Fimmtudagur 14.01.2016 - 17:36 - FB ummæli ()

Læknadagar 2016

læknadagar

Höfuðborgin okkar um síðustu helgi

 

Í tilefni af Læknadögum 2016 í næstu viku og þegar kastljósi fjölmiðlanna verður loks beint að því nýjasta í heimi læknisfræðinnar hér á landi, sem og vegna umræðu um neikvætt hlutverk almannatengla í sjálfstæðri fréttaumfjölluntengt einkahagsmunum og pólítík, rifja ég nú upp erindi sem ég flutti á læknadögum á síðasta ári og sem sennilega á jafnmikið, ef ekki meira, erindi í dag en þá.

Á síðustu áratugum hefur aðgengi að les- og fræðsluefni tengt heilsu og lífstíl sífellt aukist á veraldarvefnum og í fjölmiðlum. Margir hagsmunaaðilar sækja þar fram, sumir sem hugsa gott til glóðarinnar með sölu- og gróðavon í huga. Allt má selja og ef kynnt er nógu kröftuglega, allskyns kúra og bætiefni sem standast jafnvel ekki vísindalegar prófanir, auk meðferða sem flokkast undir hjálækningar og auglýsa má að vild. Þar sem trúin og hugaraflið er talið geta flutt fjöllin og sem væri svo sem í lagi ef ekki er gengið gegn sannreyndri læknismeðferð. Hefðbundnar krabbameinslækningar hafa þannig jafnvel stundum orðið að lúta í lægra haldi, enda landinn með afbrigðum trúgjarn og auðplataður.

Almenningur leitar líka fræðsluefnis á veraldavefnum tengt einkennum sínum og sjúkdómum, eins og vonlegt er og er Google þar oftast nærtækastur. Magn upplýsinga er hins vegar oft yfirgengilegt og erfitt getur jafnvel fyrir fagmann að greina bullið frá sannleikanum. Sífellt meiri tími heimilislækna og sérgreinalækna fer engu að síður í rökræður og til að leiðrétta alla vitleysuna. Reynsla og þekking læknisins á sjúklingnum og fjölskyldu hans, jafnvel til áratuga, er þar oft lítils metin.

Erlendis færst í vöxt að fagfélög lækna og heilbrigðisstofnanir haldi úti fræðsluefni á netsíðum sínum. Þessu er ábótavant hér á landi, en Landlæknisembættið heldur þó úti nokkuð góðri vefsíðu og þar sem sækja má klínískar leiðbeiningar fyrir lækna, fræðslu um forvarnir sem og upplýsingar úr íslenskri heilsutölfræði hverju sinni. Doktor.is er líka ágætt dæmi um viðleitni að fræðsluvef þar sem ákveðnir læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk gerir sjálft ig ábyrgt fyrir efninu. Sárlega vantar að Læknafélag Íslands og aðildarfagfélög þess beiti sér fyrir gerð slíkra netsíða. Ameríska heimilislæknafélagið (AAFP) og sem margir íslenskir heimilislæknar eru aðilar að, heldur uppi frábærum vef sem er gagnvirkur að hluta. Þar er oft hægt er að fá svör við ákveðnum spurningum um heilsu með leitarvélum og prenta út leiðbeiningar varðandi sjúkdóma og meðferðir, jafnvel meðan sjúklingurinn er enn á stofunni. Traustur grunnur til að byggja á og þar sem sjúklingar geta líka leitað beint inn á síðar. Áður hef ég  síðan fjallað um vaxandi notkunarmöguleika ofurtölva við sértæk erfið klínísk úrlausnarefni, eins og Dr. Watson vestanhafs.

Umfjöllun fjölmiðlanna sjálfra á heilsutengdu efni í dag virðist oft vera meira til að selja lestur eða auka áhorf. Hún er oft mjög óljós m.t.t. hvað hagsmuni er verið tryggja eða verja, þeirra sem veita heilsutengda þjónustu og selja svokallaðan heilsuvarning eða almenna lýðheilsu almennings. Neytandinn gerir ekki alltaf skýran greinarmun á fréttaskýringu og aðkeyptri grein/auglýsingu. Greinar með viðtölum við þekkt fólk, ekki síst íþróttafólk, fylla þannig stundum heilu opnur dagblaðanna og þar sem markmið er að selja. Ljósvakamiðlarnir eru engu betri, oft með kynningar á óhefðbundnu efni og þar sem gagnrýna umræðu vantar til mótvægis. Lýtalæknar hafa komið fram í þáttunum eins og Ísland í dag, þar sem auglýstir eru kostir brjóstastækkana ungra kvenna. Þátttakendur skapa þannig lífstílstísku og ýta undir frekari sjálfsdýrkun. Þúsundir íslenskra kvenna ganga orðið með tifandi tímasprengjur í brjóstum sem verður að lýðheilsuvandamáli þegar bobbingarnir eldast, springa eða sýkjast. Til hafa orðið nýjar og áður óþekktar sjúkdómsgreiningar í heilsugæslunni, svo sem „sílikonsnjókoma í holhönd“ og „implants-brjóstverkir“ sem erfið getur verið í misgreiningu frá raunverulegum hjartaverk. Síðkominn kostnaður þjóðfélagsins af öllu þessu rugli er auðvitað enn ómældur.

Læknar hafa almennt ekki verið mjög sýnilegir í samfélagsumræðunni, enda læknisfræðin frekar íhaldssöm í eðli sínu. Heilbrigðiskerfið og þjónustukrafan breytist hins vegar hratt. Vandamál sem áður voru talin best leyst hjá heimilislækni með fræðslu og eftirfylgd með einkennum, er nú vísað á vaktþjónustur úti í bæ og bráðamóttökur hverskonar. Hver ríkisstjórnin af fætur annarri er bara ansi ánægð ef sjúklingum er sinnt einhvernvegin. Eins sem telja mikilvægara að bora gegnum fjöllin úti á landsbyggðinni en byggja nýjan Landspítala, einhvernveginn og þá hvar sem er. Með þögn og þöggun lækna, hefur heilbrigðiskerfið fengið að mótast eins og nátttröll milli fjallanna og gagnana. Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu löngu stöðnuð og gleymd. Álag á bráðamóttökum og vöktum hins vegar margfalt á við það sem þekkist víða erlendis.

Fyrir löngu hefði líklega mátt stöðva þessa óæskilegu þróun ef hlustað hefði verið á rök lækna í tíma og að þeir sjálfir virkari í þjóðfélagsumræðunni. Fyrir rúmlega 6 árum fór ég að ræða vandamál heilsugæslunnar á blogginu mínu, of mikla miðlæga stjórnun og þar sem ekki var hlustað á grasrótina. Afleiðing af sameiningu heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu undir einn hatt (HH) nokkrum árum áður og sem átti allt að bæta. Allt nema skoðanafrelsi starfsmanna og sem dró allan mátt úr læknaráðum stöðvanna. Eins hvað vinna hefði mátt mikið betur með öll þau gæðaverkefni sem vísir var að og ég sjálfur hafði tekið þátt í. Með vísinda- og gæðaþróunarverkefni innan heilsugæslunnar sjálfrar til áratuga.

Bent hefur verið á, meðal annars í góðri grein Ástríðar Stefánsdóttur í Læknablaðinu 2010, að spilling fyrirfyndist hugsanlega víðar í stjórnkerfinu en því fjármálatengda og sem Rannsóknaskýrsla Alþingis náði fyrst og fremst til fyrir hrun. Smákóngaveldi og klíkuskapur væri alsráðandi hér í okkar litla og vinatengda samfélagi sem þoldir illa að bátnum sé vaggað. Fyrir rúmum 10 árum var heil heilsugæsla lögð í rúst á Suðurnesjum vegna og of mikils stjórnræðis og þar sem horft var fram hjá lífsnauðsynlegri þörf samfélagsins. Yfirgangur gagnvart nauðsynlegri læknisþjónustu sem furðu hljótt var um og er enn þar sem lækna tjáðu sig lítt eða ekkert. Fullt tilefni samt í dag til að ræða frekar til að læra af svo sagan endurtaki sig ekki hér líka á höfuðborgarsvæðinu.

Opin umræða milli lækna eykur á allt gegnsæi. Góð umræða í lokuðum hóp lækna á fésbók er e.t.v. byrjunin, en engan veginn nóg. Læknar verða að horfa meira í kringum sig og tjá skoðanir sínar opinberlega og sem byggjast á reynslu og yfirsýn á kerfinu, jafnvel til áratuga. Stór hluti þekkingar og þróunar læknisþjónustu í landinu sem aðeins mannauðurinn skapar, fer annars með læknunum í gröfina. Læknar verða að fara að tala meira saman. Læknar sín á milli og læknar við annað heilbrigðisstarfsfólk og almenning. Vera sýnilegri í umræðunni á fjölmiðlum og á veraldarvefnum. Virkari stjórnendur umræðunnar og sem ekki fæst með stjórnunarnámi eða þáttöku í stjórnmálunum einni saman. Annars sitja læknar eftir og önnur öfl lita samfélagið okkar með lýðskrumi, lélegri fréttamennsku og kukli og þar sem læknarnir sjálfir geta orðið á endanum óbeinir þátttakendur með þögninni.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn