Mánudagur 6.4.2020 - 14:42 - Rita ummæli

Trúarþroski

Jesús er með í för

Annað hvort erum við, þessir milljarðar sem játa trú á Hann, snarbiluð, mögulega heilaþvegin og andsetið þráhyggjufólk, eða hinn möguleikinn;

Raunverulega endurfædd til nýs lífs með upprisnum Jesú Kristi

Gildir í raun einu fyrir mig, ég hvorki get né vil snúa við, hætta við og gleyma Jesús, hverfa aftur til lífs með óljósan tilgang og engan leiðarvísi,

Einn daginn rann það upp fyrir mér að þetta líf með Jesús er heilt líf. Það tekur sinn tíma, þroskinn kemur ekki einn tveir og þrír frekar en í hinni fyrri bernsku. Hinn daginn gleymdi ég þessum sannindum auðvitað og varð óþolinmóður áður en ég varð latur, sem ég er of oft,

Og varð þá fljótlega gamli ég, engum til gagns eða skemmtunar,

Þetta munstur er enn til staðar, eða vill vera til staðar. Eðlið gefst ekki svo auðveldlega upp. Það vill fá að ráða þetta óstýriláta eðli sem er í öllum aðalatriðum óralangt frá Jesús,

Glíman er tvísýn, kraftarnir sem takast á virðast hafa samskonar afl og það er óþolandi. Alltaf óþolandi að tapa, sér í lagi þegar við höfum sigurinn í hendi okkar, erum í vinningsliðinu, vitum hvað er gott en kunnum samt að tapa,

Hann getur verið sár ósigurinn þarna af því að við vitum, vitsmunir okkar, takmarkaðir sem þeir eru í vissum tilfellum, segja okkur ótvírætt að þarna höfum við breytt gegn betri vitund og vilja. Hvers konar hegðun er það?

Af hverju sé ég ekki Jesús sem er þó alltaf með mér?

Sagan segir að ég lesi ekki nóg og biðji líka of lítið en ég þekki margar sögur af fólki sem gerði hvoru tveggja en missti samt fótanna illa. Stundum háheilagt fólk…

Stundum er ég eins og barn, smábarn sem bara ætlar ekki að læra, kann ekki að taka út þroskann. Jesús sér mig þó ekki þannig ekki frekar en ég sé mín eigin afkvæmi þannig. Framtíðinni er ekki ógnað af ósigrinum sjálfum heldur því hvernig við bregðumst við,

Við endurfæðumst hvorki meira né minna. Það var heilmikið mál að fæðast fyrra sinnið og reyna að læra mannganginn óreynd að þroska og það er ekki minna verkefni að eignast nýjan, og oft óskiljanlegan þroska, verandi fullorðin, með allan þann farangur sem lífið hefur gefið okkur,

Þess vegna erum við oft fyrir,

Þess vegna sjáum við Jesús stundum ekki þó hann sé með okkur. Þetta tekur tíma, þetta krefst þrautsegju og þarna þarf að vera traust, miklu meira traust en við höfum nokkru sinni þurft að reiða okkur á fyrr, eða gefa,

Sigrarnir, þroskasigrarnir koma í kjölfar mistaka, ósigurs. Við getum þekkt og lesið hvaðeina en við lærum helst þegar okkur verður á. Jesús breytir ósigri í sigur, aftur og aftur,

Við sjálf erum þess albúin að dæma, og dæma hart en Jesús er ekki dómari. Hann er í frelsarabusiness,

Fagnaðarerindið er sterkasta erindi allra tíma. Það hefur brotist í gegnum sterkari andstöðu en þá sem ég og þú höfum að eðli. Jesús mun ekki gefast upp á okkur. Hann þarf þess ekki, við erum einfær um að gefast upp á þessari göngu,

Ósköp er þetta neikvætt allt gætir þú sagt,

En ég er að tala um dásamlega göngu og endalausa sigra en ég segi líka söguna eins og hún er mér. Ég elska hvern dag, hvern meter á þessari göngu,

Það er ekkert mál að þykjast vera með þetta. Sá þykjustuleikur er hið ytra, leikurinn sjálfur fer fram innra með okkur, í hjartanu og þar dugar ekki að plata og ég er hreinlega ekki viss um að þar sé hægt að plata, einungis sniðganga,

Við getum valið aðra leið en hjartað vill og ég trúi þvi að ekki slái eitt einasta hjartaslag illa í nokkrum manni. Við erum öll góð og við verðum öll æði þegar við tengjumst hjarta okkar,

Við eigum aðgang að stórkostlegum kærleika. Ekki þessum klassíska heldur þeim sem er án skilyrða. Kærleikur skapara til sköpunar sinnar,

Og ekki bara það heldur kærleika til okkar sjálfra og annarra. Þetta var sett í okkur og er í okkur og ég þurfti og þarf stanslaust samband, samfélag við Jesús til þess að þetta virki til fullnustu í mínu lífi,

Mér munu ekki endast ævidagarnir svo ég megi skilja þetta almennilega enda eru þetta ávallt eins og ný tíðindi í hvert sinn sem ég verð var við þetta í mér og hjá mér,

Allt var þetta einfalt þegar ég var barn og þurfti ekki að skilja heldur trúa. Það var áður en ég gerðist fullorðinn og þroskaður einstaklingur. Þvælist þá þroskinn fyrir trúnni hlýtur að vera næsta spurning…

Held ekki en það er víst að enginn finnur trú á þann hátt einan að fatta plottið. Skilningur á fagnaðarerindinu er eilíft viðfangsefni og hefur ýmist dregið fólk að trú eða fjarlægt,

Ég held þetta gerist ekki þannig að einn daginn kvikni endanlega á trúarperunni. Trúin er ný á hverjum degi og týran í kollinum fylgir ekki eftir sjálfvirkt. Þar þarf að taka ákvarðanir og svo að hafa uppi á takkanum sem kveikir á viljanum til þess að veðja á Jesús,

Treysta Jesús sama hversu fáránlegt það getur verið stundum að leggja allt sitt á Hann þegar við sjálf virðumst hafa lausnina,

Lausnina er að finna hjá Jesús,

Ekkert minna en það. Ef ég ekki trúi því, fyrirfram, og treysti Honum svo fyrir mér þá er næsta víst, eins og skáldið sagði, að upplifun mín af Jesú sem frelsara, launsara og huggara verði sveiflukennd og ótrúverðug, eins og eðlið mitt,

Mér er fullkunnugt um þetta,

Ég hef staðreynt að Jesús er alltaf með mér

Flokkar: Bloggar

Fimmtudagur 26.3.2020 - 16:10 - Rita ummæli

Jesús á tímum covid

Óttist eigi

Þessi hugmynd er þráður í öllu sem Jesús talar. Ekkert er að óttast segir okkar maður. Óttinn er ekki í elskunni og fullkomin elska stekkur óttanum á flótta,

Ekki sérlega flókið er það nokkuð hjá þeim sem trúir, við heyrum þetta og hættum að hafa áhyggjur,

Er það ekki?

Því miður er það ekki svo og kannski þess vegna sem Jesús og aðrir höfundar biblíunnar þurfa að minna sig og okkur á að við eigum skjól. Þetta skjól er Jesús Kristur,

Þessa daga er heilmikill vandi að halda lífi sínu fyrir utan óttann. Vissulega er vá fyrir dyrum og það hefur alltaf áhrif á okkur og þennan tíma lifum við ástand sem við þekkjum ekki. Óvissa og ótti er ekki góð blanda,

Ég verð ringlaður

Óttist eigi er samt það sem Jesús segir. Hann vakir yfir, Hann þekkir staðinn sem við erum á, veit hvernig okkur líður,

Huggarinn,

Hvernig væri það ef við ættum þjóðfélag sem núna ætti bænalíf? Ef kirkjan og leiðtogar hennar væru framarlega, fremst, að tala líf og von og fullvissuna um að Jesús er þarna þó aðstæður geri okkur örðugt um vik að sjá það,

Kannski finnst einhverjum skrýtið að tala um Jesú og von núna þegar fréttir hafa eingöngu neikvætt að segja. Hvar er Jesús á svona stundum, af hverju er þessu ekki bara reddað svo við þurfum ekki að fara í gegnum storminn?

Ég hugsa ekki svona. Ég veit ekki af hverju mennirnir gera þetta eða hitt sem hefur þessar og hinar afleiðingar en ég veit að Jesús er ekki þar með í ráðum og ég man líka að þvi er lofað að ekki verði við öllu séð,

En að Jesús muni alltaf vera til staðar og þó Hann fjarlægi ekki farsóttir og hver önnur mannana böl þá getur Hann, kannski ekki fjarlægt ótta og kvíða, en Hann býður frið, einstakan frið, ekki af þessum heimi,

Líka við aðstæður þar sem engan frið virðist að hafa,

Guð blessi Ísland. Þessi ógleymanlegu orð þáverandi stjórnmálaforingja og hvar eru þeir sem nú stýra. Af hverju biðjum við ekki okkur sjálfum og landinu Guðs blessunar?

Nægt er andrýmið því mikið má maður vera utan dagskrár ef aðstæðurnar núna fá okkur ekki til þess að hugsa allan okkar gang. Tilgang hlutanna. Núna erum við neydd til þess að endurmeta, setja líf okkar í nýtt samhengi þegar utanaðkomandi vá tekur hversdaginn burt,

Og við sitjum á einhvern veg uppi með okkur sjálf og kannski, jafnvel líklega, ótta í ýmsu formi,

Fáum við heiminn kannski ekki aftur eins og hann var og var hann kannski ekki svo eftirsóknarverður?

Eitt og annað sem þýtur í gegn þessa furðulegu daga,

Við þjöppum okkur saman núna, getum ekki annað og kunnum það þegar fótum er kippt undan. Við verðum öll vinir, fjölskylda og náungakærleikurinn bæði vopn og huggun,

Þegar við skrælum utan af okkur heiminn, veraldlegan heiminn, þá sjáum við hvað?

Við eigum öll það sama, sömu verðmætin sem eru lífið sjálft og hitt skipti eftir allt engu máli, til vara, litlu….

Þetta er tíminn þar sem við megum halla okkur að Jesú, Hans sem alltaf hefur verið til staðar. Við ætlum að vera góðir borgarar og hlýða því og þeim sem hlýða ber og svo er engin hugmynd betri en að leita að trúnni, leita að Jesú sem býr innra með okkur,

Kannski er góð hugmynd að biðja eilítið eða finna nýja testamentið og lesa þar smotterí og sjá hvort þar er ekki huggun og styrk að fá. Þeir sem þar skrifa þekktu þrengingar, farsóttir og stríð og hörmungarástand af flestum sortum,

Jesús kom ekki við kjöraðstæður til þess að frelsa heiminn og kannski var jarðvegurinn frjórri fyrir trú þá hjá þeim sem ekki höfðu raðað inn í líf sitt því sem við nútímafólk höfum gert. Og er nú frá okkur tekið, um stund,

Jesús frelsar enn í dag. Hann gefur enn sama friðinn, Hann stillir sjó þó hann fjarlægi ekki allt úthafið. Núna er tíminn, þegar upplýsingaveiturnar hafa engin góð tíðindi, að leita í þann grunn sem settur er undir okkur,

Klettinn Jesú,

Sem gefur okkur tækifæri til þess að snúa sjónum okkar frá aðsteðjandi tímabundnum vanda til þess ljóss og öryggis sem trúin á Jesú Krist hefur verið og er,

Veirur koma og fara og þessi sem nú er mun gera það líka. Þá fáum við heiminn okkar aftur til afnota en hann verður á vissan og öruggan hátt allt öðruvísi. Núna vitum við að ekkert er sjálfgefið, við vissum það en þekktum það ekki og þar erum við með danskortið autt,

Hvernig dans viljum við stíga, hvað viljum við að þessir tímar kenni okkur því að þeir munu gera það, þeir munu bjóða okkur upp á nýja hugsun,

Kannski er raunverulega lífið nær en við hugðum, kannski er það þannig í raun, ekki bara í orðum, að það sem skiptir máli er ókeypis…

Jesús er aldrei nær okkur en á svona tímum,

Hann er einni bæn í burtu

Leitum Hans þessa daga

Flokkar: Bloggar

Mánudagur 16.3.2020 - 12:25 - Rita ummæli

Rökræðan

Eg elska að rökræða trúna

Best er þegar einhver rekur mig á gat og það er ekki erfitt. Ég hef ekki svörin og ekki einu sinni spurningarnar. En ég hef trú sem er orðin svo samofin mér að ég man vart hvernig lífið var fyrir Krist,

Það er ekki endilega gaman þegar einhver vill fá frá okkur svör og við eigum þau ekki til. En það er áhugavert og trúarstyrkjandi að takast á við slík verkefni. Engar spurningar eru út í hött og gott fyrir þá sem ekki trúa að vita að við sem trúum eigum líka allskonar spurningar sem okkur þykja svo út í hött að við þorum þær helst ekki að nefna,

Nýverið fékk ég klassíska og mjög góða spurningu. Af hverju deyja börn ef Guð er til og er svona góður?

Svarið mitt þannig að ég sagðist bara ekki hafa um það hugmynd en ég vissi þó að Guð hefði hvergi sagt að erfiðleikar yrði ekki hluti lífsins jafnvel þó við tækjum trú,

Langur vegur frá því að þetta svar væri nóg…..og þetta fékk mig til að velta hlutum fyrir mér,

Hversu miklu betra væri ef allir væru vopnaðir góðu gildum Guðs?

Fólk, gott fólk líka, gerir allskonar slæmt sem getur haft stórar afleiðingar fyrir marga. Það getur ekki skrifast á Guð jafnvel þó það fólk haldi á biblíunni allan tímann. Guð er bara góður og til þess að skilja svarið við þeirri spurningu af hverju heimurinn er oft ljótur þurfum við að lesa orð Guðs,

Heimurinn er ekki á valdi Guðs, um það er biblían afgerandi og sagan svo um munar. Margt sem Jesús talar um var á skjön og er enn. Hvar boðar Jesús annað en kærleika?

Að breyta heiminum til hins betra er að fleiri eignist það hugarfar sem Jesús hafði. Það er ekki átaksverkefni sem lýkur með viðhöfn einn góðan veðurdaginn heldur stöðugt verk þar sem hver og einn hefur hlutverk og tilgang,

Ég hef sagt þetta oft, enginn getur skipað fólki að verða betra, ekkert kerfi gerir það, einungis ákvörðun hvers og eins og svo aðgerðir. Að ákveða að gera Jesú að leiðtoga lífsins er þannig mál,

Hvatningin þar eru góð og hún breytir, ekki heilum heimsálfum heldur hjörtum þeirra sem þar dvelja, þar er vakningin og þar mun verkið vinnast eins og það hefur gert frá öndverðu,

Ég veit að menn heyja stríð og standa í allskonar í nafni trúar en það er kýrskýrt í mínum huga að sá Jesús sem leiðir mitt líf er mesti friðarhöfðingi sem ég hef kynnst,

Jesus lofar ekki að erfiðleikar hverskonar muni ekki verða á veginum en Hann lofar að vera með okkur þar með sinn einstaka frið og kærleika,

Jesús kom ekki til að breyta því sem ekki er bilað, Hann kom ekki inn í fullkominn heim, Hann kom ekki til fólks sem þekkti það sem Hann boðaði,

Þetta er alveg eins í dag,

Hann talaði um spillt eðlið og góða viljann sem við eigum þrátt fyrir þetta spillta eðli. Við erum sköpuð góð en getum ekki alltaf verið þannig. Hann talaði um baráttu góðs og ills og hver þekkir ekki þau átök innra með sér,

Ég er ekki að tala um illsku þó svona sé tekið til orða heldur þau átök sem verða þegar við förum gegn því sem við vitum í raun að er ekki alveg nógu gott,

Að eiga trú, eða að segjast eiga trú hefur takmarkað gildi nema það komi fram í okkur. Vissulega er vegurinn ekki beinn og breiður og enginn verður óbarinn biskup á vegferðinni og líka við sem gerum stundum slæmt getum átt stóra trú þrátt fyrir mistök og yfirsjónir,

Mistökin okkar segja ekkert um Jesú en einhverja sögu um það hvernig lífið er oft erfitt. Hverjum og einum,

Hamfarir og stríð, farsóttir og óhöpp. Er þetta það sem þinn Jesús vill?

Ekki sá Jesús sem ég trúi á,

Tilviljanir eru til, slys verða, við fáum mislangan tíma og ég ætla mér ekki þá dul að reyna að skilja, hvað þá útskýra handa öðrum, hvers vegna eða hvers vegna ekki þetta eða hitt, þessi eða hinn,

Ég hef aldrei fundið Jesú lofa því að ef, bara ef, við tryðum á Hann myndum við lifa fullkomna paradís á jörð. Enginn myndi eiga mistök, engin yrðu stríð eða óútskýrð atvk, óréttlátlega skipt milli manna,

Mér finnst Hann tala um að þá myndum við eignast aðra löngun og aðra leið til þess að berjast gegn spilltu eðlinu. Þá myndu áhrif þess dofna og við hafa sigur oftar en ósigur.
Finnst hann tala um auðmýkt, æðruleysi gagnvart lífinu sem er stundum ósanngjarnt og óskiljanlegt háum sem lágum,

Finnst Hann boða nýja hugsun, nýjan frið en ekki nýtt fullkomið líf þar sem ekkert fer afvega heldur frekar það að Hann muni vera til staðar þegar það gerist, ekki ef,

Þannig trú á ég, þannig hef ég fengið að upplifa og reyna. Kynnst trú sem umvefur mig þegar heimurinn þrengir að. Þar get ég hvílt mig hjá frelsara sem huggar, jafnvel óhuggandi fólk,

Þar finn ég heilagan anda sem gefur huganum kyrrð þegar ókyrrðin er óyfirstíganleg í furðulegum heimi,

Þar er skapari sem fyrirgefur mér þegar ég sjálfur er þessi furðulegi heimur…..

Þannig er minn Jesús

Er til betri díll?

Flokkar: Bloggar

Sunnudagur 8.3.2020 - 19:36 - Rita ummæli

Ég veit

 

Gamla spurningin

Hvernig virkar trúin, hvernig veistu að þú ert trúaður, hvernig veistu að Jesús er leiðtoginn, hvernig finnur maður áhrifin?

Góðar spurningar. Ég spyr þeirra sjálfur og það er gott. Við eigum að skoða trúna okkar, rannsaka breytnina. Ekki til neikvæðni heldur uppbyggingar,

Við þurfum nýja byrjun, hver dagur er þannig dagur. Ég á ekkert öruggt í þessu nema það að Jesús bíður eftir mér,

Þegar við ákveðum að taka upp nýja siði þá þarf eitthvað af gömlum að víkja. Við höfum fyllt sólarhringinn af lífinu okkar og sá tími sem við gætum átt afgangs mögulega fullur ef engu, því viljum við ekki sleppa,

Jesús er plássfrekur þó prúður sé. Hann kom til að frelsa þann sem finnur sig bundinn og verkið nær ekki fram að ganga nema við tökum það tökum,

Jesús er að verða leiðtoginn í mínu lífi. Ég veit ekki hvort Hann verður það nokkurn tíma að fullu en Hann er alltaf þarna í höfðinu, heilagur andi, iðinn og sívinnandi og ég elska það, elska að díla við það, að finna hvernig ég fæ að standa andspænis mínum vilja eða Hans,

Ég mun þurfa að gefa mín plön eftir. Sum þau plön vil ég ekki gefa eftir, bara ekki, jafnvel þó mér hljóti að vera ljóst að þau eru hindrun, voru hindrun og munu verða,

Þarna er Jesús leiðtoginn minn, þarna er ég nemandi sem veit að það sem er verið að kenna mér er gott, bara gott, en næ þó ekki að tileinka mér. Hér er auðvelt að nenna þessu ekki, gefast upp, það er ekki mætingarskylda, enginn tekur eftir því hvort þú ert raunverulega að reyna,

Nema þú og Jesús

Í þeim samskiptum er allt ekta og þetta eru samskipti. Heilagur andi talar bókstaflega við okkur, hjarta við hjarta, rödd við rödd og nærveran verður þykk, augljós,

Ég veit að ég er trúaður. En hvernig ég trúi og lifi trú er annað mál. Jesús hefur ekki, getur ekki og mun ekki, losa mig við neitt það sem ég vil halda í. En meira að segja niðamyrkur eigin ákvarðana mun ekki geta gert mig viðskila við þann kærleika sem Jesús er, og á til mín,

Að vilja vera trúaður hlýtur að hafa þá merkingu að þú sért það. Að vilja er allt sem þarf, að reyna er ferðalagið og árangurshugsanir okkar eftir það skipta engu. Jesús er ekki með árangurstengdar mælingar. Hann þekkir bara fólk sem langar…og reynir,

Ég er endurtekið að reyna að koma áhrifum þess að trúa í orð, engum hefur tekist það betur en Jesú og þeim sem skrifuðu biblíuna svo besta leiðin er að lesa þá bók,

Áhrifin einstök, og hver fær sína persónulegu ferð hvað varðar smáatriði, en stóra myndin er eins og svipuð hjá okkur flestum,

Þessi dagur er líkur öðrum hjá mér. Ég geng til minna starfa, tengi mig samkvæmt venju við Jesús í bæn og samtali þar sem ég legg mig og allt það sem ég mæti í dag í Hans hendur. Alger klassi….

Það þýðir að frá þeirri stundu er Jesús útgangspunkturinn. Hvað myndi Jesús gera núna…verður, og ætti auðvitað alltaf að vera, sú spurning sem glymur í andanum. Er þetta gott fyrir mig? Er þetta það sem ég sem kristinn maður vill standa fyrir?

Heilagur andi að leiða

Tala hátt og snjallt inn í mitt líf, og þitt ef þú vilt,

Reyndar er spurningin oftar, var þetta gott fyrir þig? Þegar ég hef verið eitthvað sem ég vil ekki vera. Að fá að lifa lífi sem meðhöndlar þig svona er alger dásemd. Jesús fer á undan, hann er samsíða og Hann er með okkur eftir á,

Fullur fyrirgefningar og boðum um betri tíð með blóm í haga þegar við ætlum að reyna allt sem við kunnum til að læra og verða sterkari á svellinu okkar, næst,

Jesús er leiðtoginn þegar við viljum það, ekki bara þegar okkur tekst það

Það er nauðsynlegt að lesa orðið, af öllum ástæðum. Þar finnurðu sögur af þínu eigin lífi, þinni baráttu, sigrum og ósigrum, þar finnurðu að við erum öll eins, þar er Jesús á hverri síðu og þar ert þú líka,

Þar finnurðu veginn, sannleikann og lífið

Geta trúaðir þá verið vondir, misheppnaðir í framkomu og gerðum? Ó já, þeir geta það og eru það eins og aðrir, að ganga með Jesú gerir mig ekki heilagan í þeirri merkingu að ég verðir fullkomlega eitthvað….fullkominn,

En það gefur mér löngun og það gefur mér von um að líf mitt haldi áfram að verða betra, verða hreinna, heiðarlegra, að vitleysan mín, hver sem hún er, missi máttinn þegar fyrirheitin í biblíunni fara að verka í mér,

Ég trúi af öllum þeim mætti sem mér er unnt. Ég skil oft lítið hvernig þetta er að gerast innra með mér en finn það rosalega vel. Því verður ekki komið í orð með einföldum hætti en ég veit….

Ég veit að ef mig langar þá fæ ég, veit að ef ég reyni þá er Jesús að teygja sig móti mér,

Ég veit líka að ég þarf ekki að vera neitt annað en ég er og veit að Jesús gæti ekki verið meira sama um gallana mína, veit að Hann horfir ekki til þess þegar mér mistekst heldur gleymir og fyrirgefur,

Jesús er lifandi og ég á líf með Honum. Einstakt persónulegt líf, allskonar líf..

Ég veit

Flokkar: Bloggar

Miðvikudagur 19.2.2020 - 22:11 - Rita ummæli

Má ég vera með?

Má ég vera með?

Hér spyr Jesús og spyr stórt. Hversu mikið má Jesús vera með? Þetta er ekki bara einhver spurning heldur Spurningin sem við munum glíma við hana það sem eftir er okkar dvalar hér á jörð,

Ég skal svara fyrst,

Þú mátt sannarlega vera með en bara ekki alltaf, ég vill það að vísu en næ samt ekki að hafa það þannig,

Það er frábært líf að þekkja Jesús og vilja meira, það er lífið sjálft fyrir mig og ég mun ekki snúa þaðan aftur til hins gamla lífs. Ég kíki stundum þangað yfir svona eins og þegar maður skreppur í partý til einhvers sem maður veit að er ekki endilega besti vinurinn,

Kem þó alltaf aftur heim og smátt og smátt fækkar þessum útúrdúrum. Eins og með önnur sambönd þá styrkjast þar sem við þreyjum þorrann, gefumst ekki upp heldur fyrirgefum, gleymum og ryfjum upp hvers vegna ferðin hófst,

Ég trúi því að við sem lifum með Jesús fáum endalaus tækifærin til þess að gefast upp þegar ferðin gerist alltof erfið. Kröfur kröfur kröfur,

Hefur það einhverntíma verið öðruvísi?

Meira að segja voru lærisveinarnir stundum út á þekju og var Jesús þó beinlínis með þeim, í holdinu.” Þér trúlausir…….”

Hef ég tíma, hef ég getu, er ég nógu góður, getur Jesús notað mig ófullkominn sem ég er?

Hvað kenndi Jesús okkur? Hann kenndi okkur að biðja og er bænin ekki eina leiðin og besta……Jesús, komdu inn í mitt líf, komdu inn í allt, hjálpaðu mér, notaðu mig,

Þetta er alvöru bæn, hættuleg bæn vegna þess að Jesús mun uppfylla þetta fái Hann til þess umboð og tækifæri,

Ég og þú erum þetta tækifæri, Jesús hefur ekki til annarra að leita. Ekki hina eða þessa, heldur þig og mig,

Af hverju lifir trúin? Ekki er hún borgaraleg skylda, hvergi lögboðin en á víða ofsótt og jafnvel hættuleg heilsu manna. Hvað er það sem fær fólk, kynslóð eftir kynslóð til þess að gefa trúna áfram með þeim hætti að ekkert lát verður á?

Tíminn er á hraðferð og þetta móðins í dag, annað á morgun og alltaf jafn mikið hipp og kúl að langa í eitthvað meira en þetta hversdagslega. Og enn er spurt;

Er þetta allt og sumt? Er annað ekki til en það sem við getum handfjatlað, eignast eða fjarlægt….

Auðvitað ekki, við vitum það þó við vitum það ekki, spyrjum ekki þó spurningin brenni í andanum….

Menn vilja trúa, þurfa að trúa einhverju. Það blasir við enda tilbrigðin við trú óteljandi, þörfin fyrir trú er augljós og knýjandi,

Trúin á Jesú Krist er mögnuð, mér er ljóst að ég er ekki hlutlaus, en hún er það. Með Jésu komu nýjir hlutir, bylting í mörgum skilningi, óþekkt viðmið sem hafa ekki bara haldið gildinu heldur styrkst,

Eilífðar pælingin um að ég verði að gera eitthvað svo ég uppskeri var nú úr gildi felld þegar Jesús kennir okkur, og sýnir, að Hann elskar okkur alltaf, elskar alla sem þess leita, óháð því sem við gerum, gerðum eða munum gera,

Við elskum óvini okkar, biðjum fyrir þeim og fyrirgefningin kynnt til sögunnar og þvílikt undur sem fyrirgefningin hefur verið… Hvað gæti skipti meira máli en að eiga fyrirgefninguna sem meginafstöðu?

Í dag er ég spurður…

Má ég vera með?

Svarið er fremst á tungunni en minna í breytninni en það skiptir engu. Jesús spyr aftur og svarið okkar skiptir alltaf jafn miklu máli, miklu meira máli en það hvort okkur tekst 100% vel upp,

Því nær enginn, ekki er til þess ætlast né við því búist og díllinn er bara þannig að við erum alltaf í gróða. Það sem við viljum, það sem við getum, það sem við kunnum að þiggja það mun standa okkur til boða,

Og svo er miklu meira

Við erum valin, sérvalin og einstök sköpun, með einstaka sögu og reynslu en samt öll eins í augum Jesú,

Kannski teljum við okkur ekki þurfa trú, við sem lifum í allsnægtunum, annað en þær nægtir, veraldlegar þarfir uppfylltar: Tékk

En það er meira, svo miklu meira og ég veit ekki hvernig líf mætt gæti verið án Jesú, veit það ekki og hyggst ekki komast að því,

Má ég vera með…

Hann mun spyrja mig og þig að þessu í dag…..

Flokkar: Bloggar

Fimmtudagur 13.2.2020 - 10:30 - Rita ummæli

Rífum okkur í gang

Hvernig gengur okkur?

Hvernig maður vill ég vera, hvernig maður er ég?

Vill ég vera almennilegur maður, maður sem elskar, maður sem er fyrirgefur, maður sem gleðst yfir velgengni annarra, maður sem ber raunverulega virðingu fyrir öðru fólki, lífsmynstri þess og skoðunum…

Er ég maður sem tek eigin hag umfram annarra, öfunda ég, tala ég illa um fólk, líka þá sem ég þekki ekkert, finnst mér gott og eðlilegt að vera reiður…..?

Hvurskonar maður er ég?

Þegar ég máta sjálfan mig við fagnaðarerindið, þegar ég máta mig við samfélagið, við þann heim sem ég bý við þá kemur sumt í ljós,

Fagnaðarerindið um Jesús Krist er svo mikið á skjön við það sem við erum og gerum að það skal ekki sæta neinum undrum þó oft sé erfitt að snúa við því blaði sem við höfum verið að skrifa,

Ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi.

Galatabréf 5/22

Er ég þarna….það er góð spurning og þetta eru raunhæf markmið. Stunda ég frið, er ég laugaður góðvild, langlyndur, kærleiksríkur, glaður, stunda ég hógværð en ekki raupsemi, er ég trúr í stóru eins og smáu gagnvart mér og öðrum, aga ég sjálfan mig til einhvers góðs eða bara þess sem gerir mér gott?

Af hverju ættum við ekki að spyrja okkur þessara spurninga? Af hverju ætti fagnaðarerindið ekki að vera okkur erindi hér á jörð?

Er ég í raun umburðarlyndur. Hvaða kröfur geri ég til annarra…..ætla ég að vera ég um mig gaur og ekki koma með neitt mótframlag?

Vill ég betri heim…klárlega en hvað geri ég til að bæta hann?

Ég fæ endalaus tækifæri til þess, hver einasti dagur lífsins innifelur möguleika til þess að vera það besta. Vissulega mun sami dagur líka bjóða upp á hitt, finna að og hamast með þessum hætti eða hinum að því eða þeim sem eru ekki eins og við sjálf,
Fullt af spurningum þarna og ég get sagt að mér gengur þetta misvel, sumt herfilega, annað gullfallega.

Jesús er ekki að gera kröfu um að við séum eitthvað eða að við gerum eitthvað. Við erum sköpuð góð og við eigum líf með Honum. Við þurfum að vilja, velja og tengja,

Mér reynist ekki erfitt að vita þetta allt saman og ekki heldur að tala um það og það er auðvitað byrjun, meira að segja góð byrjun. En við erum ekki það sem við segjum heldur það sem við gerum,

Ekki þar með sagt að þó okkur takist ekki alltaf sem best upp að við séum ómöguleg en mig langar samt að gera kröfur til mín, mig langar að verða góða útgáfan af mér og besta leiðin til þess að horfa á sig eins og maður er og finna svo leiðina…

Þær eru án efa margar leiðirnar en fyrir mig aðeins ein,

Ég ætla að treysta því sem sagt er, og sagan kennir, að ef ég lifi í trú muni vel fara. Að þá muni það sem Jesús boðar breyta mínum heimi og þínum,

Ég hef fengið smjörþefinn en mikið óskaplega gengur þetta hægt en það gengur samt og og þetta lifandi vatn sem orð Guðs er það rennur allt í góðu áttina í lífi þess sem á dreypir,

Hættum að hugsa stórt, hættum að reyna að breyta öðrum, hættum að dæma fólk, punktur,

Leggjum heldur upp á þá yndislegu ferð að breytast sjálf og að hafa þannig afgerandi áhrif í eigin lífi og annarra. Eignumst frið og sátt við okkur sjálf, þá munum við geta átt þannig samskipti hvert við annað,

Það er mikilvægt að við séum kærleiksrík, það á ekki að vera stórfrétt en er það nú samt. Almenna reglan ætti að vera sú að við finnum samkennd oftar, að við fyrirgefum í stað þess að dæma,

Að við verðum fólkið sem býður góðvild og mildi þegar einhver er með ruddaskap og dólg. Ég get haldið áfram lengi að týna til þau viðmið sem fagnaðarerindið býður okkur aðgang að, dásamlegu hugmyndina um fólk sem hefur ekki annað að bjóða en kærleika og virðingu í heimi sem skilur miklu frekar auga fyrir auga aðferðina gagnslausu,

Ekki er eftir neinu að bíða, þetta er dagurinn og stundin er runnin upp. Það mun enginn annar en ég og þú taka verkið sem okkur er ætlað að sér. Og við erum sérvalin, ég og þú, erum einstök, komum bara í einu eintaki og staðurinn sem við erum á ekki öðrum ætlaður,

Rífum okkur í gang, ég og þú, kristin eða ókristin og breytum þessum heimi, breytum umhverfinu okkar og eignumst þannig okkur sjálf á nýjan og frábæran hátt. Á þann hátt sem boðaður er í biblíunni og til þess sem okkur er raunverulega ætlað að vera,

Almennilegt og elskandi fólk

Alltaf

Flokkar: Bloggar

Þriðjudagur 4.2.2020 - 22:48 - Rita ummæli

Fylgdu mér

Að fylgja Jesú

Fylgdu mér er mögnuð bæn Jesú til okkar og ég hef valið það. Ég geri það á minn hátt, minn oft vanmáttuga hátt en geri það samt. Það er mitt, þar eru mín forréttindi, ábyrgð og uppskera,

Svo kemur þar að ég geri kröfur til Jesú, krefst réttlætis í samræmi við mína góðu lifnaðarhætti, séu þeir góðir! “Jesús, ég gerði þetta, af hverju lendi ég samt í þessu?”

Hverju lofaði Jesús?

Kannski því að vera með okkur. Hann ætlaði ekki að koma í staðinn fyrir okkur, ekki að taka fram fyrir hendur okkar eða ákveða nokkurn skapaðan hlut fyrir okkur. En Hann lofaði að vera alltaf með okkur,

Þannig hefur það verið,

Við erum ekki alltaf með Honum, þvi miður og betur ef svo væri því ekkert hefur Jesús illt að boða. Hvergi og aldrei,

Ég gleymi þessu auðveldlega í önn dagsins. Man ekki að ég sem kristinn einstaklingur nýt þeirra réttinda að hafa kynnst Jesús og þekki lífið  þegar ég vel að fylgja Honum,

Hann fylgir mér,

Páll postuli talar um að við mættum rannsaka trú okkar. Það er bráðholl ákvörðun en snúið að horfa í spegilinn sem segir okkur, stundum upp á smáatríði, hvernig lífi við lifum. Ef ég er í rugli eða veseni, er að mistakast góða hlutverkið þá er skýringin augljós,

Ég er ekki að fylgja Jesú

Þó fylgi ég Honum,vissulega, af öllum kröftum lífs og sálar en mun samt mistakast. Ég á ekki við hvert smáatríði, og alls ekki, heldur meginatriði og útlínur. Engum mun takast að lifa hvert atríði lífsins til fullrar hlýðni við fagnaðarerindið, Enginn

Ég hef valið að vilja fylgja Honum og það verður ekki fullkomið en það er fullkomlega nóg og það er allt sem þarf,

Allt byrjar með löngun…. Þekking er þó eitt, að langa er annað en þetta tvennt fer samt fullkomlega saman,

Í þessum efnum er heilinn næsta óþarfur. Það er löngun hjartans sem gildir, heilinn kemur síðar að verkefninu og þvi miður oft til þess að tefja og afvegaleiða,

Hugsunin stjórnar mínu lífi miklu frekar en hjartað en ég finn þó oft fyrir þessari djúpu löngun til þess að eiga meira með Jesú. Ef ég gæti fengið þá einu, og síðustu, ósk uppfyllta að eignast  fullkomlega heilt líf í trú tæki ég þvi boði,

Ef ég skipti lífinu upp í tvo flokka mætti segja að ef ég er ekki að velja Jesú þá er ég að velja eitthvað annað. Við erum alltaf að velja hugsun okkar og breytni farveg,

Hjartað þráir Jesús, það finn ég hvern dag, oft á dag, en samt, samt tekst mér að velja eitthvað annað,

Þessi ganga er svo mikil snilld

Samspil þess sem við hugsum versus það sem við gerum er stórkostlega áhugavert og þó ég tali stundum um trúna mína í neikvæðum tón þá er hún björt og tær og gleði mín. Dropinn er að hola steininn….

Ég er mest hissa á því að fólk sem á hreinu löngun og þekkir leiðina, nær samt ekki oftar markinu. Mitt hisseri í þessu kemur hins vegar ekki flatt upp á Jesú. Þetta er viðbúið, þetta er boðað og í þessu ekkert pláss fyrir nokkra fyrirdæmingu, hvorki til okkar eða annarra,

Og það er cirka svona sem ég fylgi Jésu. Trúin leiðir mig svona,

Eitthvað mun ég læra í dag. Og hvort sem ég fylgi Jésu meðvitað eða ekki þá er Hann þarna einhversstaðar, með mér og ég á minn furðulega fjarlæga hátt líka með Honum,

Lúxusdagar með Jesú, dagarnir þar sem ég finn að Hann er að verka í mér og það gerist miklu oftar í gegnum eitthvað sem gengur ekki vel. Þegar vel fer er ég líklegur þess að eigna mér heiður en eiga nöldur við almættið um það sem miður fer,

Á morgun mun ég fá hitt og þetta upp í hendurnar og það mun mæta mér á þann hátt að ég finn fyrir tveimur valkostum, hið minnsta,

Ætla ég að fylgja Jesú í öllu mínu? Eða velja eitthvað annað

Min þrá, trú og von er eindregið sú að mér takist að eignast þannig líf að Jesús komi inn í öll hólfin mín. Það er ekkert smá verkefni því ég þori varla inn í þau sum sjálfur…

Guð gefi að mér takist að fylgja Jesú í dag. Að mér takist að muna eftir Honum og lika að ég muni að Hann er alltaf með mér…..

 

Flokkar: Bloggar

Föstudagur 24.1.2020 - 13:06 - Rita ummæli

Að vera kristinn er allskonar

Hvað er að vera kristinn?

Hvernig veit ég að ég er það? Góð spurning en líka dálítið hættuleg. Er bara til ein tegund af þannig fólki og er einhver betur kristinn en annar?

Að vera kristinn er að lifa í samhljómi við Jesús, að vilja það, velja það. Hver ætlar að gefa þeirri vegferð einkun, hver gæti þóst vita hvernig næsti maður lifir og upplifir…?

Enginn er betri en annar og göngu eins ætti ekki að setja í nokkurn samanburð við göngu annars. Þar er hættan og þar verða vandræðin,

Þeir mælikvarðar sem við notum hvað þetta varðar eru gagnslausir og oft skaðlegir. Ef fólk gæti borið trúna utan á sér…

Vissulega má segja að breytnin segi til um það hvernig okkur miðar en það nær ekki langt. Við bregðumst öll margvislega og aftur og aftur jafnvel þó hjarta okkur og vilji standi til annars,

Davíð konungur var maður eftir hjarta Guðs og almáttugur hvað hann var misheppnaður. Á köflum var breytni hans ferleg en Guð sá hjarta hans og Davíð sá Guð mitt í ruglinu,

Þrátt fyrir það tókst honum oft ekki vel upp,

Markið er sett hátt, eiginlega alltof hátt ef við ætlum að vera dómhörð og kröfuhörð. Leiðsögn Guðs, lögmálið, boðorðin og svo margt sem við finnum í fagnaðarerindinu gerir kröfur. Ég fyrir mina parta fagna þar, veit þó að ég mun ekki rísa undir þeim öllum, að minnsta kosti ekki öllum í einu….

Að vera kristinn er að vera á göngu með Guði, punktur,

Á þeirri göngu er allskonar gott og miður gott en það segir ekki söguna. Sagan góða er vilji hjartans til þess að finna Guð og gera góðu gildin að sínum.

Hið góða fagra og fullkomna, ekkert meira, ekkert minna,

Heimurinn er fullur af kristnu fólki sem er ekki að “standa” sig, fólki sem gefur sig út fyrir það að elska Guð og Hans góðu tilsögn um lífsstíl og viðhorf,

Biblían, sem sumir segja leiðinlegustu bók allra tíma, kannski helst þeir sem hana hafa ekki lesið, hún undirbýr okkur fyrir það sem koma skal og það var nákvæmt og er,

Okkur mun mistakast, ekkert meira en fyrir tímann með Guði en viðmiðið er nýtt,

Og það er betra,

Fagnaðarerindið er margslungið og ég læri sífellt eitthvað nýtt um sjálfan mig og prinsippin, grunninn í boðskapnum,

Ég get ekki færst nær Guði með verkum, get ekki komist í úrvalshóp með því að standa mig af því að ég er þegar í úrvalshópnum. Guð skapaði mig eins og ég er og elskar mig eins og ég er, ekki vegna þess hvernig mér gengur heldur þrátt fyrir það,

Það mun fullreynt að ekki er hægt að lifa trú fyrir eigin vélarafli. Trúin verður til í hjartanu og er í raun löngun, endalaus vaxandi löngun til þess að verða það sem við erum sköpuð til,

Gott fólk með góðan vilja og góðar ákvarðanir,

En blessað eðlið er spillt, því miður og það reynir hver maður á sjálfum sér..

“Að vilja veitist mér auðvelt en mig skortir alla getu til góðs. 19 Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég.”

Róm 7

Hver þekkir þetta ekki? Að standa sjálfan sig að því að hafa breytt rangt, hugsa eitthvað alveg ferlegt……..þvert á það sem okkur langar að gera eða vera,

Að vera kristinn er að muna eftir Guði. Ekki endilega á þann hátt að við náum markinu alltaf, miklu fremur þegar okkur mistekst, þá og einmitt þá munum við eftir þvi að Guð er með okkur, Guð hefur betra plan og betra líf,

Og löngunin vex og okkar vilji víkur smátt og smátt, oftar og oftar, fyrir góðum vilja Guðs fyrir okkur,

Að vera kristinn er allsskonar en það er óralangt frá því að vera auðvelt, það er ekki fullkomið líf en það er lifandi líf, það er hugsandi líf og það er líf sem bíður okkur nýja valkosti við hvert fótmál,

Þess vegna elska ég mitt kristna líf, mitt allskonar kristna líf, mitt oft misheppnaða kristna líf, mitt lífsbætandi og yndislega kristna líf,

Meira í dag en í gær

Flokkar: Bloggar

Þriðjudagur 14.1.2020 - 19:38 - Rita ummæli

Leiðréttingarborðinn, áttavitinn. umferðarlögregluþjóninn….Jesús

Jesús frelsar og fyrirgefur og leysir….Hann gefur lækningu

Er hægt að ætlast til þess að þeir sem ekki trúa skilji svona tal? Er þessi Jesús maður sem hefur umboð og getu til þess að gera þetta? Og hvernig gerist svona lagað…..

Ef það er einhver huggun harmi gegn hjá þeim sem finnst þetta botnlaust rugl þá er það þannig að við sem trúum eigum líka í margháttuðu basli með að skilja þetta og meðtaka,

Að einhver, eða eitthvað, sem hvorki sést né finnst fyrir okkar veraldlegu augum hafi þau áhrif að mennskar verur lifi fyrirgefningu synda, frelsi og lausn, gleði og frið,

Þessi boðskapur á alltaf erindið en aldrei verður auðvelt að “selja” fólki dílinn,

Af þvi þetta er ótrúlegt,

Hvernig getur þetta gerst?

Mig langar að eiga þau orð um þetta sem sannfæra en held þau séu varla til en þetta er fullkomlega raunverulegt. Þegar við ákveðum að ganga með Guði þá verða þessi undur. Þegar við eignumst samfélag við Jesús þá mun það kenna okkur að elska okkur eins og Hann gerir,

Nákvæmlega eins og við erum,

Við erum andlegar verur á andlegu ferðalagi þó það sjáist að mörg okkar eru mest upptekin af hinu veraldlega ferðalagi. Vinnan, bíllinn og húsið og það allt sem er mikilvægt en þyrfti kannski ekki að koma fyrst. Fyrst og fremst þarf að rækta andlega garðinn, þá mun hitt allt blómstra,

Þegar ég missi minn trúarlega damp þá líður ekki á löngu áður en áhyggjur og málefni hins veraldlega ná tökum á hugsun minni og þar með líðan. Friðurinn sem ég á hjá Guði er einstakur og með honum áhyggjuleysi og fullvissa um að allt sé í stakasta lagi,

Að fylgja Guði gerist ekki af sjálfu sér, alveg sama hversu lengi ég hef fylgt Honum. Ef ég tengi mig ekki þá verður enginn tenging og skiptir þá engu þó ég hafi lifað eins og móðir Theresa í gær. Náðin er ný í dag og það sem tilheyrði gærdeginum tilheyrir honum að eilífu,

Þannig er það sjaldnast hjá mönnum,

Guð er leiðréttingarborði, Hann er áttaviti, umferðarlögregluþjónn, Hann ýtir við okkur þegar við erum ekki á góðri leið, þegar við erum hægt og rólega að síga úr á hlið í hnakknum, þá hlið sem mun á endanum verða til þess að við dettum af baki,

Við höfum þann hæfileka flest að geta gleymt og mögulega fyrirgefið en við kunnum líka ofurvel að gleyma engu og fyrirgefa helst ekki, en fyrir mig varð grundvallarbreyting í þessu þegar ég fann Guð,

Það gerðist strax og það er enn að gerast. Ég finn hvernig góður Guð, þegar ég hef Hann við stjórn fyllir hjartað af góðum hlutum og ég sé möguleika og birtu við kjör sem áður fylltu mig allskonar handónýtum tilfinningum og hugsun sem leiddi til hegðunar sem var ekki til nokkurs gagns,

Þetta er ekki keyrt áfram af handafli, og reyndar engu þvi afli sem við þekkjum eða skiljum,

Borðið hreinsast, allt verður nýtt með nýrri byrjun,

Vesenið er að þetta samband, sambandið við Guð þarf að iðka og rækta til þess að þetta geri sig. Guð þarf ekki á þeirri rækt að halda heldur við sjálf,

Ég trúi því að þeir sem heyra svona eða lesa hafi úr tvennskonar viðbrögðum að velja. Annað hvort er þetta þvílík dómsdagsþvæla að engu tali tekur eða þetta er forvitnilegt,

Ekkert þar á milli, eða fátt,

Því miður fæðumst við ekki með þann eindregna vilja að eiga líf með Guði, það er eitthvað sem lærist, ef það þá lærist og ég trúi þvi að lífið muni fyrr eða síðar bjóða okkur upp á þann valkost að íhuga það hvort þessi Guð er til,

Stundum í gegnum depurð, áföll og sorg, en lífið með Guði er líka, og mest, ljós, birta og gleði og friður og lausn frá þvi sem meiðir okkur og aðra.

Og það skal alltaf vera líf þegar við eignumst fyrirgefningu þarna lengst inni í okkur, þar sem hennar er mest þörf og fátt ef nokkuð nær þangað jafn örugglega og sannfærandi og Guð,

Við komum eins og börn, barnatrúin okkar var og er hin hreina trú þar sem við heyrum góðan boðskap og trúum honum án þess að spyrja frekar, og það virkar!

Þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það alltaf. Að trúa á Guð er snúið, sér í lagi ef við setjum Hann í mannsmynd og gónum til himins í von um að sjá Guð,

Guð er ekki þar. Hann er innra með, í hjartanu,

Og vinnur sitt verk þar og þar er þörfin mest og þar reynist það okkur hvað erfiðast að leysa málin sjálf og ein,

Þess vegna þarf ég Guð,

Flokkar: Bloggar

Miðvikudagur 8.1.2020 - 23:47 - Rita ummæli

Bókstafstrú

Ég er spurður hvort ég sé bókstafstrúarmaður
Í þeirri neikvæðu merkingu sem það orð hefur fengið í nútímans rás. Ég kýs að hártoga þetta allt í mínu svari enda spurningin ekki já eða nei spurning,
Auðvitað er biblían grundvöllurinn. Kristnir hafa ekki í önnur plögg að leita. Trúin á Jesú krist er ekki eins og stofnun einkahlutafélags þar sem menn með einföldum hætti breyta samþykktum,
Það er þó þannig að biblian datt ekki fullsköpuð af himnum ofan, það voru dauðlegir menn sem ákváðu hvað þar skyldi vera. Sú saga öll, sú þróun er mjög áhugaverð fyrir guðfræði dellukarl eins og mig….

Ég trúi á biblíuna vegna þess að þar er Orðið sem hefur breytt heiminum meira en nokkuð annað. Þar er vissulega ýmislegt sem ég skil ekki og annað sem ég er merkilega ósammála og ég geng út frá því að þannig muni það alltaf vera,

Þetta orð er lifandi umfram annað sem ég hef lesið. Það sem er satt í dag efasemdir á morgun. En grunnurinn er skotheldur og ekki efi í mínu hjarta að þarna er mitt líf, min von og framtíð auk nútíðar,
Menn hafa gert það að lífsstil að vera ósammála um allskonar og stofnað allt að því óteljandi kirkjudeildir. Af því má draga þá ályktun að þessi bók sé ekki venjuleg bók, heldur bók sem mætir hverjum og einum misjafnlega þó allir játi í grunninn sama hlutinn,
Jesús kristur er sannleikurinn og lífið,
Ég trúi því fyrir mína parta að hver maður hefði afspyrnugott af því að lesa þess bók. Kristnir ættu vissulega að gera það og þeir sem þekkja hana einungis af afspurn, annað hvort þeirra sem elska hana eða þola hana ekki, ættu líka að prófa sjálf…
Vegna þess að þessi bók er einstök og hana lesa tveir menn sjaldan alveg sömu augum,
Er ég bókstafstrúar…
Veit það ekki en veit að mér tekst aldrei að lifa til fulls það sem Jesús kennir, þó mig langi mjög að lifa, nánast hvern staf, en það get ég með engu móti og fyrir því gerir Jesús ráð á hverri blaðsíðu,
Ég les bókina, líka það sem mér finnst torf, líka það sem ég get ekki tengt mig við, líka það sem mér reynist næsta vonlaust að lifa og af hverju geri ég það?
Vegna þess að ég veit, ekki bara af eigin reynslu, heldur reynslu kynslóðanna, sögunnar, að þar liggur leyndardómur. Ég bara veit ekki allt þó mér líði reyndar stundum þannig fyrir misskilning,
Mikið er það samt lamandi hugsun að við séum komin með þetta, munum ekki geta bætt við eða dregið frá…
Sumu er auðveldara að trúa en öðru, auðveldara að fylgja og hvergi held ég því fram að ég sé algerlega laus undan því að handvelja hverju er hagstætt að trúa og hverju eitthvað aðeins minna, 
Jesús boðar okkur að elska óvini okkar og biðja fyrir ofsóknarmönnum. Stórglæsilegur boðskapur en hvernig hefur okkur sem gengið? Kennir líka að það sé vont að stela, að girnast, að myrða og allskonar sem okkur gengur líka misvel með en er undurfagurt í grunninn og ferlega erfitt að framkvæmd,
Ég reyni að þiggja fyrirgefninguna sem ég á þegar mér mistakist og þola mér að skilja hvorki né samþykkja Guðs orð í einu og öllu. Ber samt alla virðingu fyrir þessari bók og les hana og bið Jesús um opna augu mín þar sem þess þarf, og þau geta opnast og hjálpa mér að ganga betur fram í dag en í gær,
Hvernig sem það svo gerist,
Jesús kennir okkur ekki að vera dómhörð og Hann kom ekki til þess að dæma þó Guðs orð geti fundið okkur dæmd. Þar er Jesús ekki að dæma heldur við sjálf að eignast ný viðmið byggð á góðum gildum og hvar er sá sem ekki getur tekið gildin sem Jesús boðar að einhverju leyti eða öllu til gagns í sínu lífi?
Kannski er svarið við spurningunni það að mig langar til þess að vera bókstafstrúar, í jákvæðasta skilningi, en tekst það sjaldnast,
 36 „Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“

37 Jesús svaraði honum: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. 38 Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. 39 Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. 40 Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“
Matteus 22
Þetta er nú bókstafurinn börnin min og á þessu hvílir trúin. Svo eru allskonar hitt og þetta og þegar við lesum þessa mögnuðu bók þá mættum við muna eftir þessu fyrst og fremst,
Vegna þess að Jesús var og er bókstaflega besti kærleikssölumaður allra tíma

Flokkar: Bloggar

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur