Miðvikudagur 07.05.2008 - 08:49 - 5 ummæli

Meira fé til íþrótta.

Ég varð þess heiðurs njótandi að fara ásamt fríðum hópi á NM ungmenna í í körfubolta í svíþjóð um daginn. Fjórir dómarar og fjögur lið. Frábær ferð í alla staði og það verður seint logið upp á svía að þeir kunna að skipuleggja viðburði af þessu tagi.

Þeir sem vilja verðleggja árangur af svona ferðum eftir verðlaunapeningum hafa kannski orðið fyrir vonbrigðum en við sem þarna vorum vorum að rifna af stolti yfir okkar fólki. Mikill fjöldi foreldra horfi á íslensku liðin standa sig frábærlega.

Öll framganga íslenska hópsins til fyrirmyndar innan vallar sem utan. Og það er í þessu samhengi sem ég er að hugsa um það af hverju íþróttir eru hálfgert olnbogabarn þegar kemur að fjáveitingum ríkisins. Getur verið að það sé einhverjum hulið að íþróttir eru bráðhollar og þjóðhagslega hagkvæm fjárfesting?

Reyndar er það ekki nýtt að störf með manneskjur séu ekki talin sérlega mikilvæg sé tekið mið af launum. Heilbrigðis og ummönnunarstéttir allra landa kvarta sáran svo ekki sé minnst á fólkið sem tekur að sér uppeldi barna okkar að stórum hluta hvort heldur um er að ræða kennara eða leikskólafólk. Umsýsla með peninga fyrir framan tölvuskjái tekur þesu öllu fram.

Og vinna með börn og unglinga hjá íþróttafélögum. Litlu virðist skipta þó kannanir sýni að íþróttir eru líklegri en ekki til að forða unglingum frá óreglu eða að þeir sem leggja stund á íþróttir sýni betri námsárangur. Útgjöld ríkisins til málaflokksins eru hlægileg í raun.

Hef á tilfinningunni að sveitarfélögin séu að reyna að koma til móts við félögin í auknum mæli en betur má ef duga skal því eins og kröfurnar eru orðnar í dag þá rísa félögin varla lengur undir rekstri enda að stórum hluta byggð upp á vinnu sjálfboðaliða. Stundum held ég að þeir sem ekki þekkja vel til haldi að íþróttafélög séu stofnanir eins og háskólinn. Það sé lögmál að þau séu til staðar.

þannig er það ekki. Íþróttafélög eru ekki sterkari en þeir sem tilbúnir eru að fórna öllum sínum frítíma og meira til eru. Veit mætavel að í mörg horn er að líta hjá fjárveitingavaldinu þegar kemur að því að útdeila fé. Margir munnar að metta. Og ófá og oft misgáfuleg gæluverkefni flokksgæðinga úr öllum flokkum þurfa sitt.

Þá virðast málaflokar eins og íþróttir sitja hjá. Samt er það þannig að þau eru ekki mörg samtökin sem telja fleiri félagsmenn en samtök íþróttafólks. Hvernig stendur á því að ekki virðist hægt að setja nægan þrýsting á aukinn skilning fjárveitingavaldsins? Það fatta ég ekki.

En kannski er von. Þorgerður Katrín er bæði yfirmaður íþróttamála og á kafi sjálf í íþróttum. Ef einhver gæti og ætti að ná mælanlegum árangri þá er það hún. Mig rekur hreinlega ekki minni til þess að við höfum haft svona íþróttasinnaðan menntamálaráðherra áður.

Kannski væri ráð að bjóða Ingibjörgu og Geir á næsta NM að ári. það er nefnilega víðar unnið magnað starf en hjá bönkum sem bjóða í ferðir til tunglsins til að vera viðstaddur kokkteilstund með fyrirmennum. Á hvejum einasta degi eru að vinnast stórsigrar í starfi íþróttafélaga.

Getur verið að þetta fari framhjá fólkinu sem við höfum kosið til að stjórna landinu?

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Getur verið að kallinn sé að gefa afslátt af frjálshyggjunni þegar kemur að sínu eigin áhugamáli? 🙂

  • Hér nauðsynlegt að þú skilgreinir frjálshyggju fyrir mér og öðrum…

  • Skilgreiningin skiptir engu máli.Svo það sé skýrt hvað ég átti við: Ert þú vanur að ræða um „forgangsröðun“ á mikilvægum málum og í hvaða átt á að sprauta úr brunaslöngu almannafjár?

  • Skilgreiningin er höfuðatriðið sér í lagi ef menn ætla að nota orðið sem skammaryrði.Og já. Snýst ekki hluti þeirra pistla sem ég skrifa á einn eða annan hátt um akkúrat þetta?

  • Ekki misskilja. Frjálshyggjan er góð. Vildi bara hnýta í þig fyrir að gera undantekningu á megin reglunni/rauða þræðinum í blogginu (aðhald hjá hinu opinbera).

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og átta? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur