Þriðjudagur 24.05.2011 - 12:06 - FB ummæli ()

Orðin og þjóðin

Spássíuskreyting úr lögbókinni, Reykjabók Jónsbókar, AM 345 fol.

Íslendingar eru bjartsýn þjóð og hugsa alltaf að bráðum komi betri tíð með blóm í haga. Hjá þjóðinni hefur enda alltaf skipst á skin og skúrir, blómaskeið og hamfarir, góðæri eða kreppur. Stundum hamfarir, öflug eldgos og kreppa allt í senn, eins og maður hugsar nú til í norðan nepju, ösku og frosti í lok maí.

Sumir segja að á Íslandi búi nú fátæk þjóð enda flestar fjölskyldur skuldugar upp fyrir haus og allt að fjórðungur heimila tæknilega gjaldþrota. Sama má segja um atvinnufyrirtækin þar sem þúsundir standa ekki í skilum. Samt erum við meðal auðugustu þjóða veraldar þegar eignir okkar og þjóðarbúsins eru taldar saman, svo ekki sé talað um menntun þjóðarinnar og allar auðlindirnar. Við erum þannig sennilega bæði fátæk og rík.

Við erum að minnsta kosti rík af stolti og efumst aldrei um ágæti okkar. Dugleg og afskaplega hjálpleg hvort við annað þegar á reynir eins og sýnir sig nú best á Suðurlandi þar sem allt er á kaf í ösku og Austurlandi þar sem allt er á kafi í snjó, í miðjum sauðburði. Í orðunum erum við óumdeilanlega rík þjóð og á þeim byggist stærsti menningararfur okkar. Orðfærið sem gerir okkur fyrst og fremst að þeirri þjóð sem erum. Allt frá þeim tímum sem við vorum höfðingjar í Noregi eða þrælar, höfum við meitlað það mál með íslensku letri. Til að tala hvort við annað, skrifa lög og segja sögur.

Forn- og miðaldabókmenntirnar er einmitt sá arfur sem forfeðurnir skildu eftir sig fyrir okkur að njóta og byggja á. Arfur sem gerir okkur að einstakri bókaþjóð, íslenskri þjóð. Þar sem orðin fá yfirleitt mestu ráðið. Orðin sem skópu lýðræðið og geta verið sem beittasta vopn, en líka sundrað í stað þess að sameina. Orðin sem herðir stálið, en bræðir stundum sálina í senn.

Nýlega fórum við í víking með aðeins orðgljáfrið að vopni. Víking sem var tímaskekkja um rúm þúsund ár. Við fórum líka í hringi í orðræðunni og enduðum á sama stað um við lögðum upp frá við strendur Íslands. Jafnvel í málum málanna þegar allir vitringar landsins lögðu afl sitt á árarnar og vit sitt á vogarskálar réttlætis. Niðurstaðan varð engin enda vantaði góðan málstað og réttlætiskennd.

Myndin hér að ofan er skinnhandritsteikning úr Reykjabók af gömlum mönnum á leið á þing með lögbækurnar sínar. Sjálfsagt Jónsbók og fleiri góðar lögbækur í upphafi miðalda þegar þekking á lögum var líka mikilvæg. Tæplega þúsund árum síðar vefst lagatúlkunin samt ennþá oft fyrir okkur, að greina á milli þess sem er rétt og rangt. Orðin sem mynda lögin eru þannig greinilega ekki allt. Orð og lög sem virðast líka fá breytta merkingu eftir því sem við eldumst og þjóðin líka.

Um daginn velti ég því fyrir mér hvað stæði á milli raunveruleikans sem ég stóð frammi fyrir og þess sem ég vildi lýsa með orðum. Á milli virtist alltaf himinn og haf, og sama hversu mikið ég reyndi, var aðeins um ákveðna nálgun að ræða. Ég velti fyrir mér eitt andartak hvort blindir gætu séð með ímyndunaraflinu einu saman og hversu langt þeir væru frá sannleikanum mínum, eða hvort þeir væru ef til vill nær honum en við hin sem þó sjáum. Hversu mikið fara blindir á mis við eða hversu mikið ná þeir að bæta sér það upp með huganum, ímynduninni, heyrninni eða einhverju allt öðru og sem fanga væntanlega orðin á annan hátt. Það er líka langt frá túlkun tilfinninga til orða. Orð sem aldrei verða nema skugginn af því sem maður vildi sagt hafa, en samt stundum svo fullkomin og falleg, en stundum líka ljót. Jafnvel orð sem meiða.

Orðfátækt er afstætt hugtak og ef til vill aðeins tilkomið í orðabókum til að við hættum aldrei að leita og móta það sem við viljum segja. Kannski líka til að við getum skammast okkur örlítið. Efniviðurinn er enda endalaus, uppspretta orða og sagna á íslensku máli um alla ævi. Um landið, söguna og baráttuna hvernig á að haldi uppi litlu þjóðfélagi á norðurhjara veraldar, á einni öflugustu eldfjallaeyju veraldar. Þar sem jafnvel svart og hvítt fær nýja merkingu eins og hendi sé veifað. Það er okkar mál.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn