Fimmtudagur 27.12.2007 - 09:39 - Rita ummæli

Virðing og öðruvísi virðing.

Hef verið að velta því fyrir nú í dágóðann tíma af hverju góðu gæjarnir virðast ekki duga. Mjúki maðurinn er bara ekki að gera sig. Harðhausarnir þykja betri sama hvað hver segir. Um þetta höfum við fjölmörg dæmi.

Ef ég legg saman kosti og galla Davíðs Oddssonar og svo Geirs Haarde þá finnst mér það stappa nærri því að vera fullkomið dæmi um þetta. Ætla mér ekki þá dul að bera saman og gera uppá milli þegar kemur að vitsmunum þeirra tveggja. Þar er hvergi til sparað hjá almættinu og ríflega veitt í báðum tilfellum.

Auðvitað er stíll manna mismunandi og á að vera það. Engir tveir eru eins. Er nokkuð viss um það að ef þú spyrð þá vilja flestir hafa mýkri týpuna sem yfirmann að ég tali nú ekki um eiginmann. En er það ekki samt þannig að hin týpan fúnkerar betur?

Það er leitun að fólki sem treystir sér til þess að tala illa um Geir en stór fjöldi hefur ekki meira yndi af neinu en að tala herfilega um Davíð. Davíð er, og var oft, núið því um nasir að vera skapmikill og stjórnsamur. Langrækinn og ógleyminn ef honum mislíkaði ef ekki hreinlega hefnigjarn. Geðveikur sögðu þeir sem lengst gengu.

Samt var það svo að allir vildu vera með honum í plássi. Farsæll með afbrigðum. Kom ótrúlega miklu í verk og sat lengur en allir aðrir. Upphlaup fátíð og þá leyst án vandræða yfirleitt. Virðingin sem fyrir honum var borin óumdeild þó ýmsir minni spámenn hafi bæði þá og nú reynt af veikum mætti lengi vel að níða niður af þessu manni skóinn. Stundum var talað um óttablandna virðingu en mér dettur helst í hug að það sé í raun eina virðingin sem gerir sig í póltík. Sagan mun kenna okkur að enginn maður annar hafi verið sterkari en Davíð í víðasta skilningi þess orðs.

Hún er einhvernvegin öðruvísi virðingin sem borin er fyrir Geir. Hún er þarna og við vitum öll af henni. Hógvær og grandvar maður Geir. Sanngjarn umfram allt og segir ekki styggðaryrði um nokkra persónu. Farsæll á sinn yfirvegaða hátt. Heimsborgari öfugt við Davíð. Treystir á að hægt sé að koma málum fram með rökræðum og þvi að höfða til skynsemi fólks. Eins og sagt var um suma, klettur í hafi. Landsföðurslegur og uppáhlds tengdasonurinn. Nýtur virðingar engin vafi er um það.

En mér sýnist margt benda til þess samt að það dugi ekki til að njóta þeirrar virðingar sem hann nýtur. Það stafar engum ógn af honum. Gamla gengið í flokknum hikar ekki við að vaða fram opinberlega með skoðanir sem hvorki eru hans né flokks. Léttadrengir og stúlkur klúðra meirihlutanum í borginni. Engum manni dettur í hug að það hefði getað gerst undir Davíð.

Skemmtilegustu ráðherrar samfylkingar kunna ekki að vera bara ráðherrar. Sískrifandi og blaðrandi út og suður um hitt og þetta sem ýmist er ekki á dagskrá nú eða þá afdráttarlaust ekki á döfinni. Meira að segja Guðni lét sér ekki detta í hug að skipta ekki um stíl þegar hann gerðist ráðherra undir forsæti Davíðs.

Sumir tala um agaleysi og að menn óttist ekki. Ekki ósvipað og gerist í barnauppeldi. Blessuð börnin vaði uppi ef þau óttist ekki afleiðingar gjörða sinna. Hvað veit ég?

Ekki margt en grunar þó að ef fram fer sem horfir muni sá góði og gegnheili maður Geir sitja eftir með sárt enni. Af því að hann vill ekki taka á neinum og neinu. Allt skal leyst með samkomulagi skynsamra aðila sem tala sig niður á eðlilega niðustöðu. Þetta er fallegt en sennilega barnalegt.

Ég hef hér vonandi alls ekki rétt fyrir mér því stjórnmál ættu auðvitað að vera eitthvað nær Geir en Davíð. Eða hvað?

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur