Sunnudagur 08.03.2020 - 19:36 - Rita ummæli

Ég veit

 

Gamla spurningin

Hvernig virkar trúin, hvernig veistu að þú ert trúaður, hvernig veistu að Jesús er leiðtoginn, hvernig finnur maður áhrifin?

Góðar spurningar. Ég spyr þeirra sjálfur og það er gott. Við eigum að skoða trúna okkar, rannsaka breytnina. Ekki til neikvæðni heldur uppbyggingar,

Við þurfum nýja byrjun, hver dagur er þannig dagur. Ég á ekkert öruggt í þessu nema það að Jesús bíður eftir mér,

Þegar við ákveðum að taka upp nýja siði þá þarf eitthvað af gömlum að víkja. Við höfum fyllt sólarhringinn af lífinu okkar og sá tími sem við gætum átt afgangs mögulega fullur ef engu, því viljum við ekki sleppa,

Jesús er plássfrekur þó prúður sé. Hann kom til að frelsa þann sem finnur sig bundinn og verkið nær ekki fram að ganga nema við tökum það tökum,

Jesús er að verða leiðtoginn í mínu lífi. Ég veit ekki hvort Hann verður það nokkurn tíma að fullu en Hann er alltaf þarna í höfðinu, heilagur andi, iðinn og sívinnandi og ég elska það, elska að díla við það, að finna hvernig ég fæ að standa andspænis mínum vilja eða Hans,

Ég mun þurfa að gefa mín plön eftir. Sum þau plön vil ég ekki gefa eftir, bara ekki, jafnvel þó mér hljóti að vera ljóst að þau eru hindrun, voru hindrun og munu verða,

Þarna er Jesús leiðtoginn minn, þarna er ég nemandi sem veit að það sem er verið að kenna mér er gott, bara gott, en næ þó ekki að tileinka mér. Hér er auðvelt að nenna þessu ekki, gefast upp, það er ekki mætingarskylda, enginn tekur eftir því hvort þú ert raunverulega að reyna,

Nema þú og Jesús

Í þeim samskiptum er allt ekta og þetta eru samskipti. Heilagur andi talar bókstaflega við okkur, hjarta við hjarta, rödd við rödd og nærveran verður þykk, augljós,

Ég veit að ég er trúaður. En hvernig ég trúi og lifi trú er annað mál. Jesús hefur ekki, getur ekki og mun ekki, losa mig við neitt það sem ég vil halda í. En meira að segja niðamyrkur eigin ákvarðana mun ekki geta gert mig viðskila við þann kærleika sem Jesús er, og á til mín,

Að vilja vera trúaður hlýtur að hafa þá merkingu að þú sért það. Að vilja er allt sem þarf, að reyna er ferðalagið og árangurshugsanir okkar eftir það skipta engu. Jesús er ekki með árangurstengdar mælingar. Hann þekkir bara fólk sem langar…og reynir,

Ég er endurtekið að reyna að koma áhrifum þess að trúa í orð, engum hefur tekist það betur en Jesú og þeim sem skrifuðu biblíuna svo besta leiðin er að lesa þá bók,

Áhrifin einstök, og hver fær sína persónulegu ferð hvað varðar smáatriði, en stóra myndin er eins og svipuð hjá okkur flestum,

Þessi dagur er líkur öðrum hjá mér. Ég geng til minna starfa, tengi mig samkvæmt venju við Jesús í bæn og samtali þar sem ég legg mig og allt það sem ég mæti í dag í Hans hendur. Alger klassi….

Það þýðir að frá þeirri stundu er Jesús útgangspunkturinn. Hvað myndi Jesús gera núna…verður, og ætti auðvitað alltaf að vera, sú spurning sem glymur í andanum. Er þetta gott fyrir mig? Er þetta það sem ég sem kristinn maður vill standa fyrir?

Heilagur andi að leiða

Tala hátt og snjallt inn í mitt líf, og þitt ef þú vilt,

Reyndar er spurningin oftar, var þetta gott fyrir þig? Þegar ég hef verið eitthvað sem ég vil ekki vera. Að fá að lifa lífi sem meðhöndlar þig svona er alger dásemd. Jesús fer á undan, hann er samsíða og Hann er með okkur eftir á,

Fullur fyrirgefningar og boðum um betri tíð með blóm í haga þegar við ætlum að reyna allt sem við kunnum til að læra og verða sterkari á svellinu okkar, næst,

Jesús er leiðtoginn þegar við viljum það, ekki bara þegar okkur tekst það

Það er nauðsynlegt að lesa orðið, af öllum ástæðum. Þar finnurðu sögur af þínu eigin lífi, þinni baráttu, sigrum og ósigrum, þar finnurðu að við erum öll eins, þar er Jesús á hverri síðu og þar ert þú líka,

Þar finnurðu veginn, sannleikann og lífið

Geta trúaðir þá verið vondir, misheppnaðir í framkomu og gerðum? Ó já, þeir geta það og eru það eins og aðrir, að ganga með Jesú gerir mig ekki heilagan í þeirri merkingu að ég verðir fullkomlega eitthvað….fullkominn,

En það gefur mér löngun og það gefur mér von um að líf mitt haldi áfram að verða betra, verða hreinna, heiðarlegra, að vitleysan mín, hver sem hún er, missi máttinn þegar fyrirheitin í biblíunni fara að verka í mér,

Ég trúi af öllum þeim mætti sem mér er unnt. Ég skil oft lítið hvernig þetta er að gerast innra með mér en finn það rosalega vel. Því verður ekki komið í orð með einföldum hætti en ég veit….

Ég veit að ef mig langar þá fæ ég, veit að ef ég reyni þá er Jesús að teygja sig móti mér,

Ég veit líka að ég þarf ekki að vera neitt annað en ég er og veit að Jesús gæti ekki verið meira sama um gallana mína, veit að Hann horfir ekki til þess þegar mér mistekst heldur gleymir og fyrirgefur,

Jesús er lifandi og ég á líf með Honum. Einstakt persónulegt líf, allskonar líf..

Ég veit

Flokkar: Bloggar

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur