Ég er einn af þeim sem stunda verslun og viðskpti. Hef líklega fremur frumstæðar skoðanir á svoleiðis. Reyni eftir fremsta megni að fylgja þeim reglum sem um slíka starfsemi hafa verið settar. Og svo líka óskráðum reglum líka. Er að velta því fyrir mér hvaða reglur gilda um verslun með matvæli.
Hver fann upp hluti eins og hilluverð og kassaverð? Get ég komist upp með það hér á minni rakarastofu að hafa stólaverð og kassaverð? Hvernig getur verið löglegt að rukka fólk um annað en uppsett verð? Og hitt.
Af hverju er ekki bannað að breyta verðum innan hvers dags. Ég hélt í barnaskap mínum að ein af grundvallareglum í viðskiptum væri sú að fólk hefði upplýsingar um verðin sem um væri að ræða. Verðin breytast ótt og títt innan hvers dags. Verðið á kexinu sem ég setti í körfuna getur hæglega breyst á leiðinni að kassanum! Það þjónar ekki hagsmunum neytandans.
Verðlagseftirlit verslananna er merkilegt fyrirbrigði. Frá mínum bæjardyrum séð er það ekki síður nothæft til þess að hækka verð en lækka. Algerlega augljóst að það er notað í þá áttina ekki síður en hina.
Gerum skurk í því að koma verslun með matvæli hér í eðlilegt horf út frá sjónarmiðum neytenda. Bönnum verðbreytingar innan dags. Það hlýtur að vera skýlaus krafa okkar að við vitum á hvaða verðum við erum að versla.
Í dag höfum við ekki grænan grun. Það þjónar ekki neinum góðum hagsmunum. Og getur ekki samrýmst eðlilegum viðskiptaháttum. Það vitum við öll enda látum við ekki bjóða okkur upp á stólaverð og kassaverð.
Röggi.
Rita ummæli