Mánudagur 3.3.2014 - 08:20 - 4 ummæli

Samningssvigrúmið: Tímasetning atkvæðagreiðslunnar

Rétt sem Ólafur Stephensen segir í leiðara Fréttablaðsins: Alveg einsog stjórnarflokkarnir hafa afar takmarkaða siðræna heimild til að fleygja í ruslið skýrum kosningaloforðum sínum um þjóðaratkvæðagreiðslu hafa stjórnarandstöðuflokkarnir á þingi afar takmarkað umboð til samninga um afslátt á þessum sömu kosningaloforðum.

Þingmenn Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri-grænna og Pírata stóðu sig vel í sjálfsögðu málþófi gegn fautaskap ráðherranna – en þessi átök standa ekki á milli stjórnar og stjórnarandstöðu á alþingi, enda væri slagurinn þá fyrir löngu tapaður, heldur á milli forustu Framsóknarsjálfstæðisflokksins og um 80 prósenta þjóðarinnar.

VG-tillagan um „formlegt hlé“ og þjóðaratkvæðagreiðslu „á kjörtímabilinu“ (sem svo væri hægt að skilgreina sem teygjanlegt hugtak) – hún var kannski í þolanlegu lagi á þriðjudaginn í síðustu viku.

Nú er staðan önnur. Mér sýnist að leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafi sirka það svigrúm að geta samið um tímasetningu þjóðaratkvæðagreiðslunnar, hvort hún verði haldin í haust*)  eða vorið 2015.

Þetta þarf svo að festa niður með lögum sem forseti Íslands skrifar undir og tekur þannig þátt í að framkvæma þjóðarviljann.

 

*) Þingmeirihlutinn neitaði í síðustu viku að taka á dagskrá tillögu Pírata um atkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningunum í vor. Þar með er komið fram yfir tímamörk laga um atkvæðagreiðslu á skaplegum tíma fyrir sumarfrí.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.2.2014 - 08:47 - 10 ummæli

Ef-afsökun

Þegar maður biðst afsökunar þá biðst maður afsökunar í alvöru — og lætur það annars eiga sig. Í afsökunarbeiðninni felst ekki endilega nein sérstök viðurkenning á mannkostum þess sem afsökunar er beðinn heldur fyrst og fremst að maður hafi sjálfur farið yfir strikið þannig að bitni ósæmilega á öðrum.

Ef-afsökun er engin afsökun. Ef-afsökun er í rauninni athugasemd um að sá sem beðinn er afsökunar sé hálfgerður kjáni, viðkvæmnisgrey sem sá sem afsakar sig vill ekki sparka meira í, eða getur ekki sparkað meira í.

Afsökunarbeiðni Gunnars Braga í gærkvöldi var dæmigerð ef-afsökun. Hann sakaði Steingrím J. um að hafa logið að þinginu, og neyddist svo til að biðjast afsökunar:

Virðulegur forseti. Mér þykir miður ef ég hef vegið nærri þingmanninum, háttvirtum Steingrími J. Sigfússyni, og bið hann afsökunar á því.

Þ.e.a.s.:

1. Hann laug.

2. Hann vildi ekki viðurkenna það þegar ég sagði það.

3. Ég hef rétt fyrir mér en núna er hann farinn að grenja og stóru strákarnir ætla að fara að lemja mig. 4. Best að biðjast ef-afsökunar.

Mikið tekið þessi misserin.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.2.2014 - 16:13 - 18 ummæli

Alein með Sigmundi Davíð

Hélt það kæmu ekki svona margir á Austurvöll – þótt undirtektir á Netinu væru góðar og stöðugur straumur á undirskriftarlistana. Kemur líka á óvart hvað fólk er einhvernveginn mjög óánægt með þessa and-Evrópu-ályktun. Einhver pólitísk skil liggja í loftinu, einhver mælir fullur gagnvart mönnunum í ríkisstjórninni.

Veit ekkert hvernig á að meta þetta í prósentum eða fylgi. Sjálfsagt klofna engir flokkar, og víst er meirihlutinn á þingi mikill meirihluti. Það er samt undarlegt af stjórnvitringum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins að búa akkúrat núna til þessa grimmu víglínu milli Evrópusinna og Nei-fólksins, og láta hana falla ofan í afstöðu manna með og móti ríkisstjórninni. Kannski eitthvað sem maður sér ekki? Kannski bara til að láta liðið vita Hverjir Stjórna?

Ef til vill kemur þeim á óvart hvað þetta nær djúpt – hvað fjöldamörgum finnst einsog Þorsteini Pálssyni að það hafi brostið stengur. Kannski hefur aðildarumsóknin og viðræðurnar verið í senn einskonar öryggistrygging og framtíðarsýn. Ísland er umsóknarland og hluti af Evrópu, þótt viðræðurnar séu í hléi, Ísland er á leiðinni áfram þrátt fyrir Heimssýn og Morgunblaðið og LÍÚ.

Í staðinn er einsog runninn upp Groundhog Day. Og við á hérna á Íslandi horfum með hrelldri brá upp á næstu áratugi lokuð inni – alein í stöðugu sjónvarpsviðtali við Sigmund Davíð Gunnlaugsson.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.2.2014 - 09:31 - 5 ummæli

Afturkallið afturkallað

Þetta var auðvitað óhemjulega vanhugsað og ruddalegt hjá Sigurði Inga Jóhannssyni, að ætla sér að henda heilum lagabálki á haugana og gera að engu mikla vinnu fagmanna, embættismanna, stjórnmálamanna, starfsmanna hagsmunasamtaka og ólaunaðra áhugamanna með því að nema úr gildi náttúruverndarlögin nr. 60/2103 – afturkall hét það í fréttatilkynningunni einsog svona nokkuð færi fram í morgunkaffinu hjá ráðherranum á skrifstofunni – þetta gat einhvernveginn ekki gerst. Fagnaðarlæti hjá andstæðingum ýmissa parta frumvarpsins báru líka merki um þetta – einsog framkvæmd á sviði eftir pöntun þrátt fyrir aulahroll. Svona á nútímasamfélag bara ekki að virka!

Þetta dregur hinsvegar ekki úr heiðri þingmanna meiri- og minnihluta umhverfis- og samgöngunefndar nú þegar þeir hafa afstýrt þessu slysi. Takk Katrín Júlíusdóttir og Jakobsdóttir, Róbert Marshall og Birgitta Jónsdóttir fyrir góðan og skynsamlegan málatilbúnað. Takk Haraldur Einarsson, Birgir Ármannsson, Brynjar Níelsson og Vilhjálmur Árnason, sem voru í þeirri erfiðu stöðu að láta afturkallsákvörðun flokka sinna víkja, og takk Höskuldur Þórhallsson nefndarformaður fyrir víðsýni og hugrekki. Spái því reyndar að Höskuldur vaxi við þetta sem stjórnmálamaður. Auðvitað taka menn eftir því um samfélagið þegar allt í einu kemur í ljós að í Nýjuframsókn er maður sem getur tekið þátt í rökræðum og leitt mál í sátt til hafnar.

Það er auðvitað ekki bitið úr nálinni. Lögin taka fyrst gildi þarnæsta sumar og þó eru í þeim svo margar umbætur sem hefðu þurft að komast strax í gagnið – sjáiði bara hvernig við erum að arðræna og níða niður alla fallegu ferðamannastaðina. Bót í máli að þótt lögin séu ekki komin í gildi fara þau strax að hafa áhrif á hegðun og atferli. Það á vonandi við um utanvegaakstursákvæðin, ef Landmælingar fá að halda áfram sinni vinnu í samstarfi við sveitarfélögin, náttúruverndar- og útivistarmenn.

Ágreiningurinn gufar upp

Utanvegaakstursmálin reyndust nefnilega vera í góðu lagi samkvæmt nefndarálitinu, þar sem mestallur hinn gríðarlegi ágreiningur er gufaður upp og aðeins eftir nokkur atriði að líta betur á. Þar skipta mestu annarsvegar ákvæðin um „sérstaka vernd“ og hinsvegar meðferð varúðarreglunnar. Vonandi að þokkalega fari um hina sérstöku vernd einstakra náttúrufyrirbæra – eldhrauna, fossa, votlendissvæða o.s.frv.. Þessi ákvæði eru nánast óvirk í gildandi lögum og umhverfisnefndin tekur nú þá afstöðu að þau verði að bíta í nýju lögunum þótt þau séu hreyfð eitthvað til. Um varúðarregluna virðist meirihluti nefndarinnar að meðtöldum Róberti Marshall hafa lent út í móa samkvæmt nefndarálitinu þar sem gert er ráð fyrir að stjórnvöld geti notað markmiðs- og túlkunarreglu til að taka „ólögmætar“ ákvarðanir um „mismunun“ þvert á önnur lög og dómstóla! Kannski þurftu meirihlutamenn bara að fá eitthvað til að sýna félögunum að þeir hafi ekki bara lúffað? En það hefði þá mátt skrifa af aðeins meira viti. Þetta skiptir samt litlu máli ef nú tekur við alvöru-vinna um þessi nokkur atriði sem út af standa.

Sigrar, ekki píslarvætti

Það er rétt að kalla þetta varnarsigur, en það er sigur samt að hafa komið nýju náttúruverndarlögunum úr þessum stórsjó. Tíminn vinnur með málstað náttúruverndar og þegar litið er yfir síðustu áratugi eru sigrarnir margir. Þrátt fyrir hvað það er lítill tími og sama hvað hann líður hægt – eiga náttúruverndarmenn og umhverfissinnar ekki að líta á sig sem píslarvotta, heldur sigurvegara.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.2.2014 - 11:56 - 35 ummæli

Evrópuskýrsla og undanþágurugl

Evrópuskýrslan hans Gunnars Braga er enn ekki orðin opinber fyrir almenning en auðvitað eru strax hafnir hinir skipulegu lekar – gott hjá ykkur, Sigurður Már Jónsson og Björn Ingi Hrafnsson!

Ein stórfréttin úr skýrslunni er sú að ENGAR UNDANÞÁGUR séu hugsanlegar fyrir ný aðildarríki í Evrópusambandinu.

Þetta er bara ekki alveg splunkuný frétt – og hefur verið ljós frá upphafi Evrópusamvinnunnar á sjötta áratug síðustu aldar. Klúbburinn hefur grundvallarreglur og á þeim eru ekki gefnar undanþágur. Fjórfrelsið er til dæmis ein af þeim grundvallarreglum.

Á hinn bóginn er hvert nýtt aðildarríki einstætt og hefur hvert um sig sérstaka stöðu á ýmsum sviðum sem venjan er að taka tillit til í aðildarviðræðum. Hingað til hafa 22 ríki samið við Evrópusambandið um viðurkenningu slíkrar sérstöðu. Dæmi sem við þekkjum vel eru Danir um fasteignakaup, Finnar og Svíar um ríkisstyrki til heimskautalandbúnaðar, Maltverjar um sjávarútvegssvæði.

Undanþágur eru útilokaðar. Rétt hjá skýrslugerðarmönnum. Sérstök skipan á ákveðnum sviðum í takti við sérstaka stöðu einstakra aðildarríka – það er eiginlega orðin ein af þeim grundvallarreglum sem ekki á sér neinar undantekningar.

Það er alveg nóg til að deila um í Evrópumálunum. Sleppum keisarans skeggi.

Miðvikudag: Og hér hefur Jón Sigurðsson safnað saman sérlausnum í góðum pistli.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.2.2014 - 08:45 - 5 ummæli

Hinn daglegi geðþótti

Gaman að Mogganum. Í gær hélt hann því fram í leiðara að lekinn í innanríkisráðuneytinu væri algerlega sjálfsögð þjónusta við almenning – til þess að allir vissu hverskonar „pappírar“ ætluðu að „ganga í eina sæng“ með sjálfri íslensku þjóðinni.

Í dag finna Staksteinar út að matvælaráðherrann hafi bara verið að sussa á eyðublaðaútfyllingarfíkla í opinberum stofnunum þegar hann leyfði hvalamjölsbjórinn. Ráðherra megi almennt gera það sem honum sýnist ef honum sýnist rétt að gera það sem honum sýnist. Og í bjórmálinu hafi geðþóttaákvörðun ráðherrans verið ívilnandi en ekki íþyngjandi. Það sé aðalatriðið.

Ívilnandi fyrir hvern?

Ívilnandi auðvitað fyrir blessaða kallana í Borgarnesi sem settu mjölið á markað án þess að hafa fyrir því að tékka á að innihaldið væri í samræmi við grundvallarreglur um matvöruframleiðslu á Íslandi. Ívilnandi fyrir fyrirtækið Hval hf. sem reiddi fram fimm ára gamalt mjöl af óljósum uppruna til að vera með í PR-fiffi.

Íþyngjandi fyrir hvern?

Íþyngjandi fyrir íslenska neytendur sem halda að þeir njóti lágmarksörygggis þegar þeir kaupa inn – jafnvel bjór – vegna þess að við borgum hluta af skattinum okkar til þess að fagstofnanir á borð við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna og Matvælastofnunin vinni vinnuna sína.

Umfram þetta er svo ekki vogandi að vera ósammála ritstjóra Morgunblaðsins um ívilnandi geðþótta og íþyngjandi geðþótta.

Flokkar: Menning og listir

Mánudagur 10.2.2014 - 17:14 - 12 ummæli

Þarmainnihald án starfsleyfis

Hvalur hf. hefur ekki starfsleyfi til að framleiða hvalamjöl til manneldis, og Hvalur hf. hefur ekkert starfsleyfi til að framleiða kryddvöru – ef einhver skyldi vilja líta á hvalmjölið í hinum svokallaða hvalabjór sem krydd.

Þetta er meginniðurstaðan í svari atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar við fyrirspurn sem ég gerði honum af skömmum mínum um hvalabjórinn. Merkilegt: Þessar staðreyndir koma eiginlega ekki fram í svarinu sjálfu heldur í fylgiskjölum sem ég var svo heppinn að biðja um að látin yrðu fylgja, frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands og frá Matvælastofnun.

Allra merkilegast: Ráðherrann tók ákvörðun um að leyfa hvalamjölsþorrabjórinn eftir að hafa fengið í hendur þessar umsagnir.

Hvalabjórsmálið snýst ekki lengur um bjór eða þorra eða hvalveiðar heldur um gáleysislega geðþóttastjórnsýslu matvælaráðherrans – sem engu skeytir um lög, reglugerðir og hagsmuni neytenda þegar hægt er að komast á þjóðlegan og karlmannlegan hátt í fréttirnar – með því að framlengja almenna sölu á þarmainnihaldi hvalfiska.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.2.2014 - 09:25 - 9 ummæli

Inn í ESB eða út úr EES

Brynjar Níelsson er ekki öllu skyni skroppinn þótt hann reyni stundum talsvert á sig til að líta þannig út. Það sýnir spurning hans á laugardaginn um Evrópusambandsaðild í staðinn fyrir EES-þóf.

Yðar einlægur komst að svipaðri niðurstöðu á þinginu fyrir rúmu ári þegar upp hrönnuðust EES-mál sem jaðraði við stjórnarskrárbrot að samþykkja. Annaðhvort fara Íslendingar inn, lögum lagarammann að því samstarfi og höfum raunveruleg áhrif í þeim málum sem skipta okkur mestu —  eða ríkið segir sig úr EES, með öllum þeim hættum sem því fylgja. Núverandi staða er bæði órökrétt og óþolandi. Sjá/heyr þetta viðtal á Bylgjunni 27. desember 2012.

Fyrirsögnin er af ásettu ráði sú sama og hjá Halli Magnússyni sambloggara hér á Eyjunni. Mér sýnist vera komnir þeir tímar að Evrópumálin séu að verða mikilvægari fyrir okkur, sem einstaklinga og sem samfélag, en gömul flokkaskil.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 3.2.2014 - 11:32 - 5 ummæli

Hjálmar

Það var gaman á laugardaginn að ganga með Hjálmari Sveinssyni í um sjötíu manna hópi um hafnarsvæðið frá Arnarhól út að Sjávarklasanum á Grandagarði, gegnum menningarhöfnina, ferðahöfnina og fiskihöfnina – þarna er mikið að gerast og gríðarlegar breytingar frá því fyrir bara nokkrum árum þegar höfnin var að deyja, og sem betur fer hafa hugmyndir og áætlanir breyst verulega líka – Slippurinn á að vera áfram ef hann getur og vill hinumegin við Marínu og barinn, sjórinn verður sóttur úr Víkinni einsog alltaf í námunda við nýjan barnafans í Vesturbænum, og menningarstarf teygir sig yfir hafnarsvæðið frá heimslist í Hörpu vestur í verkstæðin á Grandagarði – og alveg út á enda í nýju Þúfuna.

Þróunin í gömlu höfninni sýnir kannski að Reykjavík sé loksins að verða stór – allavega virðist hún vera að taka ákvörðun um hvað hún ætlar að verða.

Það sést í nýja aðalskipulaginu: Yfirgefin er ameríska bílaborgin með pínulítilli háhýsamiðju og síðan hraðbrautum og flugvelli út í hundrað svefnbæi – og stefnan tekin á samfelluborg á evrópska vísu þar sem mörg smáþorp hverfast um sögulegan kjarna, gamalt og nýtt flæðir saman, atvinnustarfsemi tengd íbúðarbyggð einsog skynsamlegt er, náttúra og menningarminjar partur af lífsgæðum íbúanna, þjónusta, jafnræði og þjónusta lykilorð í mennta- og velferðarmálum.

Um þetta verður kosið í vor – og nú þegar eru upprisnir pólitíkusar sem vilja snúa þróuninni í gamla farið: Breiðari hraðbrautir, hærri háhýsi, umfangsmeiri miðborgarflugvöll, ríkt fólk í ríkum garðahverfum, fátækt fólk í blokkasamsteypum.

Umbætur og framfarir gerast ekki af sjálfu sér. Einn af höfundum og smiðum hinna nýju tíma sem ágætlega sjást í höfninni og aðalskipulaginu er einmitt sá Hjálmar Sveinsson sem gerðist leiðsögumaður okkar á laugardaginn – menningarmaður sem yfirgaf Útvarpið fyrir fjórum árum til að takast á við framtíðina í borginni, og hefur nýtt tækifæri sín á S-listanum út í æsar í góðu kompaníi við Besta.

Það væri stórslys að missa Hjálmar úr forystustörfum í Reykjavík – en út af prófkjörshavaríi er allt í einu hætta á þvílíku slysi, sem um leið slægi á aflið að baki breytingum einsog í höfninni og aðalskipulaginu. Þetta má ekki gerast. Þvert á móti eigum við núna að auka hlut Hjálmars Sveinssonar.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 2.2.2014 - 11:16 - 3 ummæli

Þrjár góðar hugmyndir

Maður verður stundum einsog soldið syfjaður af öllu þessu verðtryggingartali – þar hafa svo margir sérfræðingar svo rétt fyrir sér. Samt tvennt snjallt sem upp úr því hefur komið síðustu vikur:

Lítil en verðtryggð launahækkun  

1. Annarsvegar sú hugmynd Stefáns Ólafssonar að verðtryggja kjarasamninga með litlum launahækkunum. Launamenn sætta sig (sumir að minnsta kosti !) við að launin hækki lítið eða ekki til þess að halda niðri verðlagi og eyðileggja ekki kaupmáttinn. Þessvegna er eðlilegt að þeir fái tryggingu fyrir því að launin lækki ekki að lokum – með því að verðtryggja þau á samningstímanum. Af hverju hefur ekki orðið meiri umræða um þessa tillögu? Einmitt núna þegar Gylfi og félagar eru komnir í vitleysu með sína tilraun til hefðbundinna þjóðarsáttasamninga, við ríkisstjórn sem ekki hefur traust?

Ef ráðamenn meina eitthvað með samstöðutalinu, og ef menn ætla sér að ná árangri gegn verðbólgunni, þá er þetta upplagt.

Annaðhvort belti eða axlabönd

2. Hinsvegar spyr Páll Bergþórsson á Fasbók af hverju við tökum ekki í horn á bola í staðinn fyrir að hlaupa á undan honum − látum verðtrygginguna eiga sig af löngum lánum en skerum niður vextina:

Þeir sem taka ný verðtryggð íbúðalán hljóta að eiga heimtingu á að vextir af þeim séu ekki hærri en 2% eða svo. Bankarnir fá samt höfuðstólinn að fullu greiddan á sannvirði og eins miklar vaxtatekjur í sinn hlut að raunvirði og tíðkast víða erlendis. Sérstaka meðferð þarf á þeim lánum sem lánþegar hafa þegar fengið og eru að greiða. Það er rökréttara og sennilega hagstæðara að fara þessa leið vaxtalækkunar en að afnema verðtrygginguna, því að í stað verðtryggingar mundi lánveitandi tryggja sig með háum og breytilegum vöxtum sem erfiðara er fyrir lánþega að verjast.

Úr því menn treysta sér til að banna ákveðin lánaform á frjálsum markaði – af hverju ekki að setja lög um vexti af tilteknum lánum – hinum verðtryggðu? Sem mundi líklega koma miklu betur út fyrir lántakann – og að lokum lánveitandann líka með betri skilum?

Evra, stöðugleiki, ESB

3. Þriðja hugmyndin er svo ekki sérlega frumleg: Hvernig væri að draga úr eyðileggingarmætti verðbólgu og hávaxta með því að stöðva dýrtíðina?  – svo sem með efnahagslegum stöðugleika sem fæst með skárri gjaldmiðli og traustum tengingum við það efnahags- og menningarsvæði sem við höfum verið partur af í um það bil hálfa tólftu öld?

Veskú: Þrjú stykki efnahagsaðgerðir, fyrir skammtíma, meðaltíma og langtíma.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur