Fimmtudagur 21.02.2008 - 21:39 - Rita ummæli

Slæmu dagarnir hans Össurar.

Ég hef margsagt það að félagi Össur er einn skemmtilegasti penni landsins. Orðaforðinn frábær. Hann veit þetta auðvitað enda óvenju meðvitaður um sjálfan sig. Og aðra.

Skrif hans um Gísla Martein í gær gera ekkert fyrir orðspor hans. þar skrifar hann um pólitískan andstæðing með sérlega klaufalegum hroka í misheppnaðri tilraun til fyndni. Gísli Marteinn er ekki í öfundsverðri stöðu pólitískt þessa dagana, nánast andvana.

það er stundum sagt um þá sem stunda íþróttir að þeir sem njóti mestrar virðingar séu þeir sem kunna að sigra. Þetta er ekki hægt að kenna fólki. Annað hvort er þetta í lagi eða ekki. Félagi Össur ræðst hér ekki beinlínis á garðinn hæstann og af virðingu.

Sumir gamlir kreddukommar hafa ákveðið að halda að þetta mál snúist um hægri vinstri pólitík. Að þetta snúist um stundargleði yfir því að hafa komið höggi á andstæðing. Verið sniðugur á kostnað annarra. Það finnst mér barnalegt og skammtíma.

Sumum finnst skipta meginmáli að efnislega sé Össur að segja satt. Og þá er allt heimilt. Menn þurfa að vera staurblindir til þess að sjá ekki að fólk í samstarfi getur átt erfitt með að þola svona skrif. Þú einfaldlega vinnur helst ekki með mönnum sem umgangast félaga þína af slíku virðingarleysi, jafnvel þó þeir liggi vel við höggi og reyndar enn síður.

Ekkert af þessu skiptir þó meginmáli. Það sem snýr að félaga Össur er að langtímaáhrifin af svona löguðu verða honum til trafala. Hann verður aldrei alvöru. Ingibjörg Sólrún hefur fundið leiðina til virðingar. Þar er stilling og virðing og ró lykillinn. Yfirvegun en ekki galsaskapur.

Enginn frýr honum vits og allra manna skemmtilegastur getur hann verið. Póltískt gildi manna er bara ekki mælt af góðu dögunum.

Þar eru slæmu dagarnir allt. Dagurinn í gær var einn af þeim.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur