Þriðjudagur 08.01.2008 - 12:18 - Rita ummæli

Björn Ingi og neikvæðnin.

Ég hef lengi haft nokkra trú á því að Björn Ingi eigi bjarta framtíð í pólitík. Finnst ekki útilokað að hann sé maðurinn sem geti snúið hlutum við í framsókn. Hann virðist reyndar hræða gamla kjarnann allverulega og það gæti tafið fyrir.

Öfugt við marga þá legg ég ekki mikinn trúnað á spillingartalið um hann. Trúi samt vel að hann sé metnaðargjarn og geti verið harðskeyttur en bendi um leið á að það eru helst þannig menn, og konur, sem komast til valda og duga. Þeir sem fyrir eru á fleti munu alltaf kvarta undan þeim sem þangað sækja.

Hann virkar einlægur á mig og brosið risastórt þó hann fari full sparlega með það nú um stundir. Talar mannamál og það er sannarlega tilbreyting. Um kjarkinn þarf ekki að fjölyrða og stöðumatið finnst mér líka yfirleitt hans styrkur.

Frá mínum bæjardyrum séð gat hann fátt annað gert en að taka mark á því sem virtist vera í pípunum hjá sexmenningunum í borginni þegar hann sleit meirihlutanum. Íllskárra að vera með þessum nýja meirihluta en úti í kuldanum. Þó er greinilegt að hann er ekki að finna sig núna enda REI málið dáið og grafið eins og við mátti búast af Svandísi og félögum.

Mér finnst augljóst að framsóknarmenn hvort heldur er á landsvísu eða í borginni eru í stanslausum eltingarleik við sjálfstæðisflokkinn, óþreytandi. Ég get verið sammála ýmsu í samsæriskenningum framsóknarmanna en velti því fyrir mér hvaða hagsmunir eru fyrir þá að tala nánast eingöngu um innanflokksmál sjálfstæðismanna.

Flestir gera sér grein fyrir því að í borginni skoruðu mínir menn sjálfsmark og að á landsvísu var ekki hægt að halda áfram samstarfinu. Samt er haldið áfram að tuða um vonsku sjálfstæðisflokksins. Og þó sýnist mér framsóknarmenn þrái það heitt og innilega að komast aftur í sömu sæng og áður. Á báðum vígstöðvum.

Framtíðargæfa framsóknar er ekki í höndum sjálfstæðisflokkssins. Nú finnst mér að þeir ættu að horfa frekar innávið þó að það sé pínu sársaukafullt núna og verði jafnvel enn erfiðara þegar fram í sækir og Björn Ingi fer að feta sig nær formannsstólnum. Þetta tal kannski þjappar mönnum eutthvað saman tímabundið en er þó skammgóður vermir. Naflaskoðunin er ekki umflúin.

Ég held að langtíma skotgrafahernaður og neikvæðni muni ekki skila sér fyrir framsókn. Miklu frekar jákvæðni og uppbyggilegur málflutingur. Engu máli skiptir hversu oft bent er á vonsku hinna. Ef þú hefur fátt annað fram að færa fá kjósendur leið og undirmeðvitundin getur ekki framkallað neitt jákvætt þegar flokkinn ber á góma.

það er nú það.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur