Fimmtudagur 20.12.2007 - 22:15 - 2 ummæli

Ráðning Þorsteins.

Þá er búið að koma Þorsteini Davíðssyni fyrir i kerfinu. Og vandlætingarkórinn byrjar strax og kyrja spillingarkvæðin. Fyrst þegar ég heyrði þetta hugsaði ég um það hversu óánægður ég væri með það að minn flokkur væri að gefa höggstað á sér með svona löguðu.

Ég segi minn flokkur því ég er blár og oftast harla ánægður með það. Svo áttaði ég mig á því að engu máli skiptir hvaða stjórnmálaflokkur á í hlut. Þetta liggur í eðli hlutanna óháð því hver er við völd hverju sinni. Kratarnir þóttu allra verstir í pólitískum ráðningum á sínum tíma. Svo hættu menn að taka eftir því af praktískum ástæðum og fóru að beina sjónum að framsóknarflokknum. Mínir menn hafa lengi legið undir grun. Þeir eru alltaf í stjórn.Það er með þessi mál eins og mörg önnur, stjórnmálamenn gera illt verra. Flest sem þeir snerta spillist ef það er ekki gjörspillt fyrir.

Ráðherrar eiga ekki að vera þingmenn og hvorugur þessara hópa eiga að skipa dómara. Til hvers er verið að fá einhverja sérfræðinga utan úr bæ til þess að meta hæfi þegar hæfið er á endanum metið af ráðherra einum? Og ég spyr.

Hvers eiga þeir að gjalda sem sækja um störf og eru svo skipaðir af ráðherra þeirra flokks? Hver græðir á þessu fyrirkomulagi? Er til að mynda alveg útilokað að Þorsteinn eigi þetta skilið. Það munum við aldrei vita af því að pólitíkin þvælist hér fyrir öllu. það eru grimm örlög að vera í skugga Davíðs og njóta kannski aldrei sannmælis af þeim sökum.

Tökum þennan kaleik af þessu fólki. það er öllum fyrir bestu. Við núverandi stöðu verður ekki unað. Hér tapa allir.

Og hefjum svo vinnu við að þrískipta valdi hér því við breytum ekki mannskepnunni. Ef kerfið býður dýrategundinni uppá spillingarmöguleika er líklegra en ekki að einhver spillist.

Breytum því kerfinu.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Hans Haraldsson

    Þú vilt semsagt sérfræðinganefnd sem ber ekki ábyrgð gagnvart neinum? Sækir umboðið bara í sérfræðiþekkinguna. Spurning hvort hún ætti líka að endurnýja sjálfa sig.

  • Ég átta mig á því eins og þú að ekki er hægt að búa til fullkomlega skothelt system. En flest er betra en núverandi kerfi. það er ekki eðlilegt að fólk sem bæði er löggjafi og framkvæmdavald velji dómara. Hver hefur gefið ráðherrum umboð til þess að velja dómara?Stjórnarskráin kannski?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur