Mánudagur 18.5.2015 - 11:25 - 2 ummæli

Hrossakaup – um að bíða?

Freku kallarnir vilja setja fimm – fjögur – átta náttúrusvæði órannsökuð í orkunýtingarflokk og eyðileggja þarmeð bæði svæðin sjálf, ár og víðerni, og ekki síður leikreglurnar sem við ætluðum að búa til með rammaáætlun.

Þeir segjast mega þetta núna af því vonda vinstristjórnin hafi verið með skítuga pólitíska putta í áætluninni haustið 2012 (framsögumaður þingmálsins: Mörður Árnason). Nei og já – um það er meðal annars kafli 5 í þessum texta hér, nefndaráliti umhverfisnefndar um málið frá þeim tíma.

Svo er vitnað í hrossakaupakafla jólabókarinnar góðu eftir Össur Skarphéðinsson – en lesi menn hana nákvæmlega sést að Össur kvartar einkum yfir ónógum hrossakaupum, af því málinu var ekki beitt í slagnum um Evrópusambandsumsóknina.

Ókei – gefum okkur í umræðuskyni að þarna hafi verið hrossakaup og pólitískir puttar – hver var þá árangur af því öllu saman?

Hann var sá að ekki var tekin ákvörðun um sex svokallaða virkjanakosti á tveimur landsvæðum: Þjórsá × 3, og svo Hágöngur og Skrokkalda á hálendinu; heldur voru þeir settir í biðflokk og vísað aftur til fagmannanna í verkefnisstjórn. Þetta var gert á skýrum efnislegum forsendum, annarsvegar vegna óvissu um lax, hinsvegar vegna óvissu um áhrif á þjóðgarðshelgi.

Séu þetta kölluð hrossakaup – hvað á þá að kalla frekju stórkallanna núna?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.8.2014 - 20:36 - 7 ummæli

Vegna Hönnu Birnu

Vegna viðtalsins við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í Kastljósi í kvöld:

1. Mörður nokkur Árnason veifaði aldrei minnisblaðinu fræga úr ræðustól alþingis, heldur sagði þar afar almennt frá skjalinu sem honum barst. Hér.

2. Mörður Árnason hefur aldrei sýnt Hönnu Birnu skjalið né nokkru fólki á hennar vegum, en afhenti það góðfúslega lögreglumönnum sem önnuðust rannsókn málsins.

Það er því rangt hjá Hönnu Birnu að hún hafi verið að neita tilvist skjalsins sem Mörður fékk – megintextanum eða viðbótinni – þegar hún lýsti því yfir á alþingi að ekkert „sambærilegt gagn“ væri til í ráðuneyti sínu.

Hér er kaflinn úr þingræðu innanríkisráðherrans 27. janúar:

Ég hvet líka hv. þm. Mörð Árnason sem hefur umrætt minnisblað undir höndum, hann hefur upplýst það hér, til að upplýsa þingheim um það hvaðan hann fékk minnisblaðið, vegna þess að minnisblaðið sem hefur verið í gangi á ýmsum fjölmiðlum og hér og þar er ekki sambærilegt við nein gögn í ráðuneytinu. Ég hvet hv. þingmann endilega til þess að koma með gagnið.

Þessi einkennilega yfirlýsing Hönnu Birnu á sér einverjar aðrar skýringar en þingræður Marðar Árnasonar – og með einhverjum öðrum hætti þarf líka að skýra það að skjalið sem um er að ræða var í einhverri gerð einmitt að finna í ráðuneytinu, sem frægt er orðið, í tölvupóstgeymslum allrar yfirstjórnarinnar, þar á meðal og ekki síst ráðherrans sjálfs og aðstoðarmanna hans.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 1.6.2014 - 11:27 - 19 ummæli

89,37% vilja flugvöllinn annað!

Kosningatölurnar fela í sér miklar gleðifréttir fyrir áhugamenn um fagurt mannlíf og skynsamlegt skipulag í Reykjavíkurborg:

Eins og Framsóknarflokkurinn og samstarfsmenn hans sögðu snerust kosningarnar í borginni fyrst og fremst um skipulagsmál. Ánægjulegt er að sjá að í hópi stuðningsmanna nýja aðalskipulagsins er mikill meirihluti nýkjörinna borgarfulltrúa: 5S plús 2Æ plús 1V plús 1Þ plús 1D, gegn 2B og 3D. Tíu-fimm.

Enn athyglisverðara er það að eina framboðið sem tók eindregna afstöðu með flugvellinum í Vatnsmýri fékk aðeins 10,73% atkvæða. Þá er búið að afgreiða það mál öðru sinni í almennum íbúakosningum:

Heil 89,37% borgarbúa telja rétt að huga að öðrum stað fyrir Reykjavíkurflugvöll!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 31.5.2014 - 12:57 - 11 ummæli

Spyrja B-fulltrúa alstaðar

Í sjónvarpsumræðunum í gær staðfesti oddviti Framsóknarlistans í Reykjavík að framboð flokksins í höfuðborginni byggist á fordómum sem jaðra við kynþáttahyggju – rasisma. Einsog bent hefur verið á er flokkurinn þar með á svipuðum atkvæðamiðum og hægriöfgaflokkar í ýmsum Evrópulöndum – jafnvel þótt sögulegur grunntónn flokksstefnunnar sé í æpandi mótsögn við ,kosningatrikk’ B-listans í Reykjavík 2014.

Kosningaáróður af þessu tagi hlýtur að vekja viðbrögð. Auðvitað verður flokksformaðurinn að lokum að svara spurningum um þetta með öðru en skætingi – og aðrir forystumenn sömuleiðis, svo sem félagsmálaráðherra sem annast margháttuð málefni innflytjenda.

Athygli beinist líka að þeim sem starfa með flokki sem svona hagar sér. Það er sem betur fer ólíklegt að hugsanlegur borgarfulltrúi þessa lista komi til álita við meirihlutamyndun að kosningum loknum. Á hinn bóginn verða ýmsir sveitarstjórnarmenn af B-listum annarstaðar á landinu væntanlega í betri aðstöðu til að taka þátt í meirihluta í sínu sveitarfélagi.

Srax eftir kosningar eiga þeir sem ætla sér að semja um samstarf við B-listamenn í sveitarstjórn að fara fram á sérstaka yfirlýsingu frá þeim um afstöðu í mannréttindamálum.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.5.2014 - 10:50 - 4 ummæli

Reykjavík: Tiltölulega einfalt

Það er gjörsamlega sjálfsagt að menn  vilji vita hvað Sigmundi Davíð finnst um moskuútspilið, og alveg skiljanlegt að bollaleggjendur velti fyrir stöðu flokksformannanna í ljósi ótilkynntra kosningaúrslita. Staða Sjálfstæðisflokksins er líka merkileg gestaþraut, og athyglisvert að vita hvaða áhrif mjögauglýstir 80 milljarðar hafa á kosningaákvörðun „heimilanna“. En eiga ekki sveitarstjórnarkosningar að snúast um sveitarstjórnina?

Í Reykjavík er þetta að minnsta kosti einfalt. Meirihluti Æ og S var eðlilegt framhald af jarðskjálftunum í kosningunum fyrir fjórum árum – og er líklega bestu meirihlutinn í borginni mörg undanfarin kjörtímabil, kannski að undanskildu fyrsta tímabili Reykjavíkurlistans. Við fáránlega erfið skilyrði í miðri kreppu tókst að koma fjármálum borgarinnar á réttan kjöl og bjarga Orkuveitunni, sem núna er þar að auki orðið venjulegt almannafyrirtæki (eða hvað?). Þrátt fyrir hallærið hefur velferðarþjónusta, skólakerfi og menningarstarf færst í aukana á borgarvegum. Og samt hafa skattar ekki hækkað.

Allra mestu máli finnst mér skipta ný stefna í skipulagsmálum með aðalskipulaginu sem einmitt var að koma út á fallegri og vel unninni bók hjá Crymogeu. Þarna er loksins sagt skilið við Dallas-Texas-stefnuna sem tröllreið borgarskipulögunum um alla Evrópu upp úr 1960 og kom hér af stað skipulagslegum raðslysum sem enn er ekki lokið – samanber turninn síðasta við Skúlagötu. Borgin fái að vera borg, úthverfin þurrki framan úr sér svefnbæjarstírurnar, bíllinn verði einn samgöngukostur af mörgum, miðbærinn framlengist austur, suður og vestur með þróunarásnum … þetta geta orðið nýir tímar.

Ætli það verði ekki líka metið seinna að verðleikum – þegar menn líta yfir lýðræðisþróun og stjórnmálahefð – að á þessum miklu skapvonskutímum hefur forustufólkinu í borginn tekist að létta andrúmsloftið kringum borgarmálin með hæfilegum skammti af anarkisma og lífsgleði. Það er auðvitað helst að þakka séníinu Jóni Gnarr en líka duglegu hæfileikafólki í báðum meirihlutaflokkunum og reyndar víðar. Sóley í VG hefur vaxið af sínum störfum og innan Sjálfstæðisflokksins var fólk sem fannst skynsamlegt að nýta hæfileika sína í samvinnu en smjörklípum. Þarna hefur persóna og pólitík Dags B. Eggertssonar líka verið sentröl.

Óvenjulega hiklaust er hægt að mæla með Degi til borgarstjórastarfa. Tólf ára reynsla af störfum fyrir Reykvíkinga í ráðhúsinu, kann á rekstur borgarinnar, alvöru-jafnaðarmaður með góða jarðtengingu, hættur að tala í hlutlausum einsog stundum fyrst og segir ekki meira en þarf. Að vinna með Besta hefur líklega einmitt passað fyrir Dag og samfylkingarfólkið með honum. Þau hafa fært því samstarfi sterkan hugmyndalegan grundvöll og reynslu, en samstarfið síðan hjálpað þeim að endurnýja sig og losna við ýmisleg flokksleg þyngsl.

Fólk kýs, nú eða kýs ekki, af ýmsum ástæðum auðvitað. Sumir gegn moskum, aðrir með augun á landsmál, jafnvel flokkshagsmuni. Fyrir þá sem eru aðallega að hugsa um mannlíf og framfarir í Reykjavík er málið tiltölulega einfalt.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.5.2014 - 14:05 - 14 ummæli

Sökudólgurinn Opið drif

Samkvæmt yfirlýsingu innanríkisráðherra á vefsetri innanríkisráðuneytisins heitir sökudólgurinn í lekamálinu Opið drif.

Opnu drifi hefur nú verið sagt upp störfum hjá ráðuneytinu.

Þá er upplýst að Minnisblað er ekki það sama og Samantekt, einsog nokkrir netdvergar hafa verið svo vitlausir að halda.

Málið búið.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 4.5.2014 - 14:41 - 3 ummæli

Fyrirspurn bíður svars

Fyrir rúmum þremur mánuðum, 29. janúar, var lögð fram í þinginu fyrirspurn til innanríkisráðherra um lekamálið. Ráðherrann beið eins lengi og hann mátti, og sendi svo bréf til forseta alþingis um að nú væri ríkissaksóknari að athuga málið og það væri þessvegna ekki hægt að svara þessu á þinginu fyrren þeirri athugun lyki.

Einar K. Guðfinnsson lét þetta gott heita hjá Hönnu Birnu Kristjánsdóttir – þótt þrjár spurningar af fimm kæmu rannsókn ríkissaksóknara ekki við.

Tvær fyrstu spurningarnar voru hins vegar um það hvort sjálft minnisblaðið væri til í ráðuneytinu. Þær voru lagðar fram vegna þess að Hanna Birna fór alltaf undan í flæmingi þegar hún var spurð að þessu – vildi ekki segja frá því hvort minnisblaðið væri til. Líklega vegna þess að ef minnisblaðið er til, þá er næsta spurning: Hver skrifaði minnisblaðið og hver fékk minnisblaðið – það er að segja: Hver gat lekið minnisblaðinu? Hver ber ábyrgð á lekanum?

Nú hefur lögreglan tekið að sér að svara fyrir hönd ráðherra grundvallarspurningunni í málinu. Minnisblaðið er til. Tiltekinn skriftsofustjóri skrifaði minnisblaðið og sendi það tiltekinn dag til ráðherra, ráðuneytisstjóra, tveggja aðstoðarmanna ráðherra og þriggja lögfræðinga.

Kannski er kominn tími til að Einar K. Guðfinnsson forseti alþingis kalli eftir svari ráðherrans sjálfs? Þá vinnst að minnsta kosti það að alþingi Íslendinga þarf ekki að fara á vefsetur dónmstólanna til að lesa svör við fyrirspurnum til ráðherranna sem sitja í skjóli þess.

 

Fyrirspurnin frá 29.1. 2014:

 Fyrirspurn til innanríkisráðherra um gögn um hælisleitanda.

Frá Valgerði Bjarnadóttur og Merði Árnasyni.

1. Er til í ráðuneytinu minnisblað „varðandi Tony Omos“ og ef svo er, hverjir fengu það? Var því dreift til undirstofnana eða félagasamtaka, svo sem Útlendingastofnunar, ríkislögreglustjóra og Rauða krossins, og til lögmanna þeirra sem eru nafngreindir í minnisblaðinu?

2. Ef framangreint minnisblað er ekki til í ráðuneytinu, hvaða gögn eru þá til um mál Tony Omos í ráðuneytinu? Var þeim gögnum dreift til undirstofnana eða félagasamtaka, svo sem Útlendingastofnunar, ríkislögreglustjóra og Rauða krossins, og til lögmanna þeirra sem eru nafngreindir í minnisblaðinu?

3. Hvað var til skoðunar í rannsókn ráðuneytisins á meintum leka á umræddu minnisblaði? Hver hafði forstöðu í þeirri rannsókn? Hverjar voru niðurstöðurnar?

4. Hvað var til skoðunar í rannsókn Rekstrarfélags stjórnarráðsins á meintum leka á umræddu minnisblaði? Hverjar voru niðurstöðurnar?

5. Hefur komið til álita að óska eftir óháðri rannsókn á því hvernig persónuupplýsingar um Tony Omos og tvær nafngreindar konur komust úr trúnaðargögnum í hendur almennings?

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.4.2014 - 09:06 - 9 ummæli

Má ekki bjóða þér svolítið saffran?

Þetta um Maríu Antonettu og kökurnar er víst bara vitleysa – drottningin unga mun að vísu hafa tjáð sig eithvað óheppilega um brauðverðið í París milli þess sem hún gekk um og lék hjarðmey í nánd Versala, en hún sagði aldrei þetta um kökurnar.

Nú hefur hinn ágæti alþingismaður Sigrún Magnúsdóttir aftur á móti fundið út að á svipuðum tíma og hjarðmærin umhugsaði hveitivörumálin í Frans hafi Íslandslýður flutt inn það góða krydd saffran, sem er einhver dýrasta vara í heimi miðað við þyngd. Það hefur ekki væst um landann á þessum tímum frekar en Maríu Antonettu.

Sigrún neitar því alls ekki að móðuharðindin séu söguleg staðreynd. En vísast hafa Skaftáreldar verið blásnir upp af neikvæðum niðurrifsöflum í félaginu Vonlausa Ísland, þessu fólki sem bara getur ekki sætt sig við að samfélagið okkar er einsog samfélagið okkar er og hefur alltaf verið.

Fólk er almennt alltof neikvætt á Íslandi. Má ekki bara bjóða þér að láta barnabörnin borga skattana þína? Hárlitun á stofu? Bankabónus? Eða viltu kannski svolítið saffran?

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 5.4.2014 - 09:11 - 4 ummæli

En fá þeir malusa?

Bjarni Benediktsson vill meiri bónusa hjá bönkunum – og núna er allt í einu bent á Evrópu!

Segir einhvernveginn allt sem í bili þarf að segja um Bjarna Benediktsson og fólkið sem hann er að vinna fyrir.

Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti fyrrverandi hefur aldrei átt almennilega upp á pallborðið hjá mér. En hann kann latínu og veit að bónus er latneskt lýsingarorð sem þýðir góður. Og einhverntíma í ofurlaunaumræðu í Frans í byrjun kreppu spurði forsetinn útaf þessum bónusum í bönkunum hvort þar væru ekki örugglega líka mátulegir malusar?

En malus er latneskt lýsingarorð og þýðir vondur.

Alltaf fundist þetta nokkuð gott hjá Sarkó. Ef bankastjórar og gekkóarnir þeirra vilja fá bónus – þá þurfi þeir líka að hætta á að fá malus, að tapa sjálfir og persónulega á ævintýrum sínum með fjármuni annarra og efnahagslegt heilsufar almennings.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.3.2014 - 10:42 - 4 ummæli

Stjórnarskrá í Evrópustefnu: 0/0

Gott hjá ríkisstjórninni að búa til stefnu um Evrópu, samskiptin við Evrópusambandið og samstarfið á Efnahagssvæði Evrópu.

Erfitt tæknilegt og pólitískt vandamál í því samstarfi undanfarin ár hefur skapast við það að á sífellt fleiri sviðum gengur samstarfið nærri þeim fullveldismörkum sem stjórnarskráin setur. Í stjórnarskránni er nánast ekki gert ráð fyrir því að hægt sé að deila fullveldinu með aðild að sameiginlegum stofnunum. Og alls ekki að ríkið geti afsalað sér fullveldinu í hendur stofnunum sem það á ekki aðild að.

Alþingi hefur leyft sér að skrensa á þessum fullveldismörkum hvað eftir annað, vegna þess að tilvikin séu lítilvæg og alltaf Íslendingum í hag að vera með í fullveldisdeilingunni. Upp hafa þó komið síðustu misseri mál sem ekki hefur þótt stætt á að leysa með skrensi – af því að áreksturinn við stjórnarskrá lýðveldisins er of harkalegur.

Þetta eru mál útaf flugstarfsemi, loftslags-losunarheimildum, fjármálamörkuðum, lyfjum, skipaeftirliti, ríkisaðstoð og núna síðast vegna rannsókna yfir landamæri.*) Mismikilvæg mál en hrannast upp, og verður öll að leysa fyrr en síðar því annars er EES-samningurinn í hættu.

Með aðild að Evrópusambandinu og viðeigandi stjórnarskrárbreytingum mundi þetta leysast af sjálfu sér.

Án aðildar eykst vandinn í sífellu vegna þess að EES-samstarfið er í hraðri þróun í átt að einskonar fax-aðild að ESB án formlegra eða óformlegra áhrifa ríkjanna Íslands, Noregs og Liechtensteins. Þeir sem ekki vilja halda áfram aðildarviðræðum þurfa þessvegna að svara til um stjórnarskrárbreytingar í stefnu sinni um Evrópumál. Hvað skyldi nú segja um þetta í hinni nýju Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar?

Ég prófaði að leita að orðinu stjórnarskrá í Evrópustefnunni. Svarið var: 0/0.

Reynið sjálf, skjalið er hér.

Ef viðræðum við ESB verður slitið þarf að vera alveg klárt hvað á að gera við EES-samninginn. Úr því ekki er svarað grundvallarspurningu einsog þessari kringum ,,annmarkamálin“ er ekki von til þess að Evrópustefnan nýja sé sett fram í alvöru af hálfu ríkisstjórnarinnar almennt og utanríkisráðherrans Gunnars Braga Sveinssonar sérstaklega.

 

 

 

 

 

— — —

*) Þetta eru kölluð annmarkamál – mál sem talið er hæpið að samrýmist fullveldisákvæðum stjórnarskrárinnar. Þau eru að minnsta kosti átta – fyrir utan sjálfa þátttökuna í EES 1993 og Shengen 1999:

* Við setningu nýrra samkeppnislaga árið 2005.

* Við framsal sektarvalds til ESA vegna flugstarfsemi árið 2011.

* Við undirbúning að þátttöku í Skráningarkerfi fyrir losunarheimildir (ETS) árið 2012.

* Vegna eftirlits með fjármálamörkuðum (banka-, trygginga-, lífeyris-, verðbréfa-, og fjármálaeftirlit) árið 2012. Um er að ræða þrjár reglugerðir (ESB) nr. 1093/2010, 1094/2010 og 1095/2010 sem varða banka-, trygginga-, lífeyris-, verðbréfa-, og fjármálaeftirlit. Framsal framkvæmdarvalds, dómsvalds og löggjafarvalds.

* Vegna lyfja til barnalækninga árið 2012. Um er að ræða reglugerð (ESB) nr. 1901/2006 er varðar lyf til barnalækninga. Famsal framkvæmdarvalds og dómsvalds.

* Vegna eftirlits með skipum (væntanlegt 2014). Um er að ræða reglugerð (ESB) nr. 391/2009 er varðar eftirlit með skipum. Framsal framkvæmdarvalds og dómsvalds.

* Vegna eftirlits með ríkisaðstoð (væntanlegt 2014). Um er að ræða reglugerð (ESB) nr. 734/2013 er varðar eftirlit með ríkisaðstoð. Framsal framkvæmdarvalds og dómsvalds.

* Vegna samtaka um rannsóknir þvert á landamæri (væntanlegt 2014). Um er að ræða reglugerð (EB) 723/2009 um lagaramma Bandalagsins um samtök um evrópska rannsóknainnviði (ERIC). Framsal dómsvalds.

          Heimild: Minnisblað úr þinginu.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur