Þriðjudagur 25.05.2010 - 09:02 - FB ummæli ()

Að búa í borg en lifa í sveit

Iceland_World_EXPO_2010_ShanghaiÍ gærkveldi fór ég í minn venjulega göngutúr með hundana mína. Það sem var e.t.v frábrugðið því venjulega var að veðrið var einstaklega gott. Kvöldsólin í vestri yfir Snæfellsnesinu og það grillti í tunglið yfir Úlfarsfellinu. Blankalogn og sól á heiði en klukkan samt tveimur tímum fyrir miðnætti.

Mikil óveðursblika hefur verið í lofti í mannheimum sl mánuði. Gosinu er þó sem betur fer lokið, í bili að minnsta kosti. Bæjarstjórnarkosningar framundan en samt veit enginn sitt rjúkandi ráð varðandi málefni okkar mannanna og hvað þeir ætla að kjósa. Hundarnir eru alltaf tryggir vinir og láta sér slíkar áhyggjur í léttu rúmi liggja.

Mér varð hugsi um þau forréttindi, þrátt fyrir allt sem á undan er gengið, að fá að búa á þessu landi, elds og ísa. Í vetur, hvað sem öðru leið, var alltaf gott veður og í fyrsta skipti á ævinni gat ég talið daganna og mánuðina eftir tunglstöðunni hverju sinni. Áramótatunglið var það glæsilegasta og gaf strax fyrirheit um gott ár, en undir vorið hvarf það mér sjónum. Myrkrið er líkla afstætt eins og veðrið og aðeins örsjaldan þurfti ég að grípa í gemsann minn til að gefa mér smá ljósglætu til að geta gengið stíginn minn upp á heiðina góðu. Það er samt hundunum einum að þakka að ég fer þessa göngutúra kvölds og morgna. Örlög frekar en val. Og þvílík örlög. Þvílíkt hundalíf.

Stundum velti ég því fyrir mér hvort það hafa verið örlögin sem réðu því að við fjölskyldan fluttum út í sveit rétt fyrir hrun. Aðrar skýringar eru auðvitað auðfundnar en aldrei hafði ég ímyndað mér fyrirfram, að geta verið kominn upp í sveit rétt norðan við Korpúlfsstaði. Nálægðin við Úlfarsfellið og Hamrahlíðarbjörgin hafa meðal annars þessi áhrif og manni finnst maður jafnvel geta verið kominn í einhvern fjörðinn á Vestfjörðum. Fuglalíf í móum og sjávarfugl í björgum.

Göngustígarnir sem gætu þess vegna verið rollustígar leiða mann um náttúruna og hver kafli hefur sín sérkenni. Þannig er það líka í lífinu. Sumir kaflar taka meira á fótinn en aðrir. Sumir eru um rennislétt tún og mjúkir. Svo koma skurðir og brekkur. Smá grjót og klettar, móar og mýrar. Uppi á heiðinni er víðsýnt og maður horfir yfir sveitina, sundin blá og höfuðborgina samtímis.

Stundum veltir maður líka fyrir sér um gildismatið á búsetunni. Að búa í dýru húsnæði í þröngum miðbænum og njóta þess sem þar býðst í skarkalanum eða búa í sveitasælu í útjaðri höfuðborgarinnar. Gjörólíkir staðir sem báðir bjóða upp sitt, allt eftir því hverju maður sækist eftir. Ósjaldan horfi ég út á Vesturlandsveg og sé þá alla fínu jeppana, sumir með húsvagna, aðrir með kerrur með snjósleða og allt tilheyrandi á leið út úr bænum, eitthvað langt út í sveit þangað sem ég hef aldrei komið.  Sumir hafa allan þann tíma sem þeir vilja en aðrir hafa aldrei þann tíma og flýta sér út úr bænum um leið og þeir geta.

Flestir reyna að sníða sér stakk eftir vexti. Bæjarstjórnir reyna að hlúa á mannlífinu, hver á sinn hátt. Góð bæjarstjórn í þéttbýli reynir að sjá til þess að útivistarmöguleikar séu margir og góðir. Græn svæði og barnvænlegt umhverfi. Samgöngur tryggar og umferðaröryggi í öndvegi. Á annan hátt þurfa sveitafélög í dreifðari byggðum að huga vel að sínum. Tryggja nærþjónustuna og skólastarfið fyrir börnin sem erfa munu landið.  Að sameina andann, hugann, menninguna og náttúruna er alltaf aðal takmarkið og þar höfum við Íslendingar svo sannarlega mikið upp á að bjóða. En skyldum við koma þessu til skila þegar við kynnum landið okkar nú í landkynningunni miklu á vegum ferðamálaráðs og á heimssýningunni EXPO 2010?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag · útivist · Vinir og fjölskylda

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn