Sunnudagur 03.04.2011 - 11:08 - FB ummæli ()

Áhrif streitu á heilsu barnanna okkar

Mikið hefur verið rætt um það hvað við getum gert til að bæta heilsu okkar og líðan, ekki síst á krepputímum þegar tengsl líkama og sálar eru aldrei nátengdari. Ekki síst þar sem í nútíma þjóðfélagi má tengja flesta sjúkdóma við stress. Skortur á tíma og mikið álag má segja að sé faraldur 21. aldar enda hraði grundvöllur flestra tækninýjunga. Tölvuvæðing og að allt eigi að vera auðfengið, fljótt og skjótt. Talað hefur verið jafnvel um tölvukynslóðina m.a. í háskólasamfélaginu á Íslandi um þá sem fæddust á níunda áratugnum og eru nánast stöðugt nettengdir við lófatölvurnar sínar.

Afköst okkar í vinnunni eiga líka að vera meiri með vaxandi arðsemiskröfu. Ekki síst í vaxandi kreppu eins og hjá okkur þar sem launin hafa lækkað um helming á aðeins 2 árum hjá þeim sem eru þó eru svo heppnir að hafa vinnu. Þeir hinu sömu verða nú að leggja harðar að sér og vinna lengur sé þess nokkur kostur vegna mikilla skulda heimilanna. Heimila sem þó eru tæknilega mörg gjaldþrota í dag. Gjaldþrota eins og sjálf gullgæs Reykvíkinga, Orkuveitan sem áður malaði gull en mergsýgur nú orkuna úr höfuðborgarbúum og skólakerfi barnanna okkar í staðinn.

Foreldrar, ekki síst ungir foreldrar fara síst varhluta af stressinu og álaginu í dag. Sama kynslóð og reyndar týndist að stórum hluta í Finnlandi vegna streitu foreldranna í kreppunni þar á áttunda áratug síðustu aldar. Sama hætta er nú á Íslandi ef ekki er rétt staðið að málum hjá yngstu börnunum sem fædd eru á nýrri tækniöld. Síðustu fréttir að tryggja eigi öllum framhaldsskólanemum rétt til skólasetu næsta skólaár er auðvitað skref í rétta átt en ekki má gleyma yngstu börnum með sínar þarfir sem eru nú í mestri hættu á að týnast.

Einn alvarlegastur áhættuþáttur hjartasjúkdóma (hækkaður blóðþrýstingur og hjartsláttur) er streitan sem auk þess leiðir af sér átraskanir, verri matavenjur og skyndibitamenningu. Offita er mest áberandi birtingarmynd þess ástands þar sem við Íslendingar eru fremstir í flokki, meðal feitustu þjóða Evrópu í dag og þúsundir barna eiga við að stríða. Streitan er síður eins sýnilegur áhættuþáttur annarra alvarlegra sjúkdóma svo sem heilablóðfalls, skertu ónæmiskerfi og sýkingartilhneyingu, meltingartruflana, lélegri tannheilsu, svefntruflana, kynlífstruflana, þrálátra verkja, þunglyndis, námsörðugleika og jafnvel krabbameins. Af allt of mörgu er að taka og sem hægt er að gera skil í þessum pistli en sem ég geri ef til vill síðar.

Gagnvart börnunum verð ég þó að nefna augljósar staðreyndir sem því miður virðist mörgum huldar. Óþarfa lyfjanotkun og skyndilausnir sem hafa alvarleg áhrif á heilsu ungra barna á Íslandi og eru afleiðingar lífshátta okkar eins og offita og tannskemmdir meðal þeirra. Ef foreldrar mega ekki vera að því að vera heima með veikt barn eykst t.d. þrýstingur á þessar lausnir svo sem óþarfa sýklalyfjameðferð sem síðan leiðir af sér aukna sýkingartíðni og vanþrif. Alvarlegast þó þróun alvarlegs sýklalyfjaónæmis fyrir allt þjóðfélagið og sem er talið vera meðal mestu heilbrigðisógna framtíðar að mati Alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Ástand sem kemur sér verst þegar mest á reynir, ekki síst hjá börnum og gamla fólkinu.

Miklu síðar koma alvarleg geðræn áhrif þó fram hjá börnunum sem eru ung í dag, eins og sýndi sig af reynslu Finna í kreppunni þeirra á áttunda áratug síðustu aldar. Þar sem streita og óhamingja foreldra í kreppu var stærsti áhættuþáttur geðraskana unglinga síðar, barna sem gleymdust og týndust. Ekki má heldur gleyma öllum þeim börnum sem búa við ofbeldi hverskonar, ekki síst á heimilum og markar þau fyrir lífið. Afleiðingar sem koma hvergi betur fram en í lífstílssjúkdómunum svokölluðu og sállíkamlegum einkennum sem þegar eru svo einkennandi fyrir nútíma þjóðfélag.

Fyrir þremur árum, vorið fyrir hrun, var ég beðinn að taka þátt í málþingi Foreldrafélags Vesturbæjar í Reykjavík og kynna rannsóknir mínar og félaga um sýklalyfjanotkun ungbarna, sýkingar og þróun sýklalyfjaónæmis meðal helstu sýkingarvalda þeirra. Sólveig Eiríksdóttir (Solla græna) ræddi matarvenjur barna og hollustu. Hafliði Kristinsson fjölskylduráðgjafi ræddi helstu félagsleg vandamál skólabarnanna, tengsl við fjölskyldulífið og leiðtogahlutverk foreldra. Samnefnari niðurstaðna okkar þriggja kom okkur öllum jafnt á óvart. Niðurstöðurnar sjálfar voru þó lélegt fæði skólabarna og skyndibitamenning, mikið stress og álag barna og foreldra þeirra og mikið sýklalyfjaónæmi og há sýkingartilhneying. Samnefnarinn og orsökina sjálfa töldum við hins vegar öll þrjú ásamt frábærum fundarstjórnanda, Kristjáni Emil Jónassyni (Heilsa 107 og Fjárhagur 107), vera tímaleysið og stress í nútíma þjóðfélagi sem bregðast yrði gegn með öllum ráðum.

Skortur á tíma með börnunum okkar endurspeglaðist þannig vel í helstu meinum þeirra, jafnvel í blússandi góðæri. Samhljóma niðurstaða sem við fengum eftir að hafa nálgast vandamálin úr þremur ólíkum áttum og án fyrirfram gefins samráðs sem annars einkenndi allt okkar samfélag í meintu góðæri. Skortur á tíma var ekki það sem við fyrirfram lögðum upp með en sem að lokum skýrði flest vandamálin sem við stöndum frammi fyrir í dag, hvort heldur er varðar líkamlega heilsu eða andlega. Það að eyða tíma með börnunum sínum og ræða t.d. matargerð og hollustu skiptir meira máli en það sem endilega lagt er fyrir þau á borðið hverju sinni. Sama má segja ef þeim líður illa hvort heldur er sálarlega eða vegna líkamlegra kvilla sem læknast af sjálfu sér eins og kvefsýkingar. Samveran og að gefa sér góðan tíma með hvort öðru skiptir mestu máli. Sjá MYNDBAND og kynningu http://heilsa107.blog.is/blog/heilsa107/

Viðtal við mig um efnið á Bylgjunni, Í bítið 4.apríl 2011

Sjá viðtal við Elizabeth Blackburn í Kastljósi um áhrif stress á litningna okkar og öldrun 27.6.2011

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn