Fréttir af fundinum hjá VG í gær eru þær að allir eru vinir. Niðurstaðan er að hætta að rífast í fjölmiðlum og halda áfram að styðja fyrstu ríkisstjórn vinstriflokka í sögunni – en að öðru leyti er allt við það sama: Liljuhópurinn situr við sinn keip og lofar engu nema skoða stjórnarfrumvörp þegar þau berast inn í þingið. Um helsta átakamálið – Icesave – er allt einsog var, og eins víst að um það verði á næstunni hafðar í frammi einhverjar þær æfingar með Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki sem enn tefji fyrir endurreisnarstarfi og enn veiki kraft og samloðun í stjórnarsamstarfinu.
Þingflokksfundur VG í gær virðist staðfesta að í raun situr hér við völd þriggja flokka stjórn. Eftir ráðherraskiptin í heilbrigðisráðuneytinu um daginn hefur staða hennar hinsvegar breyst þannig að tveir af stjórnarflokkunum eiga ráðherra í ríkisstjórninni en hinn þriðji styður hana frá máli til máls í þinginu.
Þriðji flokkurinn virðist ekki bundinn af neinskonar samkomulagi um að öflin sem að stjórninni standa nái niðurstöðu sín á milli um stærstu drætti í einstökum málum, heldur telur sig geta samið við stjórnarandstöðuflokkana – í nafni lýðræðis og þingveldis (nýyrði, afþví þingræði merkir annað) – hvenær sem er og stillt hinum stjórnarflokkunum tveimur upp frammi fyrir slíkri niðurstöðu.
Óljóst er hvað Liljuflokkurinn mundi gera ef hinir tveir reyndu að ná þingmeirihluta án hans, með einum af stjórnarandstöðuflokkunum eða einhverju öðru safni þingmanna. Líklega væri þá lokið hinum svokallaða stuðningi.
Ríkisstjórnin er þessvegna að sumu leyti verr sett en hefðbundin minnihlutastjórn einsog við þekkjum þær í grannlöndunum. Slík stjórn býr sér til meirihluta hverju sinni, og fellur ella, stundum með þessum flokki eða flokkum, stundum með hinum. Þessi stjórn þarf hinsvegar alltaf að tala fyrst við Liljurnar.
Marx sagði að hugmyndafræði fylgdi á eftir hagsmununum – og þessi sérkennilega staða Liljanna hefur þá réttlætingu að hér hafi framkvæmdavaldið nógu lengi kúgað löggjafann, og einmitt núna sé rétti tíminn til að fara í hinar öfgarnar.
Á meðan skellihlæja forystumenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks þar sem sjónvarpsvélarnar sjá ekki til.
Annar hugmyndagrunnur
Þetta er nógu djöfullegt – en undanfarna daga hefur líka komið skýrt í ljós að stjórnarflokkarnir þrír virðast byggja afstöðu sína til hinna erfiðu verkefna framundan á ólíkum hugmyndagrunni.
Annarsvegar eru Samfylkingin og Steingrímsmeirihlutinn í VG, sem vilja klára Icesave, vinna með AGS og grannþjóðum, endurreisa bankakerfi og atvinnulíf, færa fórnirnar strax en verja um leið það sem mestu skiptir í samfélaginu. Umbætur í stjórnkerfi og viðskiptalífi en byggja áfram á nánu alþjóðlegu samstarfi um viðskipti og pólitík. Og svo vill Samfylkingin ESB en hinir ekki – ennþá að minnsta kosti.
Liljurnar telja hinsvegar að ekki eigi að leggja áherslu á samskiptin við útlönd, láta skeika að sköpuðu með Icesave, hætta AGS-samstarfinu, skera minna niður en safna meiri skuldum (hvar? Ja, til dæmis í Noregi …), hætta tilraunum til að styrkja krónuna með lánum í gjaldeyrisforðann, sætta sig þarmeð við frekari gengislækkun krónunnar og mæta lífskjararýrnun með auknum sjálfsþurftarbúskap og höftum. Eftir sosum tíu ár fari svo að sjá til sólar á Splunkunýja Íslandi.
Sverrir Jakobsson benti á það í snjallri grein í Fréttablaðinu í gær að hávær útlendingaandúð og fórnarlambakenningar væru í raun í þráðbeinu framhaldi af belgingi og útrásarblaðskellum góðærisáranna, þjóðrembupólitík þeirra sem enn eru ekki orðnir edrú – og þurfa sumir að sækja sér kraft í draumaheim villta vinstrisins með hjartastyrkjandi samsæriskenningum og sefjandi besservisserfræðum. Einnig hér eru hugmyndaleg skil milli Liljanna og hinna stjórnarflokkanna tveggja.
Og þessi tvennskonar pólitísk grunnhugsun er satt að segja meira áhyggjuefni fyrir ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur en persónuleg píslarvættisköst einstakra þingmanna. Ríkisstjórn á okkar einstæðu tímum – hverjir sem hana mynda – þarf að vera alveg klár á því hvert hún er að fara, og þingmeirihluti hennar verður að vera sammála um leiðarlýsinguna hvað sem einstökum áfangastöðum líður.
Dagur í senn
Og á þá ekki svona stjórn að fara frá? Það er erfitt fyrir einlægan stuðningsmann þessarar ríkisstjórnar að svara þessu játandi: Jú, undir öllum eðlilegum kringumstæðum ætti hún að gera það. Kringumstæðurnar eru hinsvegar ekki eðlilegar. Engin leið er í boði út úr vandanum önnur en sú sem ríkisstjórnin er að feta, að minnsta kosti meðan ekki myndast nýr meirihluti Lilja, Framsóknar og Sjalla um kartöflugarðastefnuna. Svokölluð þjóðstjórn – eða einhver önnur útgáfa af samstjórn S og D – er í fyrsta lagi tímaskekkja ári eftir hrun, og leysir í öðru lagi ekki vandann nema Sjálfstæðisflokkurinn breyti um stefnu gagnvart Icesave, AGS, fjárlögunum, velferðarþjónustunni og ESB. Það er heldur ekki líklegt að kosningar næstu mánuði mundu breyta aðstæðum – og ef þessi stjórn fokkast upp virðist raunhæfasti kosturinn af mörgum óraunhæfum vera einhverskonar utanþingsstjórn – sem væntanlega mundi í aðalatriðum hafa sömu stefnu og sú sem nú situr!
Hlutverk ríkisstjórnarinnar er með öðrum orðum svo mikilvægt að hún verður að reyna áfram, taka einn dag í einu einsog í AA, og missa samt ekki sjónar á markinu.
Þetta eru hinsvegar mikil vonbrigði fyrir stuðningsmenn stjórnarinnar – þann meirihluta kjósenda sem bjó hana til. Gagnvart öllu því fólki ber ábyrgð hver einasti þingmaður stjórnarflokkanna.