Þriðjudagur 27.02.2018 - 10:36 - FB ummæli ()

Brostnar meginforsendur þjóðarsjúkrahússins nýja á Hringbraut!

Töluvert hefur verið fjallað um staðsetningu nýs þjóðarspítala á Hringbraut, sérstaklega eftir þingsályktunartillögu Miðflokksins um endurmat á fyrri staðarvalsákvörðun á Hringbraut og sem Alþingi samþykkti 2014. Mál sem stjórnvöld hafa viljað þagga algjörlega niður sl. 3 ár og sem lagt hefur verið jafnvel fréttbann á, á ríkisfjölmiðlinum RÚV ohf. Verkefnið hefur reyndar tekið langan tíma að þróast frá síðustu öld, en sem að lokum er komið í algera sjálfsheldu og flestar fyrri forsendur brostnar. Þrjóska og stolt þeirra sem unnið hafa hvað mest að verkefninu hjá Nýjum Landspítala ohf. er sennilega um að kenna, í upphafi sjálfsagt með eitt gott í huga.

Frá byrjun voru það hagsmunir HÍ að hafa flaggskipið sem næst Vatnsmýrinni, og áður en við síðan gengum inn í tölvuöld. Nú hafa hins vegar aðalhagsmunir almennings verið látnir víkja, aðgangur og gott spítalaumhverfi, með ófyrirséðum alvarlegum afleiðingum. Alvarlegasti hlutinn snýr að aðgengi sjúkraflutninga, bæði af landi sem og úr lofti. Ekkert nýtt áhættumat einu sinni á þyrluflugi til spítalans eftir að þyrlupallur var hannaður á 5 hæð sjúkrahússins og sem gerði ráð fyrir aðeins 4-10 lendingum á ári!!. Hér erum við líka að tala um eina dýrustu ríkisframkvæmd Íslandssögunnar sem reyndar þegar hefur kostað hátt í 5 milljarða króna í undirbúningi og með byggingu „sjúkrahótels“!!. Í og með stóraukinn kostnaður vegna þess að ráðamenn hafa ekki viljað hlusta á þjóðina og starfsmenn og allar skoðanakannanir styðja. Óskir þjóðarinnar á þjóðargjöfinni okkar allra á 21 öldinni virtar að vettugi.

Óháðir fréttamiðlar, sérstaklega fésbókin (SBSBS) og aðsendar greinar í blöðum sem gjarnan eru þar líka birtar, hafa haldið málefnalegri gagnrýni á lofti. Varaformaður Spítalans okkar (Nýs Landspítala á Hringbraut) og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Sjálfsstæðisflokksins, Þorkell Sigurlaugsson, kallar þessar síðu mestu falsfréttamiðil landsins og að það séu samantekin ráð ráðamanna að svara ekki gangrýni okkar, nú eftir að Alþingi hefur lagt blessun sína á gjörninginn. Stuðningshópur SBSBS eru samt menn og konur sem hafa engra sérhagsmuna að gæta, heldur vilja aðeins gæta hagsmuna almennings. Þar á meðal eru læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar skipulagsfræðingar, arkitektar, viðskiptafræðingar. Þessa aðila hefur Þorkell eining kallað „lygara og fólk með athyglissýki (populista)“.

Ítarleg rök hafa samt verið lögð fram um óhagkvæmni þess að byggja þjóðarspítalann eina á Hringbraut (sem margir stuðningsmenn Hringbrautarverkefnisins eru farnir að kalla millileik!). Eins varðandi augljósu skertu aðgengi á alla vegu, sem og framtíðarþróunar spítalans. Til að hann geti verið í fremstu röð jafninga nýrra spítala sem verið er að reisa nú á Norðurlöndunum, t.d. í Danmörku. Kostnaður á lagfæringum á mygluðum eldri húsum á Landspítalalóð er síðan stórkostlega vanáætlaður í fyrri útreikningum til að fegra dæmið. Eins fyrirsjáanlegt rekstararóhagræði í óteljandi húsum sem tengd eru saman með göngum á alla vegu. Sparnaður með staðsetningu á besta stað undir einu þaki ef svo má segja, gæti hins vegar farið langt með að borga upp lántökukostnað slíkra framkvæmda á hálfri öld miðað við áframhaldandi framkvæmdir nú á Hringbraut og reiknaður hefur verið út.

Fullyrðingar um falsfréttirnar sem Þorkell getur um í sinni gagnrýni m.a. á fésbók SBSBS , er þó ástæða skrifanna nú og eins til að benda á hvernig megin forsendur/skilyrði fyrir framkvæmdum á Hringbraut voru sniðgengnar, með leyfi Alþingis. Enn ein upprifjunin á málinu stóra og sem sekkur dýpra og dýpra og sem stefnir nú í að jafnast á við Icesave skuldina frægu um árið, að lokum. Til upprifjunar vil ég bara benda á síðustu stjórnsýsluúttekt á staðarvali á Hringbraut sem sem gerð var fyrir heilbrigðisráðherra í febrúar 2008. Nefnd um fasteignir, nýbyggingar og aðstöðu heilbrigðisstofnana (sem byggðist að miklu leiti á fyrri staðarvalsskýrslum). þar segir m.a.;

„Á undanförnum árum hafa oft heyrst raddir um að staðsetning nýs háskólasjúkrahúss við Hringbraut væri ekki ákjósanleg, einkanlega með tilliti til umferðarflæðis. Nefndin ákvað því að skoða sérstaklega þennan þátt í undirbúningi verksins og kanna hvort einhverjar þær aðstæður hefðu breyst þannig að ástæða væri til breyta frá því sem áður hafði verið ákveðið“

Síðan segir í ályktunum;

„Tryggja þarf öruggar samgöngur úr suðri með því að flýta lagningu leiðar um Hliðarfót við Öskjuhlíð eins og Aðalskipulag Reykjavíkur og Svæðisskipulag höfuðborgarinnar gerir ráð fyrir. Sá vegur þarf að vera tilbúinn þegar stafsemi spítalanas flyst úr Fossvogi.“

Eins segir;

„Gert verði ráð fyrir lendingarstað fyrir þyrlu við nýja samgöngumiðstöð og farið rækilega yfir hvort hægt verði að komast hjá því að staðsetja þyrlupall ofan á spítalabyggingunum“

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkurborgar AR 2011-2030 gerðu þessar áætlanir að engu og sem reiknuðu með að einkabíllinn væri nánast útdauður. Tóku auk þess af framtíðarsvæði SV spítalalóðarinnar (neðan nýju Miklubrautarinnar) við enda gömlu neyðarbrautarinnar og sem hugsanlega hefði getað orðið ásættanlegur staður til þyrlulendinga (sem í dag eru áætlað að geti verið þörf á nánast daglega). Þriðja aðalforsenda fyrir upphaflegu staðarvali var svo Reykjavíkurflugvöllur og sem sennilega er á förum um svipað leiti og Nýr landspítali á Hringbraut verður tilbúinn.

Megin grunnforsendur fyrir síðasta faglega staðarmatinu á þjóðarsjúkrahúsinu voru bara strikaðar út með pennastriki, aðgengismál sett í sjálfsheldu og spítalaumhverfinu sjálfu jafnvel sköpuð stórslysahætta. Forsendur sem liggja til grunnmats staðarvali þjóðarspítala eiga auðvitað að vera tilbúnar og klárar áður en verk er hafið, ekki „hugsanlega“ löngu eftir á. Um þetta fjallar þingsályktunartillaga Miðflokksins m.a. nú. Skoðum því allt málið að nýju og fáum stjórnvöld til að hætta að berja hausnum í steininn. Og að Alþingi, aflétti a.m.k. einni alvarlegustu þöggun stjórnvalda í seinni tíð á opinberri nauðsynlegri umræðu í ríkisfjölmiðlum.

http://betrispitali.is/wp-content/uploads/2015/06/Skýrsla_LSH_Febrúar2008.pdf

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn