Þriðjudagur 19.01.2016 - 20:00 - FB ummæli ()

Kynsjúkdómafárin og tárin í dag

kynsjukdomarÁ árinu 2015 greindust 1718 tilfelli af klamydíu sem er sennilega heimsmet miðað við íbúafjölda. Þá greindust 37 tilfelli af lekanda og er mjög mikil aukning á sl. 2 árum og fram kemur í nýjum Farsóttafréttum Landlæknis. Flestir kynsjúkdómarnir fara hins vegar huldu höfði þótt að allt að fjórðungur kvenna um tvítugt hafi einhvern kynsjúkdóm.

Fyrir öld síðan var sjötta hvert barn óskilgetið á Íslandi. Fjöldi lekandatilfella sem greindust árið 1914 voru 235 og sárasóttartilfellin 40. Í þá daga voru ungir ungir menn hvattir til að lesa handbækur um það hvernig þeir ættu að hegða sér gagnvart hinu kyninu, ekki síst áður en þeir lögðu út í hinn stóra heim og sagt var frá í kverinu hans Steingríms Matthíassonar læknis, Freyjukettir og Freyjufár. Í dag er öldin hins vegar önnur og heimurinn minni. Menn trúa ekki lengur á boðskap fornsagnanna eða gildi handbóka fyrir unga menn, heldur á mátt læknavísindanna sem bjarga á öllu eftir á. Þegar gildi forvarna, smitvarna og bólusetninga skipta í raun mestu máli.

Sl. vetur fjallaði ég hins vegar um uggvænlega þróun krabbameina meðal ungs fólks af völdum HPV veirunnar (human papilloma virus) og sem sumir telja að eigi eftir að valda sprengingu í fjölda tilfella krabbameina á kynfærum og í hálsi karla í náinni framtíð. Allt eru þetta hins vegar smitsjúkdómar sem læðast oft í skjóli myrkurs og tengist kynhegðun okkar í nútímasamfélagi. Sumt sem minnir óþægilega á mannkynssöguna áður og frásagnir af Sódómu hinni forboðnu og aðdraganda að hruni Rómaveldis til forna. Í dag ískaldar staðreyndir nútímans á norðurhjara veraldar, faraldrar kynsjúkdóma sem eru að sum leiti villtari og illviðráðanlegri en Freyjukettirnir voru áður.

Eftir mörg góð ár upp úr miðri síðustu öld og þegar kynsjúkdómalæknar höfðu minna að gera, brast HIV faraldurinn út. Nú tveimur áratugum síðar, hefur tíðnin lekanda verið á hraðri uppleið og greinast um 200 tilfelli árlega í Bandaríkjunum á hverja 100.000 íbúa og sem myndi samsvara um 600 tilfellum á Íslandi á ári. Eins hefur hin illvíga sárasótt, sótt mikið í sig veðrið víða um heim, t.d. 30 faldast í tíðni í Kína á aðeins einum áratug. Sambærilegar tíðnitölur við Bandaríkin í dag eru um tuttugu einstaklingar á ári, þar af nokkur í hópi nýfæddra barna. Þar sem einkenni lekanda og sárasóttar koma fyrst fram í slímhúðum kynfæra, munnhols og augna, en síðan út um allan líkamann, jafnvel í sjálfu miðtaugakerfinu.

HPV tengdar sýkingar er algengast kynsjúkdómurinn og sem yfir 80% kvenna smitast af að lokum og sem valdið geta frumubreytingum í allt að 3% tilvika og sem einnig valda svokölluðum kynfæravörtunum. Sem betur fer var farið að bólusetja grunnskólastúlkur gegn algengust HPV-stofnunum sem valdið geta krabbameini árið 2011. En því miður aðeins þær yngstu og ekki drengina. Allt að 20% ungs fólks á Íslandi smitast síðan í dag af Klamedíu og margir af kynfæraáblæstri  (Herpes 2 og varaáblástur á kynfærum, Herpes 1).

Hugafarsbreytingu þarf hjá þjóðinni til að ásættanlegur árangur náist í glímunni við kynsjúkdómana. Kynlíf þarf auðvitað að vera ábyrgt eins og öll önnur hegðun og stórauka þarf því fræðslu meðal ungs fólks um kynsjúkdóma og kynheilbrigði. Herða þarf aftur áróðurinn fyrir notkun smokka sem ættu að vera ókeypis og miklu aðgengilegri en þeir eru í dag. Bjóða ætti öllu ungu fólki ókeypis upp á þær bólusetningar sem öllu máli skipta í vörnum gegn HPV-tengdum krabbameinum unga fólksins. Sannarlega kominn tími á betri vitundarvakningu um öll þessi sár, fár og tár.

http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item28495/Farsottafrettir_jan.2016.pdf

http://www.visir.is/mikil-haetta-a-lekandafaraldri/article/2014140319101

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2014/03/20/eitt-algengasta-krabbameinid-okkar-er-kynsjukdomur/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn