Fimmtudagur 15.05.2008 - 11:27 - Rita ummæli

Fúlt er að falla úr meirihluta.

Um hvað snúast stjórnmál eiginlega? Eitt og annað líklega en þau ættu að snúast um málefni. Fólk sem er á sömu blaðsíðunni tekur sig saman og fer í samstarf um góða hluti. Þetta er ekki flókið.

Svo koma inn í jöfnuna allskonar hlutir eins og persónulegur metnaður og græðgi af ýmsum toga sem fylgja dýrategundinni. það getur brenglað allt en er víst óhjákvæmilegur fylgifiskur.

Svo getur það gerst að samstarfið strandar. Stundum er það af persónulegum ástæðum og eða málefnalegum. Það hlýtur að vera óhjákvæmilegt á stundum.

Þó er mun algengara að fólk hangi saman á liðónýtu sambandi pólitískt og persónulega og oft algerlega án málefnalegs metnaðar. Þeir eru ylvolgir stólarnir og völdin sæt.

Nú hefur það gerst alloft frá síðustu sveitarstjórnarkosningum að meirihlutar hafa sprungið og nýjir myndast. Að jafnaði þykir þetta ekki stórfrétt gerist það í Trékyllisvík eða Hesteyri. Þá birtist lítil og stundum sæt mynd af brosmildum fulltrúum nýs meirihluta munda penna yfir nýjum málefnasamningi. Allt í góðu.

Hér á suðvestur horninu þykja svona hlutir vera mikil tíðindi. Stóryrði eins og svik og ólýðræðisleg vinnubrögð þá gjarnan hátt á lofti. Þá hafa þeir gjarnan orðið í fjölmiðlum sem setið hafa eftir. Sagan skrifuð af þeim.

Hver man ekki eftir því að núverandi borgarstjóri var í sömu setningunni sakaður um ólýðræðisleg og ómálefnaleg vinnubrögð og svo talað um að hann hafi fengið 70% af sínum málefnum fram í samningi nýs meirihluta!

Ég hef misskilið hlutina því ég hélt í einfeldni minni að menn hefðu fyrst og síðast skyldum að gegna gagnvart samvisku sinni og kjósendum sem merktu væntanlega við bókstafinn út á málefni að mestu. Hér á landi þykir engin dyggð meiri en að ríghalda í völdin óháð málefnum.

Á Akranesi sprakk meirihluti vegna máls sem þótti nógu stórt og mikið til að ekki yrði bakkað eða fundin lausn á. Ætla ekki að hafa neina skoðun á málefninu en íbúar á Akranesi hljóta að teljast ljónheppnir að uppúr slitnaði því svekktur fulltrúi þeirra sem tapar völdum upplýsir okkur um að fyrrum samstarfsaðilar séu fast að því illa innrættir og hæfileikalausir auk þess að vera ekki nógu sterkir á svellinu. Samstarf með þannig fólki getur varla verið mjög gott. Þetta finnast mér einkar málefnaleg ummæli sem minna mig á það hvernig fyrrum samstarfsaðilar hér í borginni fundu geðveiki í fari núverandi borgarstjóra um leið og hann færði sig um set.

Í mínum huga er þetta eðlilegt. Stjórnmálamenn eiga að geta látið það eftir sér ef ekki tekst að halda úti samstarfi sem byggist á málefnum að skipta um lið. Fyrir mig sem kjósanda er það flott. Því fleiri prinsippmenn því betra.

Nóg er af hinum eins og mörg nýleg dæmi eru til vitnis um…

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur