Föstudagur 11.01.2008 - 21:51 - Rita ummæli

Kjarkleysi Dags.

Það er ekki öllum gefið að vera leiðtogar. Menn geta vissulega endað í þeirri eftirsóknarverðu stöðu að veljast leiðtogar. Alþekkt er sú staðeynd að menn veljast fyrirliðar liða sinna án þess að hafa snefil af leiðtogahæfni eða virðingu.

Menn þurfa að hafa ákveðna eðlisþætti til þess að verða leiðtogar. Engu skiptir þótt menn fái fyrirliðaband á upphandlegg ef leiðtogahæfileikarnir eru ekki til staðar.

Leiðtogar þurfa að geta sameinað og styrkt hópinn. Tekið á málum þegar eitthvað bjátar á eða er ekki að ganga upp. Þeir þurfa að vera pepparar, ekki síst þegar á móti blæs. Þeir þora að standa uppúr og taka á erfiðum málum. Eru fyrirmyndir og alltaf sterkir karakterar. Þeir eru stöðugir og standa á sínu. Segja sína meiningu þó hún geti stungið um stundarsakir. Njóta virðingar fyrir það.

Þessi vísindi eiga ekki alltaf við í pólitík. þar gilda önnur lögmál, stundum. Allskyns sukk og makk ræður þar oft hver verður fyrirliði. Ytra byrðið skiptir þá oft meira máli en annað. Ímyndarsérfræðingar hálaunaðir gera kraftaverk. Almenningsálitið er undarlegt fyrirbrigði. Og fjölmiðlar hafa allt að segja.

Djarfir stjórnmálamenn sem þora eru á undanhaldi. Samræðupólitíkin fletur alla út. Nú segja fæstir sína meiningu. Betra að segja það sem hljómar betur og skilar meiru, í vinsældum, um stundarsakir hið minnsta.

Það er úr þessum jarðvegi sem Dagur borgarstjóri sprettur. Áferðafallegur er besta lýsingin. Ætti að hafa flest að bera til þess að vera leiðtogi. Greindur klárlega og vel menntaður.

En hann er kjarklaus. Barnalegur í trúnni um að allir geti verið ánægðir alltaf. Skiptir ótt og títt um skoðanir allt eftir því hvernig hann upplifir vindinn hverju sinni. Reynir almennt að segja það sem hann heldur að viðmælendur hans vilji heyra.

Húsafriðunarmálið er klassískt dæmi um þetta. Litli háværi hópurinn sem náði að fanga athygli fjölmiðla var óþægilegur. Þá var öll sannfæring á bak og burt. Allir samningar og sanngirni gagnvart eigendum léttvæg fundin. Pólitískur rolugangur í sinni skýrustu mynd. Og hann mun kosta skattborgara hundruðir milljóna ef menntamálaráðherra tekur ekki að sér að sýna manndóminn sem borgarstjóri átta að hafa fyrir hann.

Sem er að standa á sannfæringu sinni. Hann er að sönnu fyrirliði hann Dagur. En eitthvað vantar enn uppá að hann sé leiðtogi.

Til þess skortir hann kjarkinn.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur