Fimmtudagur 17.04.2008 - 23:48 - Rita ummæli

Kjörþokki.

Ég skil hvorki upp né niður í kjörþokka. Veit ekki til þess að hann sé einhversstaðar skilgreindur nákvæmlega. Örugglega mikið af fólki sem ætti erindi í pólitík en annað hvort getur ekki eða nennir ekki að reyna að koma sér upp kjörþokka.

Ég er ekki einn af þeim sem trúi því að leiksýningarnar sem settar eru upp í fjölmiðlum daglega skipti öllu þegar kemur að daglegum störfum stjórnmálamanna. Þing og sveitastjórnir eru án vafa skipuð fólki sem vinnur mikla vinnu en að mestu ósýnilega. Svo koma flassararnir og stela senunni fyrir framan myndavélarnar. Laun heimsins eru stundum vanþakklæti.

Þetta er ég að hugsa þegar ég hugsa um Kjartan Magnússon. Hann er í mínu liði en ég hef samt aldrei skilið í hverju hans kjörþokki liggur. Hann kemur vel út úr prófkjörum aftur og aftur svo ekki er með góðu hægt að halda því fram að hann beiti klíkuskap eða trixum.

Hann hefur einhvernveginn verið þarna allan tímann en samt ekki. Hefur tekist að sigla lygnan sjó án þess að styggja neinn innan dyra eða utan. Forðast átök og verið í bakgrunni. Þetta er allt gott og blessað þannig séð. Allverulega óspennandi en skynsamlegt.

Séerstaklega fyrir fólk sem hefur mikinn metnað til þess að gera pólitík að ævistarfi. Fyrir mér hefur hann alltaf verið atvinnumaður í faginu. Gæti varla stunið upp úr mér fyrir hvað hann stendur nákvæmlega. Örugglega þó almenn gildi og góð en reynir þó að sníða þau þannig að þau henti flestum og skipi honum ekki í neinar fylkingar. Það er óhollt til lengdar, segja þeir.

Þegar þetta tekst vel þá gerist það, eftir nógu margar kosningar, að viðkomandi hefur óhjákvæmilega færst ofar í goggunarröðina. Röðin er einfaldlega komin að honum. Þetta sjáum við oft í flokkunum öllum. Þá skiptir hæfi miklu minna máli en reynsla.

Núna hef ég á tilfinningunni að Kjartan sé kominn í stöðu sem hann hvorki kann né nýtur þess að vera í. Nú er hann kominn svo framarlega í röðinni að hann nýtur ekki skjóls lengur. Ábyrgð orða hans og skoðana hefur stóraukist. Grunar að lífið hafi verið honum betra þegar hann var bara „óbreyttur“ en ekki aðal eins og hann virðist vera í dag.

Guðfaðir nýja misheppnaða meirihlutans og nefndakóngur. Situr uppi með REI ruglið sem enginn skilur. Meira að segja strigakjafturinn Svandís þoldi ekki það mál, og hvað þá Kjartan sem virðist laus við karisma.

Við sjálfstæðismenn virðumst hafa gleymt okkur í endurnýjuninni. Leiðtogar okkar í borginni eru nákvæmlega sama merkinu brenndir. Þeir hafa beðið nógu lengi og lifað nógu oft af til þess að röðin kæmi að þeim.

Villi lifði af ótrúlega marga leiðtoga áður en hann kom til greina. Maður gékk undir manns hönd til þess að galdra utanaðkomandi að árum saman. Engum datt í hug að Villi væri maðurinn. Og líklega enn færri sem sáu leiðtoga í Kjartani.

En kannski hef ég fullkomlega rangt fyrir mér. Kannski er Kjartan akkúrat dæmið um manninn sem hafði það ekki í sér að trana sér fram en er samt afbragðs liðsmaður. Vonandi en á þessari stundu finnst mér fátt benda til þess.

Verst að ég fæ ekki að kjósa í Reykjavík. Ef fram fer sem horfir mun okkur ekki veita af öllu okkar næst þegar gengið verður til kosninga.

Okkur snarvantar fólk með kjörþokka. Og eitthvað á bak við hann líka.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur