Mánudagur 16.03.2020 - 12:25 - Rita ummæli

Rökræðan

Eg elska að rökræða trúna

Best er þegar einhver rekur mig á gat og það er ekki erfitt. Ég hef ekki svörin og ekki einu sinni spurningarnar. En ég hef trú sem er orðin svo samofin mér að ég man vart hvernig lífið var fyrir Krist,

Það er ekki endilega gaman þegar einhver vill fá frá okkur svör og við eigum þau ekki til. En það er áhugavert og trúarstyrkjandi að takast á við slík verkefni. Engar spurningar eru út í hött og gott fyrir þá sem ekki trúa að vita að við sem trúum eigum líka allskonar spurningar sem okkur þykja svo út í hött að við þorum þær helst ekki að nefna,

Nýverið fékk ég klassíska og mjög góða spurningu. Af hverju deyja börn ef Guð er til og er svona góður?

Svarið mitt þannig að ég sagðist bara ekki hafa um það hugmynd en ég vissi þó að Guð hefði hvergi sagt að erfiðleikar yrði ekki hluti lífsins jafnvel þó við tækjum trú,

Langur vegur frá því að þetta svar væri nóg…..og þetta fékk mig til að velta hlutum fyrir mér,

Hversu miklu betra væri ef allir væru vopnaðir góðu gildum Guðs?

Fólk, gott fólk líka, gerir allskonar slæmt sem getur haft stórar afleiðingar fyrir marga. Það getur ekki skrifast á Guð jafnvel þó það fólk haldi á biblíunni allan tímann. Guð er bara góður og til þess að skilja svarið við þeirri spurningu af hverju heimurinn er oft ljótur þurfum við að lesa orð Guðs,

Heimurinn er ekki á valdi Guðs, um það er biblían afgerandi og sagan svo um munar. Margt sem Jesús talar um var á skjön og er enn. Hvar boðar Jesús annað en kærleika?

Að breyta heiminum til hins betra er að fleiri eignist það hugarfar sem Jesús hafði. Það er ekki átaksverkefni sem lýkur með viðhöfn einn góðan veðurdaginn heldur stöðugt verk þar sem hver og einn hefur hlutverk og tilgang,

Ég hef sagt þetta oft, enginn getur skipað fólki að verða betra, ekkert kerfi gerir það, einungis ákvörðun hvers og eins og svo aðgerðir. Að ákveða að gera Jesú að leiðtoga lífsins er þannig mál,

Hvatningin þar eru góð og hún breytir, ekki heilum heimsálfum heldur hjörtum þeirra sem þar dvelja, þar er vakningin og þar mun verkið vinnast eins og það hefur gert frá öndverðu,

Ég veit að menn heyja stríð og standa í allskonar í nafni trúar en það er kýrskýrt í mínum huga að sá Jesús sem leiðir mitt líf er mesti friðarhöfðingi sem ég hef kynnst,

Jesus lofar ekki að erfiðleikar hverskonar muni ekki verða á veginum en Hann lofar að vera með okkur þar með sinn einstaka frið og kærleika,

Jesús kom ekki til að breyta því sem ekki er bilað, Hann kom ekki inn í fullkominn heim, Hann kom ekki til fólks sem þekkti það sem Hann boðaði,

Þetta er alveg eins í dag,

Hann talaði um spillt eðlið og góða viljann sem við eigum þrátt fyrir þetta spillta eðli. Við erum sköpuð góð en getum ekki alltaf verið þannig. Hann talaði um baráttu góðs og ills og hver þekkir ekki þau átök innra með sér,

Ég er ekki að tala um illsku þó svona sé tekið til orða heldur þau átök sem verða þegar við förum gegn því sem við vitum í raun að er ekki alveg nógu gott,

Að eiga trú, eða að segjast eiga trú hefur takmarkað gildi nema það komi fram í okkur. Vissulega er vegurinn ekki beinn og breiður og enginn verður óbarinn biskup á vegferðinni og líka við sem gerum stundum slæmt getum átt stóra trú þrátt fyrir mistök og yfirsjónir,

Mistökin okkar segja ekkert um Jesú en einhverja sögu um það hvernig lífið er oft erfitt. Hverjum og einum,

Hamfarir og stríð, farsóttir og óhöpp. Er þetta það sem þinn Jesús vill?

Ekki sá Jesús sem ég trúi á,

Tilviljanir eru til, slys verða, við fáum mislangan tíma og ég ætla mér ekki þá dul að reyna að skilja, hvað þá útskýra handa öðrum, hvers vegna eða hvers vegna ekki þetta eða hitt, þessi eða hinn,

Ég hef aldrei fundið Jesú lofa því að ef, bara ef, við tryðum á Hann myndum við lifa fullkomna paradís á jörð. Enginn myndi eiga mistök, engin yrðu stríð eða óútskýrð atvk, óréttlátlega skipt milli manna,

Mér finnst Hann tala um að þá myndum við eignast aðra löngun og aðra leið til þess að berjast gegn spilltu eðlinu. Þá myndu áhrif þess dofna og við hafa sigur oftar en ósigur.
Finnst hann tala um auðmýkt, æðruleysi gagnvart lífinu sem er stundum ósanngjarnt og óskiljanlegt háum sem lágum,

Finnst Hann boða nýja hugsun, nýjan frið en ekki nýtt fullkomið líf þar sem ekkert fer afvega heldur frekar það að Hann muni vera til staðar þegar það gerist, ekki ef,

Þannig trú á ég, þannig hef ég fengið að upplifa og reyna. Kynnst trú sem umvefur mig þegar heimurinn þrengir að. Þar get ég hvílt mig hjá frelsara sem huggar, jafnvel óhuggandi fólk,

Þar finn ég heilagan anda sem gefur huganum kyrrð þegar ókyrrðin er óyfirstíganleg í furðulegum heimi,

Þar er skapari sem fyrirgefur mér þegar ég sjálfur er þessi furðulegi heimur…..

Þannig er minn Jesús

Er til betri díll?

Flokkar: Bloggar

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur