Miðvikudagur 19.05.2010 - 22:40 - FB ummæli ()

Hvers eiga höfuðborgarbúar að gjalda?

spri_27_1_cover.inddHingað til hefur maður staðið í þeirri trú að heilbrigðisyfirvöld teldu að heilsugæsluþjónustan væri nauðsynlegur hornsteinn heilbrigðisþjónustunnar, ekki bara úti á landi heldur einnig á höfuðborgarsvæðinu. Þannig er það að minnsta kosti í nágrannalöndunum. Heilbrigðisráðherra hefur einnig tjáð sig um málið að undanförnu og telur að tryggja þurfi mönnun í heilsugæsluþjónustunni í náinni framtíð, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. En það er ekki allt sem sýnist og oft virðist sem vinstri höndin viti ekki hvað sú hægri gerir. Geðþóttaákvarðanir virðast þannig ráða oft miklu þegar niðurskurðarhnífnum er brugðið á loft og oft er ekki horft til langtímaafleiðinga og þess kostnaðar sem ótímabærar lokanir og skerðing á þjónustu getur valdið. Skammtímasjónarmið og skammtímasparnaður geta þannig verið dýrkeypt úrræði. Stundum þarf að birgja brunninn á fleiri vígstöðum en í slysavörnum og í sjúkdómavörnum meðal almennings. Heilbrigðiskerfisslys eiga sér líka stað. Það er skylda hvers heilbrigðisstarfsmanns að benda eining á þær slysagildrur sem sjá má fyrir og reyna þannig að birgja brunninn eins og kostur er.

Sl. daga hafa verið kynntar lokanir á ýmsum heilbrigðisstofnunum í sumar. Aðallega er um að ræða stofnanir á höfuðborgarsvæðinu. Geðdeild LSH lokar einni deild í sumar og lokanir verða á Barna- og unglingageðdeild LSH (BUGL). Í gær var kynnt á heimasíðu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að hún ætlar að loka öllum síðdegisþjónustum heilsugæslustöðvanna í sumar. Aðeins bráðustu erindum verður sinnt en öðrum vísað á kvöld- og helgarvaktir Læknavaktarinnar, Barnalæknavaktarinnar og á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Fyrir ári síðan var skorið niður um 20% í móttöku heilsugæslustöðvanna og nú á að skera aftur niður um annað eins. Hvers eiga höfuðborgarbúar að gjalda? Fyrir er veruleg undirmönnun í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu hvað lækna varðar og atgerfisflótti er brostinn á í þeirra röðum vegna kjaraskerðingar og álags. Nýir sjúklingar fá sig ekki skráða á heilsugæslulækni og stór hluti sjúklinga er óskráður á lækni á heilsugæslustöðvunum. Gamla heimilislæknaskráningin á höfuðborgarsvæðinu er við það að springa.

Í sumar verður því engin sjúklingamóttaka á stöðvunum eftir kl. 15. Mönnun verður minni á stöðvunum í sumar enda takmarkað ráðið i sumarafleysingar. Til að bæta gráu ofan á svart er Læknavaktin auk þess samningslaus frá sumri og óvíst er með áframhaldandi rekstur. Allir geta því séð í hvaða óefni stefnir hér á höfuðborgarsvæðinu í sumar. Fyrir er álagið á Slysa- og bráðamóttöku mjög mikið eins og fram hefur komið í fjölmiðlum að undanförnu og hjá formanni Læknafélags Ísands og ekki er séð hvernig anna á álaginu. Meirihluti heilbrigðisþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu stefnir því í að verða neyðarþjónusta og skyndiþjónusta á kvöldin og um helgar. Eftirfylgni með krónískum sjúkdómum og langveikum verður í lágmarki. Geðsjúklingar verða látnir sitja á hakanum og gamla fólkið og fatlaðir sem geta beðið, verður boðið að koma til eftirlits með haustinu. Klínískar leiðbeiningar um góðar ávísanavenjur í heilsugæslunni m.a. á sýklalyf sem skrifað er um í ritstjórnargrein í júníhefti Norræna heimilislæknablaðsins SJPHC verða væntanlega látnar sitja á hakanum. Á skyndivöktunum er hins vegar hver mínúta dýr, öllum sem þangað leita og starfa. Sjúkdómarnir láta ekki bíða eftir sér og sjúklingar munu leita ráða í löngum biðröðum eða þeir einfaldlega bíða heima í þeirri von um að þeim muni batna sem þeir eflaust gera í mörgum tilvikum, en ekki öllum. Maður lokar ekki á nauðsynlega heilsugæsluþjónustu langtímum saman á annan hátt en það hafi alvarlegar afleiðingar í för með sér. Og skilaboðin eru misvísandi, hvenær er þjónustan nauðsynleg og hvenær er hún ekki nauðsynleg? Hvar á fyrsti viðkomustaður sjúklings helst að vera? Sennilega verður hægt að fá betri þjónustu víða út á landi. Höfuðborgin stendur ekki undir nafni hvað heilbrigðisþjónustna varðar í sumar, svo mikið er víst.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn