Miðvikudagur 24.09.2014 - 14:58 - FB ummæli ()

Læknaskorturinn og verðmætamatið á Íslandi í dag

panda

Stöðumat hjá Pöndu minni á laugardaginn

Þegar umræða um heilbrigðismál og lækna er farin að snúast um bráðabirgðalausnir í útflutningsgámum á sjálfri Landspítalalóðinni, á sama tíma og hundruð lækna flýja sjálfir nauðviljugir landið til að geta staðið í skilum með námslánin sín og skaffað húsaskjól fyrir fjölskylduna, er mikilvægt að staldra aðeins við og horfa um öxl. Hvað þurfa ópin annars að vera hávær í heilbrigðiskerfinu öllu og greinar lækna í blöðunum margar til að stjórnvöld skilji vandann og tekur áratugi að bæta? Með hverjum deginum sem við eru að sökkva dýpra í ráðaleysið og glundroðann sem skapast hefur t.d. á sjálfu höfuðborgarsvæðinu. Lyfjamálin í algerum ólestri, heilsugæslan, grunnþjónusta heimilislækna að hrynja og sumar heilsugæslustöðvar vart mannaðar læknum lengur. Erfitt er eins orðið að halda uppi eðlilegri læknisþjónustu á mörgum sviðum Landspítala-Háskólasjúkrahúss vegna læknisskorts og þar sem mjög alvarlegt ástand hefur oft skapast, m.a. á lyflæknisdeildum, krabbameinsdeildum og á bráðamóttökunni. Á staði þangað  sem leiðir okkar margra liggja í mestu neyð lífsins.

Sjálfsagt mega margar aðrar starfsgreinar í opinberri þjónustu kvarta, t.d. hjúkrunarfræðingar og kennarar. Málið snýr þó einfaldlega að mér þannig sem íslenskum lækni, að ég tel óvíða í hinum vestræna heimi sé læknismenntunin verr metin í dag og á Íslandi og hvergi er ungum sérfræðilæknum og jafnvel unglæknum gert jafn erfitt að framfleyta sér og fjölskyldu sinni og hér á landi. Þeir fá oft tæplega greiðslumat til íbúðakaupa í dag vegna hárra námslána (sem geta numið allt að 20 milljónum króna) og þar sem afborganir námslána eru jafnframt tekjutengdar án nokkurs skattaafslátts, borga þess í stað hátekjuskatt vegna mikillar vinnu. Fæstir sérfræðilæknar koma enda heim að sérnámi loknu og margir unglæknar eru þegar farnir að leggja á ráðin með vinnu erlendis um leið og þeir geta strax eftir kandídatsárið (starfsnámið), jafnvel plön löngu áður en 6 ára skólanámi þeirra lýkur. Til landa þar sem kjörin eru betri og skilningur á gildi góðrar læknismenntunar margfalt meiri.

aldursdreifing

Sextíu og sex læknar hafa flutt af landi brott árlega sl. 5 ár, á sama tíma og aðeins 28 læknar velja að koma heim aftur. Hver árgangur nýrra lækna sem útskrifast frá Læknadeild HÍ samanstendur af 40-50 manna hópi. Því má segja til einföldunar að megnið af yngri læknunum flytji burt varanlega og veruleg aldursmisdreifing eigi sér þá fljótt stað, eins og kom vel fram í viðtali við Þorbjörn Jónsson, formann Læknafélags Íslands í Fréttablaðinu í fyrradag og meðfylgjandi skýringamynd úr greininni sýnir. Yfir þrjúhundruð eldri lækna munu síðan hætta störfum næstu 10 árin og hlutfall íbúa á hvern lækni mun þá snarhækka um heilan fjórðung.

Sennilega er ég mest gáttaður á viðvarandi skilningsleysi stjórnvalda og áhugaleysis pólitískra flokka að standa vörð um góða læknisþjónustu á Íslandi. Kjör lækna almennt eru mismunandi og margir teljast reyndar til hálaunahópsins í þjóðfélaginu. Mikil vinna, ábyrgð og vaktabinding skýrir í flestum tilvikum hærri laun lækna en annarra starfstétta á opinberum markaði í dag eins og áður sagði. Það eru grunnlaunin sem eru með öllu óviðunandi. Stjórnvöld telja hins vegar að einkavæðing, frekar en launahækkanir leysi vandann í dag. Ekki á að leggja meiri peninga í kerfið og stjórnvöld sjá jafnvel tækifæri í sparnaði með kerfisbreytingunum. Afleiðingarnar geta hins vegar orðið skert þjónusta við þá sem minnst mega sín. Jafnvel þótt gulrótin sé höfð stór í byrjun samnings við verktakann, verður hún skorin niður og sem hefur sýnt sig í þróuninni erlendis þar sem einkavæðing heilbrigðiskerfisins hefur verið reynd, m.a. á Norðurlöndunum og Englandi. Menn verða síðan að hlaupa hraðar til að ná bita af gulrótinni og velja úr verkefnum sem skerðir þjónustuna.

Breyta verður verðmætamati læknismenntunar á Íslandi í dag. Fyrir nokkrum árum skrifaði ég grein hér á Eyjunni um samanburð kostnaðar að fá bílbeyglu rétta upp á bifreiðaverkstæði og launa minna á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Ég mátti sjá yfir 2000 slasaða og rétta brot þeirra og bera ábyrgð á öðrum eins fjölda sem unglæknar sáu og meðhöndluðu, til að geta greitt kostnaðinn með laununum mínum. Einfaldur og beinharður samanburður á veraldlegum gæðum, lífsnauðsynlegri læknisþjónustu og hvað hlutirnir kosta í dag.

Ég hef áður skrifað nokkra pistla í greinaflokki sem ég kalla Eir I-VI. Tilefnið var að minnast skrifa kollega minna fyrir meira en öld síðan, eða um aldarmótin 1900. Nútímalæknisfræðin var að líta dagsins ljós og væntingarnar voru miklar. Vandamálið þá var mikill læknisskortur og hörmungar sem gengu reglulega yfir þjóðina. Ein tilvitnun í orð ritstjórnar heilbrigðistímaritsins Eir fyrir meira en öld síðan var; „Læknisfræðin hefir að vísu farið mjög fram á síðustu tímum, en það eru engu að síður ýmsir sjúkdómar, sem illa tekst að lækna eða alls ekki… Sá kostnaður, sem sjúkdómar og skammlífi hafa í för með sér fyrir einstaklinginn og þjóðina í heild sinni, er ekkert smáræði. Hann er svo mikill, að fæstir munu renna grun í hann, og nokkrar bendingar í þessa átt eru ekki ófróðlegar“

Í dag erum við auðvitað mikið betur í stakk búin að mæta hörmungum en fyrir hellri öld og skilningur okkar flestra á heilbrigði meiri. Skilningur stjórnvalda hins vegar oft á tíðum minni eins og dæmin sanna sl. vikur, svo sem afnám sykurskatts og fyrirhugaðar miklar hækkanir á nauðsynlegri matvöru. Ekkert síður á mikilvægi læknismenntunar til að viðhalda góðri lýðheilsu á Íslandi og sem boðar alls ekki nógu gott fyrir framtíðina.

http://www.visir.is/krabbameinslaeknalaust-island-arid-2020-/article/2014709259985

http://www.dv.is/blogg/vilhjalmur-ari/2013/9/7/lifshaettilegur-vandi-landspitala/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn