Þriðjudagur 22.06.2010 - 07:15 - 157 ummæli

Sammála Kidda

Til hamingju sem hafið verið að glíma við gengistryggðu lánin – en ég er sammála Kristni H. Gunnarssyni í Fréttablaðinu í dag: Þegar lögfræðinni sleppir verður að taka við réttlætiskennd og skynsemi.  Það er eðlilegt að venjuleg verðtrygging færist nú á gengistryggðu lánin. Þeir sem þau tóku hagnast verulega (vonandi) miðað við að bera gengisfallið, en geta ekki vænst þess að lánin nánast falli niður – eða með öðrum orðum að að aðrir Íslendingar borgi þau, með auknum sköttum eða minni velferðarþjónustu eða skertum lífeyri. Þeir borgunarmenn eru margir þegar að sligast undan venjulegum verðtryggðum lánum, og gera auðvitað kröfu um að þau fái sömu útreið og gengistryggðu lánin.  Rökin um forsendubrestinn eru vissulega öflug – en hver á að lokum að borga?

Einsog Kristinn lærði ég einusinni þá hagfræði að ef Jón borgar ekki skuldina sína  þá lendi það á Gunnu. Alveg einsog efnið í heiminum eyðist ekki heldur verður að orku og svo að öðru efni. Ég var farinn að efast um þennan barnalærdóm í góðærinu og svo aftur eftir langvarandi ræðuhöld niðurfellingarsinna á eftirhrunstímum. En hér hefur Kiddi rétt fyrir sér:  Skuldir þarf að greiða. Það er ekki sanngjarnt að skuldari losni við að borga skuld sína vegna þess að þá þarf næsti maður að borga hana.

Það er ekki fallið til vinsælda, en eina réttlætispólitíkin er að styðja þá beint og rösklega sem eiga um sárast að binda, og hjálpa hinum að hjálpa sér sjálfir með lausnum og úrræðum sem eru sanngjarnar og ábyrgar.

Til lengdar læra menn að vara sig á þeim sem lofa Paradís á jörðu – sem í einkennilega mörgum tilvikum eru þeir sömu fyrir hrun og eftir hrun.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (157)

  • 22.06 2010 kl 11:56

    Pétur

    15 – 20 % vextir myndu í það minnsta segja fóki sannleikann um íslensku krónuna.

  • Guðlaugur S. Egilsson

    Sævar, hagnaður bankanna á síðasta ári var 55 milljarðar. Einungis einn þeirra er í ríkiseigu lengur. Það er því ekkert sjálfgefið að afskriftir af sökum erlendra lána lendi á almenningi eða lífeyrissjóðunum.

    Þar að auki er fullyrðingin „Skuldir verður að greiða, þær hverfa ekki“, er einfaldlega röng. Það er verið að afskrifa skuldir í stórum stíl út um allt. Skuld eru í raun ávísun á framtíðar verðmætasköpun. Þegar ekki reynist innstæða fyrir þeirri ávísun, þá hverfur eða minnkar skuldin sem því nemur, og sá sem á skuldina þarf að afskrifa hana.

    Peningakerfið er mannana verk, og lýtur engum náttúrulögmálum, eingöngu þeim lögmálum sem við sjálf setjum. Þannig að ef ríkisstjórnin eða seðlabankinn kýs að setja þau lögmál að afskriftir á þessum skuldum lendi á skattgreiðendum, þá gerist það að sjálfsögðu. Það er einnig hægt að setja þau lögmál að afskriftir þessara skulda komi til á mörgum árum og komi af hagnaði bankanna og þar með frá þeirra eigendum, sem dæmi. Mörður lætur hér sem a) að hann viti ekkert í sinn haus um peningamál eða b) sé búið að kaupa hann af lobbýistum eigenda bankanna sem vilja engan veginn að síðari kosturinn sé valinn.

    Ég vona að a) sé rétt, og hann kynni sér hvað peningar raunverulega eru. Peningar eru ekki verðmæti, þeir eru ávísun á verðmæti sem lúta alfarið þeim lögmálum sem við setjum sem samfélag, og engu öðru.

  • Reiði fólks er skiljanleg og réttlát, en menn ættu að reyna að stilla skap sitt og ræða dóma Hæstaréttar með rökum. Staðreyndin er sú að við blasir, að stjórnvöld hafa brugðist og það gildir um Alþingi, ríkisstjórnir og Hæstarétt. Ég nefni Hæstarétt með í upptalningunni og í umfjöllun á bloggsíðu minni færi ég rök fyrir því:

    http://altice.blog.is/blog/altice/entry/1069014/

    Hæstaréttur fellir þessa dóma eftir lögskýringargögnum og þó aðallega athugasemdum viðskiptaráðherra með lagafrumvarpinu. Þessar athugasemdir túlka mat ráðherrans á hvað eigi að standa í lögunum. Hins vegar er það Alþingi sem setur lögin og ber ábyrgð á þeim. Alþingi gerir oft veigamiklar breytingar á lagafrumvörpum og getur snúið tilgangi ráðherrans á haus, ef því þóknast.

    Augljóst ætti því að vera, að athugasemdir með lagafrumvarpi geta ekki talist traustar heimildir um endanleg lög. Þannig er staðan varðandi dóma Nr. 92/2010 og Nr. 153/2010. Þeir eru ekki byggðir á lögum, því að ekkert í lögunum bannar gengistryggingu. Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti þessa skoðun mína, með dómi sínum frá 12. febrúar 2010, en þar segir:

    „Enda þótt lögin kveði ekki beinlínis á um bann við því að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlenda gjaldmiðla þá þykir samkvæmt framanrituðu sýnt að með þeim hafi verið felld úr gildi heimild til að tengja skuldbindingar í íslenskum krónum við erlenda gjaldmiðla. Óhjákvæmilegt er að líta til vilja löggjafans við túlkun laganna.“

    Ég vil benda sérstaklega á þá aumkunarverðu staðreynd, að bæði Héraðsdómur og Hæstiréttur telja nauðsynlegt að lúta vilja ráðherrans hvað varðar túlkun laganna, þótt í umsögn HR sé nefndur ”vilji löggjafans”. Vilji löggjafans birtist í lögunum sjálfum, en vilji ráðherrans í athugasemdum hans með frumvarpinu.

    Ég tel einsýnt, að leiðréttingar verði gerðar á öllum verðtryggðum lánum. Slík leiðrétting verður að vera algild og ekki sértæk. Hún má ekki vera afleiðing handahófskenndra ákvarðana dómstóla, heldur gerð sem hluti samfélagssáttar. Slík leiðrétting verður að vera gerð að frumkvæði stjórnvalda, en til þess verður að vera starfhæf ríkisstjórn í landinu og starfhæft Alþingi. Það liggur því fyrir að sú vanhæfa ríkisstjón sem nú situr sem fastast verður að víkja, áður en hægt er að koma skuldamálum á eðlilegan grundvöll.

  • Ragnhildur L. Guðmundsdóttir

    En ekki hvað…. erum við ekki að fara að greiða fyrir óreiðuskuldir fjárglæframanna og á ábyrgð stjórnmálamanna ???? Við hverju býst maðurinn ? Við viljum að sjálfsögðu greiða skuldir okkar en ekki það sem umfram stendur og þeir sem eru með verðtryggð ísl. lán fá einnig einhverja leiðréttingu því það þarf að reikna allt aftur þar sem gengistryggðu lánin hafa ýtt undir verðbólgu og hærri verðbætur en ættu að vera.

  • Pálmi Pálmason

    Þetta er órúlegt að sjá af jafnaðarmanni Mörður, þú ert allt of þröng og skammsýnn í þessu máli:

    Hagfræði Jóns og Gunnu:

    Jón er hér í hagfræðinni í hlutverki fólksins í landinu sem er með sín heimili undir í bílalánum og húsnæðislánum, bæði myntkörfu og verðtryggðum lánum.

    Gunna er hér í sömu hagfræði í hlutverki banka og dótturfyrirtækja sem eiga þessar „kröfur“ í dag Gunna keypti kröfurnar af þrotabúum „gömlu bankannn“ með miklum afföllum

    Gunna hefur því mikið svigrúm, allt að 50% samkvæmt opinberum gögnum og skilagögnum bankanna til að koma til móts við Jón, ekki satt!, eða villt þú að Gunna hagnist á tapi Jóns? – því það þarf mikið til og mikil afföll til að Gunna fari að tapa á sínum viðskiptum miðað við þau verð sem hún gaf fyrir kröfurnar á Jón

    Semsagt, þú Mörður og Kristinn viljið „gróðann“ til bankanna!

    Síðan er hinn flöturinn = Jón er almennt ekki löglærður, hann gerir samning við Gunnu sem er með hóp sérfræðinga sín meginn við samningana – er það rétt að ef Gunna fremur lögbrot með öllum sínum „sérfæðingum og lögfræðideildum“ gegn Jóni, og það kemst UPP! – að þá séu til úrræði fyrir Gunnu til að halda sínum hlut áfram að fullu án nokkurrar áhættu? Ergo: „sýndu mátt þinn og megin, svindlaðu á Jóni, því þótt það komist upp, þá tapar þú engu!“

    Er þetta sú nýja latína sem við jafnaðarmenn eigum að læra í dag?

  • Ein grundvallar spurning Mörður sem þú gleymdir að spyrja sjálfan þig fyrst.

    Eru allar þessar lánastofnanir í ríkiseigu?

  • Víðförull

    Vá, rúmlega 100 komment og nær öll á móti og mörg frá vinstri mönnum og yfirlýstu áhrifafólki í Samfylkingunni! Ég held að bæði Mörður og Kristinn geti sleppt því að hugsa um að komast aftur að sem kjörnir fulltrúar hér á landi. Frábært alveg.

  • Sæll Mörður, þú bara hlýtur að hafa fallið í þessum hagfræðiáfanga.

    Ef Lýsing fær ekki endurgreitt lánið sitt þá tapa hluthafar og lánadrottnar Lýsingar (sem í þessum tilfelli er aðallega Deutche bank). EKKI ÍSLENSKA RÍKIÐ.

    Dæmi – Mörður lánar Kidda peninga……..Kiddi borgar svo ekki……af því leiðir að Mörður tapar peningum. EKKI Íslenska ríkið.

    Þú gætir haldið því fram með langsóttum rökum að ríkið myndi tapa á þessu á þeim forsendum að það væri að missa af fjármagnstekjuskatti sem Mörður yrði annars að borga. En til þess að beita þeim rökum þarftu að teygja þig ansi langt í ruglinu.

    Gaman að svona heimatilbúinni hagfræði sem þar að auki byggir á „réttlætiskennd“ til handa lánadrottnum. Furðulegt samt fyrir þingmann í krataflokki……….sem kennir sig við velferð almennings.

  • Þannig að þér finnst það alveg sanngjarnt að fyrirtæki láni krónur og rukki af þeim 130% – 160% vexti (gengisviðmiðun við JPY hefur hækkað um rúmlega 160% á þremur árum)?

    Hvað heldur þú að verði um þá peninga? Heldurðu að þeir streymi inn í íslenska hagkerfið okkur til gagns?

    Það virðist einnig vera erfitt fyrir suma að skilja að það er ekki verið að fella niður ein eða nein lán – skuldin er borguð í topp + vexti.
    Hvaða peninga er þá Gunna að borga sem Jón borgar ekki? Það er auðvelt að svara því. Peninga sem fyrirtækin bjuggu til í Excel.

    Ætlar þú að beita þér fyrir því að ríkið borgi fyrirtækjunum þessa uppdiktuðu Excel peninga?

    Gott að vita næst þegar maður krassar á kjörseðilinn.

  • Guðjón Karl

    Þið eruð nú meiri vitleysingarnir upp til hópa. Í fyrsta lagi eru það kröfuhafar sem bera tjónið og búið að reikna með afföllum í flutningi á lánasöfnum fyrir svo hingað til hafa fjármálastofnanir eingöngu verið að hagnast á þessu lánum. Því yrði um eðlilega leiðréttingu að ræða með því að leiðrétta bæði gengis- og verðtryggð lán.

    Hvað hafa lánastofnanir til unnið að hagnast óhugnanlega mikið vegna vísitölubreytinga á innlendum lánum ?

    Má ekki gleyma því að eigendur fjármalástofnana, sem og þær sjálfar tóku þátt í því að fella gengi íslensku krónunnar vísvitandi með gríðarlegri stöðutöku og vægast sagt óeðlilegum viðskiptaháttum sem höfðu áhrif á gengi sem og verðtryggingu. Er það eðlilegt að stofnun sem lánar almenningi í verðtryggðum og gengistryggðum lánum versli með gjaldeyri með það að markmiði að fella krónuna, sem hefur bein áhrif á verðtryggingu, með öðrum orðum hækka eignasafnið sitt handstýrt ???? ER ÞAÐ RÉTTLÁTT, EÐA BARA LÖGLEGT YFIR HÖFUÐ ?
    Af sjálfsögðu á að leiðrétta verðtrygginguna á húsnæðislánin líka enda forsendurnar sem hún var byggð á löngu horfnar.

    Má ég svo benda þér á að lesa ágætan pistil eftir Guðrúnu Valtýsdóttur sem vert er að lesa:

    Hvað hafa lánastofnanir til unnið að hagnast vegna vísitölubreytingar um tæpar 7 milljónir á 20 milljóna króna láni í íslenskum krónum á þremur árum?
    Og við vitum hverjir eru að TAPA á þessu, þ.e. almenningur í landinu.

    Hvern er ríkisstjórnin og embættismannakerfið að vernda ?
    Þessa dagana er mikil umræða um lán, erlend lán og lögmæti þeirra, skuldavanda heimilanna, úrræði ríkisstjórnarinnar og fleira í þeim dúr.
    Ég settist niður og reiknaði út það sem hefur gerst hjá þeim sem fengu innlend verðtryggð lán árið 2007 og skil ekki hverra hagsmuni er verið að vernda hjá ríkistjórninni, skil það kannski ekki, en sé að það eru greinilega lánveitendur.

    Aðili sem tók innlent fasteignalán í innlendri lánastofnun í júní 2007 uppá 20 miljónir króna, þau lán voru lánuð með viðmiðun við vísitölu neysluverðs (lántakandi hefur ekkert um það að segja).
    kr. 20.000.000 júní 2007 vísitala 272,4
    kr. 26.710.720 júní 2010 vísitala 363,8 þetta er verðbreytt staða höfuðstólsins á þessum tíma.
    kr. 6.710.720 hreinn hagnaður lánastofnunar á höfuðstólnum.

    Þetta er mikil einföldun í útreikningi, þar sem eingöngu er reiknuð út hækkun höfuðstóls og ég er ekkert að reikna út vexti sem eru sjaldnast greiddir að fullu og reiknast af verðbættri upphæð. Þannig að lánastofnunin er að hagnast mun meira á verðhækkuninni.
    Ég er þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að greiða vexti af því sem maður skuldar, en þetta er langt út fyrir eðlileg viðmið og er að mínu mati okur.

    Vísitala var tekin upp á skuldir til þess að verja verðmæti í verðbólgu þegar húsnæði eins og annað hækkaði mikið í mikilli verðbólgu og lánin „brunnu upp“ og urðu að engu. Sanngjarnt að mínu mati.
    Ef þessi lántakandi var að veðsetja íbúðina sína fyrir 80% söluverðmæti, þá hefði hún verið að verðmæti kr. 25.000.000. Við vitum öll að þessi íbúð er ekki með söluverðmæti í kringum 33 milljónir í dag eins og vísitalan hefur hækkað, hefur frekar lækkað heldur en hitt, þannig að upprunalegi tilgangur vísitölu á varla við hér.

    En mín spurning er til ráðamanna þessa lands sem eru ekki tilbúnir til þess að handstýra vísitöluviðmiðunum sem eru á fasteignalánum heimilanna:
    Hvað hafa lánastofnanir til unnið að hagnast vegna vísitölubreytingar um a.m.k. tæpar 7 milljónir á 20 milljóna króna láni í íslenskum krónum á þremur árum?

  • Ragnar Bjarni

    Þessi pistill þinn dæmir sig sjálfur enda sorgleg þvæla. Ég er kjósandi Samfylkingarinnar og mér finnst gríðarlega sorglegt að þú skulir eins og Kristinn hafa þá skoðun að Skuldarar séu réttlausar skepnur sem ber að borga borga borga.

    Ég hlustaði á þann bjána á bylgjunni og skilningsleysi hans gagnvart skuldurum í landinu er náttúrulega með eindæmum. Það má ekki gera neitt fyrir neinn sem skuldar því þá þyrfti hugsanlega einhver annar að tapa líka. Það væntanlega þýðir að þið eruð sammála um að verkalýðurinn sem reyndi að GRÆÐA með því að taka lán fyrir íbúð og bíl eigi að bera allt tjón hrunsins í formi skuldaklafa til dauðadags.

  • Öll þessi frjálshyggja er búin að rugla menn svo í ríminu að menn eru farnir að tala um samfélagið einsog það sé samsett af hópum, sem eru í bisniss hver við annan.

    Einsog lífeyrisþegar séu í bisniss við íbúðakaupendur, – þeas. börnin sín og barnabörnin.

    Ef börnin sleppa við gjaldþrot, þá tapi lífeyrisþeginn. þetta er náttúrlega ekki svona. Það sem þarf er jafnvægi. Við skulum muna að réttlæti gott en regla er nauðsyn.

  • Sannarlega er þetta afstaða að hafa þó aðrir þurfi ekki að vera sammála þér hvað þetta varðar.
    Ekki ætla ég að skorast undan að greiða þær skuldir sem ég setti mig í en ef setja á verðtryggingu á lán sem ég tók óverðtryggt þá verð ég að mótmæla.
    Enginn er að reyna að komast hjá því að greiða lán sín.
    Líti maður á málið af sanngirni þá er hér nokkuð til umhugsunar:

    Ef bankinn innheimtir lánið að fullu með 3,5% óverðtryggðum vöxtum næst höfðustóllinn til baka ásamt auðvitað þessum 3,5%.
    EN HVAÐ MEÐ AFFÖLLIN. Má ekki ætla að þessi útlán sem keypt voru af skilanefndum með 47,3% afföllum af höfuðstólsverði séu að fullu greidd með verðbótum þegar bankinn hefur fengið 100 krónur fyrir hverjar 52,7 krónur og að auki 3,5% vexti af höfuðstólnum allan lánstímann??

    Bankinn er ef ég kann að reikna að hafa eftirfarandi út úr 40 ára láni fyrir hverja 1 milljón sem lántakandi er skráður fyrir sem skuldari

    Útgjöld bankans fyrir hverja 1.000.000 krónur er 527.000
    Bankinn innheimtir höfuðstólinn eða alls 1.000.000 kr
    Bankinn innheimtir 3,5% vexti allt lánstímabilið eða 701.458 krónur
    Samtals fær bankinn ávöxtun sem nemur 5,86% ávöxtun af fjárfestingunni sem verður að segjast ágætt
    Heildar innborgun til bankans umfram útgjöld eru kr: 1.228.458

    Til samanburðar:

    Vextir af óverðtryggðu lífeyrissjóðsláni hjá LSR eru núna 5%
    Á 40 árum fær LSR alls 2.002.083 kr fyrir hverja útlánaða milljón

    Heildar innborgun til LSR umfram útgjöld er kr: 1.002.083

    Samkvæmt þessu er hagðnaður bankanna 226.375 umfram LSR á hverja milljón og svo eigum við að fara að greiða verðbætur ofan á þetta!
    Ég segi svei ykkur !

  • Mörður er verðugur fulltrúi fjármagnseigenda á Alþingi

  • Ragnar Bjarni, þú ert með þumalinn á púlsinum, þegar þú segir:

    “Það væntanlega þýðir að þið eruð sammála um að verkalýðurinn sem reyndi að GRÆÐA með því að taka lán fyrir íbúð og bíl eigi að bera allt tjón hrunsins í formi skuldaklafa til dauðadags.”

    Það peningakerfi sem er í gildi um allan hinn Vestræna heim og víðar, er einmitt hannað til að arðræna almenning. Það nefnist “torgreind peningastefna” (discretionary monetary policy) og núverandi ríkisstjórn aðhyllist hana af mikilli áfergju.

    Þetta er kommúnistiskt kerfi, sem byggir á alræði yfirvalda og heldsta stjórntæki þess eru seðlabankarnir. Það hlálega er, að sökinni er skellt á hugmyndina um hið frjálsa hagkerfi. Eitt birtingar-form torgreindu hugsunarinnar er að þingræði skuli ríkja og ekki lýðræði. Þannig verður auðveldara fyrir valdhafana að ráðskast með almenning.

    Niðurstaða þjóðaratkvæðisins um Icesave-kröfurnar var því mikið áfall fyrir þingræðissinna. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi hana tilgangslausan hráskinnaleik. Spurningin er hvort lýðræðissinnar innan Icesave-flokkanna vakna við dóma Hæstaréttar og bylta þessari aumu ríkisstjórn sem vermir ráðherra-stólana.

  • Hæstiréttur fellir dóm, alla jafna sættir fólk sig við hann hvort sem því líkar betur eða verr. Sá sem brýtur lög kallast lögbrjótur sá sem verður fyrir kallast fórnarlamb. Gengistryggingin var ólögleg, punktur. Nú hefur æðsta dómsvald skorið úr um það, punktur.

    Hvað viðvíkur íslensku lánunum þá verður ríkið (og getur) að koma þar að málum til að mæta því ójafnræði sem komið er upp vegna hæstaréttardómsins.

    Svo má einnig spyrja: Er það náttúrulögmál að fjármagnseigandi sé alltaf rétthærri lántaka og beri að njóta meiri verndar laga?
    Hvar væru fjármagneigendur án lántakenda? Á hvað leið erum við þegar kjörnir fulltrúar á Alþingi bera ekki meiri virðingu fyrir æðsta dómstól landsins en svo að þeir vilja að almenningur snúi við dómsniðurstöðunni í praxís með því að gangast undir lánakjör sem eru jafnvel VERRI en þau upphaflegu? ma ma ma ….

  • Þetta er hárrétt greining Mörður og þú kemur með eina uppástungu á raunsærri lausn. Því miður muntu verða fordæmdur af skuldurum sem vonast eftir lausn sem er ekki í takt við raunveruleikann (að yfirfæra skuldirnar yfir á skattborgara) en þeir munu reyna allt til að sleppa við lánin og taka af lífi alla sem ekki vilja þurrka þau út.

  • Að öllu siðferði slepptu…? Þegar lögfræðinni sleppir…? Þetta gengur ekki Mörður. Þetta gengur bara alls ekki.

    Ég ég orðin svo hrikalega þreytt á því að ég þurfi ávallt að standa við mitt an að opiberir aðilar, fjármálafyrirtæki þurfi ekki að standa við sitt?

    Þetta hugarfar þitt og þessi afstaða er hreinlega hugsunin á bakvið hrunið.

    Af hverju getur þú og þinn flokkur ekki bara kallað hlutina réttum nöfnum? ,,Call að spade a spade Mr. Ferret“….

    Ríkisstjórnin verður að láta almenning borga endurreisn bankanna. Svo einfalt er það og þessvegna koma svona fáránlegar skoðanir fram ein og hjá þér og Kristni. Ég krefst þess að sá samningur sme ég skrifaði undir standi og að ég fái að BORGA samkvæmt honum. En samkæ´mt útprenti frá Avant var kosnaður við 5 ára lán mitt nákvæmlega 167.947 krónur og skrifuðum við bæði uppá það, ég og Avant. Kostnaðurinn átti ekki að vera 2.674.998 umfram virði samningsins. Lúlaeg þjónkun við auðvaldið Mr. Ferret. Lúaleg.

    Ég hreinlega KREFST þess að fá að borga mitt lán samkvæmt upprunalegum samningi en ekki samkvæmt hreyllingi þeim sem glæpamenn landsins með stöðutöku gegn krónunni, svinldi og svínaríi komu á MIG, sem tók einfalt, lítið lán til að kaupa einfaldan lítinn bíl.

    Svona kjaftæði fæst aðeins frá fólkinu sem sat hjá og gerði ekkert fyrir umbjóðendur sína í síðustu ríkkisstjórn og ætlar að halda leiknum áfram.

    Ég ÞAKKA GUÐI FYRIR VINSTRI GRÆNA.

  • MÖRÐUR, ÞÚ TALAR FYRIR ÞVÍ AÐ FARA Á SVIG VIÐ LÖG OG REGLUR!

    Semsagt talar fyrir sama sjónarmiði og viðgekkst hér í lögleysunni í bankamönnum og útrásarvíkingum.

    Er þessi lögleysa innbrennd í þjóðarsálina? svona: ,,Ja, lög eru lög en við þurftum ekkert að fara eftir þeim, svo þegar gjörðirnar eru dæmdar ólöglegar þá þurfum við heldur ekki að fara eftir þeim…við gerum nefninlega bara það sem betra reynist fyrir þá sem eiga allt og mega allt.“

    Þetta er kjarninn í undirlægjuskap landans, í heimóttalegri þjónkun við peningavaldið og ekki sæmandi réttsýnum jafnaðar- og vinstrimönnum. Hvað þá löghlýðnum borgurum.

    En auðvitað er alltaf einhver andsk….agenda á bak við tjöldin sem Samfylkinginnarmenn, hálir sem álar, reka í leyni á bak við hól. Réttlætt með ,,minni hagsmunir fyrir meiri“…þar sem almenningur er ,,collateral damage“ í hráskinnungaleik stjrórmálanna.

    Samfó hin seinni söm við sig.

  • Lög um vexti og verðtryggingu:
    4. gr. Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. Í þeim tilvikum sem um verðtryggða kröfu er að ræða skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr.

    18. gr. Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft. Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt.

    Er ekki líklegt að miða eigi við óverðtryggða vexti SÍ?

  • Hverjir eiga að borga afskriftirnar á skuldum hinna margríku úr ofurstéttinni ?
    Finnst þér ekki „Jón og Gunna“ í vondum málum að sitja uppi með þær ?

  • Mörður kíktu á bloggið mitt ? Þar eru nokkrar hugleiðingar um þetta.

    http://www.baldurorlygsson.blog.is

  • Gunnar Ársæll

    Þegar löggjafanum sleppir verður að taka við réttlætiskennd og skynsemi.
    Þú átt ekki heima í því að setja Lög.
    ÞJÓF-FÉLAGIÐ Ísland í boði einskinsvirts alþingis.
    Óþarfi að setja Lög ef ekki á að nota.
    Þegar löggjafanum sleppir verður að taka við réttlætiskennd og skynsemi.

  • Réttlæti Marðar Althingismanns
    Bræðurnir Jón og Gunnar eiga sameiginlegan kvalara. Reglulega mæti kvalarinn til þeirra og flengir Jón en lemur Gunnar í buff með hornaboltakylfu.
    Gunnar leitar til dómstóla, sem úrskurða að bannað sé að berja menn með hornaboltakylfu.
    Gunnar er því laus við kvalara sinn en Jón fær áfram sínar flengingingar

    Þá stígur fram Mörður nokkur og segir það ranglátt að Gunnar sé stikkfrí meðan Jón þurfi áfram að þola flengingar. Honum þykir það réttlætismál mikið að Gunnar verði einnig flengdur, svona til að gæta samræmis. Heldur en að Jón sleppi við sínar flengingar.

  • Að Þingmaður skuli láta það útúr sér að þjóðin muni borga fyrir niðurfellinguna er út í hróa hött.

    Hvernig í ósköounum dettur þér það í hug að þjóðin borgi fyrir þetta ?

    Ríkisbankarnir keyptu þessi lánasöfn á brot af verðinu vegna þess að það var von á að þetta væri hugsanlega ólöglegt og þeir hafa svigrúm til þess að afskrifa þetta.

    Hin lánafyrirtækin eru einkafyrirtæki sem fara í gjaldþrot og það eru lánveitendur þeirra sem greiða fyrir þetta en ekki almenningur.

    Hvernig væri að drullast til að tala heiðarlega og segja að ríkisstjórnin er búin að klúðra svo miklu að þið þurfið á því að halda að láta almenning borga allt sem mögulega er hægt að kreista útúr honum til þess að breiða yfir klúðrið.

    Að halda þessi fram með þeim hætti sem þú gerir er merki um forheimsku og ætti að vera bönnuð með lögum. Og að heimta að sett verði lög eða aðrar aðgerðir þvert á lög eru lögbrot. Gerðu þjóðinni greiða og segðu af þér þingmennsku þöngulhaus!

  • HAHAHA, Þetta er rétt mat BO.

    Mörður ég skora á þig að segja af þér strax !
    Nú er komið í ljós hvar þinn stuðningur liggur og hann er ekki hjá íslenskri þjóð !

    Ég skora jafnframt á alla alþingismenn að jarðtengja sig, tala við þjóðina og koma ofan úr fílabeinsturninum !

  • Hvernig með vafa í samningum skuli fara, segir í tölulið b í 36. gr. laga nr. 7/1936, samningalaga, sem hljómar svona:

    [36. gr. b. Skriflegur samningur, sem atvinnurekandi gefur neytanda kost á, skal vera á skýru og skiljanlegu máli. Komi upp vafi um merkingu samnings sem nefndur er í 1. mgr. 36. gr. a skal túlka samninginn neytandanum í hag.

  • Júlíus B. Benediktsson

    Aldrei reiknað ég með að vera sammála Merði! Þeir sem tóku erlendu lánin geta ekki ætlast til þess að greiða lágmarks vexti af höfuðstól sem er hvorki gengis- né verðtryggður og njóta þannig sérkjara umfram aðra Íslendinga sem völdu að taka verðtryggð lán. Það mun aldrei verða sátt um slíka niðurstöðu. Með þessu er ég ekki að segja að verðtrygging sé sanngjörn eða réttlát. Í framhaldi af sanngjarni niðurstöðu um uppfærslu höfuðstóls erlendra lána ætti samfélagið að krefjast leiðréttingu á verðtryggingunni. Einungis með þeim hætti er hægt að fá sanngjarna niðurstöðu. Ef þeir sem tóku erlend lán njóta sérkjara í framhaldi af dómi hæstaréttar, munum við enn á ný upplifa uppþot í samfélaginu. Og í slíku samfélagi vil ég ekki búa í!

  • Hvernig gátu menn ætlast til að menn borguðu stökkbreyttan höfuðstól? Það stóð ekki til að gera neitt í því.

  • Sigurður

    Hér er hugmynd… úr því að gengislánin eru og voru ólögleg, eru þá ekki áhrif þessara lána á verðbólgu og verðmyndun hér á landi á sama hátt ólögleg… væri ekki samkvæmt því sanngjarnt að leiðrétta verðtryggð lán miðað við það að gengistryggðu lánin hafi aldrei verið til?

  • Eiríkur Stefánsson Fáskrúðsfirði

    Mörður,þú ert ekki með mjalla að skrifa svona grein. Einnig ættir þú að vita að það liggur fyrir stjórn Samfylkingar tillaga sem flokksstjórn vísaði þangað um að útfæra tillögur um bann við verðtryggingu lána.
    Einnig er rétt að minna þig á orð Jóhönnu Sigurðardóttir á Alþingi fyrir 14. árum að banna eigi verðtryggingu lána.
    Kristinn Gunnarsson er sá maður sem þú ættir aldrei að vitna í sem læriföður. Hann og hans hugmyndir eru forneskja sem bera með sér illmennsku.
    Skoðaðu hugmyndir og skoðanir Jóns Magnússonar fyrv, alþingismanns sem hefur í áratugi varað ráðamenn við verðtryggingu lána og afleiðingarnar sem munu verða í íslensku samfélagi ef verðbólga fer af stað.
    Jón hafði 100% rétt fyrir sér.
    Þú átt þér ekki viðreisnar von Mörður nema þú biðjir fólk afsökunar.

    http://www.thjodareign.is

  • Þetta rugl er hreinlega til skammar. Á nú að fara að ljúga því að fólki að lán þeirra lendi á einhverjum öðrum en lánaranum sjálfum? Nei takk – svona kjaftæðismálflutningur er hreinlega ekki boðlegur. Fjármagnsfyrirtækin gerðu athugasemd við þessi lán í upphafi og sögðu þau ólögleg en buðu þau samt. ENGIN – EKKI SÁLA á að tapa krónu við það að fólk „græði“ á dóm hæstaréttar – NEMA AÐ SJÁLFSÖGÐU ÞEIR SEM LÁNUÐU.
    Fari þeir á hausinn þá bara „so be it“. Okkur er slétt sama.

  • Víðförull

    Vóhó!!! Yfir hundrað skammir og still counting. Gaman væri að sjá þann flaum sem berst í pósthólf þingmannsins. Nú skeit Mörður heldur betur í nytina sína og Samfylkingar 🙂

  • „Þeir sem þau tóku hagnast verulega (vonandi) miðað við að bera gengisfallið, en geta ekki vænst þess að lánin nánast falli niður – eða með öðrum orðum að að aðrir Íslendingar borgi þau, með auknum sköttum eða minni velferðarþjónustu eða skertum lífeyri.“

    Ruglið í þér Mörður. Þú ert í sama ruglinu og Vinstri Grænir. Ég tók sjálfur erl. lán og mun borga hverja einustu krónu til baka miðað við upphaflega greiðsluáætlun. Ég mun borga alla umsamda vexti. Segja að lánin falli niður er því einfaldlega rangt. Ég mun borga allt til baka með vöxtum.

  • Þú ættir að skammast þín Mörður. Þú situr í stjórn Neytendasamtakanna og þaðan heyrist hvorki hósti né stuna um þetta mikla réttlætismál neytenda. Kannski eins gott ef þetta er viðhorfið á þeim bænum. „Skuldir á að greiða“ segir þú, því annars greiðir einhver annar! Hverjir eru að geiða skuldir bankanna, útrásarvíkinganna, Bónusfeðga, Óla í Samskipum, Finns Ingólfssonar sem stal Samvinnutryggingum og svo mætti lengi telja? Af hverju byrjar þú ekki á að eltast við þá þjófa áður en þú snýrð þér að neytendum. Mig skortir orð til að lýsa vanþóknun minni á ykkar viðhorfi. Ef þú tekur þátt í því að breyta þessum samningunum eftir á með því að setja á verðtryggingu mun ég höfða persónulegt skaðabótamál á hendur þér.

  • ht bjarnason

    Þegar ég lít til baka þá er eitt sem ég skammast mín fyrir … og það er að hafa kosið Samfylkinguna.

  • Neytendasamötkin gáfu út tilkynningu í dag um að samningar skulu standa. Stjórnvöld eiga ekki að skera hættulega sakamenn á borð við þessi fyrirtæki úr snörunni heldur leyfa þeim að dingla.

    Hvað varðar þessa hugmynd þá er hún fáránleg að fara í þvi að fara af stað með að redda fyrirtækjunum. Til hvers? Eigum við þá ekki bara einfaldlega að gefa skítí þetta svokallaða „réttarríki“ ef fjárglæpamönnum og fjárglæpafyrirtækjum er reddað og skuldararnir sem svindlað er á, eru svo látnir borga brúsann fyrir þau? Og hversvegna ættu þau að fá einvherja vorkunn eftir að hafa ýtt fólki yfir brúnina í græðgi sinni svo manneskjur af holdi og blóði hafa svipt sig lífi? Hvers átti það fólk að gjalda og hvernig ætla fjárfestingarfyrirtækin og ómennin þar að bæta fyrir slíkt? Á að verðlauna þetta „fólk“ fyrir að hafa í raun myrt skuldara, með því að redda þeim með svona trixum?

    Og er ekki annars réttlátara og einfaldara að fella einfaldlega verðtrygginguna niður eða fella niður hluta skulda heimilanna frekar en að fara í björgunaraðgerðir til handa fjárfestingarfyrirtækjunum? Þau hafa fengið nóg afskrifað og reddað fyrir horn, nú er komð að almenningi og þá með alvöru aðgerðum en ekki svona aumingjalegum pökkum eins og á að bjóða upp á fimmtudaginn.

    Og hvernig væri annars að taka völdin af bönkunum og láta aðra sjá um að greiða út úr vanda skuldaranna? Þetta fyrirkomulag í dag er eins og að láta nauðgara sjá um sálfræðimeðferð fórnarlamba sinna.

  • Uni Gíslason

    Það er líklega best að Mörður biðjist afsökunar á þessum ummælum. Kristinn H. Gunnarsson er ekki á Alþingi og getur bullað ábyrgðarlaust (enda var honum sparkað úr pólitík fyrir kjánaskapinn í sér) en Mörður ætti að kyngja stolti sínu og biðja kjósendur forláts.

  • Adalsteinn

    Þú átt ekki heima á Alþingi Mörður minn, þú vissir ekki einu sinni
    að samfylkingin lofaði frjálsum handfæraveiðum.

  • Hilmar Ólafsson

    „Þegar lögfræðinni sleppir“, segirðu?

    Þú skrifar eins og við séum hérna að feta okkur inn á nýjar og áður ókannaðar brautir, þar sem haldreipi dóms og laga sleppir og við verðum að reiða okkur á innra eðli, sanngirni og réttlætistilfinningu.

    Það er bara alls ekki rétt hjá þér. Það gilda mjög skýr lög um þessi atriði. Það hefur nýfallið skýr og afdráttarlaus dómur um málið.

    Við getum því ennþá með góðri samvisku stuðst við lögfræðina, og þurfum ekki að skírskota til göfugri tilfinninga mannssins til þess að reyna að þvinga fram einhverja aðra niðurstöðu sem þér hugnast betur en gildandi lög og regla.

  • Samfylkingin er í sjálfsmorðsherferð.

    Þetta er flokkur auðróna og siðleysis sem gefur skít í alþýðuna.

    Ég kýsa þennan flokk ALDREI aftur.

  • Þar sem þú ert nýkominn á þing verður að skrifa þetta sem byrjendamistök eða að Ráðherrar séu að þreifa á fólki. Tékka á hvaða viðbrögð fengi þetta? Þú ert jú spunamaður sbr. viðbrögð ykkar við kjöri besta um daginn. Það segir manni að heiðarleikinn sem þjóðfundurinn forðum kallaði eftir fæst ekki hjá þér.

  • Kæri Mörður,

    með því að setja samskonar verðtryggingu á upprunalega gengistryggða höfuðstólinn, er ekki endilega víst að hagur skuldara batni.

    Dæmi:
    10 milljón króna gengistryggt jenaán til 30 ára frá 2006 stendur í uþb 22 milljónum. Mánaðarleg afborgun um 105.000 (ca 2% vextir)
    10 milljón króna verðtryggt lán til 30 ára frá sama tímapunkti 2006 stendur í uþb 12 milljónum. Mánaðarleg afborgun 92.000 (miðað við ca 5% vexti)

    Ef meðalverðbólga helst 4.5% (bjartýnisspá miðað við síðustu 10 ár!) þá verðr höfuðstóll verðtryggða lánsins búinn að ná höfuðstól erlenda lánsins árið 2023. AÐ ÞVÍ GEFNU AÐ ÍSLENSKA KRÓNAN STYRKIST EKKERT GAGNVART JENINU á tímabilinu. Styrkist gengið tekur þetta skemmri tíma.

    Hver verður þá afborgunin á óbreyttu gengisláni? Líklega um 95.000 krónur.
    Og afborgun á verðtryggða láninu? Líklega um 215.000 krónur.

    Með öðrum orðum þá er verið að senda lántakendur gengistryggðra lána úr öskunni í eldinn með því að þvinga þá yfir í íslensk verðtryggð lán. Jafnvel þótt vaxtakjör haldist óbreytt er ljóst að höfuðstóll lánsins mun hækka hratt í því verðbólgubáli sem stjórnvöld munu halda gangandi á Íslandi næstu áratugina eins og alla tíð.

    Hvernig væri að leyfa lántakendum að velja á milli þess að halda sínu gengistryggða láni og þess að færa sig í íslenska mynt? Ég veit um ansi marga sem mundu engu vilja breyta.

  • Ágæti Mörður

    Hefur þú kannað eða gert þér grein fyrir smasetningu þeirrar vísitölu sem lögð er til grundvallar verðtryggingu?
    Ef að þér þykir eitthvað sanngjarnt við þann útreikning skil ég vel af hverju getutuleysi þessarar stafar.Ég tel það reyndar ekki spurningu um getu heldur vilja!Þið hreinlega viljið ekki taka á vandamálinu,vonlausu lífeyriskerfi sem
    reyndar bitnar eingöngu á almennum launþegum,ríkisstarfsmenn eru jú allir
    gulltryggðir,þar með þið.
    Einnig væri brýnt að hreinsa til í bankakerfi þar sem enn sitja,að stórum hluta,
    sömu glæpamennirnir og fyrir hrun.

  • Fólk var að taka lágvaxtalán. Lán á 3% vöxtum. Lánveitendur tryggðu sig með gengistryggingu. Hún reyndist ólögmæt.

    Lánveitendur gerðu mistök. Þeir voru fagmenn. Þeir verða að bera tjón eigin mistaka.

    Lántakendur eru ekki fagmenn. Þeir tók lágvaxtalán. Þau eru ekki ólögleg. Í þessu er engin ósanngirni.

    Fagmenn gerðu mistök og bera tjónið. As simple as that.

  • Mörður, nú hættir þú þér út á hálan ís. Áður en þú mælir verðtryggingu bót og leggur til að í stað ólöglegrar gengistryggingar komi verðtrygging ættir þú að kynna þér æ háværari umræðu og röksemdarfærslu fyrir því að verðtrygging lána með þeim hætti sem tíðkast á Íslandi sé ólögleg.

    I Að öllum líkindum ólögleg þar sem slík lán eru í raun flókin afleiðuviðskipti sem hreinlega er bannað að bjóða almenningi á evrópska efnahagssvæðinu.

    II Örugglega ólögleg þar sem þau leiða örugglega til ósamningsbundinnar eignatilfærslu sem er ólögleg vegna verndar Stjórnarskrárinnar á eignaréttinum. Verðtryggingunni er ætlað að leiðrétta fyrir verðbólgu en mistekst það gersamlega í því formi sem hún er framkvæmd hér. Verðbólga er samkvæmt skilgreiningu verðhækkun á vörum og þjónustu vegna veikingar gjaldmiðilsins. Leiðrétting á henni eingöngu leiðir ekki af sér óumsamdar eignatilfærslur. En verðtryggingin leiðréttir ekki aðeins fyrir verðbólgu, hún sveiflar einnig eignum til og frá milli samningsaðila án þess að þeir hafi um það samið. þetta gerist þegar verðbreytingar eiga sér stað á vöru óháð styrk gjaldmiðilsins. Til dæmis gerist þetta þegar olía hækkar á heimsmarkaði t.d. vegna skorts eða spákaupmennsku. Þessi hækkun ratar beint inn í neysluverðsvísitöluna og þar með breytist það hlutfall sem skuldareignadinn á í veðsettu húsi og óumsamin eignatilfærsla á sér stað.

    Þingmaður ekki kalla yfir almenning fjötra sem stangast á við lög.

  • Mörður, sjaldan hef ég verið þér 100% sammála eða 100% ósammála.

    En núna ertu að vaða reykinn félagi. Þetta er þvílíkt þvaður hjá þér að maður spyr sig hvort einhver hafi nú ekki komist í tölvuna hjá þér.

    Þetta kemur ekki sanngirni neitt við. Þetta er alfarið lagalegt mál.

    Það eru búnir að falla 3 Hæstaréttadómar. Einn bannar lán í erlendri mynt með gengistryggingu. Annar bannar að fyrirtækin breyti vöxtunum á lánunum eftir á og einhliða. Og sá þriðji bannar að skipta um þá vísitölu verðtryggða eða gengistryggða á lánunum.

    Hvernig ætlarðu að breyta lánunum í verðtryggð ef að það er ólöglegt skv. Hæstaréttardómi?
    Ætlarðu að láta ríkisstjórnina baka sér og ríkinu skaðabótakröfu með gerræðislegum gjörningi og bókstaflegri eignarupptöku sem stangast á við stjórnarskrá lýðveldisins?

    Og hvað eru íslensku fyrirtækin og íslenskir bankar að tapa öðru en gengishagnaði með þessum dómi? Það er eðlilegt að þetta tapist miðað við áhættuna sem er tekin með þessum viðskiptum.

    Erlendu lánin voru ekki erlend að neinu leiti nema að því leyti að miðað var við gengi erlendra mynta við vaxtaákvarðanir. Það komu ekki neinir erlendir aðilar að þessu í meirihluta tilvika. Enginn gjaldeyrir eða neitt.

    Og þú vælir um verðtryggðu lánin. Ég er bara með svoleiðis reyndar ekkert myntkörfulán hjá mér, og það hefur hækkað um ca. 35%

    Gengistryggðu lánin hækkuðu um 150%

    35% miðað við 150% þetta er bara okurlánastarfsemi.
    Hvar var réttlætiskenndin þín á meðan staðan var þessi?

    Viðhorf þitt er ekki fallið til vinsælda vegna þess að það ber vott um fávisku og ég dirfist að segja heimsku…en með þig í huga þá held ég að þú hafir ekkert skoðað þetta…vona ég.

  • Þorgeir R Valsson

    Ef einhver brýtur lög getur hann velt hluta ábyrgðarinnar á aðra ??
    Ef ég keyri of hratt og fæ sekt, get ég sagt nei hann á að borga hlutina af sektinni af því hann var fyrir aftan mig.
    Ef ég stel djús get ég sagt þessi þarna á að borga helminginn af djúsnum.

    Þetta eru einkafyrirtæki sem brutu lög og ef þau geta ekki staðið við sitt eiga þau að fara á hausinn, en ekki velta ábyrgðini á aðra.

    Ég er sjálfur með Íslensk bara vertryggð lán og ég er á hausnum ??
    hvaða lausn er þetta fyrir íbúa þessa lands að segja að best sé að láta verðtrygginguna klára málið, fólk er og verður samt sem áður í sömu stöðu.

    Þingmenn eiga bara að þegja þunnu hljóði um þessi mál og láta reyna á hvort verður aur eða blóð.

    Einkafyrirtæki eiga að fara á hausinn ef þau hafa ekki stðið sig, “ hrunið hefur sett þau mörg á hausinn“ svo ekki gera uppá milli.

  • Haraldur J.

    Ja hérna, eitt er víst – ALDREI aftur mun ég kjósa samfylkinguna. Þú ert hins vegar búinn að sanna þig sem hinn besti talsmaður lánastofnanna.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur