Sl. ár hefur mikil umræða farið fram á hugsanlegri skaðsemi af ónauðsynlegri lyfjainntöku af svokölluðum bólgueyðandi lyfjum (NSAID, nonstroidal anti-imflamatory drugs) og mælt hefur víða verið með að tekin séu úr lausasölu apótekanna. Slík er raunin hér á landi, enda hafa lyfin verið mikið notuð án læknisfræðilegrar ástæðu, oftast sem almennt verkjalyf. Svipuð umræða hefur reyndar átt sér stað sl. mánuði með ýmsan annan varning í apótekunum sem hefur ekkert með heilsuna að gera og sem jafnvel hefur verið kennd við snákaolíusölumennsku. Auglýsingar á Voltaren og Ibúfen sterkum verkjatöflum ættu nú að heyra sögunni til. Á seinni árum hafa hinsvegar auglýsingar á gagnslitlu geli, Voltaren geli gegn liðverkjum, jafnvel við bakverkjum orðið sífellt algengari. Bent hefur verið áður fram á mikla álagningu lyfsala á þessum geli og sem er allt að helmingi dýrari hér á landi en í nágranalöndunum.
Nú, þegar virku lyfjaformin, töflurnar, eru ekki lengur fáanlegar í lausasölu, hefur upphafist auglýsingaherferð á Voltaren geli. „Viltu meðhöndla liðverkinn án þess að taka töflur?“. Heilsíðuauglýsing birtist þannig í Fréttablaðinu í morgun og sem auglýsir Voltaren gel við liðverkjum. Sannleikurinn er hins vegar sá að gelið virkar almennt ekki á liðbólgur og aðeins staðbundið á suma grunnna liðverki, aðlalega á höndum. Virka efnið, diklofenak frásogast enda illa frá húð, eða aðeins sem samsvarar um 6% miðað við frásog á töflum í meltingarvegi.
Túba af Voltaren geli upp á 150 gr og sem inniheldur í það heila 1,725 gr. af diclofenaki kostar um 5.200 kr og sem samsvarar þá 34 töflum af Voltaren/Vóstar (diclofenac). Miðað við lélega virkni og aðeins um 6% frásog, að þá samsvarar þessi stóra túba af Voltaren geli (auglýst eins og að um 50% afslátt sé að ræða með kaupunum) aðeins um 2 töflum af Voltaren 50 mg. Dýrar töflur það eða um 2.500 kr. taflan. Þannig nálgast þessi sölumennska lyfsala/innflytjanda og auglýsingar í fjölmiðlum á Voltaren húðgeli, sölumennsku snákasölumannana forðum og sem voru víða illa séðir. Ekki síst í gömlu góðu apótekunum og áður en vírusarnir tóku völdin.