Auðvitað hlaut að koma að því að opinberir aðilar vildu skyggnast í bókhald hjá risunum á matvörumarkaði. Og bráðhentugt að gera það í kjölfarið á mikilli umræðu um svindl og svínarí, eða þannig.
Stundum held ég að verið sé að gera kaldhæðnislegt grín að okkur neytendum þegar bónus er krónu ódýrari en krónan í hverjum vöruflokknum á fætur öðrum.
Stíft verðlagseftirlit þessara aðila á hvor öðrum hljómaði fyrst vel í mínum eyrum. Ekki lengur. Nú sýnist mér þetta fremur vera notað til þess að geta verið með nógu hátt verð en lágt. Þó krónu ódýrara! Hver græðir á þessari vitleysu? Ekki neytandinn því algerlega er vonlaust að fylgjast með því hvar er ódýrast að versla. Verðið breytist ótt og títt. það ætti að vera ólöglegt.
Guðmundur Marteinsson birtist okkur ítrekað og segir okkur að bónus hiki ekki við að lækka verðið niður fyrir innkaupsverð til þess að geta verið ódýrastir. Bíðum aðeins hér. Er þetta eðlilegt? Þjónar þetta langtímahagsmunum neytenda? Eða kannski skammtíma hagsmunum eigenda Haga eingöngu?
Er eðlilegt að langstærsti aðilinn á matvörumarkaði og sá sem hefur yfirburðastöðu segi okkur það að hann hyggist með því að misbeita aðstöðu sinni svona losa sig við hvaða samkeppni sem er? Var ekki verið að refsa flugfélagi fyrir að reyna svona kúnstir?
Við neytendur viljum samkeppni en eigendur Haga alls ekki. Það er mergur málsins. Og þeir segja okkur það hreint og beint og við erum hætt að kippa okkur upp við það!
Nú er lag, meira að segja pólítískt lag því Davíð er farinn og Ingibjörg hætt að halda varnarræður til handa þessum herramönnum í borgarnesi, að vinda ofan af þessu og stöðva einokunarverslunina hina síðari.
Gerum eins og aðrar þjóðir og komum okkur upp löggjöf sem kemur í veg fyrir að einhver geti komist í þá aðstöðu sem þessir herramenn eru í nú um stundir.
Neytendur eiga það skilið.
Röggi.
Verðlagning undir kostnaðarverði er vond fyrir langtímahagsmuni neytenda. Hún er hins vegar ekki bönnuð á Íslandi eins og sum staðar. Þar sem að það eru fáir á markaði þá er verðsamkeppni með þessum hætti. Það er ekki þar með sagt að ef það væru fleiri á markaðnum yrði verðið eitthvað hagstæðara þar sem að stærsti og mikilvægasti liðurinn í að ná niður verðum liggur hagkæmni stærðarinnar.