Mánudagur 13.05.2013 - 13:31 - FB ummæli ()

Ofgnótt lyfja í íslensku gáttinni

brain explodingÍ fréttatíma RÚV í gærkvöldi var fjallað um á fjórða tug athugasemda frá Lyfjastofnun til Landlæknisembættisins vegna lyfjagáttarinnar svokölluðu. Rafræn tölvugátt fyrir lækna til að senda rafræna lyfseðla í apótekin og sem starfrækt hefur verið hér á landi sl. 5 ár og tekur orðið við nær öllum útgefnum lyfjaávísunum á landinu. Hún hefur þó þá annmarka að aðeins starfsfólk apótekanna getur séð hvaða lyf fólk á eftir að fá afgreitt frá hinum ýmsu læknum.

Læknarnir sjálfir, ekkert frekar heimilislæknar viðkomanda, svokallaðir gæsluverðir sjúkraskránna, fá hins vegar aðgang að gáttinni til að átta sig á hvað liggur þar inni. Af hinum ýmsu lyfjum á hverjum tíma, frá hvaða læknum og eins með tilliti til hugsanlegra aukaverkanna og milliverkana lyfjanna. Eins þar sem viðkomandi getur verið að taka sama lyfið undir mismunandi heitum (t.d. gamalt fólk), tekið vitlaus lyf út við tilfallandi nýjum kvillum (t.d. ungt fólk) sem hvortveggja eru dæmi um, sem og möguleikum á misnotkun vegna endurtekinna lyfjaávísana á geð-. verkja-, kvíða- og svefnlyf. Lyfjaflokkar sem mikið hafa verið til umfjöllunar vegna mikillar notkunar hér á landi og sem stundum eru misnotuð og ganga kaupum og sölum á hinum svarta markaði.

Algengasta einstaka lyfið sem skrifað er upp á Íslandi í dag er Imovane svefntöflur, eða um 5 milljón skammtar (DDD) á ári sem fara flest gegnum gáttina. Milli 5-10% allra lyfjanotkunar landans. Algengustu svefnlyfin í dag eru nú talin mikið varasamari en áður og mikil aukning er í komum t.d. á bráðadeildir tengt notkun þeirra á einn eða annan hátt. Oftast er um aldraða að ræða og tengt milliverkun við önnur lyf, ekki síst verkja- og geðlyf. Bara af Stilnoct, sem er næst algengasta svefnlyfið hér á landi, hefur orðið vart yfir 200% aukningu í komum á bráðamóttökur Í Bandaríkjunum sl. ár. Vegna áhrifa daginn eftir, eru síðan Norðmenn farnir að mæla þessi efni í blóði ökumanna og sem fá á sig dæmdar sektir, svipað og um ólöglegt áfengi í blóði væri að ræða. Löngu er tímabært a.m.k. að trekkja niður mikla svefnlyfjanotkun landans og sem nálgast 10 milljón svefnskammta á ári. Lyf sem eru miklu meira notuð hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og þar sem átök hafa verið gerð til að draga stórlega úr notkuninni.

Stór hluti af vandamálinu snýr reyndar einnig að endurnýjunarvenjum á lyf sem viðgangast hér og sem eru nær eingöngu nú rafrænar inn í lyfjagáttina. Oft áður hálfsjálfvirkt með viðtölum við læknaritara þar sem læknarnir sjálfir anna ekki lengur símaálaginu, en þurfa engu að síður að samþykkja ávísunina að lokum. Læknirinn getur heldur ekki séð hvað aðrir læknar hafa skrifað upp á utan heilsugæslunnar eins og áður sagði, sem er sérstaklega bagalegt þegar um svefn-, geð- og verkjalyf er að ræða. Mál sem mikið hefur verið rætt um áður sl. ár tengt lokaðri lyfjagátt, enda töluvert langt í sameiginlega sjúkraskrá þar sem upplýsingar gætu legið fyrir og eins þar sem læknabréf milli lækna berast oft seint eða ekki, jafnvel yfir 50% tilvika.

Margt er þannig á huldu hvað er að gerast í lyfjagáttinni frægu, en sem virkar nú sem hálfgerð svefngátt fyrir marga. Í stað þess að læknir fái nú meiri tíma til að ræða við skjólstæðinga sína beint, ekki síst með tilliti til lyfjameðferða, eykst álagið stöðugt og skrifræðið. Vottorðamál milli himins og jarðar, nú síðast þar sem stendur til að heimilislæknar geri samantekt á lyfjakostnaði einstaklinga vegna svokallaðs þaklyfjaskýrteina. Þótt hann hafi ekki, frekar en aðrir læknar, nema takmarkaðan aðgang að upplýsingum og engan úr lyfjagátt apótekanna. Tíma læknis væri auk þess mikið betur varið til þeirra hluta sem hann er menntaður til að annast. Læknismeðferðar og fræðslu, en ekki á kostnaði vegna lyfjalyfjakaupa og sem auðvitað er ekkert annað en útreikningur á sjúklingaskatti.

Lyfjagáttin og rafrænir lyfseðlar geta skapað mikið öryggi varðandi lyfjaávísanir almennt, ef gáttin er ekki notuð sem lokuð lyfjagryfja. Margsinnis hefur verið bent á vandann sl. ár en sem eykst stöðugt. Það eina sem hins vegar hefur alltaf vantað er viljinn og einfalt samþykki Persónuverndar, lýðheilsunni til verndar.

http://www.laeknabladid.is/tolublod/2011/07/nr/4280

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2011/05/27/opid-upp-a-gatt/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2013/04/12/vakna-thu-nu-thjod-min/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2013/03/25/ologleg-svefnlyfjanotkun-islendinga/

http://www.ruv.is/frett/hafa-aldrei-notad-meiri-svefnlyf

http://www.medscape.com/viewarticle/803495?nlid=31023_1048&src=wnl_edit_dail&uac=12227BT

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn