Laugardagur 11.1.2014 - 08:39 - Lokað fyrir ummæli

Verðbólguplástrar

Enn eina ferðina á að reyna að ráðast á verðbólgudrauginn með plástrum.   Þetta var reynt alloft á síðustu öld og endaði alltaf á einn veg.  Verðbólgudraugurinn vann ætíð, enda ódrepandi með krónuna sem hjarta.

Nú reyna menn á nýrri öld og ætla að koma að draugnum sofandi þar sem hann mókir eftir 10% hækkunn krónunnar gagnvart dollara á síðasta ári.  En þó gjaldeyrishöft hefti aðgang að fóðri fyrir verðbólguna nærist hún á fleiru.  Vextir fara hækkandi og skuldug fyrirtæki þurfa peninga til að borga okurlán í íslenskum krónum.  Þá peninga sækja þau til almennings með því að hækka verð, þetta má kalla skuldaverðbólgu.  Og svo er yfirleitt stærsti hluti verðhækkana fólginn í húsnæði.  Fasteignir og leiguverð hækkar í skjóli hafta.  Þannig eru höftin tvíbennt sverð, draga úr og kynda verðbólguna á sama tíma.

Traust til stjórnmálamanna og samstaða sveipuð auglýsingaskrumi eru veikir plástrar.  Í besta falli er þetta skammtímalausn sem reddar málum fram yfir sveitarstjórnarkosningar.  Vandamálið er sem fyrr algjört vantraust á íslensku krónunni.

Það er aðeins ein langtímalausn til á þeim vanda og hún felst í nýjum alþjóðlegum gjaldmiðli.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 10.1.2014 - 12:34 - Lokað fyrir ummæli

Skuldaleiðrétting eða afleiða?

Eitt mikilvægasta atriðið sem Alþingi þarf að taka ákvörðun um þegar lög um skuldaleiðréttingu verða lögð fram og afgreidd er hvort lántakendur þurfa að “borga” fyrir leiðréttinguna með því að afsala sér rétti til endurfjármögnunar.

Þetta er mikilvægt þar sem endurfjármögnunarvalmöguleikinn getur verið mjög verðmætur og í sumum tilfellum verðmætari en skuldaleiðréttingin sjálf.  Sérstaklega á þetta við hjá heimilum sem enn eru að greiða af gömlum lánum sem bera 5% vexti og veðhlutföll eru lægri en 70%.  Í þessum hópi eru margir ellilífeyrisþegar.

Ef til endurfjármögnunarbanns kemur er réttara að tala um að heimilunum sé boðið að sækja um skuldaafleiðu en beina leiðréttingu.  Afleiðan samanstendur af höfðustólsniðurfærslu með endurfjármögnunarbanni.  Það getur orðið ansi flókið að reikna út verðmæti þessarar afleiðu sérstaklega í sveiflukenndum haftabúskap þar sem óvissuþættir eru margir.

Það verður athyglisvert að fylgjast með umræðum um skuldaafleiðuna þegar hún kemur á borð Alþingis.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 8.1.2014 - 17:00 - Lokað fyrir ummæli

Ekki banna verðtrygginguna!

Leiðin út úr verðtryggingunni er ekki að banna hana heldur afnema þá “einokun” sem verðtryggingin býr við og skekkir alla samkeppni.

Vandamálið við verðtrygginguna er að hún hefur alltaf verið verðlögð á einokunargrundvelli. Neytendur hafa borgða of hátt verð fyrir verðtrygginguna í skjóli “einokunarumhverfis” fagfjárfesta.  3.5% lögbundin ávöxtunarkrafa lífeyrissjóða og bann lánastofnana við að bjóða skammtíma verðtryggða innlánsreikninga eru einmitt dæmi um samkeppnishamlandi lagasetningu frá 20. öldinni sem hyglar fjárfestum á kostnað neytenda.

Það þarf að opna fyrir samkeppni um verðtryggða fjármögnun þannig að fagfjárfestar sitji ekki einir þar að borði.  Á sama tíma þarf að tryggja verðtryggingarjafnvægi hjá lánastofnunum á skulda- og eignahlið.  Setja þarf viðmið þannig að ójöfnuðurinn þarna á milli sé innan skilgreindra marka.  Fari hann þar yfir komi til sektar frá FME.  Þá þarf einnig að setja undirmarkmið þannig að tryggt sé að verðtryggingarójöfnuður á milli innlána og útlána sé innan skilgreindra marka.  Þannig verði tryggt að lánastofnanir geti ekki dælt út verðtryggðum lánum nema að þau styðjist við raunveruleg verðtryggð innlán.  Koma þarf í veg fyrir að bankarnir freistist til að fari í gamla og dýra ÍLS módelið.

Með eðlilegri samkeppni á verðtryggðum fjámálamarkaði mætti auðveldlega lækka vexti á verðtryggðum lánum niður í 3%.  Slík lán byggja á breytilegum vöxtum og munu verða ódýrari fyrir neytendur, enda eru 40 ára verðtryggð lán á föstum 4.2-4.7% vöxtum einhver sú dýrasta fjármögnun sem völ er á.  Vandamálið við þessa leið er að hún myndi rústa ÍLS og setja ríkisfjármálin í uppnám.

Kaldhæðni örlaganna er að ÍLS er orðinn myllusteinn um háls íslenskra heimila.  Húsnæðislán ÍLS eru einhver þau dýrustu í heimi enda erfitt að finna lönd þar sem margir ellilífeyrisþegar borga 5% raunvexti á fasteignalán með veðhlutfall undir 50%.  Þetta er i raun ekkert annað en okurlánastarfsemi og á fátt skilt með félagslegri lánastarfsemi.

Ef útlendingar hefðu komið með þetta kerfi til Íslands væri löngu búið að kollsteypa því en þar sem hér er um að ræða innlenda „einokun“ í kraft hagsmunahópa er þetta orðið að óleysanlegu vandamáli.   Í raun eru háir vextir á verðtryggðum lánu “skattlagning” til að halda ÍLS og þar með ríkissjóði á réttu kili.  Enda er líklegt að menn verði að borga fyrir skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar með því að samþykkja bann við endurfjármögnun, annars er hætta á að heimilin notfæri sér “tvöfalda” leiðréttingu, fyrst niðurfellingu á höfðustól og síða endurfjármögnun, en matsfyrirtækin telja þetta of dýrt fyrir ríkissjóð og Framsókn er loksins farin að hlusta á skammstöfunarstofnanir!

Varla er hægt að hugsa sér meiri hringavitleysu en hinn íslenska húsnæðislánamarkað.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 2.1.2014 - 09:16 - Lokað fyrir ummæli

2013: Jenið féll 26%

Japanska jenið féll 26% gagnvart krónunni á síðasta ári.  Þar með fengu þeir sem enn eru með lán í jenum stærstu “leiðréttinguna” á síðasta ári og það STRAX.

Frá ágúst 2008 til loka árs 2013 hækkaði jenið um 43% gagnvart krónu.  Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs til verðtryggingar um 36%.

Það er því alls ekki víst að þeir sem tóku lögleg lán í jenum og hafa haldið í þau komi verr út en krónulántakendur þegar allt verður gert upp í lokin.

Þrátt fyrir þetta mikla gengissig jensins er verðbólga í Japan margfalt lægri en á Íslandi og vextir hafa ekki rokið upp eins með krónunni.

Nei, Japan fær litla umræðu í íslenskum fjölmiðlum.  Ætli það sé vegna þess að Ólafur Ragnar fær ekki sama “norðurslóða” status þar og í Kína og Rússlandi?

Það er hreint ótrúlegt að horfa á hvernig ÓRG hefur breyst frá því að vera klappstýra útrásarvíkinganna yfir í að leika sama hlutverk fyrir Kína og Rússland á norðurslóðum.

Það er mikill misskilningur að halda að Ísland sé í einhverri lykilstöðu á norðurslóðum, en hins vegar er Ísland lykill Kínverja að norðurslóðum enda veikasti hlekkurinn í þeim heimshluta.   Það er engin furða að nágrannaríki Íslands hafi áhyggjur af utanríkispólitík ÓRGs og vilji kynna sér hana frá fyrstu hendi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 1.1.2014 - 15:46 - Lokað fyrir ummæli

2014

Árið 2013 var ár fjárfesta, allar vísitölur ruku upp nema gull og ríkisskuldabréf.

Þetta er að miklu leyti bandaríska seðlabankanum að þakka sem hefur haldið áfram að dæla peningum inn í hagkerfið og haldið vöxtum í sögulegu lágmarki.  En allt tekur enda.

Ávöxtunarkrafa á bandarísk ríkisskuldabréf er þegar farin að hækka og aðeins er tímaspursmál hvenær bandaríski seðlabankinn hækkar stýrivexti.

Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir skuldsetta aðila hvort sem það eru einstaklingar, fyrirtæki eða ríkisstjórnir.  Því skuldsettari, því meira högg verður vaxtahækkunin.

Ísland er berskjaldað gagnvart þessari hækkun, þar sem erlendar skuldir þjóðarinnar eru himinháar og á breytilegum vöxtum, lánstraustið lélegt og erlendur aðgangur að fjármagni byggist á áhuga áhættufjárfesta og vogunarsjóða sem taka Icesave vexti fyrir ómakið.

Höftin veita hér ákveðið tímabundið skjól þar sem raunvextir á íslenska áhættu eru lægri innan hafta en utan.  Þetta þýðir að þeir sem eru að lána krónur innan hafta eru að “niðurgreiða” vexti sem aftur brenglar áhættumat og fjárfestingaákvarðanir.

Eftir því sem erlendir vextir hækka eykst þessi “niðurgreiðsla” sparifjáreigenda til lántakenda.  En þar sem Ísland er land skuldara en ekki sparifjáreigenda er þessi eignatilfærsla í skjóli hafta talin af hinu góða af mörgum og þá sérstaklega stjórnmálastéttinni sem hefur uppgötvað að eignatilfærslur henta sérstaklega vel til atkvæðaveiða.

Ef létta á gjaldeyrishöftunum verður þessi “niðurgreiðsla” að hverfa, og lántakendur þurfa að fara að borga markaðsvexti og sparifjáreigendur fá eðlilega þóknun fyrir að lána fjármagn sitt.

Hvaða stjórnmálamaður ætlar að taka þessa “búbót” af skuldugum heimilum?

Íslendingar hafa aldrei geta ráðið við rétta markaðsvexti á sína eigin krónu.  Lengst af voru það fjárfestar sem niðurgreiddu vexti hér á árum áður.  Þetta leiddi til “skömmtunar” á lánum svo reynt var að fiffa þetta með verðtryggingu sem bjargaði fagfjárfestum en vanda lántakenda var frestað fram í tímann.  Skuldaleiðréttingin núna er ekkert annað en síðbúin “niðurgreiðsla”.  Þannig hafa flestir sem taka lán í krónum fengið einhvers konar “niðurgreiðslur”.  Þegar krónan var ekki innan hafta tóku allir erlend lán!

Það er vandséð hvernig á að aflétta höftunum og verðtryggingunni og láta heimilin og fyrirtækin standa berskjölduð í ólgusjó hins erlenda fjármálamarkaðar þar sem spekúlantar og vogunarsjóðir ráða ferð og heimta Icesave vexti.

En með langvarandi höftum munu lífskjör smátt og smátt dragast aftur úr nágrannalöndunum.

320,000 manna hagkerfi er einfaldlega of lítið til að halda úti eigin gjaldmiðli – kostnaðurinn er allt of hár.  Ísland mun aldrei búa við viðráðanlega vexti og frjálst flæði fjármagns með eigin krónu.

Hér verður að velja og hafna.  „Frestur er á illu bestur“ er engin framtíðarstefna en hentar vel sem pólitísk skammtímalausn.  Varla er að búast við miklum breytingum á nýju ári.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 24.12.2013 - 09:18 - Lokað fyrir ummæli

Icesave jólabónus

Landsbankinn tilkynnti í gær að hann hafi að eigin frumkvæði ákveðið að greiða Icesave kröfuhöfum 50 ma kr í gjaldeyrir.  Þrátt fyrir skort á gjaldeyri og þrönga stöðu þjóðarbúsins er til svigrúm til að borga kröfuhöfum jólabónus STRAX.   Engin gjaldeyrishöft virðast ríkja hér. Athyglisvert!

Íslenskir lífeyrissjóðir fá ekki undanþágu til að yfirfæra 50 ma kr. úr landi si svona.

Hvar eru Icesave andstæðingar í dag eða Forsetinn? Sá hlær best sem síðast hlær og það eru Icesave kröfuhafar sem munu skála í kampavíni í London yfir ákvörðun ríkisbankans.

Alþingismenn ættu að íhuga yfir jólin hvers konar banki það er sem hefur það sem sína arðbærustu fjárfestingu að endurgreiða lán. Er þetta ekki einmitt það sem lántakendur ÍLS eiga að gera?

Það er ansi tvíbent að ríkisbankinn auglýsi með pomp og pragt að hann hafi fyrirframgreitt lán sín til að létta á skuldabyrði og auka arðsemi á sama tíma og ríkisstjórnin er að íhuga að banna lántakendum ÍLS að gera hið sama ef þeir sækja um skuldaleiðréttingu.

Það er sko ekki sama Jón og séra Jón korteri áður en Íslendingar keifa inn í 2014.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 22.12.2013 - 08:11 - Lokað fyrir ummæli

2007 jól hjá sumum

Valdastéttin hefur búið svo um knútana að lítill hluti þjóðarinnar munu halda 2007 jól á meðan restin baslar við að halda í 4% verðbólgu sem enginn ræður við enda skiptir hún ekki máli hjá valdastéttinni sem er með sitt á þurru.  Hún er jú með launin evrutengd.  Sala á BMW bílum á Íslandi jókst víst um yfir 30% á þessu ári – þetta er tala sem þolir kínverskan samanburð.

Hagvöxtur, jöfnuður og ativnnustig er hærra hér en annars staðar í Evrópu. Þetta er fólki sagt að skipti öllu. Vissulega eru þetta mikilvægar hagstærðir en þær segja ekki alla söguna, líkt og flottar hagvaxtatölur frá Kína segir okkur ekki allt um Kína.

Og það er fleira sem þolir sósíalískan samanburð. Íslenski jöfnuðurinn er margrómaður og mikið hampað af stjórnmálastéttinni á tyllidögum. Það sem minna fer fyrir er að þessi jöfnuður hefur verið keyptur með því að takmarka val einstaklingsins og útbreiða ríkisafskipti í lífi fólks.

Frá vöggu til grafar hafa Íslendingar minna val en frændur þeirra á hinum Norðurlöndunum og þurfa að búa við meiri ríkisafskipti. Allir búa við sama grunnskólann, sama heilbrigðiskerfið, sama kjarasamningakerfið, sama lífeyriskerfið og sömu öldrunarþjónustuna. Allt eru þetta kerfi sem er farið að molna úr og þola engan samanburð við það besta í Evrópu, en það er ekki málið, svo framalega sem aðgangur að hinu besta er takmarkaður – allir eiga að vera jafnir í meðalmennskunni.

Afleiðingin af þessu kerfi er sú sama og í Kína – peningar verða lykilinn að nauðsynlegum valmöguleikum. Með peningum er hægt að senda börn sín í bestu skóla erlendis og með peningum er hægt að fá læknismeðferðir erlendis sem ekki bjóðast innanlands.

Ríkiskapítalismi innan gjaldeyrishafta virkar ekki bara í Kína. Ísland er skínandi dæmi í Evrópu um að kínverska leiðin virkar þar líka.

Það verður ekki auðvelt fyrir Ísland að afleggja þennan ríkisbúskap sem er sveipaður þjóðernisrembingi og fullveldishjali. Valdastéttin er jú með góðan öryggisventil, þeir sem ekki sætta sig við lágu launin, baslið og verðbólgun flytja úr landi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 21.12.2013 - 20:21 - Lokað fyrir ummæli

Orkneyjasaga hin nýja

Það fer ekki mikið fyrir fréttum frá Orkneyjum á Íslandi þó þar búi frændur okkar.

En samkvæmt áramótaútgáfu The Economist er talið að Orkneyjar og Hjaltlandseyjar sjái sér klókan leik á borði til að auka sjálfræði yfir eigin málum samhliða þjóðaratkvæðisgreiðslu um sjálfstæði Skota á næsta ári.

Þó það séu yfir 500 ár síðan eyjarnar urðu hluti af Skotlandi hafa menn ekki gleymt norrænum uppruna sínum. Lengi býr af fyrstu gerð sannast þar sem víðar.

Samkvæmt greiningu The Economist eru eyjaskeggjar hlynntari sambandi við London en að lúta stjórn lögfræðinga í Edinborg eða verkalýðsforingja frá Glasgow. Nálægðin er ekki alltaf best!

Fari svo að Skotar samþykki sjálfstæði, sem er talið ólíklegt, er talið að Orkneyjar og Hjaltlandseyjar muni ekki fylgja með í “kaupunum”. Eyjaskeggjar muni fara fram á að verða áfram hluti af breska ríkinu en fá stöðu líkt og Færeyjar hafa í danska ríkinu. Það væri auðvita sárabót fyrir Englendinga að halda yfirráðum yfir nyrsta hluta Bretlandseyja. Þar eru auðug fiskimið og olíulindir. Staða eyjaskeggja er því sterk.

Fari svo að Skotar segi nei, sem er talið líklegast, munu lýðveldissinnar fara fram á aukið sjálfstæði yfir eigin málum og eyjasekggjar munu fylgja í kjölfarið. Það verður erfitt fyrir Skota að segja nei við eyjaskeggja á sama tíma og þeir eru að biðla um sömu hluti fyrir sig frá Englandi. Og þar sem Englendingar munu sjálfsagt vilja halda eyjunum góðum og á sínu bandi munu eyjaskeggjar fá sínu framgengt.

Það er því sama hvernig þjóðaratkvæðisgreiðslan fer, Orkneyjar og Hjaltlandseyjar munu fá aukið sjálfræði. Þá setur þessi staða eyjanna sjálfstæðisbaráttuna Skota í nýtt ljós. Ef eyjarnar fylgja ekki með í nýju lýðveldi Skota getur það haft áhrif á afstöðu manna í Skotlandi. Er verið að kaupa sjálfstæði með því að afhenda eyjarnar Englendingum? Margir Skotar munu eiga erfitt með að kyngja þeim bita.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 20.12.2013 - 21:20 - Lokað fyrir ummæli

Höftin kynda verðbólgubálið

Verðbólgan er komin yfir 4% og stór hluti verðbólgunnar er vegna hækkandi húsnæðiskostnaðar.  Hér eiga höftin ákveðna sök.

Steinsteypa er öruggasta fjárfestingin á Íslandi innan hafta.  Verðbréfamarkaðurinn er  þunnur skammtímamarkaður þar sem menn verða að fara inn og út á réttum tíma og það getur oft reynst erfitt.  Margir búast þar við myndarlegri leiðréttingu ef reynt verður að létta á höftunum.

Hins vegar er enn hægt að gera góð kaup í fasteignum á Íslandi.  Þetta hafa margir erlendir aðilar notfært sér enda fá þeir sérstakan afslátt af krónum ef þeir kaupa fyrir gjaldeyri.  Það er ágæt eftirspurn eftir góðum eignum og skuldaleiðréttingin mun auka hana og leiða til enn meiri hækkunar á fasteignaverði.

Þannig leggast margir séríslenski þættir tengdir höftum og krónunni á að kynda verðbólgubálið.

Ef þessi verðbólga verður viðvarandi næstu árin verða það líklega skuldlausir fasteignaeigendur sem á endanum græða mest á skuldaleiðréttingu Framsóknar.   Sá hluti næstu kynslóðar sem ekki fær fasteignir í arf frá foreldrum sínum tapar mest.

Já, vegir verðbólgunnar eru oft órannsakanlegir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 19.12.2013 - 10:30 - Lokað fyrir ummæli

Nato og ESB

Örríki hafa ekki sömu möguleika og önnur ríki.  Þeirra fullveldi eru settar skorður.  Stærðin setur þeim mörk.

Flestir sjá að Ísland getur ekki rekið sjálfstæða og trúverðuga varnarstefnu með eigin her.  Og herlaust land er varnarlaust land eins og seinni heimsstyrjöldin sannaði.  Slík laus er aðeins tímabundin góðviðrislausn.  Um þetta virðist samkomulag á Íslandi enda hefur aðild Íslands að Nato reynst Íslendingum vel og sannað að hún er eina trúverðuga varnarstefna sem örríki á norðurslóðum getur rekið.

Sömu rök gilda um gjaldmiðil örríkis.  Saga gjaldmiðla og örríkja sýnir og sannar að örríki geta ekki haldið úti trúverðugum sjálfstæðum gjaldmiðli.  Líkt og hugmyndin um eigin her, er eigin gjaldmiðill einungins tímabundin góðviðrislausn.  Eina lausn örríkja er gjaldmiðilssamband við stærri ríki.  Þessi staðreynd er núna að renna upp fyrir Íslendingum en tilraun þeirra til að halda úti sjálfstæðri mynt hefur staðið yfir í 80 ár, lengur en hjá flestum örríkjum.   Ekki hefur þessi tilraun gengið átalaust fyrir sig.  Verðtrygging, gjaldeyrishöft og rýr kaupmáttur launafólks eru augljósustu afleiðingarnar sem hinar Norðurlandaþjóðirnar myndu aldrei sætta sig við.

Það hefur t.d. aldrei komið til tals í sjálfstæðisbaráttu Skota að taka upp eigin mynt og eru Skotar þó ekki örríki.  Það sama á við í Grænlandi.  Reynsla Íslands í gjaldmiðilsmálum er viðvörunarbjalla sem hringir hjá öðrum þjóðum í sjálfstæðisbaráttu.  Allir heyra þessa bjöllu nema Íslendingar sjálfir.

Eins og aðildin að Nato er eina trúverðuga varnarstefna Íslands er aðild að ESB eini trúverðugi möguleiki landsins í gjaldmiðilssamstarfi við önnur ríki.  Það eru ekki aðrir valmöguleikar í boði.  Vandamálið er hins vegar að þeir sem helst aðhyllast Nato aðild er harðastir gegn ESB aðild.

Sú skoðun að ESB aðild ógni fullveldi Íslands er hins vegar illskiljanleg þegar haft er í huga að herflugvélar ESB landa eru meira og minna staðsettar hér á landi og fljúga eftirlitsflug yfir landinu.  Það eru ESB ríkisborgarar sem fljúga þessum flugvélum.  Þá eru Íslendingar aðilar að EES þar sem þeir skuldbinda sig til að aðlaga sig að ESB regluverki án þess að hafa nokkur áhrif þar um.  Samningur sem í eðli sínu er 20. aldar útgáfa af gamla sáttmála frá 1262.

Rökleysa í afstöðu Íslendinga til ESB er öllum ljós, það eru hvorki þjóðarhagsmunir né fullveldisrök sem hér ráða ferð, heldur þröngir einkahagsmunir valdastéttar.  ESB aðild og evra yrðu mikil lyftistöng fyrir aukan velferð á Íslandi enda hafa lönd alltaf gengið í ESB til að auka og vernda lífskjör þegna sinna.  Ísland er þar engin undantekning og það veit valdaklíkan.  Þess vegna má alls ekki láta almenning kíkja í pakkann.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur