Sunnudagur 12.4.2015 - 06:50 - Lokað fyrir ummæli

“Speak softly and carry a big stick”

Þessi orð, sem tileinkuð eru Teddy Roosevelt, komu upp í hugann eftir digurbarkalegar yfirlýsingar forsætisráðherra um losun fjármagnshafta.

Engum forsætisráðherra í nágrannalöndunum dytti í hug að tala svona. Þar er hefð fyrir því að sjálfstæðir og sterkir seðlabankastjórar stjórni peningamálastefnunni. Hlutverkaskipunin í afnámsferlinu er óljós og það dregur úr trausti.

Það er lágmarkskrafa að ráðamenn standi að kynningu á afnámi hafta á faglegan hátt á hlutlausum vettvangi þar sem menn sýna breiða samstöðu ríkisstjórnar og Seðlabankans. Fjarvera fjármálaráðherra og seðlabankastjóra grafa undan öllu ferlinu og torvelda afnámið.

Þetta vekur hins vegar upp þá spurningu hvort afnám hafta sé hið raunverulega pólitíska markmið? “Losun hafta” til ákveðinna vildarvina í kerfi þar sem stjórnmálmenn geta stýrt aðgangi að gjaldeyri í gegnum skattlagninu er miklu nær því að vera hin “séríslenska leið”. Þar með er auðvelt fyrir stjórnmálastéttina að stýra verðinu á krónunni, en sú verðlagning er sú mikilvægasta í hagkerfinu.

Og þar er komið að stóru vandamáli í íslensku samfélagi. Menn eru svo vanir handstýrðri verðlagning og öllu sem henni fylgir. Hugtökin framboð og eftirspurn eru ekki hátt skrifuð á Íslandi og þarf ekki annað en að líta á menntamál, heilbrigðismál, kjaramál og samgöngumál til að sjá að yfirleitt velja menn handstýrðar leiðir undir forsjá stjórnmálamanna.

Þannig falla fjármagnshöft vel að íslenskum veruleika. Fáir eru tilbúnir til að láta óheft öfl markaðarins ráða verðlagninu á krónunni. Hinn alþjóðlegi gjaldeyrimarkaður er ólgusjór eins og Rússar og Svisslendingar hafa fengið að kenna á á þessu ári. Allt tal um að íslenskir ráðherrar geti með yfirlýsingum varið krónuna betur á opnum og frjálsum markaði, en seðlabankar annarra landa sína gjaldmiðla, er í besta falli barnaleg óskhyggja.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 10.4.2015 - 06:07 - Lokað fyrir ummæli

Bara fugl í skógi?

Nú þegar flokksþing Framsóknar er að byrja er rétt að rifja upp hverju formaðurinn lofaði fyrir síðustu alþingiskosningar.  Hér er færsla frá 2013 sem ekki þarfnast frekari skýringa:

———

Fyrir kosningar boðaði Sigmundur Davíð eftirfarandi á vefsíðu sinni:

Lofað var stóru svigrúmi:

…eðlilegt svigrúm nemi þegar allt er talið um 800 milljörðum. Það er miklu meira en þarf til að leiðrétta stöðu heimilanna. Samhliða því er hægt að bæta stöðu ríkissjóðs og endurreisa velferðarkerfið.

sem átti að vera einfalt í framkvæmd:

Þetta er einfalt: Það þarf að skipta eignum þrotabúanna. Það þjónar hagsmunum allra. Samhliða þeim uppskiptum verður hægt að aflétta gjaldeyrishöftum og koma til móts við skuldsett heimili og bæta ríkinu og velferðarkerfinu það tjón sem leiddi af hruninu sem nú er verið að gera upp. Við höfum einstakt tækifæri til að bæta tjón undanfarinna ára. Það tækifæri má ekki glatast!

með Sjálfstæðismenn í aftursætinu :

Formaður Sjálfstæðisflokksins er hins vegar orðinn harður á því að ná þurfi fjármagni með góðu eða illu. Það er þá væntanlega ekki „bara fugl í skógi“.

Er furða að einhver spyrji: hvað klikkaði hjá Framsókn?

 

Heimild:  sigmundurdavid.is, “Þetta tækifæri kemur ekki aftur”

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 8.4.2015 - 07:13 - Lokað fyrir ummæli

Ríkið er aflögufært

Það eru til nógir peningar hjá ríkinu til að hækka laun um 30% án þess að setja ríkisreikninginn í uppnám.  Vandamálið er að þessir peningar renna nú til fjármagnseigenda.

Fjármagnskostnaður ríkisins eru um 22% af rekstri ríkisins en launakostnaður 38%.  Eins og bent hefur verið á í þessum skrifum er fjármagnskostnaður per skuldaða einingu meir en helmingi hærri á Íslandi en í Grikklandi.  Þar sem allar líkur eru á að Ísland innan ESB verði betur rekið en Grikkland er ljóst að fjármagnskostnaður íslenska ríkisins mun lækka umtalsvert við inngöngu í ESB.

Það er margt hægt að gera við þá peninga, t.d. hækka laun, bæta heilbrigðiskerfið eða borga niður skuldir.

Ísland verður að velja hvort það vill borga hæstu fjármangsgjöld í Evrópu eða hæstu laun.  Það er ekki hægt að gera hvoru tveggja, ekkert land getur það og engin dæmi eru um slíkt.  Hins vegar er sterk neikvæð fylgni á milli launakostnaðar og fjármagnskostnaðar.

Verkföll geta aldrei komið í staðinn fyrir heilstæða framtíðarstefnu sem byggir á ESB aðild og evru.  Er ekki kominn tími til að frelsa það fjármagn sem núverandi krónustefna heldur í gíslingu til að hækka lægstu launin varanlega? Ísland hefur val.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 5.4.2015 - 09:41 - Lokað fyrir ummæli

Auðveldara með evru

“Lausnamiðað” fólk hlýtur að kynna sér nýlega skýrslu KPMG um afnmám hafta eða hvað?  Eru ekki allar skýrslur eða valmöguleikar jafnir á Íslandi?  Þarf blessun stjórnmálamanna til að mega skoða alla möguleika á faglegan hátt?

Slagorðið “evran slæm, krónan góð” hefur sterkan “Orwellian” undirtón.  Þessum söng má ekki breyta og dýrin hafa ekkert um það að segja, hinir nýju húsbændur ráða.  Og til að dreifa athyglinni eru dýrin hvött til að hafa skoðun á því hvar nýtt fjós rísi.

En aftur að skýrslu KPMG.  Hún er enn ein staðfesting á því sem margir vita – stöðuleiki í peningamálum er best tryggður með evru og ESB aðild.  Það verður því fróðlegt að sjá hvort menn hafi kjark og þor til að afnema höftin með krónunni og jarðaðri ESB umsókn?  Það er tilraunastarfsemi sem hefur háan áhættustuðul.

Ef illa fer, er hætt við að erfitt verði að standa í vegi fyrir þjóðaratkvæðisgreiðslu um að ljúka ESB viðræðum.  Á endanum mun þjóðin fá að kíkja í pakkann, það er bara spurning hvenær.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 1.4.2015 - 07:14 - Lokað fyrir ummæli

Enska skýrslan hans Frosta

Þjóðhagspeningakerfi eins og lýst er í nýrri skýrslu á ensku til Alþingis mun aldrei virka og gerir lítið annað en að auka enn óvissuna varðandi stefnu Íslands í peningamálum.  Þá vinnur skýrslan gegn markmiðinu um losun hafta.

Til að skilja hið nýja kerfi er best að líta á það frá sjónarhóli heimilanna.  Bankakerfinu verður skipt upp í tvenn og einfaldað.  Öll greiðsluþjónusta verður hjá ríkisreknum seðlabanka í gegnum svokallaða færslureikninga.  Þetta þýðir að allir launareikningar landsins og debitkort verða hjá einum og sama aðila.  Þessir færslureikningar verða 100% tryggðir en bera enga ávöxtun eða verðtryggingu.

Ef menn vilja fá ávöxtun á fé sitt verða þeir að fara í bankana sem verða nú fjárfestingabankar með allri þeirri áhættu sem í því felst.  Þar verða aðeins í boði bundnir fjárfestingareikningar með a.m.k. 45 daga binditíma.  Ekki er að sjá að það verði innistæðutrygging á þessum reikningum enda verða allar innistæður hjá seðlabankanum.

Vörur eins og sparireikningar og yfirdráttarheimildir munu heyra fortíðinni til.  Engin praktísk reynsla er af svona kerfi.  Ekkert þróað land rekur svona kerfi.  Fara þarf aftur til gömlu Sovét til að finna einhverja hliðstæðu og allir vita hvernig það endaði.  Þá er spurningunni, um hvernig svona miðlægt þjóðhagspeningakerfi getur þrifist á opnum fjármagnsmarkaði innan EES þar sem viðskiptalönd Íslands nota núverandi kerfið, ósvarað.

Ansi er ég hræddur um að stór hluti heimilanna í landinu vilji ekki taka þátt í svona tilraunastarfsemi og muni einfaldlega færa bankaviðskipti sín yfir til nágrannalandanna – svo framalega sem það verði ekki bannað með höftum, því flest bendir til að ströng fjármagnshöft sé nauðsynlegt skilyrði fyrir einhliða innleiðingu á þjóðhagspeningakerfi.

Því miður er þessi enska skýrsla ekki sú töfralausn á krónískum peningamála vandræðum landsins, sem sumir gætu haldið.  Betra er að halda sig við íslenskan raunveruleika eins og hann er og vinna að praktískum lausnum sem geta fært heimilinum bæði stöðuleika og aukna velmegun.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 30.3.2015 - 08:15 - Lokað fyrir ummæli

Sparisjóður seldur á slikk

Það er ekki á hverjum degi sem ein verðmætustu viðskiptasambönd landsins eru seld á brunaútsöluverði.  En það gerðist um helgina þegar Sparisjóður Vestmannaeyja var seldur í “ekta” 2007 ferli, þar sem sami meirihluti sat báðum megin við borðið.

Nú eru Vestmannaeyjar ein stærsta og gjöfulasta verstöð landsins og líklega eru viðskiptasambönd per mann verðmætari þar en víðast hvar á landinu.  Þegar fyrirtæki eru seld eru menn að kaupa framtíðina ekki fortíðina.

Fyrir banka sem er stútfullur af eigið fé er svona díll sending af himni ofan. Stofnfé eigenda Sparisjóðsins er enginn mælikvarði á virði hans í höndum Landsbankans.  Líklega hefði mun hærra verð fengist ef Sparisjóðurinn hefði verið seldur í faglegu og opnu söluferli.  Slíkt ferli hefði verið í þágu minnihlutans en ekki endilega meirihlutans.  Það er vegna þess að ríkið átti aðeins 55% af SV en á 98% af Landsbankanum og þar með fær dulinn hagnað minnihlutans til sín á endanum. Þetta er klassískt dæmi um hagsmunaárekstra í hlutafélögum þar sem minnihlutinn ber skertan hlut frá borði.  En í þetta sinn eru það ekki útrásarvíkingar sem standa að málum heldur ríkisstofnanir!  En á endanum er það stjórn sjóðsins sem ber mesta ábyrgð hér, enda ber henni að gæta jafnt að hag allra eigenda.

Það er vel skiljanlegt að menn í Eyjum séu fúlir og fullt tilefni fyrir bæjarstjórn að athuga málið og gera fyrirvara við þetta verðmat og ferlið allt.  Það ætti að vera lágmarkskrafa þegar svona er í pottinn búið að kalla inn óháðan 3ja aðila til að staðfesta verðmatið.

Þá ætti þessi gjörningur að minna menn á að það getur verið áhættusamt að vera minnihlutaeigandi í hlutafélagi þar sem ríkið fer með völd.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 27.3.2015 - 08:57 - Lokað fyrir ummæli

Sparisjóður riðar til falls

Mál Sparisjóðs Vestmannaeyja er allt hið furðulegasta.  Svo virðist samkvæmt blaðafréttum að útlánasafn sjóðsins hafi verið ofmetið og það aðeins komið í ljós eftir athugun FME í lok árs 2014.

Þetta vekur upp spurningar um störf stjórnar sjóðsins, Bankasýslunnar og FME.  Ef rýnt er í ársskýrslur SV kemur í ljós að stjórn sjóðsins og endurskoðendur hafa varað við óvissu um mat á eignum sjóðsins og áhrif þess á rekstrarhæfi allt frá árinu 2010.  Þá hefur sjóðurinn átt í basli með að uppfylla eiginfjárkröfur FME og tap hefur verið á rekstrinum síðustu misserin. Eða eins og segir í árskýrslu fyrir árið 2011:

“Þetta [eiginfjárþáttur 13.9%] ásamt þeirri óvissu sem ríkir um mat eigna sjóðsins samanber skýringu 35 leiðir til að ljóst er að óvissa ríkir um rekstrarhæfi sjóðsins … Stjórnendur Sparisjóðsins hafa jafnframt átt fund með Fjármálaeftirlitinu og gert þeim grein fyrir stöðu Sjóðsins.”

Óvissa um mat á eignum hefur verið viðvarandi frá 2010 en furðu lítið virðist hafa verið gert til að greina þetta vandamál frekar hvað þá leysa það samkvæmt upplýsingum úr ársskýrslum.  Þá er erfitt að sjá að FME hafi skipt sér mikið af málum fyrr en í lok 2014?  Hvers vegna var ekki gripið í taumana strax 2011?

Ef slitastjórn verður skipuð yfir Sparisjóðinn er það áfall fyrir alla aðila, sérstaklega FME.  Slitastjórn á aðeins að vera úrræði í neyð.  Allt bendir til að FME og eigendur hafi haft rúman tíma til að bjarga sjóðnum.  Sú staða sem nú er komin upp að sjóðurinn vilji leggjast á ríkisjötu Landsbankans, mínútum áður en hann fellur, bendir til að enn er rými til að skerpa á og bæta eftirlit með fjármálastofnunum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 26.3.2015 - 08:19 - Lokað fyrir ummæli

Láglaunalandið Ísland – hvað veldur?

Launafólk er langþreytt á lágum launum og vill leiðréttingu þar sem annars staðar.  Ríkisstjórn sem setti “leiðréttingu” sem sinn hornstein hlýtur að taka á þessu eins og tekið var á húsnæðislánunum. Það var jafn mikill forsendubrestur hjá launafólki og húsnæðiseigendum í hruninu.

En það getur orðið hægara sagt en gert að hækka launin á sjálfbæran hátt.  Atvinnuuppbygging á Íslandi er frumstæð. Það er hægt að keyra hlutina hér á léglegri framlegð.  Auðlindir landsins sjá til þess.  Þá er erfitt að fara út í miklar og dýrar fjárfestingar til að bæta framlegð eða innleiða nýjar fjármagnsfrekar atvinnugreinar vegna hárrar arðsemiskröfu fjárfesta.

Þetta leiðir til þess að allt hjakkar í sama farinu.  Núverandi staða er í ákveðnu jafnvægi – launin hafa verið stillt þannig að full atvinna er í boði .  Ef hækka á launin án þess að breyta um kerfi riðlast jafnvægið og atvinnuleysi mun aukast eða verðbólgan æðir af stað.

Ef menn vilja raunverulegar launahækkanir þarf að breyta um kerfi og auka framlegð og framboð af hálaunastörfum.  En þá þarf að ná arðsemiskröfu fjárfesta niður á svipað stig og í nágrannalöndunum og þar er nú aldeilis á brattann að sækja.

Fjárfestar líta oft á arðsemiskröfu á 10 ára ríkisskuldabréfum sem mælikvarða á “áhættulausa” vexti. Þetta er ákveðin núllstilling, verkefni sem ráðist er í þurfa alla jafna að bera hærri ávöxtun en 10 ára ríkisskuldabréf.

Í dag er raunávöxtunarkrafa á 10 ára ríkisskuldabréf á Íslandi 5.7% en hliðstæð krafa í Svíþjóð er 0.3% og í Danmörku 0.1%.  Þetta er þrátt fyrir svokallað skjól gjaldeyrishaftanna!  Þessar tölur sýna vel í hverri órafjarlægð Ísland er frá hinum Norðurlöndunum þegar kemur að fjárfestingaumhverfi.

Líklega hefur raunvaxtamunur á milli Íslands og hinna Norðurlandann sjaldan verið hærri.  Í svona umhverfi eru það aðeins atvinnugreinar sem nota auðlindir landsins eða legu sem geta þrifist og þá oft aðeins ef launin eru lág svo hægt sé að standa undir sligandi fjármagnskostnaði.

Ein mesta kjarabót launþega til lengri tíma litið er að lækka þennan vaxtamun og gera hann stöðugan. En til þess þarf samstillt átak sem byggir á skýru framtíðarplani.  Nauðsynlegt er að ráðast á þá séríslensku áhættuþætti sem kynda undir og viðhalda háum vaxtamun. 10 helstu áhættuþættirnir eru vel þekktir, þó auðvitað greini menn á um mikilvægi þeirra og forgangsröðun og sumum þeirra verður ekki breytt:

1.   Ófjármagnaðar launakröfur sem auka verbólguvæntingar
2.   Pólitísk óeining og hringlandaháttur um efnhagsleg markmið og leiðir
3.   Hagsmunir auðlindageirans
4.   Óstöðugur gjaldmiðill sem styðst við verðtryggingu
5.   Há innlend skuldastaða
6.   Greiðslujafnaðarvandi landsins og óvissa um varanlega lausn á fjármagnshöftum
7.   Lega landsins og smæð hagkerfisins
8.   Dýrt og óskilvirkt fjármálakerfi
9.   Lagaleg óvissa fyrir fjárfesta
10. Evrópuland utan ESB

Í Evrópu og Bandaríkjunum hafa vextir verið lækkaðir til að örva hagkerfin og vinna á atvinnuleysi, á Íslandi þarf að lækka hið séríslenska vaxtaálag til að hægt sé að hækka launin og gefa ungu fólki tækifæri á að eignast þak yfir höfuðið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 23.3.2015 - 07:45 - Lokað fyrir ummæli

Ísland 0 – Noregur 1

Bréf utanríkisráðherra Íslands til ESB er lítið annað en sjálfsmark hjá Íslandi.  Hinn raunverulegi sigurvegari er Noregur.

Að senda bréf sem ekkert mark er tekið á og engin samvinna var um er tímasóun.  Skilaboðin eru skýr og þau sömu og í makríldeilunni – Íslendingar fara sínar eigin leiðir og eru óútreiknanlegir.  Fleiri munu nú segja að eini aðilinn í Norður-Atlantshafi sem talandi er við og treystandi sé Noregur.  Norðmenn eru núna einu skrefi nær að geta litið á EES samninginn, sem Ísland hefur gert að hornsteini sinnar utanríkisstefnu, sem de facto tvíhliða samning á milli Noregs og ESB.  Áhrif Íslands eru hverfandi, enda hafa Íslendingar ekki uppfyllt EES samninginn frá hruni og erfitt er að sjá hvernig Ísland ætlar á eigin spýtur að uppfylla ákvæðið um frjálst flæði fjármagns í náinni framtíð, nema með sligandi kostnaði fyrir heimilin í landinu.

Hins vegar er eðlilegt að nú þegar Ísland hefur skellt hurðinni á ESB og sagt að Íslendingar þurfi ekki á hjálp ESB að halda að Evrópulöndin geri kröfu um að Ísland aflétti fjármagnshöftum.  Fyrr standa aðilar ekki jafnfætis gagnvart framtíð EES samningsins.

Hér er Ísland búið að koma sér í klemmu sem stóri bróðir í Noregi mun nýta sér til hins ítrasta.  Afleiðingin fyrir Ísland verður líklega enn meiri einangrun undir þykkum pilsfaldi Norðmanna.  Og þetta kalla menn toppinn á fullveldinu!  Ekki er öll vitleysan eins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 21.3.2015 - 08:56 - Lokað fyrir ummæli

Icesave leið úr höftum

Margir telja að nú séu góðar horfur til að losa fjármagnshöftin?  Hvers vegna?  Jú, vegna þess að vaxtamunur við útlönd er í hæstu hæðum.  Hann muni laða erlent fjármagn til landsins.  M.ö.o. það á að nota vaxtaokur heimilanna og minni fyrirtækja til að létta á höftunum.

Þetta kallar maður Icesave leið úr höftum, en þetta var einmitt leið gömlu bankanna til að ná í erlent fjármagn, korteri fyrir hrun.  Tær snilld, ekki satt?  Halda menn virkilega að það sé hægt að auglýsa sig út úr vandanum, eina ferðin enn?

Vandamálið við þessa leið er auðvitað að fjármagn kemur til landsins á “fölskum” forsendum, spekúlantar er á höttunum eftir háum vöxtum, ekki spennandi atvinnutækifærum sem skapa störf.  Þessi leið mun ekki verða til þess að auka fjölbreytni í atvinnulífinu eða styðja við sprotafyrirtæki, þvert á móti.  Hávaxtastefna krónunnar festir landið í frumstæðri nýtingu auðlinda og ferðamennsku.

Þetta byggir á mjög einfaldri grunnskólastærðfræði, því hærri sem vaxtakostnaður fyrirtækja er, því lægri verður arðsemi á eigið fé, að öllu öðru óbreyttu.  Fjárfestar munu ólmir vilja kaupa skuldabréf útgefin á Íslandi en að sama skapi verður lítill áhugi að koma með áhættufjármagn í formi hlutafjár nema í fyriræki sem fá ívilnanir eða orkuna á spottprís.  Hin undantekningin er svo verslunin, en það hefur alltaf borgað sig að selja Íslendingum glingur og drasl á okurverði.

Samkeppnishæft vaxtastig og stöðugur gjaldmiðill myndi gjörbreyta Íslandi, enda hefur landið alla möguleika til að veita landsmönnum sömu kjör og velmegun og Noregur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur