Föstudagur 14.05.2010 - 14:01 - FB ummæli ()

Tómu húsin

gamalt húsÞað er ekki laust við að maður fyllist ákveðinni svartsýni og kvíða á þessum svarta föstudegi þegar yfir okkur rignir eldi og brennisteini og sem nú nálgast sjálft höfuðborgarsvæðið. Sumir hafa þurft að yfirgefa húsin sín á suðurlandi sl. vikur, ekki síst undir Eyjafjöllum. Mikill fjöldi húsa og íbúða standa hins vegar yfirgefin og tóm þessa daganna af allt annarri ástæðu og bíða nýrra eigenda. Þar er ekki um að kenna náttúruhamförum, heldur hörmum okkar sjálfra.

Gömul hús hafa staðið auð víða á landsbyggðinni lengi, ein og yfirgefin en sem fá menn til að staldra við á ferðalaginu. Þau segja mikla sögu. Sögu um fyrri eigendur og meira um líf þeirra en legsteinninn eða krossinn á leiðinu í sveitakirkjugarðinum Bygging jafnvel steinhús í svita síns erfiðis, til að búa fjölskyldunni betra líf. Tilfinningar sem vakna þegar hugsað er um uppeldi barnanna, gleði og sorgir í lífinu.

Nú standa hins vegar önnur og glæsilegri hús tóm. Jafnvel heilu blokkirnar víða um land, nýbyggðar og nýtískulegar og sem eiga sér jafnvel enga sögu um einstaklinga, en samt allt aðra sögu. Eigendurnir, sem í flestum tilvikum eru nýju bankarnir, bíða nú aðeins eftir því að fjársterkir aðilar kaupi þau. Hvaðan þeir fjársterku aðilar eiga að koma er svo annað mál. Og ástandið er rétt að byrja. Hljómar heldur ópersónulega þegar um er að ræða sjálf híbýli manna sem geta ekki frekar en skepnurnar verið án húsaskjóls sem oft sárlega vantar. Við höfum jú ákveðnar lágmarks grunnþarfir og á þeim byggist framtíð okkar og til að hægt sé að tryggja velferð barnanna sem eiga að erfa landið.

Heilu fjölskyldurnar eru nú líka reknar úr húsunum sínum, enda fjórðungur fjölskyldna í landinu gjaldþrota. Þeirra bíður þrautarganga og ölmusuleið um ókomin ár. Heilu bújarðirnar úti á landi eru að flosna upp af kröfu bankanna. Ábúendur flæmdir af jörðum sem þeir eiga ekki lengur en sem gengu jafnvel í arf, mann fram að manni, allt frá því á landnámsöld. Stórhöfðingjar og stóreignamenn sem jafnvel áttu heilu sveitirnar tryggðu þó ábúendum búseturétt í sveitinn hér áður fyrr. Fjársterku aðilarnir í þá daga.  

Og svo er það gamla fólkið sem man tímanna tvenna og nú reyndar þrenna. Það tapaði líklega mest í hruninu, oft öllum ævisparnaðinum. Sumir höfðu náð að spara vel til ellinnar með kaupum í bankabréfum, en sem síðan var rænt frá þeim og gott betur með svikum og prettum. Stórum hluta af skyldulífeyrissparnaðinum var líka rænt frá þeim á sama hátt. Margir hjálpuðu sínum nánustu og gáfu veð í eignum sínum, en standa nú uppi allslaus í staðinn. Það fólk er jafnvel komið á vergang í dag og búið að missa húsin sín. Fólk sem nær sennilega ekki að lífa nógu lengi til að endurheimta traustið, jafnvel til náungans, sem þeim var samt í blóð borið í æsku. Sumir kvíða þannig aðeins aðstæðum í ellinni, að fá ekki húsaskjól, bað og kaffi síðustu aldursárin.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn