Ég er að ég held bara ósköp venjulegur fýr. Hvorki betri eða verri en flestir. Hef einfaldar þarfir yfirleitt. Þoli ekki óréttlæti heimsins hvernig sem það birtist. Get aftur á móti rifist um hvernig best er að vinna á vandanum.
Sat fyrir framan sjónvarpið í kvöld og sá fyrir tilviljun þátt um konur í Afghanistan. Ég átti bókstaflega erfitt með að trúa eigin augum. Auðvitað er víða hægt að finna hörmuleg dæmi um afleitar aðstæður fólks af báðum kynum. En það sem þarna var grafið upp er nánast ólýsanlegt. Átti á stundum bágt með mig.
Líklega er best að reyna ekki að tengja þetta trúarbrögðum en ég berst við hugsunina. Hitt var aftur á móti út í hött og það var að reyna að klína þessu á Bush kallinn. Margt er hægt að setja á hans reikning en ekki það að talibanar, og fleiri, meðhöndla konur eins og húsdýr. Og að skepnuskapurinn er svo rótgróinn að það ætlar að taka eilífðina sjálfa að snúa við blaðinu þó þeim hafi verið komið frá völdum.
Ástandið afleitt víða í Afghanistan en ekki væri það betra með talaibana við völd. Góðir hlutir gerast stundum of hægt.
Og í þessu tilfelli alltof hægt.
Röggi.
Rita ummæli