Sunnudagur 21.06.2009 - 14:31 - 97 ummæli

Icesave – ekkert annað að gera

Já, það átti að koma strax, en nú er það komið og sjálfsagt að þakka fyrir: Icesave-samningarnir eru á netinu (Ísland.is), með greinargóðum skýringum, og þar eru líka svör við algengum spurningum um samninginn, og þar er umfjöllun um eignasafn Landsbankans, bæði frá endurskoðunarstofunni bresku (sem vann sitt mat fyrir sveitarfélögin þar) og frá skilanefnd Landsbankans. Samningana sjálfa þarf svo að þýða á íslensku, en það hlýtur að vera í gangi. Og þá er að athuga málið.

Ég nenni ekki í lánapakkana en hef enga ástæðu til að draga í efa það mat að þeir kynnu að duga fyrir 75–95% samningsupphæðarinnar. Kynnu að duga, stendur hér, því um það getur enginn fullyrt neitt núna. Þetta eru hinsvegar „forsendur“ samninganna (Svavar Gestsson), og ég tek fullt mark á því: Að í fyrsta lagi hafi íslenska samninganefndin gert samninginn á þeim forsendum að þrír fjórðu fjárins að minnsta kosti kæmu af eigum bankans, í öðru lagi hafi Bretar og Hollendingar treyst því að þurfa ekki að standa í að innheimta alla þessa milljarða af Íslendingum – samtals 0,3 milljónum manna – og í þriðja lagi sé þetta það sem fyrst og fremst er átt við í endurskoðunarákvæðinu þegar rætt er um greiðsluþol Íslendinga – það verði samið upp á nýtt ef þessar forsendur bregðast.

Sjálfstæð þjóð

Herdís Þorgeirsdóttir – ég hef vanið mig á að hlusta alltaf þegar hún talar – spyr í Fréttablaðsgrein í gær af hverju Hollendingar og Bretar hafi ekki bara einsog sjálfir tekið að sér eignasafn bankans, og þá væntanlega samið við okkur um restina, 170 milljarða eða þá upphæð aðra sem hefði gengið af eftir nákvæmt en snúið mat.

Svarið sýnist mér í grunninn vera einfaldlega það að í samningunum er gert ráð fyrir því að Íslendingar séu sjálfstæð þjóð sem gengst við skuldbindingum sínum. Ábyrgðin er klárlega Íslandsmegin (ef menn fallast á annað borð á að málið komi okkur við – meira um það seinna) – og af því leiðir að Íslendingar sjá sjálfir um eignasöluna, sem þeir hafa til heil sjö ár, hagnist á því ef bjartsýnustu spár ganga eftir, tapi á því ef illa gengur.

Annað svar er auðvitað að ef Hollendingar og Bretar hefðu átt að taka slíka áhættu hefðu þeir varla verið til viðræðu um þau kjör sem um samdist, hvorki um vexti né lánstíma, og sennilegast ekki um sjálft lánið sem þeir hefðu væntanlega sagt Svavari að sækja sér á hina gaddfreðnu almennu alþjóðlegu lánamarkaði. Eða til Rússa og Írana.

Pólitísk staða

Og ef tapið verður of mikið? Það er auðvitað milljón-dollara-spurningin. Þá kemur til álita greinin um endurskoðun samnings (16. grein í breska samningnum, 15. í hollenska) – sem fallist skal á ef „greiðsluþol“ Íslendinga (e. sustainability of the debt) hefur eftir sjö ár versnað verulega frá því sem nú eru líkur á. Það á AGS að meta. Menn kvarta yfir því á blogginu og á þinginu að þetta sé ekki klárara, að það skuli ekki vera settar niður upphæðir eða prósentur, eitthvert hámark. Það er ágæt aðfinnsla, en mér sýnist líka nokkuð gott svar hins nafnlausa skýranda á Íslandi-is við spurningu um hver samningsstaða Íslendinga yrði í slíku tilviki: „Flókin, en þá ættum við að hafa stuðning  alþjóðasamfélagsins.“ Menn gleyma því nefnilega um of að þessir samningar eru pólitískir, með góðu og illu. Pólitísk staða okkar nú er afleit, og í því ljósi er sennilega rétt að hrósa happi yfir útkomunni. Fari allt á verri veg er pólitísk staða okkar í kringum 2016 alveg örugglega betri.

Það reddaðist ekki

Þetta er gríðarlegt fé – mann sundlar. Héldum við kannski öll í sameiningu að Icesave og svo framvegis væri allt saman vondur draumur – að það hlyti að reddast? Að einhverjir í útlöndum hlytu að eyða málinu? Að Íslendingar væru á einhverskonar undanþágu í hörðum heimi alþjóðafjármála af því við erum svo lítil og sæt? Út á Björk og Völuspá og Bláa lónið?

Niðurstaða einsog ég hef vit til:  Icesave-samningarnir eru í lagi miðað við það sem við mátti búast. Kostirnir eru fyrst og fremst lánstíminn, þegar færi gefst á að koma eignum í verð og borga lánið niður. Því má ekki gleyma (þótt maður skammist sín aðeins) að Íslendingar borga ekki krónu umfram lágmarksupphæðina, og bara einstaklingunum, ekkert til sveitarfélaganna, líknarsamtakanna eða fyrirtækjanna. Það er líka kostur að þriðji aðili skuli fenginn til að meta endurskoðunarþáttinn. Menn gleðja sig við að tala illa um AGS, sem er skiljanlegt í ljósi sögunnar. Gleymum því þó ekki að annarsvegar á sjóðurinn heiður að verja eftir að hafa tekið að sér tilsjón með Ísalandi, og hinsvegar á hann hagsmuna að gæta – við megum varla verða svo blönk að geta ekki heldur borgað AGS-lánið!

Svo má endalaust velta fyrir sér vaxtaprósentu, breskum dómstólum og svo framvegis – en mér sýnast skýringar um þetta fullnægjandi.

Að veði: Heiðurinn

Gagnrýnendur hafa blásið mikinn út af veðsformúlum í samningunum en gæta sín ekki á því að hér er ekki um að ræða venjulegt íslenskt bankalán þar sem húsið er undir ef á bjátar – af því að samningarnir byggjast öðrum þræði á pólitískum forsendum er veðið líka pólitískt, og felst einkum í orðspori íslenska ríkisins á alþjóðavettvangi, í lánstrausti hins opinbera og íslenskra einkaaðila, og í heiðri íslensku þjóðarinnar. Um eiginleg veð á íslenskan bankakvarða er varla að ræða, þótt eflaust mundu hollensk og bresk stjórnvöld gera allt sitt til að ná einhverju upp í skuldina ef Íslendingar brygðust. Aðalrefsingin yrði líklega sú að lánamarkaðir mundu lokast í áratugi eða aldir og allt alþjóðasamstarf spillast.

Þegar við borguðum ekki

Það hefur gerst áður – í upphafi kreppunnar miklu. Fræðimaður um þau efni telur að vandræðagangur kringum fall Íslandsbanka 1929 – þegar hér hófust miklar umræður urðu um að „borga ekki“ hafi lokað á Íslendinga erlendum lánamörkuðum í mörg ár og gert að verkum að kreppan stóð lengur hér en víðast í nágrenninu, og lauk varla fyrren með hernáminu (skrifaði um þetta hér í vor).

„Dómstólaleiðin“

Eftir er stór spurning: Átti að gera samninginn eða fara „dómstólaleiðina“? Gallinn við þessa spurningu að hún er í þáskildagatíð. Út á hvað gengur dómstólaleiðin? Einsog ég skil talsmenn hennar er kjarninn sá að engin formleg ríkisábyrgð er á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, og íslenskum stjórnvöldum því ekki skylt að bæta innstæðueigendum tjón umfram það sem sjóðurinn sjálfur stendur undir. – Já, en þessi rök eru því aðeins tæk að allir sitji við sama borð! Þá hefðu innstæðueigendur hjá Landsbankanum, bæði á Íslandi og í útibúunum í Bretlandi og Hollandi, átt að fá borgaða nákvæmlega sömu upphæð, og þá miklu lægri upphæð en nemur lagalágmarkinu (um 3 milljónum) af því sjóðurinn átti ekki pening til að borga öllum lágmarkið.

Dómstólaleiðin varð bæði lagalega torsótt og siðferðilega óverjanleg strax og íslensk stjórnvöld, ríkisstjórn og alþingi, ákváðu að ábyrgjast allar innstæður á reikningum Landsbankans á Íslandi (og Glitnis og Kaupþings) við upphaf kreppunnar í október 2008. Hvort þetta átti að gera er annað mál – það var gert.

Aftur að grein Herdísar: Vel má vera rétt hjá henni að Hollendingar og Bretar (og önnur ESB-ríki, og þá líka Danir og Svíar og Norðmenn) hafi brugðist yfirlýstri virðingu fyrir réttarríki og mannréttindum, og fyrirheitum sínum við stofnun Evrópusambands og -ráðs, með því að „kúga fámenna þjóð“ til samninga, en hafna „dómstólaleiðinni“.

Ég skil þetta þannig að stjórnvöld í London og Amsterdam hafi fyrst og síðast tekið ákvörðun um að verja einsog og unnt var hagsmuni sparifjáreigenda – helstu undirstöðu fjármálakerfisins. Það sem íslensk stjórnvöld ætluðu sér var líka að verja hagsmuni sparifjáreigenda og grundvöll bankaviðskipta – en bara á Íslandi. Kannski á bara að gera siðferðilegar kröfur til fjölmennra þjóða?

Búsáhöld og næstu verkefni

Ég hlýddi ekki kalli Harðar Torfasonar nú á laugardaginn að koma og mótmæla á Austurvelli. Þó var ég tíður gestur þar í haust, kom fram að stjórnarskiptum  sautján laugardaga af átján, minnir mig, og það var andlát nákomins sem hindraði Austurvallarför þetta eina skipti í vetur. En núna fór ég ekki. Vil einfaldlega ekki að þingið hafni Icesave-samningunum. Klára málið og snúa sér að næsta verki.

Auðvitað gnísta menn tönnum. Þetta er ekki mér eða þér að kenna! Við megum hinsvegar ekki missa okkur í æsing og hávaðarifrildi. Höfum hreinlega annað að gera. Nú þarf að taka  á afleiðingum hrunsins einsog menn. Ná þeim peningum sem hægt er af „óreiðumönnunum“, – verja heimilin, börnin og þá sem veikast standa – skipuleggja sókn í atvinnumálum á nýjum grænum forsendum – endurnýja grunngildin í samfélaginu – berjast fyrir lýðræði og almannaþátttöku í umræðum og ákvörðunum – sjá til þess að skuldir fjárglæframanna falli aldrei aftur á almenning – tala saman um framtíðina. Og berja í búsáhöldin þegar ráðamenn gera vitleysur.

Icesave hinsvegar – þar er ekkert annað að gera.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (97)

  • Áður en þú tekur endanlega ákvörðun um að greiða þessu atkvæði þitt þá vil ég biðja þig um að skoða greiðslugetu þjóðarbúsins á erlendum lánum sínum nú þegar. Það var heimild fyrir því í lögum að greiða innistæðueigendum í íslenskum krónum sem hefði gert að ICESAVE samningurinn hefði talist til innlendra skulda (skulda í innlendri mynt). Væri það gert er staðan allt önnur.

    Ef þú samt kemst að þeirri niðurstöðu að best sé að semja eins og samningurinn er í dag þá vil ég beina því til þín að þú beitir þínum áhrifum innan stjórnkerfisins til þess að lögum verði komið yfir Björgúlfana og Sigurjón Árnason áður en Alþingi samþykkir samninginn. Ef við sjáum ekki eitthvað réttlæti í öllu þessu ranglæti gefur fólk skít í samfélagið hvort sem það fer annað eða verður eftir er þá nokkurn vegin jafn skítt fyrir okkur sem erum að reyna að halda saman einhverskonar samfélagsanda í þessu landi. Réttlæti er forsenda friðar og samfélags hér á á landi og við treystum á ykkur að stuðla að því, hvort sem er með neyðarlögum, sérskattheimtu á tekjur þessarra manna, handtökum eða ríkisfangssviptingu. Við verðum að sjá að þið séuð ennþá með okkur í liði.

  • Gott yfirlit um málið. Sammála

  • „Ég nenni ekki í lánapakkana en hef enga ástæðu til að draga í efa það mat að þeir kynnu að duga fyrir 75–95% samningsupphæðarinnar.“

    — „…nennir ekki…“ — það er eins og mig mininr að það standi í lögum að þingmenn eigi að stunda vinnu sína af skildurækni.

  • Nýi Dexter

    Stígamenn, örvitar og jarmandi konur

  • Þóroddur

    Takk fyrir yfirlitið Mörður,

    Bendi Héðni á að Mörður er ekki þingmaður (að mínu mati því miður) og greiðir því ekki atkvæði um samninginn. Sama ábending til A.

  • Uppgjöf og ráðaleysi. Verkefni verkstjórans (Svavar Gestsson)síðustu ár hefur verið að halda kokteilpartý. Þetta sendum við í mikilvægustu samninga Íslandsögunnar! Við hverju bjuggust við? Einmitt, allgjör ósigur. Gerum frekar alþjóða samfélaginu grein fyrir því að við erum 300 þúsund íbúar og eigum ekki nokkurn séns á að vinna okkur útur þessu. Á meðan setjum við allvöru þunga í að draga menn til ábyrgðar fyrir vítaverða varækslu. Það verður aldrei lokað á Ísland. Það er helbert kjaftæði.

  • Svavar Gestsson gæti ekki haldið áfram starfi sínu sem diplómat og hitt fyrir Breta og Hollendinga í kokteilpartýum nema samningurinn verði samþykktur.

  • Loksins les maður skrif um Icesave sem eru byggð á rökhugsun og ekki geðshræringu.

    Vel skrifað Mörður.

  • Það er nú ekki bjóðandi að þú nennir ekki að lesa samninginn. Þetta er stærsta mál sem hefur nokkru sinni komið inná Alþingi og bara ekki bjóðandi ef þingmenn nenna ekki að setja sig inní málið ÁÐUR en þeir greiða atkvæði! Þið voruð EKKI kosnir til að nenna ekki að vinna vinnuna ykkar.
    Einnig finnst mér alveg lágmark að þið spyrjið Breta og Hollendinga HVAÐA SKILNING ÞEIR LEGGJA Í ÞESSI ÁKVÆÐI SAMNINGSINS, sem eru mest umndeild.

    Við vitum svo ekkert um hvort við fáum eignir Landsbankans til að greiða eingöngu í IceSave. Við getum fengið alla aðra lánadrottna bankans á bakið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

    Já og ég er sammála því að hér telst EKKERT réttlæti hafa átt sér stað nema eitthvað sé gert í Björgólfsfeðga, Sigurjóns og Kjartans Gunnarssonar málum. Lágmark að kyrrsetja eigur þeirr og gefa út
    ákæru á hendur þeim.
    Séu ekki til lög sem ná yfir þá núna, á að setja þau hið snarasta.

    Við treystum því að þingmenn samþykki þetta ekki blint svo ég bið þig að leggjast yfir samninginn og LESA HANN í gegn.
    Svo máttu vita, ef illa fer þá verðið þið allir sem einn gerðir ábyrgir fyrir þessum samningi af okkur almenningi.

  • Nokkrir punktar sem þú þarft ekki að svara frekar en þú nennir: Samið upp á nýtt ef greiðsluþol okkar þrýtur? Hvað er hægt að semja um við þjóð sem komin er að fótum fram og getur ekki borgað meir?
    Þú segir líka að AGS vilji gjarna að við getum greitt þeim lánið til baka, þeir hafa ekki unnið þannig hingað til, það hefur verið þeirra markmið að þjóðir geti EKKI greitt til baka.
    Ábyrgðin er okkar , segir þú. Ég las Moggann í morgun og finnst ódýrar skýringar Hollendinga um að EES lög hafi aftrað þeim frá að vara þjóð sína við Icesave sem þeir álitu frá upphafi stórhættulega reikninga. Til hvers er almenningur að kjósa sér fulltrúa ef ekki til að verja hann fyrir árásum erlendra glæpamanna. Þarna brugðust hollensk stjórnvöld sínum almenningi á sama hátt og okkar stjórnvöld brugðust okkur.
    Þú talar um að samningarnir séu pólitískir. Það á að vera hlutverk okkar samningamanna að koma viðsemjendum okkar í skilning um það að það er ekkert réttlæti í því að sturta þessu öllu á blásaklausan almenning á Íslandi. Samningamönnum virðist meira í mun að gæta heiðurs sín útávið en innávið.
    Bankahrunið er það stórt mál og óvenjulegt að það er óhjákvæmilegt að leiða það til lykta fyrir dómstólum. Hér er örugglega um miklar lagaflækjur að ræða en eiga ekki dómstólar þegar allt kemur til alls að gæta réttlætis jafnræðis og sanngirni.
    Stjórnvöldum hefur mistekist algerlega að selja almenningi á Íslandi þennan samning. Ég hef ekkert vit á lögum og samningagerðum en fæ ónotahnút í magann við lestur Icesave samningsins og slíkir ónotahnútar hafa oft forðað mér frá slæmum ákvörðunum.
    Það er ekki það að ég vilji ekki taka afleiðingum gjörða minna, ég vil bara ekki taka afleiðingum gjörða Björgólfanna og Sigurjóns og þeirrra allra á meðan þeir baða sig á sólaströndum óáreittir af „sómakærum“ íslenskum stjórnvöldum.

  • Það má svo bæta því við að hér verður ekki búandi næstu 15-20 árin eða svo. Í haust hefst hin eiginlega hrina gjaldþrota.
    Fyrirtæki og fjösKyldur „rúlla“ sem aldrei fyrr. Atvinnulausum fjölgar bara og fjölgar. Menntun verður ógerleg nema fyrir milla sem aftur gerir það að verkum að háskólanemum fækkar jafnt og þétt næstu árin og fleiri og fleiri bætast á atvinnuleysisskrá. Atvinnuleysisjóður verður tómur og þau fyrirtæki sem eftir verða hafa engan veginn ráð á því að tvöfalda tryggingagjöld sín fyrir hvern starfsmann, svo enn verður dregið úr ráðningum!
    Ég færi sjálf héðan á stundinni byðist mér starf annars staðar og tæki börnin með mér.
    Við kæmum aldrei aftur því hér er bara spilling og aftur spilling sem þrífst í boði vinavæðingar, tenglsanets glæpamanna og allt í boði stjórnmálamanna, og lagaleysis.

    Sjáið og vitið til – hér verður engin hvítflibbinn dæmdur í fangelsi, kannski eitthvað peð eins og litli bankamaðurinn eða álíka aumt. Hugsanlega einn stórbokki sem ekki hefur sterkar rætur inní neinn flokk, svona til að skríllinn haldi nú kjafti og hægt sé að benda á að eitthvað hafi verið gert.

    Það er búið að eyðileggja landið og Ísland er BANANALÝÐVELDI NÚMER 1, 2 OG 3 Í EVRÓPU.

  • Glæsileg jákvæðni Margrét! Höldum áfram svona. Trúum engu, hötum alla, skítum á alla og þrykkjum út neikvæðninni. Þá kemur þetta allt saman.

    Áfram Ísland.

  • Þorsteinn Vilhjálmsson

    Auðvitað er síðan næsta verkefni að koma höndum yfir ránsfenginn og þrjótana. Ég óttast að vísu að löggjöf kunni enn einn ganginn að reynast veik og gloppótt eftir margra ára stjórn DO og félaga. Því miður er eitthvað til í því að löggjöf miðist við að ná bæði smáfólkinu og smáu summunum en stórfiskarnir sleppi. Löggjöf um frystingu eigna – gagnvart til dæmis fjármagnsfrelsinu í EES – hlýtur að vera eitthvað ábótavant úr því að ekki er búið að gera eitthvað í þessu svo að um munar?

  • Sammála Jóhanna. Það er best að streitast ekki á móti og taka það bara i afturendann. Aumingjaskapurinn í þessarri þjóð.

    „Ekkert hægt að gera !“

    Us.ssssss….

  • Sigursteinn Másson

    Þetta er góð greining Mörður og þú hittir naglann á höfuðið. Það er lykilatriði að reyna að sjá samhengi málsins og reyna að gera það á yfirvegaðan hátt.

    Það sem gerst hefur er orðið og tímanum verður ekki snúið til baka hversu eftirsóknarvert sem sumum kann að þykja það. Nú verður að horfa fram á við og hvort sem fólki líkar það betur eða verr eru breyttir tímar framundan sem kalla á nýar lausnir og erfiðar en nauðsynlegar ákvarðanir.

    Tíminn sem við erum að koma út úr var aldrei annað en hugarburður og loftkastalasmíð. Það sem aldrei var til nema sem blekkingar kemur aldrei aftur. Ísland var Disneyland norðursins, sýndarveruleiki á yfirdrætti og erlendum lánum. Raunveruleikinn hefur tekið við. Skuldir sem gera þarf upp og nauðsynleg siðvæðing samfélagsins er stóra verkefnið. Nú er bara að taka á þessu eins og siðað þjóðfélag og læra af reynslunni.

  • Ólafur Gíslason

    Þetta er gott yfirlit yfir eitt mesta fjármálaklúður allra tíma. Það er auðvelt að missa glóruna í þessum hvirfilbyl, en Mörður, þú heldur sönsum og það er þörf fyrir menn eins og þig á þinginu. Íslendingar eru hættir að þekkja sína eigin spegilmynd og geðheilsa þjóðarinnar er í bráðri hættu. Við slíkar aðstæður er enginn skortur á blórabögglum því hinn veruleikafirrti æpir í spegilinn og segir: þetta er ekki ég! Kannski hefur hann líka að einhverju leyti rétt fyrir sér. Við erum þjóð, en við erum líka einstaklingar af holdi og blóði. Það fer ekki alltaf saman, því þjóðin er hugmynd en einstaklingurinn líka þetta: blóð, sviti og tár.

  • Mörður – í guðs bænum farðu yfir erlenda greiðslugetu hagkerfisins. Þegar við höfum síðan bætt enn við með lánum frá IMF og vinaþjóðunum þá höfum við spilað allt frá okkur. ALLT.

    Þetta mál snýst ekki lengur um vilja okkar eða lögfræðiþras. Við getum ekki staðið við þennan samning. Afgangur af viðskiptum við útlönd er nú þegar neikvæður um tugi milljarða á fyrsta ársfjórðungi.

    Ég spyr bara í örvæntingu – kann enginn í stjórninni að reikna?

    Bestu kveðjur.

  • @Jóhanna

    Veit ekki betur en heimskuleg jákvæðni og barnaleg trú okkar á menn hafi að mörgu leiti komið okkur hingað sem við erum stödd núna!
    „Þetta reddast“ mentalitetið sem jaðrar við vangefni.

    Við erum stödd í fordyri fjandans eins og einhver sagði í bloggi –
    og ég leyfi mér að vera reið. Öskureið.

    Reið fyrir mína hönd og allra þeirra íslendinga
    sem áttu engan þátt í hruninu en sjá nú fram á að geta ekki menntað börnin sín, unnið fyrir sér á mannsæmandi hátt eða jafnvel átt heimili.

    Já ég er reið stjórnmálamönnum fyrir letina og dugleisið.
    Já ég er reið vita gagnslausum embættismönnum sem „dönsuðu í kringum gullkálfin“ á launum frá okkur. Lugu til um ástandið, bæði hérlendis og í
    útlöndum.
    Já ég er reið fyrir hönd allra líknastofnanna í Bretlandi sem misstu
    milljarða í hendurnar á löndum mínum sem fengu í skjóli stjornmálamanna, Seðlabanka og eftirlitsstofnana að ræna þau um hábjartan dag.

    Þú hæðist að því að ég sé reið!
    Efalaust ertu ekki ein um það.
    Ég geri ráð fyrir að „útrásarvíkingarnir“ hæðist líka að reiði fólks, jafnvel einstaka pólitíkus.
    Þeim – og kannski þér – gætu ekki verið meira sama er ég viss um.

  • Sigurður #1

    Það er ekki ein einasta heil glóra í þessum pistli þínum.

    Allar niðurstöður þínar þarna eru út frá forsendum sem þú gefur þér, en eru samt ekki til staðar.

    Allt til þess að getað komist að fyrirfram ákveðinni niðyurstöðu.

    Það stenst nákvæmlega EKKERT af þessum skrifum þegar þau eru krufin.

    Það ætla ég að gera við betra tækifæri, hef ekki tíma núna.

  • Mjög skynsamleg grein. Það væri óskandi að fleiri bloggarar létu skynsemina stýra skrifum sínum. Það eru allir Íslendingar fjúkandi reiðir en sumir virðast búnir að tapa glórunni af reiði. Takk fyrir þetta Mörður.

  • Bara viðbót til að undirstrika örvæntingu mína. Ég er gjaldeyrisbraskari, ég er skuldlaus. Ég er vélaverkfræðingur að mennt og hef lesið feiknarlega mikið um hagvísindi og sögu ríkja á krepputímum. Mig skortir hinsvegar doktorsgráður til að á mig sé hlustað.

    Eins og staðan er náum við aldrei að byggja upp útflutning á móti þessari erlendu skuldasúpu með lánstraustið í molum. Og það er góð ástæða fyrir því að það er í molum – við erum de-facto gjaldþrota nú þegar.

    Þetta endurreisnarplan er svo vonlaus hrollvekja að ég er gráti næst fyrir hönd þjóðar minnar.

  • Tek undir hvert orð hjá Jónasi.is um samlíkingu þessa nauðasamnings við Versalasamninginn.

    Mjög viðeigandi að þessir punktar Jónasar komi hér fram í ljósi þess að greinarhöfundur er að reyna að selja lesendum það að samþykki samingsins sé í góðu lagi.

    – IceSave samningurinn er eins ógildur og Versalasamningurinn var.
    – Viðurkennt er í fjölþjóðarétti, að nauðasamningar gilda ekki.
    – IceSave samningurinn er fjárkúgun hins sterka.
    – Bretland og Holland fengu Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið í lið með sér. Einnig frændríki okkar á Norðurlöndum.
    – Niðurstaðan var einhliða samningur, sem samsvarar skilyrðislausri uppgjöf í hernaði.
    – Ísland hafði lítið sem ekkert um niðurstöðuna að segja. Hún er aðför að þjóðinni og einkum þó er hún aðför að börnum okkar og barnabörnum.

    Annars hef ég fjallað um þetta á eigin bloggsíðu og þetta ber allt að sama brunni.

    En hvers vegna ? Jú vegna þess að þessi ferill fór í gang og var í röngum farvegi. Útkoman er þessi hryllingur.

    Það verður að taka málið upp á allt öðrum forsendum; m.a. undir hlutlausum dómsstól.

  • Sigurður Pálsson

    Tekið af island.is. Mörður þú talar um greinagóðar skýringar. Hér er ekkert fast í heni. Flestar skýringar eru ef, hugsanlega, gert er ráð fyrir, meiri líkur en minni og svo framvegis. Settar eru fram spurningar og svö, en þeir þora ekki að svara sínum eigin spurningum ein og spurningin um hvort AGS hafi sett íslendingum stólinn fyrir dyrnar.

    Gert er ráð fyrir að upphæðin lækki eftir því sem eignir þrotabús Landsbankans endurheimtast og komast í verð.
    Hvað ef ekki verður hægt að selja eignir?

    Gengi íslensku krónunnar er að flestra mati of veikt um þessar mundir. Með efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar og samningum um Icesave málið eru meiri líkur en minni á að gengi krónunnar styrkist. Styrking gengisins þýðir að lánið, sem er í pundum og evrum, lækkar í krónum talið.
    Hvað gerist ef krónan veikist?

    Setti AGS Íslendingum stólinn fyrir dyrnar og krafðist þess að samið yrði um Icesave, að öðrum kosti yrði ekki greitt fyrir áframhaldi efnahagsáætlunar stjórnvalda og sjóðsins?
    AGS lagði áherslu á að Ísland leysti þetta mál gagnvart Bretum og Hollendingum og stæði við alþjóðlegar skuldbindingar.

    Allt er þetta nú á þessum nótum. Við verðum að átta okkur á því að þær upphæðir sem um ræðir getum við ekki greitt til baka

  • Pétur Richter

    Sæll Mörður,
    vildi einungis benda þér á eftirfarandi staðreyndir.

    Það hefur enginn annar en skilanefnd Landsbankans farið yfir eignasafn Landsbankans. Í margræddri skýrslu ensku endurskoðunarskrifstofunnar (sem sjá má á island.is) kemur fram að þeir eru einungis að notast við tölur úr kynningu skilanefndar Landsbankans frá því í febrúar.

    Segjum svo að það fáist 75-95% upp í skuldbindingu vegna IceSave. Hvað þýðir það ? Miðað við að eignir Landsbankans komi jafnt inn á næstu sjö árum þá þýðir það eftirfarandi:

    75% – skuld eftir 7 ár: ca. 182 ma.kr. áfallnir vextir: 230 ma.kr. = 412 ma.kr.
    95% – skuld eftir 7 ár: ca. 36 ma.kr. áfallnir vextir: 200 ma.kr. = 236 ma.kr.

    Síðan þar íslenska ríkið að borga þetta á 8 árum með vöxtum sem þýðir eftirfarandi:

    75% – heildargreiðsla 510 ma.kr. eða núvirt 280 ma.kr.
    95% – heildargreiðsla 292 ma.kr. eða núvirt 160 ma.kr.

    Núvirtu tölurnar mátt þú síðan bera saman við þær tölur sem rætt er um varðandi skattahækkanir og niðurskurð hjá ríkinu á næstu misserum.

    Miðað við þetta sést augljóslega að þetta eru nauðasamningar.

    Einnig er athyglisvert að í ensku endurskoðunarskýrslunni kemur fram að ef neyðarlögin falla þá séu líkur á að það fáist einungis 33% upp í IceSave. Það þýðir 960 ma.kr. greiðslu okkar og líklega þjóðargjaldþrot.

    Þorir þú að skrifa undir slíkan víxil ?

    Kveðja
    Pétur

  • Dofri Hermannsson

    Góð grein. Ég hef heldur ekki geð í mér til að hlýða kalli radda fólksins þótt ég hafi tekið undir með þeim marga laugardaga í vetur. Mér finnst lýðskrum að tala eins og það sé einfaldlega hægt að neita að borga þessar skuldir. Það er lýðskrum þegar þeir sem titla sig sem hetjur búsáhaldabyltingarinnar láta taka mynd af sér með spýtnabrak úr Álftaneshúsinu sem þeir ætla að færa forsætisráðherra eins og það þurfi að minna hana á það ástand sem ríkir í samfélaginu.

    Það finnst engum gott að svo fór sem fór og auðvitað eru margir reiðir. Öskureiðir. Og margir hafa til þess góðar ástæður.
    En reiðiköst og tækifærismennska á borð við það að hlaupast frá skuldbindingum sínum mun ekki bæta ástandið. Niðurstaðan sem nú liggur fyrir alþingi er mun betri en sú sem gengið var út frá í vetur. Ef alþingi samþykkir ekki samningana er alls óvíst hvenær hægt verður að ganga frá þessu máli. Það gæti dregist á langinn í mörg ár til ómælds skaða fyrir íslenskt efnahagslíf sem ekki nýtur mikils trausts í dag, hvað þá ef skilaboð íslenskra stjórnvalda til umheimsins eru í sama anda og beltagröfumannsins á Álftanesi.

  • Andrés Ingi

    Jæja, svo Dofra finnst Raddir fólksins vera lýðskrum.

    Skiljanlegt, þar sem þau eru ekki sammála honum, í dag.

  • Já Mörður, ekkert annað að gera segir þú..
    Mikið ætla ég að vona að það eimi eitthvað eftir af hugsun þeirra sem upphaflega byggðu þetta land okkar. Eitt er víst, ef þeir hefðu hugsað á þann hátt sem orðaður er í nafni þessa pistils, þá sætum við öll í Noregi núna.
    Síðast þegar við Íslendingar skrifuðum nauðugir vegna hótana upp á samning, misstum við sjálfstæði í rúm 700 ár með tilheyrandi hnignun menningar og þjóðar.

    Það sjá allir sem vilja, að Evrópa er að leiða Íslendinga til slátrunar til þess að verja regluverk og þar af leiðandi Evrópusambandið sjálft frá hruni.
    Ég hef sjálf lengi verið hlynnt aðildarviðræðum við EU, en því fer fjarri að ég sé tilbúin til að fórna Íslandi, þjóð minni, mér sjálfri og afkomendum mínum fyrir erlendar bankastofnanir. Þetta bara kemur ekki til greina…
    Ég var líka hlynnt þessum samning í fyrstu, þ.e þar til ég sá hann.

    Nú skaltu svara mér einu..
    Hvað eigum við að gera ef Neyðarlögin halda ekki??
    Flestir „aðrir“ kröfuhafar gömlu bankanna MUNU fara í mál til þess að reyna að fá þeim hnekkt. Öll þessi sveitafélög, skólar og góðgerðarstofnanir í Bretlandi, sem hafa ekki fengið krónu endurgreidda, eingöngu vegna neyðarlaganna.
    Nú hefði maður talið að þrátt fyrir allt EES regluverkið sem við höfum innleitt í gegnum árin, að þá hefðum við sem fullvalda þjóð, rétt til þess að beita neyðarrétti. En hvað veit maður, það er nú þegar verið að þvinga okkur til þess að setja ríkisábyrgð á tryggingasjóð innistæðueigenda, nokkuð sem hvergi finnst meðal þjóða Evrópu.
    Ef neyðarlögin halda ekki sökum mismununar, þá mun íslensk þjóð sitja uppi með allan Icesave reikninginn, því eignirnar munu þurfa að dreifast jafnt á alla kröfuhafa.
    Það er akkúrat þessi óvissuþáttur sem gerir ríkisábyrgð gagnvart Icesave algerlega stórhættulega.

    Eru þingmenn virkilega tilbúnir til þess að taka þá áhættu, að gera íslenska þjóð að skuldaþrælum um komandi kynslóðir. Ef svo er þá kallast það LANDRÁð!!

  • Ómar Kristjánsson

    Ef neyðarlögin halda ekki að þessu leiti, þ.e innistæður í forgang, þá er nú meira undir en icesave.

    Það er bara allt heila klabbið undir.

  • skattmann

    Mörður Árnason: „Ég nenni ekki í lánapakkana“

    http://www.visir.is/article/20090620/VIDSKIPTI06/44537803

    Það á eftir að útkljá hvernig ráðstafa má eignum útibús Landsbankans í Bretlandi.
    Seðlabanki Evrópu gæti t.d. átt forgangskröfu.

    Í þessari handrukkun er ekki einn einasti fyrirvari hvað þetta varðar.
    Ef að það má ekki nota einn einasta aur út eignasafni útibús Landsbankans í Bretlandi í IceSlave, þá mun það ekki hafa nein áhrif á það að Ísland mun þurfa að borga þetta allt uppí topp.
    Það hefur komið fram hjá íslenskum stjórnmálamönnum að þegar hafi eitthvað verið borgað uppí IceSlave. Það er rangt. Þeir peningar eru í biðstöðu vegna lagalegrar óvissu.

    „ég tek fullt mark á því“ þú ert sem sé þeirrar skoðunnar að íslenskur almenningur bara að taka sénsinn á því að þetta sé svona?

    „hafi íslenska samninganefndin gert samninginn á þeim forsendum að þrír fjórðu fjárins að minnsta kosti kæmu af eigum bankans“

    Það stendur ekkert í samningnum um að eitthvað breytist ef að 0 kr fást af eigum bankans.
    Það þarf að borga allt uppí topp!

    Þá kemur fram að ef að t.d. hollenskir innistæðueigendur vinna málaferli þar sem þeir krefjast þess að fá meira en rúmar 20.000 evrur, þá eigi allir innistæðueigendur í Bretalandi og Hollandi rétt á sömu upphæð og þeir fengu!
    Sem sé handrukkunin er þannig að ef eitthvað verður óhagstætt fyrir Ísland í framtíðinni, dómsmál tapast eða jafnvel lán á hærri en 5,5% vöxtum er tekið, þá uppfærist IceSlave um leið þannig að allir þar fá þessa hærri upphæð og eða vexti!
    Svona skilyrði eru ekki til í öðru en Versalasamning II sem IceSlave er.

    „í öðru lagi hafi Bretar og Hollendingar treyst því að þurfa ekki að standa í að innheimta alla þessa milljarða af Íslendingum“

    Bretar og Hollendingar hafa alveg forgangsveð í allar eigur Íslands. Það kemur fram í samningnum að IceSlave á að vera framar í forgangi en allar aðrar skuldbindingar Íslands þegar kemur að því að taka eigur uppí skuld.

    „Íslendingar sjá sjálfir um eignasöluna, sem þeir hafa til heil sjö ár, hagnist á því ef bjartsýnustu spár ganga eftir, tapi á því ef illa gengur.“

    Nú ert eitthvað að rugla. Það er algerlega útilokað að nokkur hagnaður verði. Þá mun íslenskur almenningur ekki geta fengið hagnað útúr eignasafni gjaldþrota banka. Kröfuhafar eru þeir sem rétt eiga á greiðslum úr þrotabúi.

    „Annað svar er auðvitað að ef Hollendingar og Bretar hefðu átt að taka slíka áhættu hefðu þeir varla verið til viðræðu um þau kjör sem um samdist, hvorki um vexti né lánstíma,“

    Með 100% öruggt lán á alla vegu, en samt með háa vexti, vaxtavexti, yfirdráttarvexti, íslenskur almenningur á að borga allan kostnað þar með talið há laun til heils herdeildar breskra lögfræðinga sem að samdi þennan Versalasamning nr. II. Ísland hefur enga stjórn á kostnaði Breta og þar er ekkert þak. Íslenskur almenningur á bara að borga!

    endurskoðun samnings (16. grein) „samningsstaða Íslendinga yrði í slíku tilviki: „Flókin, en þá ættum við að hafa stuðning alþjóðasamfélagsins.“

    Þegar við getum ekki borgað eftir 7 ár, þá ber IceSlave dráttarvexti, Bretar hafa af öllum líkindum náð að hækka vextina, því að ef Ísland fær eithvað lán á hærri vöxtum, þá um leið hækka vextirnir á IceSlave!
    Ef IceSlave er samþykkt, þá er Ísland örugglega gjaldþrota land eftir 7 ár. Það mun ekki vera hægt að verja sig lagalega á neinn hátt, óteljandi klásúlur í IceSlave um að öllum hugsanlegum og óhugsanlegum réttindum sé afsalað sjá til þess.
    Hvaða samningsstöðu hefur gjaldþrota land?
    Það kemur meira að segja fram í IceSlave að í því tilviki gildi þjóðarréttur ekki!
    Sem sé grundvallarréttindum þjóða sem talin eru nauðsynleg væri líka afsalað!
    Hvernig fær Mörður „Brown“ það út að samningsstaða Íslands væri betri eftir að Ísland er komið í efnahagslega stöðu, sem ýmis Afríkuríki hafa nú, en sú staða sem við erum núna í?

    Þá má benda á að Gordon Brown skrifar beinlínis í bréfi til Jóhönnu Sigurðardóttur að hann hafi áhuga á íslenskri orku. Þá hefur komið fram í máli breskra þingmanna að kynni af íslenskum fiskimiðum séu geymt, en ekki gleymd.

    „Þetta er gríðarlegt fé – mann sundlar“

    Samt: „Ég nenni ekki í lánapakkana“

    „Að Íslendingar væru á einhverskonar undanþágu í hörðum heimi alþjóðafjármála af því við erum svo lítil og sæt? Út á Björk og Völuspá og Bláa lónið?“

    Herdís bendir réttilega á að skv. þeim gildum sem að Evrópusambandið og öll lýðræðisríki eru byggð á, þá á að fara með mál eins og IceSave fyrir dómstóla. Það er ekki hægt að kjafta sig frá þeirri lýðræðiskröfu með því að reyna að vera eitthvað sniðugur.

    „Kostirnir eru fyrst og fremst lánstíminn“
    Bretar geta gjaldfellt IceSlave strax hvenær sem er og þurfa ekki að bíða í nein 7 ár.
    11.1 Termination Events eru í einum 11 (!) liðum. Ef Bretar telja að einhver þessara 11 atriða eigi við, þá geta þeir gjaldfellt IceSlave og engin 7 ára bið í gjaldþrotið fæst.
    Þessi liðir eru skuggalegir t.d. :

    „11.1.4 untrue representations: Any statement made, or deemed to be made, in any
    Finance Document or in any document delivered by the Guarantee Fund or
    lceland in connection with any Finance Document is, or proves to have been,
    incorrect or misleading in any material respect when made or deemed to be
    made.“

    Ef sem sé einhver íslenskur stjórnmálamaður mun einhvern tíman hallmæla IceSlave, þá geta Bretar og Hollendingar bara gjaldfellt!
    Svo mikið fyrir málfrelsi!
    Þá má benda á það að allar túlkanir á IceSlave svo sem þessi eru gerðar af Bretum og Hollendingum einhliða. Ef að Ísland sættir sig ekki við túlkun, þá getur Bretland og Holland sett málið fyrir enskan dómstól eða ef þeir (Ísland er ekki spurt) vilja einhvern annan dómstól að eigin vali!
    Breskur dómstóll tekur ekkert tillit til handrukkunar eða þess að menn hafi samið af sér og samningurinn sé stórkostlega óhagstæður fyrir annan aðilann.

    Það eina sem þeir þurfa til þess er að t.d.
    háir vextir og vaxtavextir

    „þegar færi gefst á að koma eignum í verð og borga lánið niður.“
    algerlega óljóst hvort að það má nota þessar eignir til að borga IceSlave.
    Heimskreppu spáð næstu 7 ár. Getur íslenska þjóðin tekið sénsinn á því að verða ekki gjaldþrota útaf því að bresk fyrirtæki, mörg hver starfandi í smásölu, sem voru keypt í skuldsettri yfirtöku muni halda sjó og geta borgað lán til baka í 7 ára kreppu þar sem neytendur halda að sér höndum og t.d. smásala minnkar um tugi prósenta?

    „Það er líka kostur að þriðji aðili skuli fenginn til að meta endurskoðunarþáttinn.“

    Mörður „Brown“: AGS er þessi þriðji aðili. Bretar eru einn fárra fastafulltrúa þar og hafa gríðarleg völd innan AGS. Þá kemur fram að ekki er nóg að AGS skrifi uppá að við séum gjaldþrota, heldur verða Bretar líka að samþykkja það.

    „orðspori íslenska ríkisins á alþjóðavettvangi, í lánstrausti hins opinbera og íslenskra einkaaðila, og í heiðri íslensku þjóðarinnar“

    Orðspor íslensks almennings er mjög gott útí hinum stóra heimi. Íslenskur almenningur nýtir mikils skilnings og samúðar meðal almennings, sérstaklega í Evrópu.
    Það að nota eina af þremur hornstoðum lýðræðisins og fara með deilumál fyrir dómstóla er einfaldlega sá farvegur sem að menn hafa komið sér saman um að eigi að gilda!
    Nú er mikið deilt á Írak vegna ólýðræðis sem að þar ríkir. Geta ríki sem krefjast lýðræðis af Íran krafist þess að þeirra eigin deilumál séu ekki leyst á lýðræðislegan hátt?

    „Já, en þessi rök eru því aðeins tæk að allir sitji við sama borð! Þá hefðu innstæðueigendur hjá Landsbankanum, bæði á Íslandi og í útibúunum í Bretlandi og Hollandi, átt að fá borgaða nákvæmlega sömu upphæð, og þá miklu lægri upphæð en nemur lagalágmarkinu (um 3 milljónum) af því sjóðurinn átti ekki pening til að borga öllum lágmarkið.“

    Mörður „Brown“ veit náttúrlega allt um lagalegu hliðina, miklu meira en allir lagaprófessorar!
    Í þjóðarrétti er skýrt að setja má neyðarlög ef að neyðarástand skapast. Beiting hryðjuverkalaganna var rökstutt með því að verið væri að vernda bresks bankakerfi. Þó að IceSave bara lítið brotabrot af því. Ef að allir bankar þjóðar rúlla á sama tíma, þá er tvímælalaust neyðarástand og ríkisstjórn er rétt og skilt að setja neyðarlög. Ekki var greitt úr Tryggingarsjóði Innistæðueigenda. Því breyttu neyðarlögin réttarstöðu IceSave eigenda ekki neitt.

    „vel má vera rétt hjá henni að Hollendingar og Bretar (og önnur ESB-ríki, og þá líka Danir og Svíar og Norðmenn) hafi brugðist yfirlýstri virðingu fyrir réttarríki og mannréttindum, og fyrirheitum sínum við stfnun Evrópusambands og -ráðs, með því að „kúga fámenna þjóð“ til samninga, en hafna „dómstólaleiðinni“.“

    Heyr heyr!

    „Kannski á bara að gera siðferðilegar kröfur til fjölmennra þjóða?“
    Ísland, Bretaland og Holland eru réttarríki!

    IceSlave = Versalasamningur nr. II er einfaldlega óverjandi.

  • Mörður Árnason

    Að gefnu tilefni: ,,Ég nenni ekki í lánapakkana“ merkir að yðar einlægur hefur hvorki þekkkingu né ráðrúm til að meta Landsbankaeignir á eigin vegum, og sér því þann kost vænstan að taka mark á skilanefndinni og bresku endurskoðarstofunni sem (rétt, Pétur) líka tekur mark á skilanefndinni. Þetta skiptir miklu, en rökstudd gagnrýni á þessar hlutfallstölur um eignirnar/lánapakkana hefur farið framhjá mér hafi hún komið fram.

    Sé að í þessari umræðu verður að vanda stílinn og vera kurteis! 😉

  • Jóhannes Þ.

    Eignasafn Landsbankans er skafmiði sem enginn getur vitað fyrirfram hvað kemur út úr. Auk þess fá Íslendingar væntanlega ekki allt andvirði þessara eigna þegar og ef þær seljast því að það eru fleiri forgangskröfuhafar í spilinu. Við fáum kannski helming andvirðisins.

    Nú er komið í ljós að allt mat á verðmæti eigna Landsbankans og mögulegum heimtum af þeim er komið frá sama aðila: Skilanefnd Landsbankans. Skilanefnd Landsbankans getur ekki talist hlutlaus aðili.

    Hvernig væri að fá óháðan aðila, t.d. alþjóðlegan fjárvestingabanka, til að meta verðmæti þessara eigna áður en við steypum ríkissjóði í skuldir vegna þeirra? Er það til of mikils mælst að við tökum mark á öðrum en Landsbankanum sjálfum?

    Að segja „bresk endurskoðunarskrifstofa metur …“ er það sama og að segja „skilanefnd landsbankans metur…“ vegna þess að upplýsingarnar eru komnar frá sama aðila.

  • Þið þingmenn EIGIÐ AÐ HAFA RÁÐRÚM og ekki skrifa undir neitt nema þið vitið 100% um hvað málið snýst.
    Hafið þið ekki þekkingu sem er mjög skiljanlegt eigi þið að leita ykkur sérfræðiþjónustu til að útskýra málið.

    ÞIÐ GETIÐ EKKI BARA SAGT AÐ ÞIÐ TAKIÐ EITTHVAÐ TRÚANLEGT.

    Tókuð þið ekki bankana, Seðlabanka og Fjármálaeftirlitið trúanleg?
    Hefði nú aldeilis komið sér vel fyrir íslenska þjóð, nú og um nánustu framtíð, ef þið hefðuð ekki „bara tekið þá trúanlega“ og fengið álit sérfræðinga.

    Ekki boðlegt að skila svona vinnubrögðum eftir allt sem á undan er gengið.

  • Ég vil benda Merði á að samkvæmt samningunum mun aðeins hluti eigna Landsbankans ganga upp í að greiða það sem Hollendingar og Bretar álíta vera skýlausa ábyrgð íslenzka ríkissjóðsins að greiða, þ.e. innistæðutrygginguna upp á 20.877 evrur á hvern bankareikning. Samkvæmt því sem indefence-menn hafa vakið athygli á mun í samningunum vera gengið út frá því að af heildareignum þrotabúsins (um 1.200 milljarðar kr. samkvæmt mati) fari 20 prósent í aðrar kröfur en af afganginum fari 40 prósent beint til Hollendinga og Breta til að greiða Icesave-skuldir umfram 20.000-evra innistæðutrygginguna. Restina fær íslenzka ríkið til að greiða niður innistæðutrygginga-skuldbindingar sínar. Að því gefnu að dómstólar hnekki þessu ekki öllu saman eftir málsóknir annarra kröfuhafa sem telja sig hlunnfarna.

  • Magnús Bjarnason

    Þakka þér fyrir þessar skýringar á þinni skoðun og hvað þú leggur til grundvallar á henni.

    Það sem vantar í þessa gagnrýni í Icesave samningunum er „Hvað svo“. Ef við höfnum hvað þá? Hver er afleiðingin af því að semja ekki?

    Þetta inna fréttamenn ekki eftir, þetta spurning sem ekki er spurt um. Þeir sem gagnrýna þessa samninga er ekki spurðir þessarar spurningar. Þetta ekki fram í grein Herdísar, sem er ágætt lögfræðileg hugleiðing en þ.s. skautað er létt framhjá pólitískar afleiðingar á því að borga ekki.

    Ég er þér sammála, en það þarf að vekja von um að við munum geta borgað þetta lán. Því þessi mótstaða við samningana er birtingarmynd vonleysis. Það sem þarf er von, ekki hengja haus, þið þurfið að tala kjark í þjóðinna, annars mun hún elta flautuleikarana.

  • Ég skal vera kurteis, hvernig hljómar?

    Kyngjum öllu sem upp í okkur er stungið fyrir ingöngu passa í ESB

    SAMFÓ

    P.S. Tek það fram að þetta er kurteisa útgáfann

  • Guðmundur Guðmundsson

    Það er greinilegt að við neyðumst til þess að taka á okkur ríkisábyrgðir vegna Icesave-reikninganna en við megum ekki gleyma hvers vegna.

    Það er ekki vegna þess að við berum ábyrgð á Landsbankaþjófunum. Það gerum við ekki á nokkurn hátt. Þeir fengu bankann gefins og ráku hann svo í sinn eigin reikning, ekki okkar.

    Og það er ekki vegna þess að okkur beri siðferðisleg skylda til þess. Landsbankahyskinu ber auðvitað að endurgreiða reikningseigendum en ekki okkur. Bankastjórarnir voru ekki í okkar umsjá. Við stofnuðum ekki reikningana og stungum á okkur peningunum.

    Sumir „skammast sín“ fyrir landa sína, þjófana sem stálu milljónum af öryrkjum og góðgerðastofnunum, t.d. skammast Mörður sín „aðeins“.

    Við skulum ekki láta þvinga upp á okkur einhverri „skömm“ svo hægara verði að krefja okkur um greiðslur. Við bárum enga ábyrgð á þjófunum, regluverkinu sem gerði þeim kleyft að stela eða eftirlitsstofnunum og ráðherrum sem dönsuðu með.

    Við erum NEYDD til þess að borga vegna þess að Evrópusambandið krefst þess. Munum það.

  • Skattmann segir:

    “11.1.4 untrue representations: Any statement made, or deemed to be made, in any Finance Document or in any document delivered by the Guarantee Fund or lceland in connection with any Finance Document is, or proves to have been, incorrect or misleading in any material respect when made or deemed to be made.”

    Ef sem sé einhver íslenskur stjórnmálamaður mun einhvern tíman hallmæla IceSlave, þá geta Bretar og Hollendingar bara gjaldfellt!
    Svo mikið fyrir málfrelsi!

    —-

    Þetta er alröng túlkun og ályktanir. Ef í ljós kemur að fulltrúar Íslands eða Tryggingasjóðs hafa lagt fram skriflega ósannindi eða rangar staðhæfingar í skjölum tengdum þessum fjármálagjörningi (Finance Documents) þá má lánveitandi gjaldfella. Þetta hefur ekkert með „hallmæli“ eða nokkur munnleg ummæli að gera, og káfar ekkert upp á málfrelsi neins.

    Ef aðrar túlkanir Skattmanns á textanum eru með svipuðum hætti þá ber að taka þær mjög varlega.

  • Guðmundur: við erum neydd til að borga vegna þess að við erum af fúsum og frjálsum vilja aðilar að innistæðutryggingakerfi Evrópu, í gegn um EES samninginn, eins og öll önnur EES/ESB lönd. Innistæðutryggingarkerfinu er ætlað að verja hagsmuni sparifjáreigenda og það er bæði gott og nauðsynlegt fyrirbæri. Það gengur ekki að skorast undan því að greiða innistæðutrygginguna, það væru lítilmótleg svik við þá saklausu sparifjáreigendur sem voru svo óheppnir að treysta á íslenska banka. En vitaskuld má síðan deila um hvort Bretar og Hollendingar hefðu hugsanlega átt að bera stærri hlut af skaðanum (sem þeir bera samt að talsverðu leyti, ekki gleyma því).

  • Elísabet

    Vilhjálmur ég hef meiri áhyggjur af málflutningi Marðar en Skattmanns.
    Merði langar til að þetta blessist og á þeim grundvelli vill hann samþykkja samninginn. Engin rök bara trú. Ótrúleg afneitun á stöðu okkar og mun bara lengja í vondu ólinni. Til hvers að hafa t.d. ákvæði einsog er í grein 16.3 í samningnum ef það ákvæði er óþarft.? Um gæði eignasafns Landsbankans má ekki tala, af hverju ekki? Er það kannski skafmiði sem þjóðin kaupir.?

    Ég efast hins vegar ekki um að þeir sem vilja skrifa undir er allt hið vænsta fólk og trúi að þetta muni blessast. Vona að þau hafi rétt fyrir sér og ég rangt.

    Það er bara fáránlegt að semja uppá trú og von. Þetta er ekki venjulegur samningur, ekki nein ákvæði í honum eru „eðlileg“og það er ekki hægt að líkja honum við neinn aljþóðasamning sem við höfum átt aðild að. Hann fjallar um fjöregg Íslands.

  • Væri Vilhjálmur Þorsteinsson fáanlegur til útskýra hvernig í veröldinni við eigum að fara að því að borga alla núverandi skuldasúpu + frekari fyrirhugaðar lántökur + icesave hrúguna.

    Er búið að finna olíu?

    Þessi umræða er út úr hól fyrr en menn skýra þetta út. Það er engin reisn í því að taka lán og undirgangast skuldbindingar sem ekki er hægt að standa við.

  • Sammála Elísabetu um að það er ekki nóg að nenna þessu ekki lengur og bara vona upp á guð og lukkuna að allt fari vel. Það eru engar líkur á að það gerist því miður. Þó ég vildi eins og Mörður trúa hinu besta….

  • „Síðast þegar við Íslendingar skrifuðum nauðugir vegna hótana upp á samning, misstum við sjálfstæði í rúm 700 ár með tilheyrandi hnignun menningar og þjóðar.“
    TBR, enginn neyddi Íslendinga árið 1262 með hótunum til að skrifa undir Gamla Sáttmála. Á Sturlungaöld voru Íslendingar með allt niður um sig, rétt eins og nú, landið logaði í illdeilum milli valdagráðugra og siðlausra fjölskyldna (hljómar kunnuglega, ekki satt?!) sem töldu sig eiga landið. Til að koma friði á í landinu gengust Íslendingar Noregskonungi sjálfviljugir á hönd, samþykktu að borga honum skatta en þeir fengju í staðinn löggjöf, friðargæslu, og reglulegar siglingar milli Íslands og Noregs.

  • Elísabet

    Svo skil ég ekki af hverju pólitíkusar keppast við að segja að þetta fjalli ekki um lög heldur pólitík!!! Er virkilega svona langt á milli lagareglna og stjórnmála?

    Það er rangt hjá Viljálmi að það sé ríkisábyrgð á innistæðutryggingu bankanna. Bönkunum bar skylda til að vera með innistæðutryggingasjóð upp að ákveðnu hámarki ( rúmar 20.000 evrur á mann). Nú verður hrun, katastrófa og engin löggjöf, ekkert kerfi sá þetta fyrir eða gerði ráð fyrir þessu. Þetta eru hamfarir en yfirvöld hér og erlendis vilja bara láta einsog þetta sé „business as usual“ og íslenskur almenningur eigi að borga.

    Þó við vildum eigum við ekki fyrir því.

    E.S Ég trúi hins vegar miklu frekar að Sverrir Garðarson sjómaður hafi séð skrýmsli á Fifustaðarbótinni fyrir vestan en að við getum borgað Icesave!!
    Svo skilst mér að það jafnist ekkert við að sjá skrýmsli.

  • skattmann

    Vilhjálmur:

    þú sleppir að þýða mjög margt í enska textanum yfir á íslensku.

    Dæmi.:
    „or misleading in any material respect when made or deemed to be made.”

    þetta má þýða sem: eða misvísandi að einhverju leyti þegar gerð eða talin hafa verið gerð.

    eða
    „in any Finance Document or in any document delivered by the Guarantee Fund or lceland in connection with any Finance Document“

    þetta þýðir þú sem „skjölum tengdum þessum fjármálagjörningi (Finance Documents)“
    Það sem stendur þarna er vissulega það, en líka í sérhverju skjali sem að berst frá Tryggingarsjóði Innistæðna eða Ísland sem að tengist á einhvern hátt skjölum tengdum þessum fjármálagjörningi.

    Ég skrifa líka:

    „Þá má benda á það að allar túlkanir á IceSlave svo sem þessi eru gerðar af Bretum og Hollendingum einhliða. Ef að Ísland sættir sig ekki við túlkun, þá getur Bretland og Holland sett málið fyrir enskan dómstól eða ef þeir (Ísland er ekki spurt) vilja einhvern annan dómstól að eigin vali!
    Breskur dómstóll tekur ekkert tillit til handrukkunar eða þess að menn hafi samið af sér og samningurinn sé stórkostlega óhagstæður fyrir annan aðilann.“

    Sem sé ef að Bretar og eða Hollendingar telja einhliða að skjal sem að tengist fjármálagjörningnum eða tengist skjali er varðar fjármálagjörninginn og sem kemur frá Íslandi sé misvísandi, þá mega þeir gjaldfelli IceSlave um leið.

    Þessir 11 (!) liðir sem að Bretar geta notað til að gjaldfella IceSlave ef að þeim sýnist svo eru mjög víðtækir í öllum skilningi þess orðs.
    Það er nóg að skjal, sem að tengist á einhvern hátt skjali sé misvísandi.

    Telur þú Vilhjálmur að þeir sem sjá um þessi mál fyrir Íslands hönd séu svo pottþéttir að ekki sétt eitt skjal tengt IceSlave eða sem er tengt skjali sem er tengt IceSlave misvísandi á neinn hátt?

    Síðan skora ég á þig að taka athugasemdir mínar fyrir lið fyrir lið og reyna að hrekja þau rök sem þar eru sett fram!

  • Guðmundur Guðmundsson

    Vilhjálmur: Það var svívirðilegt hvernig sparifjáreigendur í Hollandi og Bretlandi voru leiknir en það var einkabanki sem narraði þá. Íslenskur almenningur gerist ekki sekur um „lítilmótleg svik“ þótt hann spyrni við fótum og neiti að borga. Það eru eigendur bankans sem svíkja sparifjáreigendur. Þessi greinarmunur skiptir miklu máli.

  • skattmann

    Vilhjálmur:

    athugasemd varðandi skrif Guðmundar:

    Það kemur fram í Evrópulögunum að bankarnir sjálfir eiga að fjármagna innitæðutrygginarsjóði. Það er beinlínis tekið fram í lagatextanum að ríkið eigi ekki að koma þar að. Slíkt gæti jú skekkt samkeppnisstöðu þar sem að t.d. lánshæfismat ríkja Evrópu er ekki allt það sama.

    Þá er beinlínis tekið fram í lagatexta Trygginarsjóðs Innistæðueigenda að ríkið megi ef það vill lána sjóðnum fjármuni, en verði alls ekki að gera það.

  • Ekkert lundareykjadalskjaftæði…. að fara að borga fyrir gjörning
    örfárra drullusokka í Landsbankanum kemur ekki til greina…..
    Ekkert val.. er orðalag um UPPGJÖF……
    það þarf nr 1:
    að ná frá Björgólfi Thor – einum helsta mafíósa og glæpamanni á
    vesturlöndum, öllum hundruðu milljörðunum sem hann er búin að
    stela….. þá er þetta ekkert mál, svo auðvitað af baugsglæpaklíkunni,
    þá er þetta barasta komið….. og við í fínum málum.
    Einhverra hluta vegna vilja stjórnvöld ekki ná í peningana, þar sem
    stjórnvöld eru invinkluð í þjófnaðinn….Íhald-framsókn-samfylking.
    En vonandi nær frk Joly að negla skítseiðin öll sem eitt….
    PS: svo er allt Kaupþing edge kjaftæðið eftir…..einhverjir segja
    að þar sé double shit á við iceslave !!!!!

  • Áhugaverð – og glæný – söguskýring á lengd íslensku kreppunnar á 4. áratugnum. Að hún hafi stafað af einhverskonar alþjóðlegu bojkotti á að lána Íslendingum.

    Það væri gaman að sjá gögn sem styðja þetta. Hingað til hefur því verið haldið fram að ástæðan fyrir lengd íslensku kreppunnar hafi verið markaðsfall á Spáni, sem eins og margir vita lenti í vítiseldi borgarastyrjaldar 1936. Þar var aðalmarkaður fyrir íslenskan saltfisk.

    Sú styrjöld stóð til 1939. Hún lengdi kreppuna hér um fjögur ár.

  • Skattamann. Las greinina á ruv.is Hrikalegt og því miður -kemur ekki á óvart. Hvað er að ráðamönnum?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur