Föstudagur 15.04.2011 - 13:40 - FB ummæli ()

Að geta en gera ekki?

Til að einfalda vandamálið sem snýr að sýklalyfjaónæmisþróun hér á landi og aðgerðum stjórnvalda til að sporna gegn henni, sem ég og ýmsir aðrir teljum mjög alvarlega þróun, vil ég aðeins taka út eina spurningu frá Siv Friðleifsdóttur til velferðarráðherra, Guðbjarts Hannessonar frá 15. mars sl. og svar hans frá því á mánudaginn og sem ég tilgreini hér fyrir neðan. Mér finnst svarið lýsandi fyrir skilningsleysi heilbrigðisyfirvalda á rót vandans. Því miður virðist ekki til mikils að ætlast í framhaldinu um breyttar ávísanavenjur á sýklalyf ef þetta viðhorf er ríkjandi og væntanlega þá miklu minni árangur af pneumókokka-bólusetningunni sem nú er að fara í gang. Spurningin var þessi:

Telur ráðherra að mikil notkun sýklalyfja við eyrnabólgum ungbarna á Íslandi tengist verklagi í heilsugæslunni og miklu álagi á vaktþjónustuna og barnalæknavaktina vegna undirmönnunar lækna í heilsugæslunni? Svarið var: „Það er ósannað að börn fái frekar ávísað sýklalyfjum utan dagvinnutíma heldur en á dagtíma, enda sjá sömu læknar börn á daginn og utan dagvinnutíma. Það eru engin skynsamleg rök fyrir því að læknar fylgi klínískum leiðbeiningum einungis á daginn en ekki utan dagvinnutíma. Gjöf sýklalyfja við sýkingum er alltaf háð mati læknis og þau gefin í samráði við foreldra.“

Í þessu svari  kemur upp mikil vanþekking á vinnu heimilislæknisins sem á að byggjast á þekkingu á sjúkrasögu skjólstæðings, mikilvægi fræðslu í heilsugæslunni og möguleikum á eftirfylgd og eftirliti, ekki síst með sjúkdómum sem oftast læknast af sjálfu sér. Mikilvægustu skilaboð nýrra alþjóðlegra klínískra leiðbeininga sem við gengum út frá sem sömdu Klínískar leiðbeiningar landlæknis um meðferð á bráðri miðeyrabólgu. Leiðbeiningar sem kenndar eru við NICE, leiðbeiningar breskra heilbrigðisyfirvalda um meðferð loftvegasýkinga í þjóðfélaginu.

Ástæða doktorsverkefnis míns var fyrst og fremst að kanna ávísanavenjur lækna, afleiðingar gagnvart útbreiðslu sýklalyfjaónæmra bakteríustofna og helstur ástæður sem skýrt gæti mun á milli svæða. Afleiðinga sem síðan endurspegluðust í þjóðfélaginu öllu. Þessu tel ég mig hafa gert allgóð skil í ritgerðinni minni 2006 og vísa einnig til rannsókna Péturs Péturssonar, heimilislækni á Akureyri  um áhrifavalda á „ Non-pharmacological prescriptions“ á sýklalyf sem var efni mastersritgerðar hans við Norræna lýðháskólann. Margt í umhverfi læknis ræður úrlausn vandamála sem hann stendur frammi fyrir. Skortur á tíma, vöntun á fræðslu og sameiginlegum markmiðum á vinnustað ræður miklu ásamt mörgum öðrum atriðum eins og tekjum. Auglýsingamáttur lyfjafyrirtækja ræður líka miklu, vinnuaðstæður á vakt og margt fleira. Segja má að NICE leiðbeiningarnar ganga einmitt út á að styrkja fræðsluþáttinn og gott aðgengi að heilsugæslunni. Markmið Alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar WHO og sem var áréttað 7. apríl sl. var einmitt að skerpa á þessari vitund meðal heilbrigðisyfirvalda og stuðla að meiri fræðslu og rannsóknum um þessi efni.

Mikil vanþekking ráðamanna virðist þannig ríkja á afleiðingum mismunandi úrlausna á algengustu vandamálum heilbrigðiskerfisins hér á landi og sem snýr að 20% allra koma á skyndivaktir sem eru loftvegasýkingarnar. Eins yfir helming allra ástæðna að börn leiti til læknis sem eru miðeyrnabólgurnar. Ástæður sem bara hjá ungum börnum skýra um 20% allra sýklalyfjaávísana í þjóðfélaginu.

Sýklalyfávísun er fljótlegasta og sem sumir telja öruggustu leiðina til að „afgreiða“ sjúkling fljótt og án þess að eiga á hættu að hafa verið talinn of íhaldssamur. Einskonar baktrygging. Viðhorf sem eiga að vera gjörbreytt í dag og heyra sögunni til miðað við ríkjandi aðstæður og þróun mikils sýklalyfjaónæmis. Nokkuð sem bólusetningin nú ein og sér leysir engan veginn af hólmi, þvert á móti getur aukið á vandann til lengri tíma ef aðrar ráðstafanir eru ekki gerðar á sama tíma því hætt er við að nýir ónæmir stofnar komi í stað þeirra sem bólusett er gegn í dag. Markvissar aðgerðir til að draga úr sýklalyfjanotkun sem er ennþá í dag allt of mikil. Að geta en gera ekki?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn