AGS eða Evrópusambandsins. Ekki gleyma hlut þess í málinu.

AGS hefur ekki beinlínis aukið vinsældir sínar hér undanfarið með því að tengja lánafyrirgreiðslu sína lyktum Icesave-málsins, og sú skoðun er sennilega nokkuð útbreidd að sjóðurinn sé frekar óþokkaleg stofnun. Þar skiptir kannski máli að það er þægilegt fyrir stjórnmálamenn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, að vísa á sjóðinn þegar kemur að óvinsælum þáttum í efnahagsstefnunni. Einhverjum kann að finnast það frekar billegt, en formaður Framsóknarflokksins er á svipaðri línu og Ögmundur, og við hana gæla líka formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins í viðtölum að undanförnu. 

Alveg örugglega sammála Ögmundi er bandaríski spekingurinn Webster Tarpley sem þessa dagana heldur fyrirlestra um heimsmálin í Reykjavík. Hann telur einmitt að Íslendingar eigi að rífa sig undan AGS sem fyrst, taka forystu fyrir skuldugum ríkjum í heiminum og hefja alþjóðlegt afborganaverkfall.

Webster Tarpley telur líka að forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, sé leiguþý auðmanna á Wall Street.

Og Webster Tarpley er líka einn þeirra sem hafa séð gegnum 11. september 2001. Árásirnar á tvíburaturnana eru víst bara lygi úr CIA.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.9.2009 - 08:42 - 18 ummæli

Rétt

Fréttablaðið segir frá því að Jóhanna leggi stjórnarsamstarfið undir við lokahluta sögunnar endalausu um Icesave. Sjálfsagt mundi hún orða það öðruvísi sjálf (Sjáum til, sagði hún í gær), en þetta er auðvitað eina leiðin.

Í ljós kemur – sem enginn þarf að vera hissa á – að lánardrottnar okkar í Hollandi og Bretlandi sætta sig ekki við alla Icesave-fyrirvarana – einkum ekki þann að Íslendingar ákveði sjálfir hvenær greiðslum lýkur. Í raun var ljóst að sá „fyrirvari“ mundi setja málið allt í uppnám – vegna þess að með honum fór meirihluti alþingis út af þeirri línu þar sem ekki mátti misstíga sig: Að Íslendingar væru tilbúnir að greiða skuldir sínar – hversu djöfullega sem til þeirra var stofnað.

Mér sýnist að fyrri fyrirvarapakkinn, það sem fram kom við 2. umræðu í sumar, hafi verið í góðu lagi, ekki síst ákvæðin sem áttu að tryggja íslenska hagsmuni gagnvart regluþróun innan Evrópusambandsins. Fyrirvararnir sem bættust við milli annarrar og þriðju voru hinsvegar afar sérkennilegir, og stjórnarforystan virtist þá hafa látið taka sig á taugum. Liljuhópurinn í VG réð ferðinni í samstarfi við stjórnarandstöðuna, bæði ráðherrar og forvígismenn meirihlutans í fjárlaganefnd hugsuðu um það eitt að klára dæmið sem allra fyrst.

Utan valdasala héldu menn í putta og vonuðu að viðsemjendur – sem reyndar töldu samningum lokið – mundu sjá í gegnum fingur við Íslendinga. Eiginlega var veðjað á að þeir sofnuðu frá málinu af einskærum leiðindum, en það var nokkur ofætlan um ráðamenn í þessum gömlu ríkjum.

Meginmálið í Icesave fyrir stjórnvöldum í Hollandi og Bretlandi er annarsvegar að geta sýnt kjósendum sínum að hagsmunum þeirra er sinnt. Hinsvegar vilja menn á alþjóðavettvangi ekki fallast á að ríki geti einhliða ákveðið að falla frá skuldum sínum, allra síst ríki sem tilheyrir hinum vestræna kjarnahópi, þótt smátt sé. Fyrir okkur var meginmálið að sýna fram á að við ætluðum einmitt að gera þetta: borga skuldirnar. Þegar það væri ljóst kom vel til greina að hagræða þeim með ýmsu móti, setja fyrirvara um greiðsluþol, fara fram á upptöku samninga við ákveðin skilyrði. Að ætla að hætta á ákveðinni dagsetningu, hvernig sem málið þá stæði – það reyndust vera ævintýralegir glæfrar. Og nú er allt komið í klessu.

Þingræði, stjórnarmeirihluti

Þingræði er það að ríkisstjórn þurfi að styðjast við meirihluta á þinginu. Við höfum þingræði, en ekki til dæmis Bandaríkjamenn þar sem ríkisstjórnin er ekki formlega háð meirihluta á þingi.

Hér hefur undanfarna áratugi þróast sérkennileg tegund þingræðis þar sem meirihluti þingmanna hefur í raun lotið ráðherravilja – hlutverk alþingis hefur aðallega verið að hýsa átök stjórnarmeirihluta og stjórnarandstöðu. Margt bendir til að þetta sé að breytast eftir hrun og búsáhaldabyltingu. Það er gott.

En breytir ekki hinu, að í þingræðisfyrirkomulagi að okkar hætti verður meirihlutaríkisstjórn að geta treyst á þingmeirihluta í stærstu málum, þeim sem samið er um í stjórnarsáttmála eða leiðir beint af stefnu ríkisstjórnarinnar. Ef sá þingmeirihluti er ekki fyrir hendi – þá er stjórnin annaðhvort fallin, eða breytist í minnihlutastjórn, sem þarf að búa sér til meirihluta á þingi eftir aðstæðum hverju sinni.

Þessvegna er það rétt hjá Jóhönnu að biðja Liljurnar að ákveða núna hvort þær vilja halda áfram eða láta stjórnarþátttöku sinni lokið hér með.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.9.2009 - 08:38 - 6 ummæli

Tæknikratar tapa

Ósigur þýskra jafnaðarmanna vekur athygli – þeir tapa þriðjungi fyrra fylgis og hafa ekki fengið verri útreið í sögu Þýska sambandslýðveldisins. Það hjálpar þeim ekki að Kristilegir fengu heldur enga glæsikosningu – Merkel býr til klassíska þýska hægristjórn en einn helsti forystuflokkur jafnaðarmanna um heiminn hrekst í stjórnarandstöðu með þeim smáflokkum sem hann hefur í nokkrum áföngum eflt svo að litlu munar nú á hinum gamla jafnaðarflokki Brandts og samanlögðum Græningjum og Vinstrimönnum.

Hér fer í senn fram mörgum sögum – en í stuttu máli hefur SPD ekki tekist að sannfæra kjósendur í Þýskalandi um að einmitt hann sé burðarflokkurinn sem eigi að hafa forustu á erfiðum tímum. Til þess sveigði hann þó af braut „inn á miðjuna“ – sem er sósíaldemókratískt dulmál um hægristefnu – og skildi við það eftir verulegt rúm fyrir ábyrgðarlítinn en veltalandi vinstriflokk hins hugumstóra Lafontaines, sem eittsinn var einmitt kallaður til Íslands að ræða endurnýjun í hreyfingu jafnaðarmanna. Löngu áður hafði SPD mistekist að aðlaga sig öflugri umhverfisvakningu í Þýskalandi, sem þar hefur þó sett sterkan svip á pólitík, og í kosningunum nú hirtu Grænir sín típrósent fyrirhafnarlítið þótt þá skorti sannfærandi forystumenn og fáir teldu þá á leið í landstjórnina.

Gerhard Schröder var á ýmsan hátt merkur stjórnmálamaður – en viðskilnaður hans varð ekki jafnaðarflokknum til heilla, og síðan hefur þar staðið samfelld forystukreppa. Kurt Beck hélt sig utan samstjórnarinnar með Merkel og tók eiginlega þá afstöðu að hafa flokkinn í hálfgildings stjórnarandstöðu. Það var athyglisverð lína vegna þess að hún passaði þrátt fyrir allt við stöðuna – stjórnin með Kristilegum var nánast nauðungarstjórn þar sem hvorugum flokknum tókst upp – en hinn kumpánlegi Kurt formaður varð fórnarlamb vondrar stöðu í könnunum og vondra úrslita í fylkiskosningum. Flokkselítan gerði aðsúg að Beck undir forystu hins gráa Steinmeyers,  sem nú hlýtur að sjá sína sæng útreidda – og náði aldrei neinu sambandi við þýskan almenning og allra síst við þá samfélagshópa sem jafnaðarmönnum eru dýrmætastir – verkalýðshreyfingu, ungt fólk, menntamenn, konur.

Einn vandi þýska flokksins eftir talsverða stjórnarsetu í Bonn og Berlín og ekki síður víðsvegar í fylkjunum („löndunum“) er auðvitað sá að þar sækja til áhrifa allskonar „fagmenn“ í pólitík, tæknikratar sem oftar en ekki líta á stjórnmál sem karríer þar sem leysa þurfi sem best ýmis praktísk verkefni – en hafa í sjálfu sér engan stórkostlegan áhuga á málefnunum, lítinn skilning á aðstæðum almennings eða þeirra hópa sem SPD á helst við söguleg tengsl, ekki glóð í hjarta eða eld í æðum þrátt fyrir ýmsar gráður í hinum og þessum stjórnmála-, stjórnunar- og fjölmiðlafræðum. Þetta er hægt að ráða við ef helstu forystumenn eru alvörufólk í stjórnmálum og kunna að nýta hæfni tækifærissinnuðu teknókratanna án þess að láta þá móta pólitíkina. Voðinn er hinsvegar vís þegar té-té-liðið kemst sjálft til valda. Það sýna þýsku kosningarnar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 4.9.2009 - 20:04 - 7 ummæli

Asni klyfjaður gulli

Landsvirkjun hefur í áratugi hagað sér einsog ríki í ríkinu – rekur hér erindi sín leynt og ljóst einsog hvert annað samviskulaust fjölþjóðafyrirtæki.

Þetta er samt opinbert fyrirtæki, áður meira að segja að hluta í eigu tveggja sveitarfélaga, en kannski einmitt þessvegna hafa því liðist starfshættir og vinnubrögð sem fyrir löngu hefðu sett venjulegt einkafyrirtæki út af sakramentinu hjá viðskiptamönnum, stjórnvöldum og almenningi. Þar skiptist á einörð valdbeiting í krafti gríðarlegs peninga- og sérfræðingaveldis og svo það gamla ráð að senda asna klyfjaða gulli að þeim borgarmúrum sem ekki falla við fyrsta högg.

Og hér þarf að segja að þetta er ekki að kenna allskyns fínu fagfólki og verkmönnum í fyrirtækinu sem vinna sín störf af trúmennsku .

Kannski var þetta í gamla daga svolítið einsog með General Motors í Bandaríkjunum: Það sem var gott fyrir Landsvirkjun hlaut að vera gott fyrir Ísland. Nú er ástandið á General Motors einsog það er – og manni sýnist Landsvirkjun heldur ekki vera í toppformi.

Breyttar aðstæður í efnahagsmálum, stjórnmálum og umhverfismálum hljóta að leiða til þess að Landsvirkjun stokki upp í sjálfri sér og starfsháttum sínum, geri sér grein fyrir hlutverki sínu í samfélaginu og fari einkum að umgangast Íslendinga af virðingu. Og kannski íslenska náttúru líka?

Úrskurður samgönguráðuneytisins um mútusamninga Landsvirkjunar við Flóahrepp hlýtur að vekja nýja stjórn Landsvirkjunar til umhugsunar – að ógleymdum stjórnum annarra orkufyrirtækja sem að þessu leyti hafa fetað í fótspor Lalla frænda. Nýja stjórnin hlýtur að setjast á rökstóla með væntanlegum forstjóra um breytingar á öllum starfsháttum í þessu öflugasta fyrirtæki almennings á Íslandi.

Upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar var í Sjónvarpsfréttum í kvöld að bregðast við í mútumálinu. Af þeirri frammistöðu að dæma er þetta brýna endurskoðunarstarf því miður ekki hafið.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur