Föstudagur 15.02.2008 - 00:27 - 2 ummæli

Hvað veit ég um hagfræði?

Nú er ég ekki hagfræðimenntaður og ekki er ég heldur seðlabankastjóri. Rek ekki banka né aðrar fjármálastofnanir. Er bara venjulegur Jón sem reiðir sig á að góðir menn og vandaðir taki skynsamlegar ákvarðanir um sameiginlegan rekstur okkar þjóðfélags.

Ég er auðvitað fyrir löngu búinn að átta mig á sérfræðikunnátta er stórlega ofmetin. Lögfræði er ekki endilega lögfræði. Álit lögmannsins fer eftir því hver borgar honum launin. Sami lögmaður fer svo létt með að hafa öndverða skoðun á sama álitamáli fyrir einhvern þann sem borgar honum fyrir það líka.

Við höfum hér seðlabanka. Þar vinna menn og konur sem ég hélt að hefðu engra hagsmuna að gæta nema faglegra. Fólk sem engum er háð og getur því tekið ákvarðanir án þrýstings manna sem hafa ákveðinna hagsmuna að gæta. Hagfræðingar bankans vinna eftir löggjöf sem virðist fremur skýr. En þá kemur að því að hagfræði er ekki endilega hagfræði.

Núna er staðan sú að hagfræðingar bankans virðast algerlega á öndverðum meiði við flesta aðra samskonar fræðinga sem ekki vinna hjá bankanum. Bókstaflega ekki hægt að finna nokkurn mann sem ekki telur að hér þurfi að lækka stýrivexti. Helst í fyrra.

Í hverju liggur munrinn? Eru sérfæðingar seðlabanka svona tregir eða eru þeir kannski landráðamenn sem vilja keyra atvinnulíf og heimili á heljarþröm? Það er helst að skilja.

Getur verið að þeir gætu haft á réttu að standa? Er hugsanlegt að það sé bara öndvegis fyrir okkar þjóðfélag til lengri tíma litið að lækka ekki stýrivexti strax?

Eru bankarnir okkar kannski bara alltof hátt metnir? Annað hvort í hæstu hæðum eða frosnir. Áhættu fíknir með afbrigðum. Er víst að það þjóni langtíma hagsmunum okkar að halda áfram að keyra á þeim hraða sem hér hefur verið?

Við þolum alls ekki að hægja ferðina. Viljum bara halda áfram að taka okkar neyslulán og byggja of dýrt yfir höfuðið á okkur. Og kaupa svo dýrasta flatskjáinn í búðinni fyrir auka yfirdrátt.

Eins og ég sagði þá er ég ekki sérfræðingur. En ég hef tilhneigingu til þess að trúa frekar þeim sem engra hagsmuna hafa að gæta en hinna. Nú kreppir að hjá bönkunum. Heildsölupeningarnir eru orðnir dýrari og það er verra, eðlilega.

En var það ekki tilgangurinn? Hefðu bankarnir hugsanlega átt að bregðast fyrr við stýrivaxtahækkunum seðlabankans? Þeir eru soldið eins og þjóðin sjálf. Vita af því að nú fer skóinn að kreppa að, en þetta fer einhvern veginn.

Tökum bara á vandanum þegar hann er kominn blessaður.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Anonymous

    Sæll Röggi „ekki hagfræðingur“.Seðlabanki, bankastjórn og hagfræðingar hans eru að mínu mati bara að vinna sína vinnu í samræmi við lög og reglur, sem um hann gilda.Þeim ber að stefna að því, að verðbólgan sé ekki til langtíma umfram opinber viðmið, sem honum er falið að reyna að tryggja, þ.e. 2,5% á ári ef ég man rétt.Til að ná þessum markmiðum hefur Seðlabanki fyrst og fremst eitt tæki, þ.e. stýrivextina. Önnur raunveruleg eða raunhæf „tæki“ hefur bankinn nánast engin til að gæta þessa lögbundna verkefnis. Kannski þarf hann að fá frá stjórnvöldum fleiri og fjölbreyttari „tæki“ til þessa?Mér finnst að allir þeir, t.d. bankamenn, SA, ASÍ og aðrir eigi að hætta að henda „skít“ í Seðlabanka og ákvarðanir Seðlabankastarfsmanna í stýrivaxtamálum. Stýrivaxtaákvarðanir bankans eru væntanlega teknar á grundvelli þeirrar „bestu hagfræðilegu“ vitneskju, sem liggur fyrir að mati bankans á hverjum tíma.Betra væri að „gagnrýnendur“ stýrivaxtastefnu Seðlabanka snéru sér beint til þeirra sem ráða ákvörðun verðbólguviðmiðunar Seðlabanka og öðru í þessu samhengi, þ.e. beint til ríkisstjórnar.Vilji „ríkisstjórnarherrar“ á hverjum tíma, breyta t.d. verðbólguviðmiði Seðlabankans, eða kannski öðru sem til þarf í lögum um Seðlabanka, svo að Seðlabankinn verði „auðsveipnari, sveigjanlegri og hlýðnari“, þá sýna þeir að sjálfsögðu þann kjark að samþykkja nýja löggjöf um Seðlabankann þar að lútandi.Svo einfalt er nú það.KveðjaGuðm. R. Ingvason

  • Anonymous

    sæll Guðm. R. Ingvason (Hagfræðingur??)það er erfitt að vorkenna seðlabankanum fyrir það að hafa ekki fleiri tæki en stýrivextina…hvenær fór gagnrýni að kallast að henda „skít“? einsog þú orðar svo fallega… ef til vill er „skítkastið“ þitt tilkomið vegna þess ónógra skýringa frá því góða og mæta fólki sem vinnur mikla og þarfa vinnu hjá seðlabankanum (er á engan hátt að gera lítið úr því góða fólki sem þar starfar)ef seðlabankanum finnst að honum vegið, þá ætti hann ef til vill að gera betur grein fyrir sinni ákvarðanatöku og framtíðarsýn…einsog hefur komið fram þá eru ekki allir hagfræðingar og að sjálfsögðu ber að haga greinargerðum þannig að „ekki hagfræðingar“ getið skilið hvað er baki hverrar breytingar sem þessi mikla og góða stofnun leggur til…eða hvað???

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur