Miðvikudagur 1.9.2010 - 13:55 - FB ummæli ()

Nauðvörn þjóðkirkjunnar

Skoðun Hr. Karls Sigurbjörnssonar núverandi biskups er að ímyndin sem birtist í embættisgjörðum forvera síns, Ólafs Skúlasonar heitins gagnvart fyrrverandi sóknarbörnunum, þurfi ekki að vera svo sköðuð. Beiskleiki hans megi ekki skyggja á björtu stundirnar og gleðiathafnirnar í kirkjunni. Heilögustu stundunum sem almenningur treysti prestinum sínum fyrir. Frá vöggu til grafar, gegnum súrt og sætt. Sunnudagaskólarnir og fermingarundirbúningurinn og allt annað. Allt það sem kristin trú stendur fyrir og sem almenningur hefur tileinkað sér með sinni þjóðtrú. Hvað er biskupinn eiginlega að meina? Á hverju byggist hans trú, bókstafnum eða manneskjunni? Fleiri ummæli hans eru í svipuðum dúr og sem lýsir djúpu skilningsleysi á vandanum. Vandinn er reyndar enn flóknari vegna mjög sterkrar persónuímyndar sem séra Ólafur Skúlason hafði og allir vita sem til hans þekktu. Þeim mun meiri ástæða er að greiða vel úr sálarflækjunum. Það má vel vera að það sé sama hvaðan gott kemur, í sumum tilvikum, en upplifun á „góðu“ stundunum í kirkjunni fá á sig allt annan blæ í endurminningunni ef hún reynist ekki hafa byggst á trausti.

Útskýringar vantar á því af hverju kirkjan neitaði endurtekið að hjálpa konum sem höfðu orðið fyrir alvarlegri kynferðislegri misbeitingu innan kirkjunnar. Ekki í ár heldur áratugi. Kirkja sem neitaði að hjálpa og sem varð til þess að konurnar urðu að taka afleiðingunum og ætluðu af lítillæti sínu að taka „vandamálið sitt“ með sér í gröfina. Þær höfðu endurtekið kallað eftir hjálp, en á þær var ekki hlustað.

Þjóðkirkjan hefur til skamms tíma notið í ótrúlegs trausts og fengið að vera í friði. Fólk hefur trúað prestunum fyrir kirkjunni sinni, mann fram af manni. Nú eru hins vegar blikur á lofti. Upplýst hefur verið um þöggun og klíkuskap innan kirkjunnar, jafnvel skipulögð atlaga gegn sjálfum sannleikanum sem margir æðstu stjórnendur kirkjunnar og einstaka embættismenn tóku þátt í. Sóknarbörnin trúa ekki sjálfum biskupnum og sóknarbörn í landinu eru tortryggin gagnvart prestunum sínum og bíða útskýringa hvernig kirkjan ætlar að endurheimta traustið. Ef frelsarinn reyndist falsspámaður, tryðum við honum samt? Sem betur fer þarf samt meira að gerast til að þeir trúuðu tapi trúnni enda stendur hún ofar mannlegum mætti og veikleika mannsins, einnig presta og biskupa. En kirkjan verður að fá meira traust til að ímyndin skaðist ekki meir en orðið er og trúlitlir og börn hrökklist ekki frá. Trúarreynsla heillar kynslóðar innan kirkjunnar getur verið í veði, ekki síst þeim sem séra Ólafur þjónaði. Kirkjan skuldar öllu þessu fólki afsökun fyrir hans hönd, og af öllu hjarta.

Kirkjunnar menn eru samt aðeins að taka við sér eins og síðustu fréttir herma. Fréttir berast af tárum á vöngum presta sem er góður fyrirboði. Afsökunarbeiðnir yfirstjórnar kirkjunnar eru þó ennþá hjáróma. Margir neita að gangast við fullri ábyrgð. Mannréttindamálaráðherra þegir þunnu hljóði þótt embættið beri líka mikla ábyrgð á þjóðkirkjunni enda forveri hans kirkjumálaráðherra. Allsherjar uppgjör þarf að fara fram innan kirkjunnar og tengsla hennar við stjórnsýsluna. Í raun er verkefnið miklu stærra en ein óháð Sannleiksnefnd kirkjuþings getur framkvæmt og sem er ætlað að fara í saumana á myrkustu atburðum og starfsháttum eigin starfsemar. Óafsakanlegar aðgerðir og aðgerðarleysi sem tengdist yfirhylmingum með glæpum og valdabrölti um áraraðir. Ólíkur glæpunum gagnvart konunum er þöggunin nú gangvart starfsemi þjóðkirkjunnar í heild.

Skaðinn sem kirkjan gerir sjálfri sér eykst með hverjum deginum sem líður. Tæpur hálfur mánuður er nú liðinn frá því ég óskaði eftir viðtali við biskup vegna innri málefna kirkjunnar. Erindinu hefur ekki verið svarað ennþá. Mér var ekki sama um kirkjuna og mér er ekki sama um barnstrúna heldur. Ég hangi ennþá í voninni um að eitthvað gott geti komið kirkjunni til hjálpar, hennar vegna og þjóðfélagsins alls sem nú er í sárum af mörgum ástæðum og má ekki við fleiri áföllum. En fyrst viljum við allan sannleikann og öll spilin á borðið. Biskup verður að víkja til hliðar. Vonleysið sem nú ríkir innan kirkjunnar og vantrú á eigin getu er versta vörn hennar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · kirkjan · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 30.8.2010 - 19:08 - FB ummæli ()

Undir fölsku flaggi

pirate-flagMálefni Orkuveitu Reykjavíkur hefur verið mikið í opinberri umræðu eftir að tilkynnt var um allt að þriðjungs hækkun á rafmagni og hita í haust. Forsendur fyrir hækkuninni er gríðarleg skuldabyrgði fyrirtækisins á nokkrum árum, langt út fyrir það sem eðlilegt getur talist. Stjórn þessa ætlaðs gullkálfs í meirihlutaeigu höfuðborgarinnar vekur upp margar spurningar um ábyrgð enda umsvif og laun æðstu fyrrverandi stjórnenda í samræmi við kjör bankastarfsmanna fyrir hrun þar sem arðgreiðslur af viðskiptavild var mergsoginn úr fyrirtækinu. Skuldastaða upp á á þriðjahundrað milljarða segir alla þá sögu svo og önnur umsvif eins og nýlegt flaggskip Orkuveitunnar ber glöggt vitni um. Meirihluti kostnaðarins var í væntanlegum kostnaði vegna hugsanlegrar stóriðju í framtíðinni. Því er eðlilegt að spyrja hvort hinn almenni neytandi rafmagns og hita eigi að bera einn þessar skuldabyrgðar.

Það að neytendur séu látnir bera þessar byrgðar í afnotaverði er ekkert annað en rán úr vösum almennings. Afnotaverð á að vera reiknað eftir kostnaði við afla þeirrar orku sem við erum að nota en ekki vegna skuldasöfnunar á væntanlegri stóriðju sem væntanlega á að verða arðvænleg fjárfesting þegar til langs tíma er litið. Sala á orkunni til hennar hlýtur að þurfa að taka mið af stofnkostnaðinum (og skuldunum í dag) en ekki niðurgreidd fyrirfram af hinum almenna neytanda sem kaupir orkuna til heimilsnota. Þar fyrir utan að ef almenningur á að koma Orkuveitunni til hjálpar að þá þarf að gera það með skattlagningu eins og annarri nauðsynlegri þjónustu. Nefna hjálpina með réttu nafni. Sem dæmi um fáránleika hækkananna nú er að ef almenningur sparar við sig orkuneysluna að þá gefur auga leið að þessar nauðsynlegu tekjur skila sér aldrei inn til fyrirtækisins. Það myndi þá væntanlega þýða að ef þessi samdráttur á sölunni væri um fjórðungur að þá yrði Orkuveitan að fara fram á aðra fjórðungshækkun á orkuverðinu. Þarna er um einokunarstefnu að ræða þar sem þú ert látinn borga hvað sem það kostar. Því má segja að þeir sigli undir fölsku flaggi til þess eins að ná í peningana okkar, með góðu eða illu. Jón Gnarr og félagar í Besta flokknum verða nú að láta til sín taka. Annars sigla þeir undir sama fána og forverarnir.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 29.8.2010 - 10:54 - FB ummæli ()

Haustar að

kindur

íslenska sauðkindin

Nú húmar að hausti og farið að kólna. Styttist í göngur og fjárréttir um allt land. Þá verður féð flokkað og dregið í dilka. Tími uppskerunnar er runninn upp og mikil eftirvænting er meðal bænda hvernig lömbin koma af fjalli. Hér áður fyrr var óspart beitt í úthagana og féð hafði úr nógu að moða. Nú er öldin önnur. Landið er víða ofnagað af fébeitinni og oft eru það veglömbin sem skila mestu þyngdinni. Sumar rollur láta nefnilega sér ekki segjast að fara á fjöll og stunda frekar háskaleik með okkur mönnunum þar sem grasið er grænna. Hvað sem því líður að þá voru göngurnar í gamla daga skemmtilegasta athöfn sveitalífsins.  Á hestum og gangandi um kletta og skorninga, niður dalbotna og yfir engi og mýrar. Sem betur fer var féð leiðitamt, svona yfirleitt. Sumir forystusauðir til vandræða eins og stundum reyndar mannfólkið í sjálfum réttunum þegar of mikil gleði tók völd.

Íslenska sauðkindin með ullina sína góðu er búin að fá mikilvægara hlutverk að nýju í þjóðfélagsumræðunni eftir hrun. Konur og karlar prjóna nú sem aldrei fyrr. Í vetur verður miklu dýrara að hita húsin okkar svo ekki veitir okkur af ullinni. Sama hækkun verður á ljósstýrunni til að lesa við. Helmings gjaldfalls íslensku krónunnar og þar með matvöru á aðeins tveimur árum og nú í einum áfanga meira en fjórðungs hækkun á afnotum á okkar eigin auðlindum sem sprettur upp úr íslensku kvikunni. Afurðaverð landbúnaðarvara til bænda og þar með kindarinnar á eftir að hækka og þar með neysluverð til neytenda. Það að eiga og búa í litlu húsi eins og Jón og Gunna skuldlaust og eiga þar að auki fyrir kyndingu og rafmagni er talin lúxus á Íslandi í dag. Þá tilheyrir þú efri millistétt. Allt er þetta afleiðing íslenska undursins sem sumir íslenskir bankamenn kappkosta að telja sig ekki bera ábyrgð á. Ekki benda á mig sagði hreppstjórinn.

Sigurði Einarssyni var borgað tugmilljónir króna í hverjum mánuði fyrir ábyrgð í stjórn banka sem rekinn var m.a. fyrir almenning en sem var keyrður af ábyrgðarleysi í gjaldþrot. Banka sem þegar upp var staðið byggðist á falsspámennsku og spillingu þar sem stjórnendur mokuðu undir sig fjármagni og tóku milljarða kúlulán sem nú eru afskrifuð í hundruða tali. Ekki nóg með það heldur fá menn eins og Sigurður sem er sakborningur í einu alvarlegasta fjármálaglæpamáli sem sögur fara af heilt helgarblað Fréttablaðsins til að réttlæta sig og sína. Líka til að skjóta ásökunum í garð þeirra sem reyna eftir fremsta megni að leita réttar fyrir almenning. Jafnvel fólk sem tapaði öllu sínu enda meira en fjórðungur heimila tæknilega gjaldþrota eftir hrun bankanna. Og svo að segjast aðeins hafa vera ábyrgur gagnvart hluthöfum bankanna. Þvílík skömm. Þarna brugðust forystusauðirnir herfilega og þá þarf að draga í sérstaka dilka. Enn einu sinni birtist siðblindan í öllu sínu veldi í myndgervingu manns sem þykist kunna að svara fyrir sig enda greindarvísitalan eflaust vel ofana við meðaltalið. Það breytir ekki þeirri staðreynd að hann er með með allt niðrum sig siðferðislega þótt hann reynir nú að hanga tímabundið á einhverjum óskiljanlegum lagakrókum. Þjóðinni er misboðið.

Íslenska ullin kann að hjálpa okkur í vetur og vonandi höfum við efni á sauðskinnskóm og leggjarbita á hátíðisdögum. Alþýðan er oft ansi leiðitöm en sumir forystusauðirnir sem koma nú af fjalli þetta haustið eru sauðheimskir vandræðagripir og þeirra verður ekki þörf meir. Þegar alþýðan er orðin of leiðitöm að þá er greinilega kominn tími til að fá nýtt dagblað með morgunkaffinu. Blað sem hægt er að treysta og sem gætir ekki eingöngu hagsmuna forystusauðanna.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 26.8.2010 - 15:45 - FB ummæli ()

Í túninu heima

mosfellingurNú fer að verða tímabært að kveðja frábært sumar. Töðugjöld hétu hátíðir hér áður fyrr þar sem menn gerðu sér glaðan dag og fögnuðu að hafa komið björginni í bú fyrir veturinn. Mosfellingar hafa haldið upp þessi tímamót með bæjarhátíð sem kölluð er „Í túninu heima“ sem er tilvitnun í fyrstu minningarskáldsögu sveitungans Halldórs Laxness heitins. Andi stórskáldsins svífur enda yfir sveitinni, ekki síst á túninu við Lágafellskirkju sem er annað sögusviðið í skáldsögu hans Innansveitarkroniku og sem segir frá miklum kirkjudeilum í Mosfellssveit á ofanverðri 19 öld. Tiltölulega ný timburkirkja í Mosfellsdal var rifin niður en ný kirkja reyst að Lágafelli sem var meira miðsvæðis í sveitinni sem náði þá niður að Elliðaám. Löngu síðar var síðan byggð ný kirkja í Mosfellsdalnum og allir urðu aftur ánægðir í sveitinni. Þannig átti kirkjan og á enn mikið í sveitungunum. Nú á hins vegar sér stað önnur og miklu alvarlegri deila milli þjóðarinnar sjálfrar og kirkjunnar sem skrifað verður um síðar.

Nú er samt tími til að gleðjast og þakka fyrir sig. Að búa í borg en lifa í sveit er eldri færsla sem lýsir vel hug mínum til sveitarinnar ásamt nokkrum öðrum bloggfærslum á Eyjunni. Enn meiri gleði er í gula hverfinu okkar, Túnunum, þar sem verið er að gera nýja vegatengingu til nágrannanna okkar á Mýrunum og losna þannig við stórhættulega vegtengingu sem er beint niður á Vesturlandsveginn.

Öryggi okkar og barnanna er fyrir mestu. Vitna að lokum í orð skáldsins „því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir“ og á það að sjálfsögðu að eiga jafnt við um málefni sveitafélaganna sem og kirkjunnar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · útivist · Vinir og fjölskylda

Þriðjudagur 24.8.2010 - 17:37 - FB ummæli ()

Almannatengsl þjóðkirkjunnar

Aðalatriðið er varðar umræðuna nú um meint kynferðisafbrot séra Ólafs Skúlasonar heitins á sínum tíma er hvernig kirkjan ætlar að bæta þann trúnaðarbrest sem þegar hefur átt sér stað gagnvart sóknarbörnum hans um árabil og þar með almenningi.

Mat á sannleiksgildi frásagna fórnalamba kynferðisofbeldis, afsökunarbeðnir kirkjunnar til brotaþola, þagnarskylda presta varðandi kynferðismisbeitinngu á börnum ásamt fyrirbyggjandi aðgerðum gegn þöggun innan kirkjunnar eru atriðin sem mestu umræðuna hefur fengið sl. daga og sem flestir innan kirkjunnar eru nú sammála um að þurfi að gera verklagsreglur um og er það auðvitað vel.

Eins og Hr. Karl Sigurbjörnsson biskup nefndi í Kastljósviðtali í gærkveldi, að þá eru fáar syndir alvarlegri en einmitt þær sem séra Ólafur er sakaður um. Þótt ekki væri nema vegna mikilla efasemda um afbrot séra Ólafs, að þá hlýtur þjóðkirkjan að skulda öllum þeim þúsundum sóknarbarna sem trúðu honum fyrir öllum sínum heilögustu málum, frá vöggu til grafar, mikið og miklu meira en ómarkvissa afsökunarbeðni í þáskildagatíð.

Trúgjörn sóknarbörn sem hafa alið meiripartinn af ævi sinni undir verndarvæng prests sem síðar er sakaður um níðingsverk gagnvart barni, hljóta að vera nú í sárum. Trúnaðarbresturinn gagnvart preststörfunum er mikill og sáluhjálpin sem veitt var, verður ansi hjáróma í endurminningunni. Sumir eiga jafnvel erfitt með að átta sig og eru dofnir eins og eftir önnur stór áföll í lífinu. Embættisverkin voru ekki unnin af heilindum. Orðin um sannleikann sem hefur verið grafinn, færði Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur frelsistilfinningu eftir alla bælinguna og þöggunina. Orðin hennar hljóta að eiga að leiða til einhvers meira en bara að prestar kinki kolli sín á milli. Orðin um sannleikann af hennar vörum hljóta að eiga að fá að renna um æðar sóknarbarnanna einnig. Ætla má að trúarheimur sumra sé endanlega hruninn ef sannleiksorðin eru enn einu sinni hunsuð. Skortur á viðbrögðum nú getur síðan valdið stærra áfalli síðar, jafnvel sem þarfnast áfallahjálpar og sem undir öðrum sambærilegum kringumstæðum kirkjan hefði veitt en sem kemur ekki lengur að gagni. Trúnaðarbresturinn er það mikill. Það kemur þá í hlut heilbrigðisstarfsfólks og sálfræðinga að veita þessa hjálp um ókomin ár. Ábyrgð kirkjunnar er því mikil.

Skaðinn skeði og umræða hefur átt sér stað. Enginn véfengir sannleiksgildið nema kirkjan. Yfirstjórn kirkjunar og menntamálaráðherra vísa til fyrningar og að ekki sé í mannlegu valdi að dæma. Eins og ég nefndi í færslu minni 20.8. sl., Traust á trú eftir makalaust viðtal við Hr. Karl Sigurbjörnnson biskup á stöð 2 það kvöld að þá er áfallið mest þegar fallið er mest. Málið snýst ekki um dóm fyrir lögum enda Ólafur látinn. Góð uppástunga hefur hins vegar komið um um „sannleiksnefnd“ hjá prestum til að fara ofan í saumana á þessu máli öllu saman. Mestu máli skiptir þó að kirkjan sjálf viðurkenni skaðann sem hún hefur þegar valdið með þögguninni á biskupsstofu um árabil og sem nú er orðin opinber, af öllu hjarta og á mannlegan hátt. Orð eru til alls fyrst. Síðan þarf að endurvinna traustið.

Á sínum tíma og þegar meint afbrot áttu sér stað að þá heyrði kirkjan undir kirkjumálaráðherra. Aðkoma ríkisins var skýr og kirkjan var á ábyrgð ríkisins, ekki síst þjóðkirkjan. Málefni æðstu valdamanna kirkjunnar heyrði einnig undir ríkisvaldið. Þeirri ábyrgð á þeim tíma, getur ríkisvaldið ekki vísað frá sér nú, eins og málefni kirkjunnar komi sér ekki við. Þjóðkirkjan er í stórri trúarlegri skuld við almenning í landinu.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 24.8.2010 - 13:22 - FB ummæli ()

Flaggskipið

orkuveitareykjavikurEnn og aftur erum við minnt á innustæðuleysi þess sem við töldum okkar traustustu stofnanir. Þetta á meðal annars við um flestar fjármálastofnanir í dag. Sorglegasta dæmið er þó stofnun sem var treyst til að sjá um auðlind höfuðborgabúa og orkudreyfinguna. Stofnun sem fékk allt upp í hendurnar og sem sat á gullkistu en sem nú er orðin að einum mesta skuldaklafa almennings. Skuldir sem hanga á hálsi bæjarbúa eins og myllusteinar. Yfir þessa stofnun var byggt veglegt hús, flaggskip byggingarlistarinnar og þess opinberra. Þetta hús, hús Orkuveitu Reykjavíkur, mun nú standa um ókomna tíð sem minnisvarði falsspámennskunnar og minna á gullkálfinn forðum. Ekkert síður andvaraleysi stjórnmálamannanna í borginni sem áttu að standa vörðinn. Byggingar sem áður gnæfðu yfir sveitir landsins voru þó með sál.  Á þetta verðum við rækilega minnt næstu misserin þegar við borgum orkureikningana, keyrum framhjá eða nálgumst höfuðborgina. Spurningar vakna hvort byggingin eigi ekki að taka strax við öðru hlutverki en að hýsa áfram bæjarskömm Reykvíkinga.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Föstudagur 20.8.2010 - 20:38 - FB ummæli ()

Traust á trú

Mynd:Domkirkjan-Reykjavík-Iceland-20030526.jpgTrúin er heilög og einstaklingsbundin. Íslenska þjóðkirkjan er samnefnari þess sem almenningur trúir á og hefur trúað á. Til þess að geta trúað verður maður að treysta, skilyrðislaust. Æðra máttarvald er vanfundið dags daglega en öll viljum við njóta vafans og við tökum þátt í athöfnum kirkjunnar í góðri trú.

Ef í ljós kemur að kirkjan er annað en við töldum okkur standa í trú að hún væri eða ef boðskapurinn er hjáróma að þá hljótum við að endurskoða hug okkar til hennar. Því mun meiri er ástæðan ef allar okkar kirkjulegu athafnir, frá vöggu til grafar, vina og ættmenna, byggjast á fölskum grunni. Því meira sem fallið er fyrir okkur, því meiri er ábyrgð kirkjunnar að okkur farnist vel í framtíðinni. Þetta sjónarmið kom ekki fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld í viðtali við biskupinn okkar, Hr. Karl Sigurbjörnsson.

Í dag eru þeir tímar liðnir, í ljósi atburða sem tengjast fyrrverandi sóknarpresti og biskupi Íslands, séra Ólafi Skúlasyni heitnum að starfandi biskup og bakhjall hans, kirkjuráðið, geti farið undan í flæmingi og neitað sjálfum sannleikanum eins og við skiljum hann. Dóttur hans er létt eftir að hafa sagt sannleikann. Sá sannleikur hlýtur að eiga vera léttir fyrir okkur öll hin. Frelsistilfinningin sem Guðrún Ebba Ólafsdóttir lýsir hlýtur að skírskota til einhvers stórkostlegs, ekki bara fyrir hana persónulega. Þjóðin öll, ekki síst fyrrverandi safnaðir, krefjast auðvitað afsökunar á alvarlegum trúnaðarbresti gagnvart þeim. Þúsundir eiga nú um sárt að binda og telja sig illa svikna af kirkjunni og hennar störfum. Hvað ætlar kirkjan að gera fyrir þetta fólk? Áfallahjálp heitir það á sálfræðimáli, sálgæsla hét það áður innan kirkjunnar. Nú fyrst reynir á fyrir hvað kirkjan stendur.

Hrun og fullkomið vantraust til íslensku þjóðkirkjunnar er það versta sem maður sér í spilunum. Ríkisstjórnin og Dóms- og mannréttindamálaráðherra (áður kirkjumálaráðherra) verða að hafa hönd á bagga og fá verður enn eina rannsóknarskýrsluna. Öll spilin á borðið, opinberun sannleikans og viðurkenning mistaka og yfirhylminga alvarlegra mála innan æðstu stjórn kirkjunnar um árabil, eru fyrstu skrefin til að hægt sé að byggja upp nýtt traust.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 17.8.2010 - 13:37 - FB ummæli ()

Lyfjakostnaður áfram hár

salalyfja

Notkun lyfja í skilgreindum dagskömmtum (DDD) efftir lyfjaflokkum (SJÁ SKÝRINGAR Á BÓKSTÖFUM (LYFJAFLOKKUM) Á NÆSTU MYND)

lyfjavalLyfjastofnun Íslands birti í gær á heimasíðu sinni nýjar upplýsingar um lyfjanotkun á fyrri hluta þessa árs samanborið við sama tímabil í fyrra. Þótt heildarnotkunin hafi minnkað um 1.2% samanborið við sama tímabil í fyrra, reiknað í magni skilgreindra dagskammta (DDD) að þá hefur verðmæti sölunnar sem eru 13,0 milljarðar króna hækkað um 1,2% milli tímabila, reiknað á smásöluverði með vsk.

Fyrirfram hefði maður búist við meiri minnkun og minni kostnaði á þessu ári. Sjúkratryggingar Íslands hafa t.d. breytt reglugerðum varðandi ávísun á lyf þannig að hagstæðast er fyrir sjúklingana að ávísað sé á ódýrustu lyfin í sama samheitalyfjaflokki og í sumum tilfellum að ávísað sé frekar á „sambærileg“ lyf þegar mikill verðmunur er á milli lyfja með svipaða, en þó ekki alveg sömu verkun. Vitað er að þessar breytingar hafa þegar skilað nokkra milljarða króna sparnaði fyrir ríkið (í blóðfitulækkandi lyfjum, blóðþrýstingslækkandi lyfjum, magalyfjum, geðlyfjum og öndunarfæralyfjum). Eins hefði mátt búast við að jafnvel sjúklingar spöruðu við sig lyf vegna slæms fjárhags sem er auðvitað ekki gott mál þegar um nauðsynleg lyf er að ræða. Skýringar á auknum kostnaði og nánast óbreyttri heildarnotkun hlýtur því að skýrast að mestu í hærra lyfjaverði og meiri notkun lyfja í dýrustu lyfjaflokkunum.

Þessar niðurstöður má m.a. finna þegar bornar er saman upplýsingar um notkun lyfja eftir flokkum sem fjölda notenda per 1000 íbúa á ári annars vegar og hins vegar sem kostnaði  á sömu flokkum. Í magni talið eru æða- og hjartasjúkdómalyf (C) ásmt tauga- og geðlyfjum (N) mest notuðu lyfin en ef við lítum á hversu margir fá lyfin eftir hinum ýmsu lyfjaflokkum eins og birtist í lyfjatíðindum Landlæknisembættisins í sumar að þá eru það sýklalyfin (J) sem flestir fá eða tæpl. annar hver maður á ári og tauga- og geðlyfin eru þar í öðru sæti eða sem samsvarar þriðja hverjum einstaklingi í þjóðfélaginu. Í þessum lyfjaflokki vega þyngst þunglyndislyf, svefnlyf og lyf við athyglisbresti.

Notkun tauga/geðlyfja og sýklalyfja er mikil, sérstaklega ef litið er til kostnaðar þar sem geð- og taugalyf skipa toppsætið. Sýklalyfin skipa síðan 3. sætið þrátt fyrir litla heildarnotkun í dagskömmtum talið og notkun sem yfirleit er tímabundin í hvert sinn.

Flestir eru sammála að sýklalyf og tauga- og geðlyf séu of mikið notuð. Hvað sýklalyfin varðar hefur almennt verið talað um að helmingur notkunarinnar sé óþarfur auk þess sem mikil sýklalyfjanotkun skapar sýklalyfjaófnæmi og þörf fyrir sífellt breiðvirkari og dýrari lyf. Spara má augljóslega nokkra milljarða króna með betri notkun lyfjanna, ekki síst í þessum tveimur flokkum.

http://ruv.is/frett/mikil-aukning-i-notkun-gedlyfja 2013

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 16.8.2010 - 11:36 - FB ummæli ()

Þegar smáfuglarnir byrja að syngja aftur

raudtoppurRingt hefur öll ósköp um helgina. Það breytir ekki þeirri staðreynd að fara verður með hundana í göngutúrinn sinn. Rokið bættist svo við í gær og óneytanlega kom haustið upp í hugann.

Á regndögum breytist allt og allt verður drungarlegra. Það er eins og tíminn standi líka í stað og allt verður svo ósköp hversdagslegt þótt um frídaga sé að ræða. Fréttir af mannlífinu fá á sig annan blæ og sumir verða viðkvæmari og svartsýnari á lífið og tilveruna.

En í morgun stytti upp og sólin sendi nokkra sumargeisla á vot túnin heima. Og ekki stóð á fuglasöngnum úr görðunum sem annaðhvort var orðinn svo hversdagslegur í góðviðrinu fyrir helgi að maður heyrði hann ekki lengur eða þá sem líklegra er að smáfuglarnir tóku gleði sína aftur svo um munaði. Mávarnir hins vegar þögðu í morgun, aldrei þessu vant og kvakið í þeim heyrðist ekki lengur úr svörtu klettunum í Hamrahlíðarbjörgunum. Þá varð mér einhverja hluta vegna hugsað til stjórnlagaþingsins í haust, þings alþýðunnar sem svo mikið er rætt um þessa daganna. Og fleiri verða tilbúnir að mæta en kallaðir.

Hrafnaþingin halda samt áfram og gargið í vargfuglinum í björgunum sem teygja sig út í móana hverfur því miður ekki í bráð. Mófuglarnir horfnir. Smáfuglarnir minntu þó vel á sig í morgun eftir tíðindi helgarinnar og þar ríkti gleði. Það birtir alltaf upp um síðir þótt sá tími geti verið afar afstæður í mannheimum. Smáfuglarnir kveiktu von í morgun.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 14.8.2010 - 11:31 - FB ummæli ()

Ofurbakteríur þrífast best í veiku þjóðfélagi

kubbarSkildum við Íslendingar þurfa að fá hjálp frá Evrópusambandinu til að ráða niðurlögum ofurbaktería hér á landi eins og við þurftum hjálp Dana til að ráða niðurlögum bólusóttar fyrir rúmlega tveimur öldum síðan þegar við vorum undir þeirra forræði? Eða höfum við burði til að ráða við vandamálin á eigin forsendum?

Margt gott hefur verið gert í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins hér á landi allt frá því embætti Landlæknis var stofnað fyrir 250 árum síðan, ekki síst í smitvörnum, mæðra- og ungbarnavernd. Á  ýmsum heilsukvörðum stöndum við Íslendingar nú vel að vígi í samanburði við önnur lönd. Meðal annars er spítalaþjónustan góð þegar kemur að bráðveikindum, mæðraverndin er góð og ungbarnadauði er með því sem lægst gerist í heiminum. Almennt eru Íslendingar auk þess hraust þjóð, börnin fæðast stór og heilbrigð, húsnæðið gott og sama má segja um næringu og hreinlæti. En það eru blikur á lofti sem bent geta til að við séum ekki að gera hlutina nógu vel.  Á síðustu misserum hefur borið á alvarlegum brestum sem hægt er að kenna við nútímavanda í ómarkvissri heilsuvernd að mínu mati. Virðist vera um að kenna  stjórnleysi og takmörkunum á eðlilegu aðgengi að grunnþjónustunni en í staðinn vísað á frjálst aðgengi að þjónustu sérfræðinga úti í bæ og á vaktþjónustuna. Víða erlendis þar sem heilbrigðisþjónustan hefur verið talin veik og ekki talin standast samanburð við okkur á flesta mælikvarða eru lyfjaávísanir óagaðar og þar hefur einmitt sýklalyfjaónæmi verið hvað mest. Í sumum þessara landa getur almenningur jafnvel keypt sýklalyf beint úr apótekunum. Há tíðni fjölónæmra berkla, fjölónæmra sárabaktería og annarra sýkla sem valda algengustu sýkingunum er afleiðingin.

Heilsugæslan er hugsuð til að fást við algengustu meinin í þjóðfélaginu, svokallaða alþýðusjúkdóma. Kvefpestir og öndunarfærasýkingar eru dæmigerðir slíkir sjúkdómar. Ef þessir sjúkdómar eru afgreiddir í vaxandi mæli sem flóknir sjúkdómar hjá sérfræðilæknum og sjúkrastofnunum er hætt við að meira sé gert úr vandanum en efni standa til.  Rannsóknir verða meiri og meðferðarúrræði flóknari og dýrari. Hraðafgreiðsla á vöktum þar sem ekki er boðið upp á eftirlit og fræðslu er ekki ásættanleg, sérstaklega ef henni er ætlað að mestu að létta á dagþjónustu heilsugæslunnar þar sem ekki fást tímar. Í dag vantar tugþúsunda höfuðborgabúa heimilislækni og allt of margir skjólstæðingar eru skráðir á hvern lækni sem þar eru ennþá eru starfandi. Mikill niðurskurður á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrir rúmu ári síðan og takmarkanir á síðdegisopnunum auka enn á þennan vanda.

Vandamálið sem snýr að þróun ofurbaktería hér á landi sem venjulega hafa verið kallaðir fjölónæmir pneumókokkar endurspegla nákvæmlega þann vanda sem getur skapast þegar ekki er rétt að farið í nálgun þessara sjúkdóma og eins og átt hefur sér stað í meðferð miðeyrnabólgu barna hér á landi á síðustu áratugum og sýklalyfin notuð óhóflega. Þetta á ekki síst við hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem flest börn og foreldar þeirra leita lækninga á Læknavaktinni og Barnalæknavaktinni í stað þess að fá þjónustu hjá heilsugæslunni sem ætti að hafa meiri yfirsýn á vandamálunum og meiri möguleika á ráðgjöf, fræðslu og eftirfylgni með einkennum í stað þess að og grípa strax til inngripsmikilla meðferða eins og sýklalyfjameðferðar, enda oftast um sjálflæknandi sjúkdóma að ræða eða sjúkdóma sem þarfnast fyrst og fremst ráðgjafar. Þetta ásamt ungbarna- og mæðraeftirliti, eftirliti með krónískum sjúkdómum, geðhjálp, einfaldri slysahjálp og ráðleggingum um heilbrigðan lífstíl er meginhlutverk heilsugæslunnar í dag. Gæðaþróun í heilbrigðum lífstíl og forvörnum ásamt skynsamlegri lyfjanotkun er aðalsmerki greinarinnar. Heimilislæknar fá sérfræðimenntun í 4 ár til að geta annast þessa hluti vel. Sú þjónusta tilheyrir 1.stigs heilbrigðisþjónustunni og sem er í eðli sínu allt annað en sérfræðihjálpin sem er 2.stigs þjónusta og spítalaþjónustan sem er 3.stigs heilbrigðisþjónusta. Flóknara er það nú ekki.

Vandamálið varðandi hraða og hættulega þróun ofurbaktería á Íslandi endurspegla þannig úrlausnir á algengasta heilsuvanda íslenskra barna í heilbrigðiskerfinu sem ég hef mikið rannsakað gegnum árin ásamt félögum mínum og skrifað margar greinar um í íslensk og erlend læknatímarit, nú síðast í sumar í norræna læknablað heimilislækna (SJPHC). Um þessar rannsóknir hefur líka töluvert verið skrifað af erlendum aðilum og vitnað til slæmrar reynslu okkar Íslendinga. Endurtekið hefur verið varað við þróuninni. Um þetta vil ég aðeins fjalla um nánar vegna síðasta bloggsins míns og umræðunnar á fréttavef Eyjunnar í kjölfarið. Stóra máli sem er grafalvarlegt að mínu mati snýr þannig að loftvegasýkingunum, úrlausnum og notkun sýklalyfja sem tengist takmörkuðu aðgengi barna að heilsugæslu og samfelldri heilbrigðisþjónustu. Afleiðingarnar er hátt hlutfall ofurbaktería og miklu hærra en þekkist í nágranalöndunum.  Allar nýjar leiðbeiningar um góða heilsugæslu m.a. meðferð á öndunarfærasýkingum leggja einmitt mikla áherslu á samfellu í þjónustunni með möguleika á eftirliti í stað lyfja af minnsta tilefni. En það er ekki nóg að skrifa leiðbeiningar, aðstæður til að hægt sé að fara eftir leiðbeiningunum þurfa að vera fyrir hendi hér á landi og nýlega hefur verið til umfjöllunar erlendis. Í dag, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, er fyrst og fremst boðið upp á hefðbundna ungbarnheilsuvernd og bólusetningar frískra barna annars vegar og hins vegar þjónustu við veik börn á barnalæknavöktum og á Læknavaktinni, með fullri virðingu fyrir þessum aðilum enda Læknavaktin m.a. minn vinnustaður.

Ætla má að um 80% barna fái miðeyrnabólgu strax á fyrsta aldursári og sum hver oft. Um er að ræða tugþúsundir tilfella hjá börnum á hverju ári. Flestar bólgurnar eru meðhöndlaðar með sýklalyfjum, stundum með takmörkuðum árangri enda mikið sýklalyfjaónæmi hér á landi og hvergi er sýklalyfjanotkunin meiri á Norðurlöndunum en einmitt á Íslandi. Eyrnabólgur eru auk þess ástæða fyrir meirihluta sýklalyfjaávísana meðal barna þótt meðferð eigi í flestum tilvikum að vera óþörf þegar um vægar sýkingar er að ræða.

Á síðasta ári hefur verið mikið fjallað um nauðsyn þess að taka upp nýja bólusetningu hér á landi og sem hefur verið tekin upp á öllum hinum Norðurlöndunum án endurgjalds. Um er að ræða bólusetningu gegn algengasta sýkingarvaldi barna um þessar mundir sem er lungnabólgubakterían (pneumókokkur) sem fyrir utan að valda alvarlegum sýkingum eins og lungnabólgum, blóðsýkingum og heilahimnubólgum, veldur flestum miðeyrnabólgum meðal barna. Börnin sjálf eru helsti smitberi þessarar bakteríu í þjóðfélaginu og smita því gjarnan hvort annað og gamla fólkið. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur eftir að þingsályktunartillaga Siv Friðleifsdóttur og félaga var samþykkt í vetur, stefnt að því að taka hana upp á nýju ári. Stefnt er að bjóða aðeins börnum sem fæðast á næsta ári bólusetninguna enda gagnast bólusetningin best yngstu börnunum. Bólusetningin í dag stendur hins vegar aðeins börnum foreldra til boða sem óska eftir og hafa efni á að greiða fyrir hana. Full bólusetning á fyrsta ári kostar um 38.000 kr. Sóttvarnarlæknir hefur einnig kynnt bólusetninguna í Farsóttartíðindum á vef Landlæknisembættisins nýlega.

Í þeim löndum sem bólusetningin hafur verið tekin upp hefur tilfellum alvarlegra sýkinga fækkað um 80% og heimsóknum til lækna og sýklalyfjaávísunum vegna miðeyrnabólgu fækkað um allt að helming. Því má sjá hvað almenn þátttaka í þessari bólusetningu gegn algengustu stofnum lungnabólgubakteríunnar getur haft gríðarmikil áhrif auk þess að skapa skilyrði fyrir að hægt sé að draga úr sýklalyfjanotkun og þannig stuðlað velferð barna og annarra á Íslandi.

Mikill og vaxandi áhugi foreldra er nú á bólusetningunni og bólusetningin vel kynnt læknum. Það er eðlilegt að spurt sé hvort ekki sé verið að mismuna börnum eftir efnahag foreldranna þar sem greinilega hafa ekki allir foreldrar efni á að kaupa þessar bólusetningar fyrir börnin sín í dag. Hætt er við að foreldrar sem ekki hafa efni á þessari bólusetningu horfi með neikvæðari augum til heilsuverndarinnar almennt sem svo aftur getur dregið úr þátttöku í öðrum nauðsynlegum bólusetningum barna.

Þeirri leið hefur verið hafnað hér á landi að þeir efnameiri geti keypt sér betri heilbrigðisþjónustu en aðrir. Sama gildir um þá þjónustu sem stendur börnum til boða. Til skamms tíma hefur ungbarnaheilsuverndin og bólusetningar ekki verið þar undanskilin en því miður tannheilsuvernd barna. Tannlæknakostnaður barna er hár enda tannheilsa íslenskra barna léleg og miklu verri en á hinum Norðurlöndunum sem einnig vekur upp álitnar spurningar um veikt þjóðfélag. Ekki hefur verið deilt um að allar ungbarnabólusetningarnar sem heilbrigðisyfirvöld mæla með að séu ókeypis enda hagsmunir barnsins í húfi og þjóðfélagsins alls til að gott hjarðónæmi skapist.

Leggja ber áherslu á að bólusetningin sé ekki síst framkvæmd sem aðgerð stjórnvalda til að sporna gegn miklu sýklalyfjaónæmi hér á landi sem tengist eins og áður segir mikilli sýklalyfjanotkun um árabil, ekki síst meðal barna og sem á stærstan þátt í þeirri alvarlegri stöðu sem við nú stöndum frammi fyrir sem er mikið sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvalda þjóðfélagsins. Um stórhættulega þjóðfélagsþróun er að ræða sem ekki sér fyrir endann á og bregðast hefði þurft við miklu fyrr. Bara þessi ástæða ætti að vera nóg til að flýta upptöku á bólusetningunni hér á landi eins og kostur er. Þjóðhagslegur sparnaður verður einnig mikill á öðrum mælikvörðum. Minni lyfjakostnaðar, minni fjarverur foreldra frá vinnu vegna veikinda barna og fækkun aðgerða vegna hljóðhimnurörísetninga sem hvergi eru algengari en á Íslandi og sem rakið er m.a. til endurtekinna eyrnabólgusýkinga. Ekki má gleyma bætum lífsgæðum barna og fjölskylda þeirra og með hjarðáhrifunum græða ekki síst afi og amma enda um helstu lungnabólgubakteríuna að ræða í þjóðfélaginu.

Mjög mikilvægt er að endurskipuleggja ávísanavenjur lækna á sýklalyf þegar kemur að meðferð algengust sýkinga í þjóðfélaginu, ekki síst öndunarfærasýkingum og eyrnabólgum barna sem er hátt í fjórðungur ástæða fyrir komu almennings til heilsugæslunnar og sem skýrir yfir helming af allri sýklalyfjanotkuninni í þjóðfélaginu. Í meirihluta tilfella er sýklalyfjanotkunin óþörf. Veita þarf miklu meiri fræðslu um skynsamlega notkun sýklalyfja hér á landi. Við verðum að koma í veg fyrir að við förum úr öskunni í eldinn sem gerist ef aðrir sýklalyfjaónæmir stofnar sem ekki eru í bóluefnunum ná sér á strik í kjölfarið vegna þess eins að ekki er dregið úr óþarfa notkun sýklalyfja um leið.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn